Print

Mál nr. 806/2016

Héraðssaksóknari (Kolbrún Benediktsdóttir varahéraðssaksóknari)
gegn
X (Stefán Karl Kristjánsson hrl.)
Lykilorð
  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
Reifun

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta áfram gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson, Benedikt Bogason og Karl Axelsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 5. desember 2016, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 6. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 2. desember 2016, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi uns dómur gengur í máli hans í Hæstarétti, en þó eigi lengur en til föstudagsins 23. desember 2016 klukkan 16. Kæruheimild er í b. lið 2. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.         

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 2. desember 2016.

Héraðssaksóknari hefur krafist þess að X , kt. [...], skuli sæta gæsluvarðhaldi áfram, þar til dómur Hæstaréttar í máli hans liggur fyrir, þó eigi lengur en til föstudagsins 23. desember nk. kl. 16.

Í greinargerð Héraðssaksóknara kemur fram að með ákæru ríkissaksóknara dagsettri 29. mars sl. hafi dómfellda, X, verið gefin að sök frelsissvipting, líkamsárás, hótanir, kynferðisbrot og stórfelldar ærumeiðingar gegn sambýliskonu sinni, með því að hafa föstudaginn 5. febrúar 2016, svipt þáverandi sambýliskonu sína, A, frelsi frá um klukkan 11 til 15, á heimili þeirra að [...] í [...]. Á meðan á frelsissviptingunni hafi staðið hafi dómfelldi veist A og sló hana ítrekað hnefahöggum í síðuna og höfuðið, rifið í hár hennar, tekið hana hálstaki og sparkaði ítrekað í síðu hennar og fætur þar sem hún hafi legið á gólfinu. Dómfelldi hafi jafnframt skipað A að setjast í stól og sparkað stólnum svo undan henni svo hún hafi fallið í gólfið. Á meðan á þessu hafi staðið hafi ákærði ítrekað hótað A lífláti og meinað henni útgöngu úr íbúðinni og er hún hafi reynt að flýja hafi dómfelldi stöðvað hana í forstofu, rifið í hár hennar og slegið hana hnefahöggum. Dómfelldi hafi svo látið A girða niður um sig og skoðað kynfæri hennar og rass með vasaljósi auk þess sem hann hafi tekið mynd af berum kynfærum hennar og áreitt hana þannig kynferðislega. Í kjölfar ofbeldis þess sem að framan sé lýst og á meðan á frelsissviptingunni hafi staðið hafi dómfelldi þvingað A til munn- og endaþarmsmaka og beitt hana þannig ofbeldi og ólög­mætri nauðung. Af öllu þessu hafi A hlotið mar á höfði, bæði á enni og í hársvörð, eymsli víða um líkamann og jaxl hafi brotnað í efri gómi vinstra megin auk þess sem dómfelldi hafi móðgað og smánað A með háttseminni. Í ákæru hafi hátt­semin verið talin varða við 1. mgr. 194. gr., 199. gr., 1. mgr. 218. gr., 1. mgr. 226. gr., 233. gr. og 233. gr. b. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

                Með dómi Héraðsdómi Reykjavíkur frá [...]. júní sl. dómi dómfelldi verið sak­felldur að hluta og dæmdur í fangelsi í 2 ár og 6 mánuði. Dóminum hafi verið áfrýjað af hálfu ákæruvaldsins og hafi það verið flutt í Hæstarétti 28. nóvember sl. og er nú beðið dóms Hæstaréttar

                Dómfelldi hafi sætt gæsluvarðhaldi vegna málsins frá 7. febrúar sl., fyrst á grund­velli rannsóknarhagsmuna, en frá 10. febrúar á grundvelli almannahagsmuna, sbr. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008, sbr. úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur sem síðar hafi verið staðfestur með dómi Hæstaréttar nr. 98/2016, með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar. Hafi Hæstiréttur komist þar að þeirri niðurstöðu að dómfelldi væri undir sterkum grun um framangreind brot og að þau væru þess eðlis að varðhald væri nauð­synlegt með tilliti til almannahagsmuna. Í dómi Hæstaréttar séu einnig rakinn efnis­atriði málsins með nánari hætti og atriði sem fram hafi komið við skýrslutökur af aðilum og vitnum málsins. Hæstiréttur hafi jafnframt staðfest framlengingu gæslu­varðhalds yfir dómfellda í málum nr. 184/2016, 244/2016 og 410/2016.

Brot þau sem dómfelldi hafi  nú verið sakfelldur fyrir geti varðað allt að 16 ára fangelsi. Með hliðsjón af alvarleika sakarefnis og þess að ríkir almannahagsmunir standi til þess að menn gangi ekki lausir þegar svo stendur á sé þess krafist að dóm­fellda verði gert að sæta gæsluvarðhaldi meðan, málið er til meðferðar fyrir Hæstarétti Íslands og þar til endanlegur dómur fellur í máli hans.

Með vísan til framangreinds, framlagðra gagna, 2. mgr. 95. gr., sbr. 3. mgr. 97. gr. laga 88/2008 er þess krafist að krafan nái fram að ganga.

Niðurstaða

Dómfelldi hlaut með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur, uppkveðnum [...]. júní sl., tveggja ára og sex mánaða fangelsisdóm fyrir nauðgun, frelsissviptingu, frekari ofbeldisbrot og stórfelldar ærumeiðingar. Dómfelldi hefur setið í gæsluvarðhaldi frá 7. febrúar sl. vegna þeirra brota sem hann hefur nú verið sakfelldur fyrir að hluta  Dóminum var áfrýjað af hálfu ákæruvaldsins og var það flutt í Hæstarétti 28. nóvember sl. og er nú beðið dóms Hæstaréttar

Með vísan til alvarleika brota þeirra sem dómfelldi hefur nú verið dæmdur fyrir krefjast almannahagsmunir þess að hann sæti áfram gæsluvarðhaldi. Verður honum með vísan til 2. mgr. 95. gr. laga, sbr. 3. mgr. 97. gr. nr. 88/2008 gert að sæta gæslu­varðhaldi meðan að mál hans er til meðferðar fyrir Hæstarétti uns dómur er þar upp kveðinn í samræmi við kröfu ríkissaksóknara, eins og nánar greinir í úr­skurð­ar­orði.

Sigrún Guðmundsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Dómfelldi, X, kt. [...], skal sæta gæslu­varð­haldi áfram, uns dómur gengur í máli hans  fyrir Hæstarétti Íslands, þó eigi lengur en til föstudagsins 23. desember nk. kl. 16.