- Kærumál
- Hald
|
Þriðjudaginn 10. janúar 2012. |
Nr. 661/2011. |
Lögreglustjórinn
á höfuðborgarsvæðinu (Jón H.B. Snorrason saksóknari) gegn X (Jón Einar Jakobsson hrl.) |
Kærumál. Hald.
Kærður var úrskurður
héraðsdóms þar sem kröfu X um afhendingu peninga, símkorta og farsíma, sem hald
hafði verið lagt á af lögreglu, var hafnað. Hæstiréttur, sem staðfesti úrskurð
héraðsdóms, taldi að skilyrði haldlagningar væru fyrir hendi í málinu, sbr. 1.
mgr. 68. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.
Dómur
Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Greta Baldursdóttir og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Varnaraðili skaut málinu
til Hæstaréttar með kæru 4. desember 2011, sem barst réttinum ásamt
kærumálsgögnum 8. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 2.
desember 2011, þar sem kröfu varnaraðila um afhendingu nánar tiltekinna muna,
sem hald hafði verið lagt á af lögreglu, var hafnað. Kæruheimild er í g. lið 1.
mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess að
haldi verði aflétt af þeim munum sem lögregla lagði hald á við og eftir
handtöku varnaraðila og enn er óskilað, það er peningar að fjárhæðum 17.600
evrur og 160.000 krónur, 14 A símkort og svonefndir „startpakkar“ og „útskrift
úr Apple Iphone farsíma.“
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Fyrir héraðsdóm voru lögð fram gögn er varða tölvupóst, sem fenginn var úr farsíma varnaraðila, er bera þess merki að hann kunni að tengjast umfangsmiklum brotum sem til rannsóknar eru hjá sóknaraðila og gerð er grein fyrir í hinum kærða úrskurði. Samkvæmt 1. mgr. 68. gr. laga nr. 88/2008 er meðal annars heimilt að leggja hald á muni ef ætla má að þeir hafi að geyma sönnunargildi í sakamáli, þeirra hafi verið aflað á refsiverðan hátt eða að þeir kunni að verða gerðir upptækir. Fallist verður á að þessum skilyrðum 1. mgr. 68. gr. sé fullnægt í málinu. Með þessari athugasemd en að að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 2. desember 2011.
Mál þetta, var tekið til
úrskurðar 28. nóvember sl., að loknum munnlegum málflutningi. Með kæru X, dagsettri 7. nóvember 2011, og
sem barst réttinum 10. nóvember 2011, krafðist X, þess að haldi yrði aflétt nú
þegar af þeim munum, sem lögregla lagði hald á við og á eftir handtöku hans og
er enn óskilað, þ.e. 17.600 evrum, 160.000 krónum, 14 A símkortum og
startpökkum (14) ásamt útskrift úr Apple Iphone
farsíma. Einnig að bann verði lagt við
því að lögregla rannsaki á nokkurn hátt framangreinda útskrift og að henni
verði sannanlega eytt nú þegar. Þá
krafðist hann þess að sakarkostnaður í þessum þætti málsins yrði lagður á
ríkissjóð, þar með talin hæfileg þóknun verjanda, að mati dómsins. Við munnlegan flutning málsins féll
sóknaraðili frá kröfu um að bann yrði lagt við því að lögregla rannsaki
framangreinda útskrift og að henni yrði með sannanlegum hætti eytt nú þegar.
Lögreglustjórinn á
höfuðborgarsvæðinu krafðist þess að kröfum X yrði hafnað.
I
Málsatvik eru þau að hinn 1.
nóvember 2011 barst lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu kæra frá A um meint
fjársvik. Kom þar fram, að 28. og 29.
október sl., hafi verið keypt umfangsmikið magn af óskráðum símnúmerum, þ.e. SIM-kort og frelsisinneignir af A á Íslandi og hafi verið
greitt fyrir þau með reiðufé.
Sunnudaginn 31. október sl., hafi hafist kerfisbundnar hringingar frá
íslenskum GSM-númerum stöddum á Spáni í þrjú 900 númer, þ.e. númer sem beri
svokallað yfirgjald. Fylgdi listi yfir
hringingarnar með kærunni, en þar kemur fram að um hafi verið að ræða hátt í 77
þúsund símtöl. Hafi það verið niðurstaða
samkvæmt könnun alþjóðlegs varnarkerfis að þessar kerfisbundnu hringingar hafi
verið ótvíræð tilraun til að svíkja fé út úr fjarskiptafyrirtækjum. Umræddir aðilar hafi keypt SIM-kort og frelsisnúmer fyrir verulegar fjárhæðir hér á
landi í gegnum fjölda söluaðila A hérlendis.
Þeir hafi kerfisbundið hringt í umrædd 900 númer og þannig myndað
ólögmætan hagnað fyrir eiganda 900 númeranna.
Um hafi verið að ræða m.a. hátt í 2000 símtöl í sama 900 númerið. Með þessu hafi þessir aðilar orðið sér út um
tugmilljón króna tekjur, þar sem sá kostnaður sem A innheimti fyrir hringt símtal
sé lægri en A þurfi að borga eiganda 900 númersins. Á sama tíma hafi verið hlaðið inneignum inn á
íslensku númerin, þ.e. hringt hafi verið í hágjaldanúmerin þar til inneign
tæmdist og síðan fyllt á að nýju. A tilkynnti
síðan að 2. nóvember 2011 hefði sama sagan endurtekið sig.
Fyrirtækið
A segi að í frelsiskerfi A séu ekki skilgreind verð í hágjaldanúmer og hafi
fyrirtækið talið að ekki væri unnt að hringja í slík númer með símkortum
fyrirtækisins þegar þau væru erlendis og oftast nær sé það ekki mögulegt. Þar sem ekki hafi verið skilgreind há verð á
þessi númer hafi rukkast fyrir þau eins og almennt innanlandssímtal á Spáni,
þ.e. 58 krónur hafi færst á kortið vegna hvers símtals, en hvert símtal kosti A
í raun 245 krónur.
Hinn
2. nóvember fékk lögregla upplýsingar um að X gengi á milli söluaðila A og
óskaði eftir að kaupa óskráð símnúmer í miklu magni og greiddi fyrir með
reiðufé. Lögreglan handtók í framhaldinu
X og framkvæmdi leit á honum. Fundust
m.a. 17.600 evrur og 260 þúsund krónur í reiðufé, auk 14 startpakka með A símanúmerum. Einnig lagði lögregla hald á seðlaveski hans
og Apple-Iphone síma.
Lögreglan fann og við leit í herbergi hans þrjá farsíma sem einnig var
lagt hald á.
Í
skýrslutöku af sóknaraðila sagðist hann hafa komið til Íslands í því skyni að
kaupa 20 A símkort og ætla að selja þau áfram til sjónvarps- og
útvarpsfyrirtækis á Spáni. Sóknaraðili
gat þó ekki gefið upp nafn þess fyrirtækis eða hvar það væri staðsett á
Spáni. Kvaðst hann fá umboðslaun fyrir
að selja kortin áfram.
Sóknaraðili
kveður, að undir rekstri málsins hafi lögregla upplýst að hann væri grunaður um
að hafa ætlað að nota sér „kerfisvillu“, sem að sögn lögreglu fælist í símkerfi
A og þannig misnota kortin í því skyni að afla sér ólögmæts ávinnings. Einnig hafi hann verið upplýstur um að annar
maður hefði haft fé af A á þann hátt, sem að framan greinir, og sóknaraðili sé
sakaður um að hafa framið eða haft í hyggju að fremja. Ekkert liggi fyrir um að sóknaraðili hafi átt
þátt í ætluðu broti þess manns, enda hafi slík hlutdeild ekki beinlínis verið
borin á hann við yfirheyrslu, sbr. m.a. 1. mgr. 28. gr. sakamálalaga.
Hinn
4. nóvember 2011 mætti sóknaraðili ásamt verjanda sínum á lögreglustöð í því
skyni að fá afhenta þá muni sem haldlagðir voru við handtöku. Var honum afhentur hluti af mununum en hald
var lagt á þá muni sem krafist er afléttingar halds á. Sóknaraðili fór af landi brott 5. nóvember
sl.
Lögregla
tók einnig afrit af gögnum í síma sóknaraðila, m.a. af tölvuskeytum sem hlaðið
hafði verið niður í símann. Samkvæmt
framlagðri skýrslu hafa gögn þessi leitt í ljós tengsl sóknaraðila við aðila
sem grunaður sé um að hafa keypt þær inneignir sem hlaðið hafi verið inn á
símanúmerin sem notuð voru við að hringja í 31. október sl.
II
Sóknaraðili byggir kröfu sína á
því að framangreind haldlagning hafi verið óþörf og ólögmæt aðgerð. Skilyrði laga nr. 88/2008, um meðferð
sakamála, hafi ekki verið fyrir hendi.
Sóknaraðili hafi hvorki orðið uppvís að fjársvikabroti né öðru broti og
við rannsókn hafi ekkert komið í ljós, sem bendi til að hann hygðist fremja
slíkt brot. Athafnir hans hafi verið
löglegar og ósaknæmar. Ekkert í gögnum
málsins renni stoðum undir ásökun A eða lögreglu. Við yfirheyrslu hafi hann sýnt fullan
samstarfsvilja og hafi skýrt greiðlega frá atvikum máls. Ásetningur hafi ekki verið sannaður eða hafi
kærandinn, A, eða aðrir orðið fyrir tjóni af hans völdum. Þvert á móti hafi A selt sóknaraðila
margnefnd 14 símkort og hafi væntanlega haft hagnað af. Sama eigi við um handtöku og leit lögreglu.
Athyglisvert sé að í tilkynningu
ætlaðs brotaþola sé því lýst yfir að fyrirtækið hafi ekki orðið fyrir tjóni og
sjálfvirk eftirlitskerfi þess séu nógu skilvirk til að koma í veg fyrir brot á
borð við það sem sóknaraðili sé sakaður um.
Kröfu um málskostnað byggir
sóknaraðili á 216. gr. laga nr. 88/2008.
III
Varnaraðili byggir kröfu sína á
því, að til rannsóknar sé svokallað „phone phreaking“, þ.e. er menn hagnýti sér veikleika í símkerfum
til að auðgast með ólögmætum hætti.
Aðferð við þess konar fjársvik sé m.a. að hringja í hágjaldanúmer og sé
talið að eigendur þessara númera standi að baki brotunum. Þessi tegund svika sé samkvæmt skýrslu Europol talin liður í skipulagðri brotastarfsemi og séu
einkum vel skipulagðir glæpahópar sem stundi slíka starfsemi. Lögregla í Lúxemborg rannsaki nú sambærilega
háttsemi.
Lögregla sé að rannsaka tilraun
til fjársvika, og varði brotið við 248. gr. eða 249. gr. almennra hegningarlaga
nr. 19/1940. Grunur sé um að sóknaraðili
hafi reynt að hagnýta sér kerfisbundið villu eða veikleika í símkerfinu með því
að setja upp stanslausar hringingar í hágjaldanúmer yfir helgi svo að síður
yrði vart við þessar hringingar. Grunur leiki á að umrædd svik séu liður í
umfangsmeiri svikastarfsemi sem teygi sig til fleiri Evrópulanda. Rannsóknin sé enn á frumstigi og sé m.a.
unnin í samvinnu við fulltrúa Íslands hjá Europol. Gögn sem fundist hafi í síma sóknaraðila
renni stoðum undir grun lögreglu. Þá
telji lögregla að þeir fjármunir sem fundist hafi á sóknaraðila kunni að vera
afrakstur refsiverðrar háttsemi og verði þannig mögulega gerðir upptækir í
refsimáli. Beri lögreglu að tryggja
sönnunargögn í málinu og fjármuni sem kunni að verða gerðir upptækir.
IV
Lögregla lagði hald á þá muni,
sem sóknaraðili krefst nú að fá afhenta, hinn 1. nóvember sl.
Samkvæmt 3. mgr. 69. gr. laga
nr. 88/2008 getur eigandi eða vörsluhafi munar, sem hald er lagt á, og ekki
vill hlíta þeirri ákvörðun, borið ágreiningsefnið undir dómara. Krafa um að aflétta haldi frestar því þó
ekki. Samkvæmt þessu ákvæði verður að
telja að leita megi úrskurðar dómstóla í máli, sem rekið er með stoð í 69. gr.
laga nr. 88/2008, á því hvort leggja hafi mátt hald á einstök gögn svo og hvort
farið hafi verið fram úr hófi við haldlagningu gagna. Verður því að líta svo á að með þessu sé
sóknaraðili í raun að leita úrslausnar dómstóla um hvort varnaraðila hafi verið
heimilt að leggja hald á gögn og muni, sem hann tók í vörslur sínar við
húsleitina og hvort honum beri eftir atvikum að skila þeim aftur til
sóknaraðila, að því leyti sem það hefur ekki þegar verið gert.
Eins og framan greinir rannsakar
lögregla nú þátt sóknaraðila í meintum fjársvikum, og grunur er um að sú
brotastarfsemi teygi sig til annarra landa.
Var því lögreglu rétt í samræmi við rannsóknir sínar á refsiverðri
háttsemi og í skjóli lagaheimildar í 69. gr. laga nr. 88/2008, að leggja hald á
þá muni sem hún telur að hafi sönnunargildi í sakamáli og ef grunur er um að
þeirra hafi verið aflað á refsiverðan hátt eða þeir kunni að verða gerðir
upptækir, sbr. 69. gr. laga nr. 88/2008.
Þar sem lagaheimild var fyrir aðgerðum varnaraðila voru þær því heimilar. Rannsókn málsins stendur enn yfir og telur
lögregla enn um sinn nauðsyn á að halda umræddum gögnum. Með vísan
til framanritaðs þykir ekki hafa verið sýnt fram á að lagaskilyrði séu fyrir
hendi til þess að verða við kröfum sóknaraðila.
Hervör
Þorvaldsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð :
Kröfu sóknaraðila, X, er hafnað.