- Persónuupplýsingar
- Sjúkraskrá
- Læknir
- Lögmaður
- Umboð
- Gjafsókn
|
Fimmtudaginn 6. desember 2007. |
Nr. 201/2007. |
Yngvi Ólafsson(Ragnar Halldór Hall hrl. Sveinn Guðmundsson hdl.) gegn Persónuvernd og (Einar Karl Hallvarðsson hrl. Ragnheiður M. Ólafsdóttir hdl.) Guðmundi Inga Kristinssyni(Steingrímur Þormóðsson hrl. Magnús Björn Brynjólfsson hdl.) |
Persónuupplýsingar. Sjúkraskrá. Læknar. Lögmenn. Umboð. Gjafsókn.
Þáverandi lögmaður G fór þess á leit við vátryggingarfélagið V að tekið yrði upp að nýju uppgjör skaðabóta til G vegna umferðarslyss sem hann varð fyrir árið 1999. Í tilefni þessarar beiðni um endurupptöku bótauppgjörs leitaði V til Y og óskaði álits hans. Lögmaður G undirritaði þá, með skírskotun til umboðs frá G þar sem hann veitti lögmanninum fulla heimild til að fá allar upplýsingar úr sjúkraskrám, yfirlýsingu á álitsbeiðnina til Y er veitti Y heimild til öflunar gagna vegna álits hans. G sætti sig ekki við niðurstöðu álitsgerðar Y og í framhaldinu beindi hann kvörtun til Persónuverndar meðal annars um það að Y hefði farið ólöglega inn í sjúkraskrá sína í tölvukerfi LSH. Persónuvernd úrskurðaði að áritun lögmanns G á álitsbeiðnina hefði ekki verið nægilega ótvíræð til að fullnægja kröfum um samþykki fyrir vinnslu viðkvæmra persónuupplýsinga samkvæmt lögum nr. 77/2000 um persónuvernd og hefði Y þannig verið óheimilt að fara í sjúkraskrá G við vinnslu álitsgerðarinnar. Í niðurstöðu Hæstaréttar segir að þar sem Y hefði verið fengið í hendur bæði fyrrgreint umboð frá G til lögmanns hans um fulla heimild lögmannsins til að fá allar upplýsingar úr sjúkraskrám G og jafnframt yfirlýsingu lögmanns G á álitsbeiðnina um að honum væri heimilt að afla gagna við gerð álitsgerðarinnar, hefði lögmanni G mátt vera ljóst að Y teldi sér heimilt að afla upplýsinga úr sjúkraskrám í þeim tilgangi að nota þau við álitsgerð sína. Þá mátti G einnig vera fyllilega ljóst að fyrrgreint umboð hefði verið gert í því skyni að sérfræðingi, sem fenginn yrði til álitsgerðar, yrði fært að afla þeirra læknisfræðilegu gagna, sem hann teldi nauðsynleg, enda hefði G lýst því yfir að lögmaður hans hefði ekki farið út fyrir umboð sitt. Þegar allt var virt þótti Y ekki hafa brotið gegn ákvæðum laga nr. 77/2000. Var því felldur úr gildi úrskurður Persónuverndar um að Y hefði verið óheimilt að fara í sjúkraskrá G.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Garðar Gíslason, Ingibjörg Benediktsdóttir og Markús Sigurbjörnsson og Haraldur Henrysson fyrrverandi hæstaréttardómari.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 16. apríl 2007. Hann krefst þess að felldur verði úr gildi úrskurður Persónuverndar 27. febrúar 2006 í máli nr. 2005/479. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndu krefjast staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti, stefndi Guðmundur Ingi Kristinsson án tillits til gjafsóknar sem honum hefur verið veitt.
I.
Eins og fram kemur í héraðsdómi fór þáverandi lögmaður stefnda Guðmundar þess á leit við Vátryggingafélag Íslands hf. 16. ágúst 2004 að tekið yrði upp að nýju uppgjör skaðabóta til stefnda 2. maí 2001 vegna umferðarslyss sem hann hafði orðið fyrir 8. desember 1999. Þess var getið í bréfinu að afleiðingar slyssins hafi verið metnar 20. mars 2001 þannig að stefndi hafi hlotið 5% varanlegan miska en enga varanlega örorku. Hafi matsmenn talið að slysið hefði fyrst og fremst ýft upp fyrri einkenni, sem stefndi hlaut í umferðarslysi árið 1993, en í kjölfar þess hafi hann gengist undir tvær spengingaraðgerðir á hrygg í apríl 1995 og okóber 1997. Í aðgerð sem stefndi gekkst undir í nóvember 2003 hafi svo komið í ljós að festingarskrúfur hafi losnað og læknir talið allar líkur benda til þess að skrúfurnar hafi losnað við umferðaslysið 1999. Með bréfi þessu fylgdi meðal annars umboð til lögmannsins frá stefnda 1. júlí 2004 auk þriggja læknisvottorða. Í umboðinu sagði meðal annars að stefndi veiti lögmanninum „fullt og óskorað umboð mitt til að semja um og taka við greiðslum vegna þess tjóns er ég varð fyrir í umferðarslysi í desember 1999. Jafnframt veiti ég umboðsmanni mínum fulla heimild til að fá allar upplýsingar úr sjúkraskrám mínum um afleiðingar slyss míns og úr sjúkraskrám mínum þau gögn sem lögmaður minn metur eða telur nauðsynleg og skal þá ekkert undanskilið ... Allt sem umboðsmaður minn gerir í mínu nafni skv. umboði þessu skal jafngilt og hefði ég sjálfur gert það.“
Í tilefni þessarar beiðni um endurupptöku bótauppgjörs leitaði Vátryggingafélag Íslands hf. með bréfi 2. maí 2005 til áfrýjanda, sem er sérfræðingur í bæklunarskurðlækningum, og óskaði álits „um tiltekið afmarkað álitaefni sem lýtur að ætluðu losi á festingarjárnum í mjóbaki (spenging 1997) hjá Guðmundi Inga í kjölfar umferðarslyss sem hann varð fyrir á árinu 1999, þ.e. a) hvort rekja megi með fullri vissu los þetta til slyssins b) til rýrnunar beins í kringum járnin/skrúfur af öðrum orsökum c) til annarra ástæðna og þá hverra?“ Lögmaður stefnda Guðmundar undirritaði með skírskotun til umboðs svofellda yfirlýsingu á bréfinu: „Heimild til Yngva Ólafssonar læknis til öflunar gagna vegna greinargerðar þessarar.“ Samkvæmt bréfinu fylgdu því beiðni lögmannsins til tryggingafélagsins 16. ágúst 2004, sjö vottorð lækna og sjúkraþjálfara, lögregluskýrsla, greinargerð stefnda frá 3. nóvember 2000 og tvær matsgerðir um örorku hans. Áfrýjandi var á þessum tíma í 80% starfi við Landspítalaháskólasjúkrahúss, en starfaði að auki sjálfstætt sem sérfræðingur og var álitsbeiðnin send á læknastofu hans. Hann lauk álitsgerð sinni 14. júní 2005, þar sem meðal annars var komist að þeirri niðurstöðu að los festingarskrúfanna yrði ekki rakið til umferðarslyssins 8. desember 1999. Meðal gagna sem áfrýjandi studdi álitsgerðina við voru röntgenmyndir úr sjúkraskrám stefnda.
Stefndi Guðmundur beindi kvörtun vegna þessarar álitsgerðar áfrýjanda til yfirstjórnar Landspítalaháskólasjúkrahúss og er þeirri kvörtun og bréfaskiptum milli stefnda og aðstoðarlækningaforstjóra spítalans nánar gerð skil í héraðsdómi. Jafnframt lagði stefndi Guðmundur fram kvörtun til stefnda Persónuverndar 8. september 2005 meðal annars fyrir það að áfrýjandi hefði farið ólöglega inn í sjúkraskrá sína í tölvukerfi spítalans í þeim tilgangi að endurskoða verk nafngreinds læknis í þágu vátryggingafélagsins. Stefndi Persónuvernd óskaði efir afstöðu áfrýjanda til kvörtunarinnar 25. október 2005. Með bréfi 7. nóvember sama ár staðfesti áfrýjandi að hann hefði aflað áðurnefndra röntgenmynda og opnað sjúkraskrá stefnda Guðmundar 30. maí 2005. Það hafi hann gert í öryggisskyni til að staðreyna að „tilteknir atburðir og slys“, sem álitsgerðin hafi byggst á hefðu átt sér stað. Vísaði áfrýjandi jafnframt til þess að fyrrgreint umboð stefnda Guðmundar til lögmanns síns hefði fylgt beiðni vátryggingafélagsins.
Eins og greinir í héraðsdómi mótmælti stefndi Guðmundur því í bréfi til stefnda Persónuverndar 3. desember 2005 að hann hafi með umræddu umboði veitt öðrum en lögmanni sínum heimild til aðgangs að sjúkraskrá sinni. Í bréfi lögmannsins til stefnda Persónuverndar 19. sama mánaðar kvað hann heimildina, sem skráð var á álitsbeiðnina til áfrýjanda 2. maí 2005, í raun ekki hafa verið „hugsuð lengra en til þeirra gagna sem aðilar sjálfir höfðu aflað og höfðu þá undir höndum sbr. upptalningu á beiðni til YÓ ... Enginn fyrirvari var h.v. um þetta gerður af minni hálfu við undirritun á beiðni VÍS og ekki tekið sérstaklega fram að einhverjar takmarkanir væru á heimild þeirri sem ég veitti YÓ til öflunar frekari gagna í krafti umboðsins.“ Stefndi Persónuvernd tilkynnti síðan stefnda Guðmundi 25. janúar 2006 að með vísan til þessa bréfs lögmannsins væru ekki að svo stöddu forsendur til að fjalla frekar um lögmæti skoðunar áfrýjanda á sjúkraskránni og beindi því jafnframt til hans að leita til Lögmannafélags Íslands um það álitamál hvort lögmaður hans hefði farið út fyrir umboð sitt þegar hann áritaði heimildina á álitsbeiðnina til áfrýjanda. Stefndi Guðmundur áréttaði kvörtun sína í bréfi til stefnda Persónuverndar 14. febrúar 2006, þar sem hann lýsti því jafnframt yfir að hann teldi ekki að lögmaðurinn hefði farið út fyrir umboð sitt, en vísaði í því efni að öðru leyti til þess að hann hefði treyst því að þriðja manni yrði ekki veittur aðgangur að sjúkraskrá sinni.
Stefndi Persónuvernd kvað upp úrskurð vegna þessarar kvörtunar 27. febrúar 2006. Þar var talið að áritun lögmanns stefnda Guðmundar á álitsbeiðnina hafi ekki verið nægilega ótvíræð til að fullnægja kröfum um samþykki fyrir vinnslu viðkvæmra persónuupplýsinga samkvæmt lögum nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, en í því sambandi var tekið fram að stefndi hefði lýst yfir að hann teldi lögmanninn „ekki hafa farið út fyrir umboð sitt með því að árita beiðni VÍS um álitsgerð“ og yrði því ekki tekin afstaða til þess hvort hann „hafi verið bær til þess að veita slíkt samþykki.“ Vísað var til þess að áfrýjandi hafi farið í sjúkraskrá stefnda Guðmundar sem sjálfstætt starfandi sérfræðingur og því verið „utanaðkomandi aðili“, enda hafi hann ekki gert þetta sem starfsmaður Landspítala-háskólasjúkrahúss. Hefði áfrýjandi því þurft heimild lækningaforstjóra, sem væri ábyrgðarmaður að sjúkraskrám spítalans, til að gera þetta. Af þessum ástæðum komst stefndi Persónuvernd að þeirri niðurstöðu að áfrýjanda hafi verið óheimilt að fara í sjúkraskrá stefnda Guðmundar 30. maí 2005. Áfrýjandi höfðaði mál þetta með stefnu 7. apríl 2006 til ógildingar á þessum úrskurði.
II.
Samkvæmt 1. tölulið 1. mgr. 8. gr. laga nr. 77/2000 er vinnsla persónuupplýsinga heimil hafi hinn skráði samþykkt hana ótvírætt eða veitt samþykki samkvæmt 7. tölulið 2. gr. laganna. Þá er í 1. tölulið 1. mgr. 9. gr. laganna kveðið á um að vinnsla viðkvæmra persónuupplýsinga sé heimil meðal annars ef hinn skráði samþykkir hana. Óumdeilt er í málinu að sjúkraskrár geyma viðkvæmar persónuupplýsingar, sem þetta ákvæði tekur til, svo og að háttsemi áfrýjanda 30. maí 2005 hafi falið í sér vinnslu slíkra upplýsinga í sjúkraskrá stefnda Guðmundar, sbr. c. lið 8. töluliðar og 2. tölulið 2. gr. laga nr. 77/2000.
Í áðurnefndum 7. tölulið 2. gr. laga nr. 77/2000 er samþykki samkvæmt þeim skýrt á þann veg að það sé sérstök, ótvíræð yfirlýsing sem einstaklingur gefur af fúsum og frjálsum vilja um að hann sé samþykkur vinnslu tiltekinna upplýsinga um sig og honum sé kunnugt um tilgang hennar, hvernig hún fari fram, hvernig persónuvernd verði tryggð og um að honum sé heimilt að afturkalla samþykki sitt. Stefndi Guðmundur afhenti þáverandi lögmanni sínum áðurgreint umboð í aðdraganda þess að lögmaðurinn bað að ósk hans um endurupptöku bótauppgjörs vegna slyssins 1999. Í umboðinu var meðal annars skýrt kveðið á um heimild lögmannsins til að fá allar nauðsynlegar upplýsingar úr sjúkraskrá um afleiðingar slyssins, en allt, sem lögmaðurinn gerði samkvæmt umboðinu, skyldi jafngilt því að stefndi Guðmundur hefði sjálfur gert það. Þetta umboð fékk áfrýjandi í hendur þegar hann vann að álitsgerðinni, en einnig undirritaði lögmaður stefnda Guðmundar sérstaka yfirlýsingu á beiðni til áfrýjanda um álitsgerðina um heimild hans til að afla gagna við gerð hennar. Sú skýring lögmannsins að þessi heimild til áfrýjanda hafi verið bundin við þau gögn sem fylgdu álitsbeiðninni fær ekki staðist, enda tók hann sem fyrr segir fram í bréfi 19. desember 2005 til stefnda Persónuverndar að hann hafi ekki takmarkað heimild áfrýjanda til gagnaöflunar, sem hann hafi veitt „í krafti umboðsins.“ Í ljósi þeirra atriða, sem leitað var álits á hjá áfrýjanda og talin voru upp í þremur stafliðum í beiðninni til hans, hlaut lögmaðurinn einnig að gera sér grein fyrir að áfrýjandi þyrfti og teldi sér heimilt að afla upplýsinga úr sjúkraskrá í þeim tilgangi að nota þau við álitsgerð sína. Í símbréfi lögmannsins til vátryggingafélagsins 5. maí 2005, þremur dögum eftir að álitsbeiðnin var sett fram, óskaði hann eftir því að beint yrði til áfrýjanda að flýta málinu eins og kostur væri, auk þess að vekja athygli á að „allar myndir gætu verið fyrir norðan hjá Bjarka Karlssyni lækni á FSA.“ Síðastgreind ábending lögmannsins gaf áfrýjanda enn ríkari ástæðu til að treysta því í ljósi umboðsins sem hann hafði undir höndum og álitsbeiðninnar að hann hefði fulla heimild til að afla þeirra gagna, sem hann taldi nauðsynlegt að byggja álit sitt á, meðal annars með því að kanna sjúkraskrá í öryggisskyni, þó ekki lægi fyrir milliliðalaust samþykki frá stefnda Guðmundi til áfrýjanda í skilningi 7. töluliðar 2. gr. laga nr. 77/2000. Þá hlaut stefnda Guðmundi að vera fyllilega ljóst að umboðið var fengið í því skyni að sérfræðingi, sem fenginn yrði til álitsgerðar, yrði fært að afla þeirra læknisfræðilegu gagna, sem hann teldi nauðsynleg, enda lýsti stefndi Guðmundur því yfir við meðferð málsins fyrir stefnda Persónuvernd að lögmaðurinn hafi ekki farið út fyrir umboð sitt. Þegar framangreint er virt verður ekki talið að áfrýjandi hafi brotið gegn áðurnefndum ákvæðum laga nr. 77/2000 með því að leita upplýsinga í sjúkraskrá stefnda Guðmundar og getur það ekki breytt þeirri niðurstöðu að áfrýjandi hafi ekki leitað viðhlítandi heimildar innan Landspítala-háskólasjúkrahúss til að fara í sjúkraskrána umrætt sinn. Samkvæmt þessu verður tekin til greina krafa áfrýjanda um að felldur verði úr gildi úrskurður stefnda Persónuverndar frá 27. febrúar 2006 í máli nr. 2005/479.
Ákvæði hins áfrýjaða dóms um málskostnað og gjafsóknarkostnað verða staðfest. Rétt er að málskostnaður fyrir Hæstarétti falli niður, en um gjafsóknarkostnað stefnda Guðmundar hér fyrir dómi fer samkvæmt því sem í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Felldur er úr gildi úrskurður stefnda Persónuverndar í máli nr. 2005/479 um að áfrýjanda Yngva Ólafssyni, hafi verið óheimilt að fara 30. maí 2005 í sjúkraskrá stefnda Guðmundar Inga Kristinssonar.
Ákvæði hins áfrýjaða dóms um málskostnað og gjafsóknarkostnað skulu vera óröskuð.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.
Allur gjafsóknarkostnaður stefnda Guðmundar fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, 350.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 21. desember 2006.
Mál þetta, sem dómtekið var 23. nóvember sl. að loknum munnlegum málflutningi, var höfðað með stefnu birtri 7. apríl sl. af Yngva Ólafssyni, Tómasarhaga 42, Reykjavík, á hendur Persónuvernd, Rauðarárstíg 10, Reykjavík, og Guðmundi Inga Kristinssyni, Sléttuhrauni 28, Hafnarfirði.
Stefnandi krefst þess að úrskurður stjórnar Persónuverndar í máli nr. 2005/479, dagsettur 27. febrúar 2006, verði felldur úr gildi. Þá er krafist málskostnaðar úr hendi stefndu in solidum og að við málskostnaðarákvörðun verði gætt að skyldu stefnanda til að greiða virðisaukaskatt af þóknun lögmanns síns.
Af hálfu stefnda Persónuverndar er krafist sýknu af öllum kröfum stefnanda og að stefnanda verði gert að greiða stefnda málskostnað að mati dómsins.
Stefndi Guðmundur krefst sýknu af kröfum stefnanda og málskostnaðar að skaðlausu eins og málið væri ekki gjafsóknarmál en honum var veitt gjafsókn 25. ágúst sl.
Yfirlit um málsatvik og ágreiningsefni
Stefnandi er sérfræðingur í bæklunarskurðlækningum og starfar á bæklunarskurðdeild Landspítalaháskólasjúkrahúss í 80% starfi. Hann rekur einnig læknastofu ásamt fleirum í Orkuhúsinu að Suðurlandsbraut 34.
Lögmaður stefnda Guðmundar óskaði eftir því við Vátryggingafélag Íslands hf. 16. ágúst 2004 að skaðabótamáli stefnda, sem lauk með uppgjöri 2. maí 2001, vegna umferðarslyss 8. desember 1999, yrði endurupptekið og afleiðingar slyssins metnar að nýju. Á árinu 2003 hefði komið í ljós að afleiðingar slyssins væru aðrar og meiri en þær sem metnar hefðu verið í matsgerð sem lá til grundvallar uppgjörinu.
Með bréfi 2. maí 2005 óskaði Vátryggingafélagið eftir áliti stefnanda á því hvort rekja mætti ákveðin vandamál, sem komið hefðu upp, til slyssins sem stefndi Guðmundur varð fyrir 8. desember 1999. Álitsgerð stefnanda er dagsett 14. júní 2005.
Stefndi Guðmundur kvartaði til Persónuverndar 8. september s.á. vegna ætlaðra brota á lögum um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, en kvörtunarefnið laut meðal annars að því að stefnandi hefði farið með ólögmætum hætti í sjúkraskrá stefnda á Landspítalanum. Í úrskurði Persónuverndar 27. febrúar 2006 er vísað til þess að uppfletting í sjúkraskrá teljist til vinnslu persónuupplýsinga í skilningi framangreindra laga, en fram hafði komið að stefnandi opnaði sjúkraskrá stefnda Guðmundar 30. maí 2005. Var ágreiningsmál um uppflettingu í sjúkraskránni því talið heyra undir Persónuvernd samkvæmt 37. gr. laganna. Úrskurðurinn var á þá leið að stefnanda hefði verið óheimilt að fara í sjúkraskrána.
Stefnandi telur að honum hafi verið heimilt að fara í sjúkraskrána, en úrskurðurinn sé byggður á rangri lagatúlkun og hafi stjórn Persónuverndar því komist að rangri niðurstöðu. Stefnandi hafi haft aðgang að sjúkraskránni sem læknir á Landspítalanum og hann hafi haft heimildir til að fara í hana. Hann vísar í því sambandi meðal annars til þess að stefndi Guðmundur hefði veitt lögmanni sínum umboð, en lögmaðurinn hefði samþykkt að stefnandi færi í sjúkraskrána vegna vinnu sinnar við álitsgerðina. Stefnandi hefur því höfðað málið í því skyni að fá úrskurðinum hnekkt.
Stefndu mótmæla því að stefnanda hafi verið heimilt að fara í sjúkraskrá stefnda Guðmundar og telja engin lagaskilyrði fyrir því að ógilda úrskurðinn.
Málsástæður og lagarök stefnanda
Af hálfu stefnanda er vísað til þess að stefndi Guðmundur hafi óskað eftir því að skaðabótamál hans, sem gert var upp 2. maí 2001 hjá Vátryggingafélagi Íslands, yrði endurupptekið. Á árinu 2003 hefði komið í ljós alvarlegri og meiri afleiðingar en þær sem hefðu verið metnar í matsgerð. Þessar áður ófyrirséðu afleiðingar hafi stefndi talið vera los á skrúfum í spjaldhrygg hans, sem festar hefðu verið í spengingaraðgerðum, sem hann hefði gengist undir. Bréfi lögmannsins hafi fylgt þrjú læknisvottorð Halldórs Jónssonar, umboð lögmannsins og bréf JE. Viðbrögð Vátryggingafélagsins hafi verið þau að óska eftir því með bréfi 2. maí 2005 að stefnandi léti í té álitsgerð um tiltekin afmörkuð álitaefni varðandi ætlað los á festingarjárnunum. Stefnandi hafi verið spurður hvort rekja mætti með fullri vissu los þetta til slyssins eða til rýrnunar beins í kringum járnin/skrúfur af öðrum orsökum eða til annarra ástæðna og þá hverra.
Bréfi Vátryggingafélagsins til stefnanda hafi fylgt mun fleiri læknisfræðileg og persónuleg gögn heldur en þau sem fylgdu bréfi lögmannsins til félagsins. Á bréfinu 2. maí 2005 hafi verið árituð svofelld heimild lögmanns stefnda Guðmundar: „Heimild til Yngva Ólafssonar læknis til öflunar gagna vegna greinargerðar þessarar.“ Bréfinu hafi fylgt lögmannsumboð 1. júlí 2005, en þar segi:
„Ég undirritaður, Guðmundur Ingi Kristinsson, kt. ...., veiti hér með Jóhannesi Albert Sævarssyni, hrl., Vegmúla 2, Reykjavík, fullt og óskorað umboð mitt til að semja um og taka við greiðslum vegna þess tjóns er ég varð fyrir í umferðarslysi í desember 1999.
Jafnframt veiti ég umboðsmanni mínum fulla heimild til að fá allar upplýsingar úr sjúkraskrám mínum um afleiðingar slyss míns og úr sjúkraskrám mínum þau gögn sem lögmaður minn metur eða telur nauðsynlegt og skal þá ekkert undanskilið. Einnig nær umboð þetta til þess að afla tekjuupplýsinga frá skattstjórum.
Allt sem umboðsmaður minn gerir í mínu nafni skv. umboði þessu skal jafngilt og hefði ég sjálfur gert það.“
Stefnandi hafi skilað hinni umbeðnu álitsgerð 14. júní 2005. Við gerð hennar hafi stefnandi stuðst við gögnin sem fylgt hafi beiðninni. Auk þeirra hafi stefnandi fengið röntgenmyndir af lendhrygg stefnda Guðmundar, sem teknar hafi verið í nokkur skipti á tímabilinu 31. október 1997 til 4. nóvember 2003, eins og greini í álitsgerðinni.
Stefndi Guðmundur hafi verið afar ósáttur við niðurstöður í álitsgerð stefnanda og hafi hann haldið því fram, allt frá því að álitsgerðin var látin í té, að stefnandi hefði unnið hana sem trúnaðarlæknir Vátryggingafélagsins. Hið rétta sé að samkomulag hafi verið milli félagsins og stefnda Guðmundar um að fela stefnanda verkefnið. Beiðnin hafi komið frá Vátryggingafélaginu, sem hafi verið í samræmi við það sem almennt tíðkist í málum sem þessum, og allt hafi verið gert í því skyni að afgreiða erindi stefnda Guðmundar. Með þessu móti hafi félagið borið ábyrgð á öllum kostnaði við verkið, burtséð frá niðurstöðunni. Í símbréfi lögmanns stefnda Guðmundar til Vátryggingafélagsins 5. maí 2005 segi: „Kýs að því verði beint til YÓ að flýta málinu svo sem kostur er. Allar myndir gætu verið fyrir norðan hjá Bjarka Karlssyni lækni á FSA“.
Með bréfi til yfirstjórnar Landspítalans 18. júlí 2005 hafi stefndi Guðmundur kært stefnanda vegna álitsgerðarinnar. Stefnandi hafi svarað kæruefnunum með bréfi til aðstoðarlækningaforstjóra spítalans 14. ágúst s.á. Við þessi bréfaskipti hafi komið í ljós að í álitsgerðinni væri staðreyndarvilla sem stefnandi hafi leiðrétt með bréfi til Vátryggingafélagsins 11. október s.á. Villan hafi á engan hátt verið til þess fallin að hafa áhrif á niðurstöðurnar í álitsgerðinni. Aðstoðarlækningaforstjórinn hafi svarað kæru stefnda Guðmundar með bréfi 23. ágúst s.á. þannig að málið teldist sjúkrahúsinu óviðkomandi og gæfi ekki tilefni til frekari aðgerða af hálfu yfirstjórnar þar.
Stefndi Guðmundur hafi einnig lagt fram kvörtun til Persónuverndar 8. september 2005 og sé kvörtunarefnunum lýst þannig að stefnandi, yfirlæknir bæklunardeildar Landspítalans og trúnaðarlæknir Vátryggingafélags Íslands, hafi farið ólöglega inn í tölvukerfi spítalans fyrir félagið í aðgerðalýsingu (sjúkraskrá stefnda) fyrrum yfirmanns síns, Halldórs Jónssonar fyrrum yfirlæknis bæklunardeildarinnar og núverandi prófessors. Tilgangur læknisins hafi verið að finna að og endurskoða verk Halldórs fyrir Vátryggingafélagið. Þá hafi læknirinn falsað lögregluskýrslu í álitinu og gert stefnda Guðmund að tjónvaldi með því að setja hann í ranga bifreið, það er í bifreiðina sem ekið hafi verið úr kyrrstöðu og beint framan á bifreið stefnda sem ekið hafi verið á um 50 km hraða. Læknirinn hafi síðan reynt að breiða yfir fölsun sína með fleiri fölsunum í bréfi til Niels Chr. Nielsen aðstoðarlækningaforstjóra og síðan hafi forstjórinn einnig falsað með honum í bréfi til stefnda.
Persónuvernd hafi óskað eftir afstöðu stefnanda til kvörtunarinnar með bréfi 25. október 2005. Stefnandi hafi svarað með bréfi 7. nóvember s.á. og staðfest að hann hefði aflað röntgenmynda og opnað sjúkraskrá stefnda Guðmundar 30. maí s.á. Þar hafi verið um að ræða einfalda öryggisráðstöfun við gerð álitsgerðarinnar, en upplýsingar úr sjúkraskránni hafi ekki verið notaðar, þó stefnandi hafi talið sig hafa til þess fulla heimild.
Í framhaldi hafi átt sér stað bréfaskipti milli stefndu en eftir að stefnandi gaf sínar skýringar með bréfinu 7. nóvember 2005 hafi lögfræðingur Persónuverndar litið svo á að mál þetta væri á milli stefnda Guðmundar og lögmanns hans, þ.e. hvort lögmaðurinn hafi farið út fyrir umboð sitt með því að heimila stefnanda að afla gagna sjálfstætt. Stefndi Guðmudur og lögmaðurinn hafi ekki verið sömu skoðunar og með bréfi til stefnanda 15. febrúar 2006 hafi Persónuvernd kynnt stefnanda afstöðu lögmannsins í bréfi hans 19. desember 2005 en þar segi orðrétt:
Í undirritun minni á beiðni Vátryggingafélags Íslands hf. dags. 2. maí 2005, þar sem VÍS óskar álits frá Yngva Ólafssyni lækni um læknisfrðilegt álitaefni, fólst heimild til handa Yngva um að hann kynnti sér þau gögn sem þegar lágu fyrir í málinu, en þar sem Yngvi Ólafsson var ekki læknir kvartanda þá varð að veita honum sérstaka heimild fyrir aðgangi að þeim gögnum sem VÍS hafði undir höndum og voru send með beiðninni.
Hvort ég hafi í krafti umboðs kvartanda dags. 1. júlí 2004 veitt Yngva Ólafssyni heimild til að fara í sjúkraskrá kvartanda, þá skal upplýst að heimildin var í raun ekki hugsuð lengra en til þeirra gagna sem aðilar sjálfir höfðu aflað og höfðu þá undir höndum sbr. upptalningu á beiðni til YÓ dags. 02.05.2005.
Enginn fyrirvari var h.v. um þetta gerður af minni hálfu við undirritun á beiðni VÍS og ekki tekið sérstaklega fram að einhverjar takmarkanir vru á heimild þeirri sem ég veitti YÓ til öflunar frekari gagna í krafti umboðsins.
Stjórn Persónuverndar hafi kveðið upp úrskurð í málinu 27. febrúar 2006. Samkvæmt úrskurðarorði hafi stefnanda verið „óheimilt að fara í sjúkraskrá Guðmundar Inga Kristinssonar hinn 30. maí 2005“. Fjallað hafi verið um úrskurðinn í fjölmiðlum og hafi stefndi Guðmundur gagnrýnt stefnanda opinberlega mjög harkalega. Í svokallaðri „frétt“, sem birst hafi í DV 17. febrúar 2006, hafi stefndi sakað stefnanda um að hafa verið trúnaðarlæknir VÍS, að álit hans hafi verið „falsað“, að hafa „logið“ að yfirstjórn Landspítalans og um að hafa „stolist“ í sjúkragögn um sig. Einnig hafi verið gerð grein fyrir úrskurði Persónuverndar í málinu í fréttatíma RÚV.
Í úrskurði Persónuverndar hafi aðeins að mjög litlu leyti verið fallist á staðhæfingar stefnda Guðmundar. Hins vegar sé ljóst að ásökunum hans og úrskurði Persónuverndar sé blandað saman í opinberri umræðu og að með úrskurðinum hafi verið vegið að starfsheiðri stefnanda. Því hafi hann höfðað mál þetta til að fá úrskurðinum hnekk. Stefnandi hirði hins vegar ekki um gífuryrði stefnda Guðmundar, en telji að þau dæmi sig sjálf.
Stefnandi telji sig hafa lögvarða hagsmuni af því að fá dóm í máli þessu. Úrskurðurinn, sem krafist er ógildingar á, sé stjórnvaldsákvörðun frá sérstakri eftirlitsstofnun ríkisins og til þess fallinn að valda stefnanda álitshnekki. Stefnandi telji úrskurðinn rangan en hann sé byggður á rangri lagatúlkun.
Persónuvernd sé stefnt til varnar en samkvæmt lögum um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga sé hún sjálfstæð stofnun með sérstaka stjórn, þótt hún heyri stjórnarfarslega undir dómsmálaráðherra. Persónuvernd annist eftirlit með framkvæmd laganna og reglna settra samkvæmt þeim og úrskurði í ágreiningsmálum sem upp kunni að koma. Um stjórnskipulega stöðu Persónuverndar og verkefni sé vísað til VII. kafla laganna. Stefnandi telji Persónuvernd njóta aðildarhæfis, sbr. 1. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991, og sé stofnunin því réttur varnaraðili í máli sem snúist um gildi úrskurðar hennar sjálfrar.
Stefnda Guðmundi sé einnig stefnt til varnar. Hann hafi verið aðili, kvartandi, í stjórnsýslumálinu sem leyst hafi verið úr með úrskurðinum. Því telji stefnandi að óhjákvæmilegt sé að stefna honum ásamt Persónuvernd, sbr. m.a. fordæmi í Hrd. 1998:3096 og Hrd. 2001:4620.
Krafa um ógildingu úrskurðar Persónuverndar sé byggð á því að stefnandi sé sérfræðingur í bæklunarskurðlækningum og hafi tilskilið lækningaleyfi. Hann njóti réttarstöðu opinbers sýslunarmanns. Samkvæmt 11. gr. læknalaga nr. 53/1988 beri lækni að sýna varkárni og nákvæmni við útgáfu vottorða og annarra læknayfirlýsinga. Í störfum lækna felist að þurfa að umgangast læknisfræðilegar upplýsingar, m.a. sjúkraskrár. Án þess að kanna þær geti læknar ekki sinnt störfum sínum á þann hátt sem gerð sé krafa um í lögum.
Er stefnandi kannaði sjúkraskrána hafi hann sinnt læknisverki í þágu stefnda Guðmundar og Vátryggingafélagsins. Tildrög þessa verkefnis sé að rekja til beiðni stefnda um endurskoðun á uppgjöri vegna líkamstjóns. Læknisverkið hafi verið að rannsaka og meta, út frá læknisfræðilegri þekkingu, hvort orskatengsl væru fyrir hendi á milli slyssins, sem stefndi hafði orðið fyrir, og afleiðinga sem hann hafi haldið fram að raktar yrðu til slyssins. Niðurstaða um álitaefnið sé eitt þeirra skilyrða sem þurfi að vera uppfyllt svo að stefndi geti beint frekari bótakröfu að Vátryggingafélaginu en hann hefði þegar fengið greidda vegna slyssins. Um þetta læknisverk gildi 11. gr. læknalaganna. Mjög ríkir hagsmunir hafi verið í húfi fyrir stefnda af álitsgerðinni og því einkar mikilvægt að hún væri unnin út frá réttum og fullnægjandi forsendum. Stefnda og lögmanni hans hafi mátt eðli máls samkvæmt vera ljóst að stefnandi kæmi til með að meðhöndla læknisfræðilegar upplýsingar sem hann teldi nauðsynlegar til að komast að læknisfræðilega réttri niðurstöðu um álitaefnið.
Stefnandi hafi gætt hófs við meðferð sjúkraskrárinnar. Hann hafi kannað skrána og litið svo á að það væri ekkert í henni, sem varpaði öðru ljósi á álitaefnin en önnur fyrirliggjandi gögn. Af þeirri ástæðu hafi hann sleppt að geta um efni sjúkraskrárinnar í álitsgerðinni. Með því hafi þagnarskyldu og varfærni verið gætt í vinnslu upplýsinganna.
Í forsendum úrskurðar Persónuverndar, kafla 2 um lögmæti, hafi verið komist að niðurstöðu um að ekki hafi verið uppfyllt skilyrði 8. og 9. gr. laga nr. 77/2000 til að kanna sjúkraskrá kvartandans. Þá sé á því byggt að stefnandi hafi kannað sjúkraskrána sem utanaðkomandi aðili og tekið fram að tryggingafélög geti haft lögvarða hagsmuni af því að fá tilteknar heilsufarsupplýsingar um vátryggða einstaklinga, til þess að geta metið bótaskyldu sína, og að upplýsingaskylda þar að lútandi geti hvílt á vátryggðum samkvæmt lögum. Tryggingafélag og þeir sem starfi á þeirra vegum verði hins vegar að gæta þess að fara réttar leiðir að þessu marki, þ.e. óska eftir upplýstu samþykki frá hinum skráða.
Stefnandi sé ekki vátryggingafélag og hafi ekki starfað á þeirra vegum. Hann sé sjálfstætt starfandi læknir, sem tengdist hvorki vátryggingafélaginu né stefnda, og hafi hann verið fenginn til verksins og samþykktur á þeim forsendum. Stefndi Guðmundur hafi heldur ekki verið vátryggður heldur tjónþoli er gerði skaðabótakröfu á hendur félaginu sem ábyrgðartryggjanda bifreiðar.
Stefnandi sé ósammála því að hann hafi „farið í“ sjúkraskrá stefnda sem „utanaðkomandi aðili“. Hann hafi verið starfsmaður Landspítalans og hafi, eins og aðrir læknar í sambærilegri stöðu, haft aðgang að sjúkraskrám þar. Á þeim tíma sem hann hafi kannað sjúkraskrána hafi hann verið settur yfirlæknir deildarinnar, sem hann starfi á, og því hafi ekki verið um að ræða að hann gæti borið það undir neinn yfirmann hvort hann mætti þetta, enda hafi stefnandi engan vafa talið leika á um heimild sína. Úrskurðarvald Persónuverndar samkvæmt 2. mgr. 37. gr. laga nr. 77/2000 nái ekki til þess að kveða á um samskipti einstakra starfsmanna við yfirstjórn spítalans. Samt sem áður telji stefnandi að sér hafi verið rétt að kanna sjúkraskrána sjálfur, allt eins og að biðja einhvern samstarfsmanna sinna um að gera það fyrir sig og blanda þannig fleirum í málið. Þessi vinnubrögð hafi verið í samræmi við venjur sem gilt hafi á spítalanum um könnun lækna á sjúkraskrám.
Loks telji stefnandi að sér hafi verið heimilt að „fara í“ sjúkraskrána eins og hann gerði samkvæmt ákvæðum 8. og 9. gr. laga og að hann hafi farið eins varlega í þær sakir og unnt var sem hann rökstyðji nánar þannig:
Samkvæmt 1. tl. 1. mgr. 8. gr. og 1. tl. 1. mgr. 9. gr. laga nr. 77/2000 sé vinnsla persónuupplýsinga, þ.m.t. sjúkraskrár, heimil hafi hinn skráði veitt ótvírætt samþykki sitt. Í tilvikinu sem hér um ræði hafi heimildin verið árituð á verkbeiðnina til stefnanda og henni hafi fylgt víðækt umboð lögmannsins sem hafi ekki farið út fyrir þær heimildir sem hann hefði haft samkvæmt umboðinu. Síðar tilkomnar ofurþröngar skýringar lögmannsins og stefnda Guðmundar á efni heimildarinnar eigi sér hvorki stoð í lögmannsumboðinu né í heimildinni til kvartanda. Stefnandi telji að Persónuvernd hafi ekki verið rétt að byggja úrskurðinn á þeim, heldur eingöngu þeim gögnum sem legið hafi fyrir stefnanda er hann vann umrætt læknisverk.
Stefnandi vísi til 15. gr. læknalaga um þagnarskyldu læknis. Trúnaðarskylda læknis sé mjög rík samkvæmt þessari lagareglu, en hún sé ekki fortakslaus. Í 5. mgr. lagagreinarinnar sé almenn undantekningarregla þess efnis að læknir geti veitt öðrum heilbrigðisstéttum upplýsingar sé um að ræða rannsóknir og meðferð sjúklinga. Einnig sé í þessu sambandi vísað til 15. gr. laga nr. 74/1997 og 6. gr. reglugerðar nr. 227/1991 um sjúkraskrár o.fl. Stefnandi telji að Persónuvernd hafi í úrlausn sinni litið framhjá þessari reglu, en samkvæmt henni hafi stefnandi átt rétt á að fá þau gögn sem málið snúist um án þess að aflað væri sérstakrar heimildar frá stefnda í því skyni til viðbótar þeim skjölum sem fyrir lágu í málinu. Þegar litið sé til eðlis læknisverkefnisins, sem stefnanda var falið að sinna, tilgangsins með því og réttarstöðu stefnanda samkvæmt læknalögum, hafi könnunin á sjúkraskránni verið heimil með vísan til framangreindra lagaákvæða og 2. og 7. tl. 1. mgr. 9. gr. laganna. Við munnlegan málflutning var fallið frá þeirri málsástæðu að stefnanda hafi verið heimilt að fara í sjúkraskrána samkvæmt 3., 4. og 6. tl. 1. mgr. 8. gr. og 8. tl. 1. mgr. 9. gr. laganna.
Vinnubrögð stefnanda í þessu máli hafi á engan hátt verið frábrugðin þeim sem tíðkast hafi um árabil meðal lækna, sem unnið hafi matsstörf um læknisfræðileg efni, svo sem um mat á orsakatengslum, örorku og öðru líkamstjóni einstaklinga. Slíkt verði ekki gert án skoðunar á sjúkrasögu þess sem í hlut eigi.
Málskostnaðarkrafan sé reist á 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Við málskostnaðarákvörðun verði gætt að skyldu stefnanda til að greiða virðisaukaskatt af þóknun lögmanns en stefnandi sé ekki virðisaukaskattskyldur.
Málsástæður og lagarök stefndu Persónuverndar
Af hálfu stefndu Persónuverndar er vísað til þess að meðstefndi hafi lagt fram kvörtun til sín sem hafi meðal annars verið reist á því að stefnandi hefði í tengslum við vinnslu álitsgerðar um líkamstjón hans fyrir Vátryggingafélag Íslands farið í sjúkraskrá hans án tilskilinna heimilda. Kvörtuninni hafi fylgt ýmis gögn, þ.á m. bréfaskipti vegna kæru meðstefnda til yfirstjónar Landspítala-háskólasjúkrahúss vegna sama máls. Í bréfi stefnanda til aðstoðarlækningaforstjóra spítalans 14. ágúst 2005 komi meðal annars fram að hann hafi unnið álit sitt sem sjálfstætt starfandi, enda hefði erindi Vátryggingafélagsins verið beint til hans sem slíks á læknastofu hans í Orkuhúsinu. Hefði álitið algerlega verið unnið utan sjúkrahússins og taldi hann sig hafa verið í fullum rétti til slíkrar vinnu væri hennar óskað. Þá hafi stefnandi sagt að þau einu gögn sem hann hefði haft til hliðsjónar við vinnslu álitsins, og getið væri í fyrsta hluta hennar, hefðu verið send honum af matsbeiðanda utan þess að röntgenmyndir væru frá tilgreindum bæklunarlækni á Akureyri. Stefnandi hafi vitnað til bréfs meðstefnda til Vátryggingafélagsins 5. maí 2005 þar sem hann hafi óskað eftir því að máli sínu yrði flýtt og tekið fram að allar myndir gætu verið hjá lækni á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri. Enga þýðingu hafi í máli þessu hvort stefnanda hafi verið heimilt að nota röntgenmyndirnar, sem hér sé vísað til, og hafi úrskurður stefnda ekki tekið til þess.
Í svarbréfi aðstoðarlækningaforstjóra spítalans 23. ágúst 2005 til meðstefnda segi:
„Yngvi Ólafsson er starfsmaður sjúkrahússins að hluta en rekur að öðru leyti sína eigin lækningastofu. Beiðnin frá VÍS er send á lækningastofu hans sem sjálfstæðs starfandi lknis og er þannig spítalanum óviðkomandi. Hann fékk þau gögn sem máli skipta varðandi úrlausn málsins send frá VÍS og notaði ekki gögn sjúkrahússins.“
Við eftirgrennslan stefnda hafi á hinn bóginn komið í ljós að stefnandi hefði farið í sjúkraskrá meðstefnda 30. maí 2005. Stefnanda hafi því verið sent bréf þar sem óskað var skýringa á því hvers vegna hann hefði farið í sjúkraskrá meðstefnda umrætt sinn.
Í svarbréfi sínu 7. nóvember s.á. hafi stefnandi staðfest að hann hefði opnað sjúkraskrá meðstefnda til að ganga úr skugga um hvort tilteknir atburðir og slys hefðu átt sér stað, sem hann taldi að sér hefði verið heimilt á grundvelli þess að lögmaður meðstefnda hefði áritað álitsbeiðni Vátryggingafélagsins og sent með henni umboð sitt frá meðstefnda. Í bréfi lögmannsins til stefnda 19. desember s.á. komi hins vegar fram að hann teldi sig aðeins hafa heimilað notkun þeirra gagna er þegar hefði verið aflað og voru send með álitsbeiðninni, en ekki aðgang að sjúkraskrá hans.
Meðstefnda hefði verið sent afrit af svarbréfi stefnanda. Af því tilefndi hefði hann ritað stefnda bréf 3. desember 2005 þar sem lögð hafi verið rík áhersla á að ekkert í umboði hans heimilaði lögmanni hans að framlengja, veita, leyfa eða gefa þriðja aðila heimild til að fara í sjúkraskrá hans. Undir meðferð málsins hafi stefndi talið að skilja mætti bréf þetta svo að meðstefndi teldi lögmanninn hafa farið út fyrir umboð sitt og hafi því leiðbeint honum að bera það atriði undir úrskurðarnefnd lögmanna. Stefnda hafi ekki talið vera forsendur að svo stöddu til þess að fjalla frekar um lögmæti aðgangs stefnanda að sjúkraskránni umrætt sinn.
Ástæða þess að meðstefnda hafi verið leiðbeint um að snúa sér til úrskurðarnefndar Lögmannafélags Íslands hafi verið sú að umboðið sem hann undirritaði til lögmanns síns virtist staðlað. Því hafi stjórn stefnda talið eðlilegra að Lögmannafélagið tæki afstöðu til inntaks þess. Síðar hafi komið í ljós að meðstefndi hafi talið umboðið ekki heimila lögmanninum að heimila öðrum aðgang að sjúkraskrá hans og að hann teldi lögmanninn ekki hafa heimilað slíkan aðgang. Hafi meðstefndi komið á skrifstofu stefnda og skrifaði undir yfirlýsingu 14. febrúar 2005, um að hann teldi lögmanninn ekki hafa farið út fyrir umboð sitt og að hann óskaði þess að mál hans yrði tekið til efnislegrar úrlausnar. Stefnanda hafi þá verið sent bréf þar sem honum var gefið færi á að koma að frekari sjónarmiðum, en ekkert svar hafi borist frá honum.
Málið hafi verið tekið til úrskurðar 27. febrúar og hafi niðurstaða stefnda orðið sú að stefnanda hefði verið óheimilt að fara í sjúkraskrá meðstefnda umrætt sinn. Í úrskurði stefnda komi fram að stofnunin hefði ekki úrlausnarvald um önnur kæruatriði í kvörtun meðstefnda en það er laut að aðgangi stefnanda að sjúkraskrá meðstefnda.
Stefndi telji sig enga ábyrgð bera vegna umfjöllunar um málið í fjölmiðlum eða því hvernig ásakanir meðstefnda voru tilfærðar þar. Þá horfi málið þannig við stefnda að stofnuninni sé skylt að lögum að taka til úrlausnar ágreining sem þennan og geti í því sambandi ekki litið til þess hvort niðurstaðan kunni að koma sér illa fyrir orðspor eða starfsheiður málsaðila.
Stefndi byggi á því að engir þeir annmarkar séu á úrskurði stefnda sem leitt geti til þess að fella beri hann úr gildi. Úrskurðurinn sé í samræmi við lög og hafi stefndi í engu farið út fyrir valdheimildir sínar samkvæmt lögum.
Sjúkraskrár falli undir ákvæði laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Verði heimild til aðgangs að hafa ótvíræða stoð í þeim lögum, en stefnda sé falin framkvæmd þeirra. Við beitingu laganna og skýringu sé óhjákvæmilegt að hafa hliðsjón af ákvæðum laga nr. 74/1997 um réttindi sjúklinga, meðal annars þannig að fyrrnefndu lögin veiti a.m.k. ekki rýmri heimildir til aðgangs að sjúkraskrám einstaklinga. Í lögum séu strangar skorður settar við því hverjir megi hafa aðgang að sjúkraskrám. Þannig hafi læknar ekki óskoraðan aðgang að þeim. Verði aðgengi þeirra sem og annarra að eiga sér ótvíræða stoð í lögum, sbr. ákvæði 14. og 15. gr. laga nr. 74/1997. Þar sé tæmandi talið hverjir megi ganga að sjúkraskrám en þær skuli geymdar á tryggum stað og varðveittar, í þessu tilviki á heilbrigðisstofnun, Landspítalanum. Meðal þeirra sem aðgang megi hafa séu þeir starfsmenn þar, sem nauðsynlega þurfi, þ.e. þeir sem hafi sjúkling þar til meðferðar. Stefnandi hafi enga slíka stöðu haft vegna þess verkefnis sem hann tók að sér fyrir vátryggingafélag óviðkomandi spítalanum.
Það eitt að opna sjúkraskrá einstaklings teljist ótvírætt vinnsla persónuupplýsinga í skilningi 1. og 2. tl. 2. gr. laga nr. 77/2000. Þar sem upplýsingar í sjúkraskrá teljast til viðkvæmra persónuupplýsinga, sbr. c-lið 8. tl. 2. gr. laganna þurfi slík opnun eða uppfletting að uppfylla eitt af skilyrðum 1. mgr. 8. gr., sem og eitt af skilyrðum 1. mgr. 9. gr. laganna, til þess að teljast heimil og lögmæt. Þegar stefnandi gekk að sjúkraskrá meðstefnda á Landspítalanum 30. maí 2005 hafi greind lagaskilyrði ekki verið fyrir hendi og aðgangur hans því óheimill.
Samþykki meðstefnda hafi ekki verið fyrir hendi til þeirrar vinnslu persónuupplýsinga sem stefnandi viðhafði. Samkvæmt 7. tl. 2. gr. laga nr. 77/2000 sé með samþykki átt við sérstaka ótvíræða yfirlýsingu sem einstaklingur gefi af fúsum og frjálsum vilja um að hann sé samþykkur vinnslu tiltekinna upplýsinga um sig og að honum sé kunnugt um tilgang hennar, hvernig hún fari fram, hvernig persónuvernd verði tryggð, um að honum sé heimilt að afturkalla samþykki sitt o.s.frv. Á þennan hátt skýri greinargerð með frumvarpi er varð að lögunum hugtakið samþykki, svokallað upplýst samþykki. Gengið sé út frá því að slíkt samþykki sé nægilega skýrt og afmarkað til að bera með sér að þeim sem það gefi sé fyllilega ljóst hvað hann heimili. Þá sé slíkt samþykki persónubundið og ljóst að enginn geti gefið það fyrir annars manns hönd nema hafa til þess sérstaka heimild, t.d. skýrt og afmarkað umboð eða heimild að lögum. Strangari kröfur séu gerðar til samþykkis fyrir vinnslu viðkvæmra persónuupplýsinga en í tíð eldri laga. Í samræmi við það hafi stefndi bent örorkunefnd á mikilvægi þess að samþykki fyrir öflun heilsufarsupplýsinga í tengslum við meðferð mála hjá nefndinni uppfyllti skilyrði laganna og að lögmenn, sem veiti slíkt samþykki, hefðu til þess umboð frá tjónþola sem fæli í sér samþykki er uppfyllti skilyrði laganna. Framkvæmd laganna af hálfu stefnda hafi því ætíð verið hin sama.
Ákvæði 2. tl. 1. mgr. 9. gr. laga nr. 77/2000 kveði á um að vinnsla viðkvæmra persónuupplýsinga sé heimil standi sérstök heimild til hennar samkvæmt öðrum lögum. Í samræmi við lögskýringargögn verði að skýra ákvæðið að þessu leyti þannig að þegar íhlutun í einkalíf viðkomandi sé meiri verði sú lagaheimild sem til þess kunni að standa að vera ótvíræð. Engri slíkri lagaheimild sé fyrir að fara. Mjög þröngar skorður séu settar í lögum nr. 74/1997 við aðgengi að sjúkraskrám, sbr. einkum 14. og 15. gr. þeirra. Heimildir til þess hljóti að vera tæmandi taldar, en þeirra á meðal eru þær sem réttlætanlegar eru vegna vísindarannsókna og sérstakt leyfi stefnda þurfi til, sbr. 3. mgr. 15. gr. laganna. Verkefni stefnanda hafi hvorki verið læknismeðferð né vísindarannsókn og hafi á enga hátt stuðst við heimildir laga nr. 74/1997 til aðgangs að sjúkraskrám.
Niðurstaða stefnda hafi því verið rétt, að ekkert skilyrða 1. mgr. 9. gr. laga nr. 77/2000 hefði verið uppfyllt þegar stefnandi fór í sjúkraskrá meðstefnda 30. maí 2005. Þá sé einnig á því byggt að ekkert skilyrða 1. mgr. 8. gr. laganna hafi verið uppfyllt, þótt ekki hafi verið vikið að því í úrskurðinum.
Stefndi telji það ekki hagga gildi úrskurðarins þótt stefnandi sé læknir og telji sig opinberan sýslunarmann. Ekki liggi fyrir að stefnandi hafi notið stöðu opinbers sýslunarmanns. Þá breyttu skyldur hans eftir 11. gr. læknalaga ekki því að honum hafi borið að byggja aðgang að sjúkraskrá meðstefnda á fullnægjandi heimildum.
Eins og fram kom í bréfum stefnanda sjálfs og bréfi aðstoðarlækningaforstjóra Landspítalans hafi álitsgerðin verið unnin af stefnanda sem sjálfstætt starfandi sérfræðingi og algjörlega utan sjúkrahússins. Ósannað sé að beiðnin um hana hafi verið af hálfu Vátryggingafélagsins og meðstefnda heldur hafi hún verið vegna beiðni félagsins. Það hafi leitað til stefnanda á læknastofu hans í Orkuhúsinu og greitt honum fyrir vinnu við álitsgerðina. Stefnandi hafi því ekki komið að verkinu sem „opinber sýslunarmaður“ heldur að beiðni Vátryggingafélagsins. Hvað sem því líði hafa opinberir sýslunarmenn ekki rýmri aðgang en aðrir að sjúkraskrám. Verði þeir eins og aðrir að sæta þeim skorðum sem aðgangi að sjúkraskrám eru settar í lögum. Að sama brunni beri þegar litið sé til 11. gr. læknalaga, en ákvæðið feli ekki í sér sjálfstæða heimild til aðgangs að sjúkraskrám, heldur leggi eingöngu skyldu um að læknar sýni varkárni og nákvæmni í nánar tilgreindum störfum sínum. Sé nauðsynlegt við þau störf að opna sjúkraskrá einstaklings verði læknirinn engu að síður að hafa tilskildar heimildir til þess, svo sem að hann hafi sjúklinginn til meðferðar og þann aðgang sem lög um réttindi sjúklinga tryggi í því tilviki eða hafi upplýst samþykki sjúklings. Það eitt að þriðji aðili óski eftir læknisfræðilegri álitsgerð á heilsu þess sem eigi sjúkraskrána leiði ekki til þess að óviðkomandi aðila sé heimilt að opna hana. Breyti þar engu hvort sá aðili er læknir að mennt eða ekki. Heimil og eðlileg umgengi lækna við heilsufarsupplýsingar, þ.á m. sjúkraskrárupplýsingar, takmarkist af lögum en ekki þeim viðmiðunum sem stefnandi bendi á. Þá sé rétt að gera greinarmun á því hvort um sé að ræða fræðilegar upplýsingar, þ.e. almenna læknisfræðilega vitneskju, eða persónugreindar heilsufarsupplýsingar eins og finna megi í sjúkráskrám.
Stefnandi byggi á því að hann hafi gætt hófs við meðferð sjúkraskrárinnar og virt þagnarskyldu. Þetta sé ekki dregið í efa, en það raski ekki niðurstöðu stefnda sem varði ekki annað en aðganginn sjálfan.
Almenn þagnarskylda lækna breyti engu um að stefnanda bæri að afla sér fullnægjandi heimildar eins og þegar hafi veirð lýst. Á hinn bóginn sé alls ekki unnt að ganga út frá því að stefnandi hafi virt þagnarskyldu í sjálfu sér þar sem hann hafi opnað sjúkraskrá án heimildar og nýtt hana í störfum fyrir vátryggingafélag.
Þagnarskylda eða trúnaðarskylda sú sem stefnandi leggi út frá sé eitt og aðgangur eða önnur vinnsla persónuupplýsinga sé annað. Það eitt að einstaklingur sé bundinn trúnaði nægi ekki sem heimild til að hann megi fara í viðkvæm gögn án tilskilinna heimilda. Megi þar nefna Hrd. 15. mars 2001 í málinu nr. 354/2000, en í því tilviki hafi þó ekki verið um að ræða eins viðkvæmar upplýsingar og sé að finna í sjúkraskrám.
Stefndi hafni að öðru leyti rökstuðningi stefnanda byggðum á læknalögum eða lögum um réttindi sjúklinga enda ekki um að ræða að læknir hafi veiti öðrum heilbrigðisstéttum upplýsingar vegna rannsóknar eða meðferðar, heldur hafi stefnandi opnað sjálfur sjúkraskrá vegna vinnu sinnar fyrir tiltekið vátryggingafélag.
Ákvæði 6. gr. reglugerðar nr. 227/1991 taki til sendingar læknabréfa þegar læknar eða heilbrigðisstofnanir sendi læknabréf sín á milli í því skyni að ekki þurfi að leita á marga staði eftir upplýsingum sem kunni að vera nauðsynlegar vegna meðferðar. Ákvæðið heimili því engan veginn aðgang að sjúkraskrám eða notkun upplýsinga úr þeim vegna vinnslu álitsgerðar. Stefnandi hafi augljóslega ekki verið í hlutverki læknis sem sendi læknabréf þegar hann afréð sjálfur að sækja upplýsingar í sjúkraskrá meðstefnda. Engin af tilvitnuðum laga- eða reglugerðarákvæðum stefnanda heimilaði aðgang að sjúkraskrárupplýsingum meðstefnda í hinu umdeilda tilviki.
Vegna málsástæðna stefnanda um að hann sé ekki tryggingafélag áréttar stefndi að stefnandi hafi verið beðinn um að vinna tiltekið verk af tryggingafélagi og hafi fengið greitt fyrir það af því. Tryggingafélög geti í viðskiptum sínum haft lögvarða hagsmuni af því að fá tilteknar heilsufarsupplýsingar um þá sem gera á þau kröfu, en þau þurfi, hvort sem um vátryggingu eða ábyrgðartryggingu er að ræða, að hafa tilskildar heimildir til að afla slíkra upplýsinga. Sú réttarvernd væri fyrir bí ef nægilegt væri að fela aðila, sem hafi aðgang að upplýsingunum vegna annarra starfa sinna, að nota eða leggja mat á upplýsingarnar. Stefnandi hafi sjálfur sagst hafa komið að verkinu sem sjálfstætt starfandi og unnið það utan sjúkrahússins, en ekki sem starfsmaður þess. Þá liggi fyrir í málinu bréf aðstoðarlækningaforstjóra þar sem fram komi sú afstaða sjúkrahússins að stefnandi hafi ekki unnið umrædda álitsgerð sem starfsmaður sjúkrahússins. Að þessu leyti sé nokkur þversögn í stefnu þar sem á einum stað sé áréttað að stefnandi hafi verið sjálfstætt starfandi læknir, en í beinu framhaldi sé því haldið fram að hann hafi farið í sjúkraskrána sem starfsmaður Landspítalans.
Þótt stefnandi hafi að sönnu farið í sjúkraskrá meðstefnda sem utanaðkomandi aðili hafi niðurstaða stefnda fyrst og fremst byggst á því að hann hefði ekki tilskildar heimildir að til þess að lögum þar sem ekki hafi legið fyrir fullnægjandi samþykki fyrir aðgangi að sjúkraskrá. Umfjöllun sem snúi að því að stefnandi hafi farið í sjúkraskrá meðstefnda sem utanaðkomandi aðili, þ.e. sem sjálfstætt starfandi sérfræðingur hjá Orkuhúsinu eða fyrir beiðni og sem verktaki fyrir Vátryggingafélagið, sé til komin vegna þess að Landspítalinn teljist ábyrgðaraðili sjúkraskrár meðstefnda og því sá aðili sem ákveði ráðstöfun upplýsinganna. Af því leiði að opnun stefnanda á sjúkraskrá meðstefnda þurfi ekki aðeins að eiga sér stoð í lögum heldur verði hann að hafa til hennar heimild ábyrgðaraðilans.
Stefnda hafni enn fremur málsástæðum um að stefnandi hafi ekki getað borið málið undir yfirmann spítalans heldur hafi hann haft sjálfdæmi þar um sem settur yfirlæknir. Lækningaforstjóri og eftir atvikum staðgengill hans væri forsvarsmaður þessa ábyrgðaraðila sjúkraskrárinnar. Samkvæmt reglugerð um 227/1991 sé yfirlæknir því aðeins ábyrgðaraðili sjúkraskrár meðan sjúklingur er til meðhöndlunar á viðkomandi deild. Stefnandi hafi hvergi komið nærri vinnslu álitsgerðarinnar sem yfirlæknir á spítalanum. Hann hafi því á engan hátt haft heimild eða getað talist hæfur til að veita sjálfum sér aðgang í tilvikum eins og þessum. Eðlilegt sé að leita heimildar lækningaforstjóra sem beri frumábyrgðina og beri að ganga úr skugga um að fyrir liggi fullnægjandi samþykki. Vissulega hefði verið óheppilegt ef stefnandi hefði beðið samstarfsmenn sína að afla upplýsinganna, því þá hefðu þeir ekki aðeins opnað sjúkraskrá án tilskilinna heimilda, heldur einnig miðlað upplýsingum úr henni með ólögmætum hætti. Þótt stefnandi hafi tímabundið verið yfirlæknir réttlætti það á engan hátt aðgang hans að sjúkraskrá vegna vinnu óviðkomandi sjúkrahúsinu og hefði verið ósamrýmanlegt starfi hans á spítalanum, sbr. ákvæði starfsmannalaga nr. 70/1996. Stefnda hafi ekki kveðið á um samskipti stefnanda við aðra starfsmenn spítalans í raun heldur það hvort aðgangurinn hefði verið heimill. Í því efni hafi þó verið nauðsynlegt að fyrir lægju upplýsingar um það hvort sjúkrahúsið tengdist á einhvern hátt athugun stefnanda í umræddu tilviki og hvort hann hefði opnað sjúkraskrána sem sjúkrahúsið varðveitti. Stefnda hafi í engu farið út fyrir valdheimildir sínar eða lögbundið hlutverk.
Stefnda mótmæli því að þau vinnubrögð sem stefnandi viðhafði og deilt sé um í málinu hafi á einhvern hátt verið réttlætanleg vegna venju sem gilt hafi á Landspítalanum. Sú afstaða stjórnar sjúkrahússins liggi fyrir að málið væri henni óviðkomandi og hafi stefnandi ekki sýnt fram á að venja hafi verið um athafnir eins og þær sem deilt er um í málinu. Hvað sem því líði breyti starfsvenjur á einstaka vinnustöðum því ekki að lagafyrirmæli þau sem takmarka svo mjög aðgang að sjúkraskrám svo og ákvæði laga nr. 77/2000 í því efni gildi. Þannig geti venjur ekki hnikað til settum lögum og venja gildi ekki ef lagaákvæði mæli henni í mót. Stefnandi hafi ekki sýnt fram á tilvist neinnar venju í þessu sambandi. Þótt vera kunni að læknar hafi í matsstörfum, sem þeim hafi verið falin einhverju sinni, viðhaft hliðstæð vinnubrögð og stefnandi, sé þar á engan hátt um réttarvenju að ræða sem byggjandi væri á og víkja myndi til hliðar ákvæðum settra laga, sér í lagi þegar um sé að ræða stjórnarskrárvarin mannréttindi. Vissulega geti verið nauðsynlegt að skoða sjúkrasögu í tengslum við matsgerðir, en slíkt verði ekki gert án tilskilinna heimilda að lögum.
Stefnandi byggi á því að honum hafi verið heimilt að opna sjúkraskrá meðstefnda með stoð í nánar tilgreindum ákvæðum laga nr. 77/2000, en þessu mótmæli stefndi.
Því hafi áður verið lýst hvað felist í upplýstu samþykki samkvæmt 1. tl. 1. mgr. 9. gr. laganna. Eins og úrskurðurinn beri með sér byggist endanleg niðurstaða hans einmitt á þeim gögnum sem legið hafi fyrir í málinu, fyrst og fremst því hvort stefnandi hefði haft þá heimild sem ákvæðið áskilji. Til skoðunar hafi óhjákvæmilega komið hvort tveir sjálfstæðir gerningar væru til staðar sem leitt gætu til þess að skilyrði laganna gætu talist uppfyllt, annars vegar umboð meðstefnda til lögmanns síns og hins vegar álitsbeiðni sú sem lögmaðurinn hafi síðan undirritað. Upplýst samþykki verði að vera persónubundið og ótvírætt, skýrt og afmarkað. Ef niðurstaðan hefði orðið sú að lögmaður meðstefnda hefði farið út fyrir umboð sitt, þ.e. ekki haft heimild meðstefnda til að heimila öðrum aðgang að sjúkraskránni, hefði stefnanda þegar af þeirri ástæðu verið óheimilt að fara í sjúkraskrána, enda sé það grundvallarskilyrði að samþykki stafi frá þar til bærum aðila. Þá hefði ekki þurft að koma til þess hvort áritun lögmannsins teldist nægilega skýr, afmörkuð og ótvíræð til að teljast samþykki í skilningi 1. tl. 1. mgr. 9. gr. laganna. Umboðið sem legið hafi fyrir hafi ekki verið veitt stefnanda heldur lögmanni meðstefnda og í því sé hvorki tekið fram að heimilt sé að veita öðrum upplýsingar úr sjúkraskrá meðstefnda né heldur að heimilt sé að veita öðrum aðgang að sjúkraskránni.
Upplýst samþykki í skilningi laga nr. 77/2000 sé sérstök og ótvíræð yfirlýsing um að viðkomandi samþykki vinnslu tiltekinna upplýsinga um sig. Í áritun lögmannsins um heimild stefnanda til öflunar gagna sé ekki tilgreint sérstaklega að heimilt sé að fara í sjúkraskrá, en það hljóti að vera lágmarkskrafa þegar óskað er aðgangs að svo viðkvæmum upplýsingum. Álitsbeiðninni hafi fylgt ýmis læknisfræðileg gögn auk þess sem óumdeilt sé að stefnanda hafi verið heimilt að afla tiltekinna röntgenmynda. Umrædd áritun lögmanns meðstefnda hafi því ekki verið þess efnis og ótvíræð um að stefnandi mætti hafa aðgang að sjúkraskrám. Meðstefndi og lögmaður hans væru sammála um að umboðið tæki ekki til þess að stefnanda væri heimill aðgangur að sjúkraskrá. Stefnandi hafi ekki sannað að efni umboðsins hafi verið á aðra lund.
Hér hafi ekki aðeins skort á að aðgangur stefnanda að sjúkraskrá meðstefnda 30. maí 2005 hafi átt sér stoð í 1. mgr. 9. gr. laga nr. 77/2000, heldur verði hann ekki réttlættur eða heimill samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laganna. Skilyrði beggja greinanna, 8. og 9. gr., þyrftu að vera uppfyllt til þess að heimill væri aðgangur að viðkvæmum persónuupplýsingum.
Kjarni málsins lúti að því hvort stefnandi hafi án tilskilinna heimilda farið í umrædda sjúkraskrá en það hafi hann gert. Í því tilviki hafi hann þurft til þess upplýst samþykki meðstefnda. Áritun lögmanns meðstefnda hafi ekki verið nægilega ótvíræð til að fullnægja skilyrðum laga og því hafi aðgangurinn verið stefnanda óheimill. Það að hann opnaði skrána sem utanaðkomandi aðili hefði ekki þýðingu fyrir niðurstöðuna að öðru leyti en því að auk þess að skorta tilskildar lagaheimildir hafi hann ekki haft heimild ábyrgðaraðila skrárinnar til þess að opna hana.
Samkvæmt þessu beri að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda, en við skýringu laga nr. 77/2000 verði, auk þeirra skýringarsjónarmiða sem stefndi hafi rakið, að taka mið af 71. gr. stjórnarskrárinnar sem kveði á um að ekki megi skerða friðhelgi einkalífs nema með sérstakri lagaheimild ef brýna nauðsyn beri til vegna réttinda annarra, sbr. einnig dóm Hæstaréttar 27. nóvember 2003 í málinu nr. 151/2003. Að öðru leyti sé málatilbúnaði stefnanda mótmælt og vísað til forsendna úrskurðar stefnda.
Til stuðnings kröfum stefnda um málskostnað sé í öllum tilvikum vísað til XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Málsástæður og lagarök stefnda Guðmundar
Af hálfu stefnda Guðmundar er vísað til þess að stefnandi hafi verið fenginn til álitsgerðar sem sjálfstætt starfandi læknir. Stefnandi hafi notfært sér aðgang að sjúkraskrám á Landspítalanum þar sem hann starfi sem læknir í 75% starfi þó svo að álitsgerðin tengdist ekki vinnu hans á spítalanum. Þessa misnotkun stefnanda á trúnaðargögnum hafi stefndi kært til Persónuverndar sem hafi úrskurðað að stefnanda hafi verið óheimill aðgangur að sjúkraskrá stefnda þar sem ekki hafi legið fyrir upplýst samþykki af hans hálfu. Álit stefnanda til Vátryggingafélags Íslands hafi farið í bága við álit Halldórs Jónssonar læknis sem hafi meðal annars verið reist á sömu gögnum.
Stefndi byggi sýknukröfuna á því að stefnandi hafi ekki haft heimild til að taka upplýsingar um stefnda úr sjúkraskrá Landspítalans. Ekkert skilyrða 1. mgr. 9. gr. laga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga hafi veitt honum heimild til þess.
Umboð til lögmanns stefnda geti heldur ekki talist nægilegt umboð og gild heimid eða samykki. Með umboði samkvæmt 1. tl. 1. mgr. 9. gr. laga um persónuvernd sé átt við sérstaka ótvíræða yfirlýsingu, sem einstaklingur gefi af fúsum og frjálsum vilja um að hann sé samþykkur vinnslu tiltekinna upplýsinga um sig. Viðkomandi einstaklingi verði því sjálfum að vera kunnugt um tilgang vinnslunnar, hvernig hún fari fram, hvernig vernd persónu hans sé tryggð og að honum sé heimilt að afturkalla samþykki sitt með vísan til 7. tl. 2. gr. sömu laga. Vísað er til sjónarmiða sem fram komi í Hrd. nr. 151/2003.
Stefnandi hafi ekki haft heimild samkvæmt öðrum lögum um öflun og vinnslu persónupplýsinga sem um ræði í málinu. Því geti 2. tl. 1. mgr. 9. gr. laganna ekki átt við. Sú framkvæmd sem stefnandi hafi viðhaft 30. maí 2005 brjóti í bága við tilgang ákvæðisins og tilgang laganna. Lögin hafi þar að auki skýlausa stoð í 71. gr. stjórnarskrárinnar.
Stefnandi hafi ekki haft heimild til vinnslu eða skoðunar gagna úr sjúkraskrá stefnda með vísan til 5. mgr. 15. gr. læknalaga. Ákvæðið gildi aðeins um veitingu upplýsinga til annarra heilbrigðisstétta en ekki til þeirra sem starfi fyrir óopinbera aðila líkt og stefnandi hafi gert.
Brot stefnanda sé mun alvarlegra vegna ákveðinna viðskipatengsla milli Orkuhússins og Vátryggingafélagsins. Stefnandi hafi selt félaginu ákveðnar upplýsingar um stefnda úr gagnasafni spítalans. Þarna hafi engan veginn verði um eðlilega viðskiptahætti að ræða.
Af öllu þessu megi ráða að úrskurður Persónuverndar hafi verið réttur og því beri að sýkna stefnda af kröfum stefnanda í málinu.
Niðurstöður
Stefnandi byggir á því að hann hafi sinnt læknisverki í þágu stefnda Guðmundar og Vátryggingafélags Íslands. Tildrög þess verkefnis sé að rekja til beiðni stefnda Guðmundar um endurskoðun á uppgjöri vegna líkamstjóns sem hann varð fyrir og áður hefur verið rakið. Stefnandi telur að um þetta læknisverk hafi gilt 11. gr. læknalaganna, en samkvæmt henni beri lækni að sýna varkárni og nákvæmni við útgáfu vottorða og annarra læknayfirlýsinga. Stefnandi telur felast í störfum lækna að umgangast læknisfræðilegar upplýsingar, m.a. sjúkraskrár. Án þess að kanna þær geti læknar ekki sinnt störfum sínum á þann hátt sem krafist sé í lögum. Ríkir hagsmunir hafi verið í húfi fyrir stefnda Guðmund af álitsgerðinni og því einkar mikilvægt að hún væri unnin út frá réttum og fullnægjandi forsendum. Stefnda Guðmundi og lögmanninum, sem komið hafi fram fyrir hans hönd, hafi eðli máls samkvæmt mátt vera ljóst að stefnandi kæmi til með að meðhöndla læknisfræðilegar upplýsingar, sem hann teldi nauðsynlegar, til að komast að læknisfræðilega réttri niðurstöðu um álitaefnið. Stefnandi hafi einnig gætt hófs við meðferð sjúkraskrárinnar. Þagnarskyldu og varfærni hafi verið gætt í vinnslu upplýsinganna.
Í málinu er ekki dregið í efa að stefnandi hafi sýnt varkárni og nákvæmni þegar hann meðhöndlaði persónuupplýsingar þær sem geymdar voru í sjúkraskrá stefnda Guðmundar. Ágreiningur málsaðila snýr hins vegar að því hvort stefnanda hafi verið heimill aðgangur að sjúkraskránni. Í 1. mgr. 9. gr. laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga eru tæmandi talin þau skilyrði sem fyrir hendi þurfa að vera til að vinnsla viðkvæmra persónuupplýsinga teljist heimil og lögmæt. Þar segir að vinnsla slíkra upplýsinga sé óheimil nema uppfyllt sé eitthvert af skilyrðum 1. mgr. 8. gr. laganna og enn fremur eitthvert af skilyrðum 1. mgr. 9. gr. Ákvæði laganna taka samkvæmt 44. gr. þeirra til meðferðar og vinnslu slíkra upplýsinga sem fram fer samkvæmt öðrum lögum nema þau lög tilgreini annað sérstaklega. Þótt ákvæði 11. gr. læknalaga nr. 53/1988, sem stefnandi vísar til í málatilbúnaði sínum, kveði svo á að lækni beri að sýna varkárni og nákvæmni við útgáfu vottorða og annarra læknayfirlýsinga veitir það enga sérstaka heimild til aðgangs að viðkvæmum persónuupplýsingum.
Þá heldur stefnandi því fram að hann sé ekki vátryggingarfélag og starfi ekki á þeirra vegum. Hann sé sjálfstætt starfandi læknir og störf hans því ekki á vegum vátryggingarfélags. Eins og að framan er rakið tók stefnandi að sér að semja álitsgerð fyrir Vátryggingafélag Íslands eftir að stefndi Guðmundur óskaði á grundvelli vottorða frá meðferðarlækni sínum eftir endurupptöku málsins sem lokið var með uppgjöri 2. maí 2001. Nálgaðist stefnandi upplýsingar í sjúkraskrá stefnda Guðmundar í þeim tilgangi að vinna að þessu áliti. Um viðkvæmar persónuupplýsingar var að ræða, sbr. c-lið. 8. tl. 2. gr. laga nr. 77/2000, og þurfti stefnandi heimild til að mega vinna úr þeim.
Stefnandi vísar til þess að hann hafi verið starfsmaður Landspítalans og hafi hann, eins og aðrir læknar í sambærilegri stöðu, haft aðgang að sjúkraskrám sem þar eru varðveittar. Þar sem hann hafi verið starfandi yfirlæknir á þeim tíma sem um ræðir hafi hann ekki getað borið það undir neinn yfirmann hvort hann mætti þetta, enda hafi hann engan vafa talið leika á um heimild sína. Fyrir liggur að yfirstjórn Landspítalans lítur svo á að stefnandi hafi ekki unnið álitsgerðina sem starfsmaður sjúkrahússins heldur sem sjálfstætt starfandi sérfræðingur, en því er haldið fram af hálfu stefndu Persónuverndar að stefnandi hafi þar af leiðandi ekki komið að verkinu sem „opinber sýslunarmaður“ heldur sem sérfræðingur að beiðni Vátryggingafélagsins. Verður að fallast á það með stefndu að stefnandi hafi persónulega vegna sérþekkingar sinnar verið beðinn um að taka að sér gerð álitsins. Hann hefur þar af leiðandi sjálfur borið ábyrgð á verkinu og því að gætt væri viðeigandi fyrirmæla í lögum varðandi aðgang að sjúkraskrá. Þar með er ekki um að ræða samskipti starfsmanns spítalans, þ.e. stefnanda, við yfirstjórn þar eins og vísað er til af hálfu stefnanda. Verður því ekki fallist á þá málsástæðu hans að með úrskurði stefndu Persónuverndar hafi verið kveðið á um samskipti stefnanda við yfirstjórn Landspítalans sem stefnda hafi ekki úrskurðarvald um.
Vísað er til þess af hálfu stefnanda að vinnubrögð hans hafi verið í samræmi við þær venjur sem gilt hafa á Landspítalanum um könnun lækna á sjúkraskrám. Þrátt fyrir að þetta kunni að vera rétt hefur það ekki áhrif á þau lagafyrirmæli, sem kveða á um heimildir til vinnslu viðkvæmra persónuupplýsinga og koma fram í lögum um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, eða túlkun þeirra.
Þá heldur stefnandi því fram að honum hafi verið heimilt að fara í sjúkraskrána eins og hann gerði samkvæmt ákvæðum 8. og 9. gr. laga nr. 77/2000. Í 1. tl. 1. mgr. 8. gr. laganna kemur fram að vinnsla persónuupplýsinga sé heimil þegar hinn skráði samþykkir með ótvíræðum hætti vinnsluna eða hefur veitt samþykki samkvæmt 7. tl. 2. gr. laganna. Samþykki er skilgreint í lögunum sem sérstök, ótvíræð yfirlýsing sem einstaklingur gefur af fúsum og frjálsum vilja um að hann sé samþykkur vinnslu tiltekinna upplýsinga um sig og að honum sé kunnugt um tilgang hennar, hvernig hún fari fram, hvernig persónuvernd verði tryggð, um að honum sé heimilt að afturkalla samþykki sitt o.s.frv., sbr. 7. tl. 2. gr. laganna. Í athugasemdum sem fylgdu frumvarpi til laganna segir að í samþykki, eins og það sé skilgreint í lögunum, felist þrjú atriði: Í fyrsta lagi sé það skilyrði að um ótvíræða yfirlýsingu sé að ræða, en í því felist að þögn verði ekki talin jafngilda samþykki. Í öðru lagi verður samþykkið að vera „upplýst“, en með því sé átt við að hinn skráði viti hvað hann er að samþykkja og hvaða afleiðingar meðferð upplýsinganna hafi eða geti haft fyrir hann. Í þriðja lagi sé skilyrði að samþykkið sé persónubundið en í því felist að enginn geti gefið samþykki fyrir annars hönd nema hafa til þess sérstaka heimild.
Í málinu liggur fyrir umboð stefnda Guðmundar sem hann veitti lögmanni sínum til að fá allar upplýsingar úr sjúkraskrám hans sem hann teldi nauðsynlegar. Aðilar málsins greinir á um það hvort í umboði lögmannsins hafi jafnframt falist umboð til stefnanda til aðgangs að sjúkraskrám stefnda. Stefndu halda því fram í málinu að samþykkið hafi ekki tekið til neins annars en lögmannsins og því hafi stefnandi ekki haft neitt umboð til að kynna sér sjúkraskrána. Þegar ofangreind þrjú skilyrði fyrir samþykki eru skoðuð sést að í þessu máli er þriðja skilyrðið ekki uppfyllt, þ.e. lögmaðurinn þurfti að hafa sérstaka heimild frá stefnda Guðmundi til þess að geta gefið stefnanda samþykki fyrir því að skoða sjúkraskrá hans. Að þessu virtu verður að telja að stefnandi hafi ekki haft samþykki stefnda Guðmundar fyrir því að fara í sjúkraskrá hans. Engu breytir í því sambandi þótt ekki verði dregnar í efa stæðhæfingar stefnanda þess efnis að hann hafi talið að hann hefði fullnægjandi heimildir samkvæmt lögum til að fara í sjúkraskrána vegna vinnu við álitsgerðina.
Í 15. gr. læknalaga er fjallað um þagnarskyldu lækna, en stefnandi vísar til hennar í málatilbúnaði sínum og telur að hann hafi ekki þurft að afla sérstakrar heimildar frá stefnda Guðmundi þar sem fram komi í 5. mgr. lagagreinarinnar að læknir geti þrátt fyrir ákvæði hennar veitt öðrum heilbrigðisstéttum upplýsingar sé um að ræða rannsóknir og meðferð sjúklinga. Einnig vísar stefnandi til 15. gr. laga um réttindi sjúklinga og 6. gr. reglugerðar nr. 227/1991. Verður ekki séð að þessi lagaákvæði eigi við um úrlausnarefnið, þar sem stefnandi var að vinna að álitsgerð að beiðni Vátryggingafélagsins, eða að samkvæmt þeim hafi legið fyrir fullnægjandi heimildir til að stefnandi aflaði upplýsinga úr sjúkraskránni. Þessar lagatilvitnanir stefnanda breyta því engu um skyldur stefnanda þess efnis að gæta þess að fyrir lægi lögboðið samþykki stefnda.
Stefnandi vísar jafnframt til 1. tl. 1. mgr. 8. gr. og 1., 2., og 7. tl. 1. mgr. 9. gr. laga nr. 77/2000 og telur að með þessum lagaákvæðum hafi hann haft heimild til aðgangs að sjúkraskrá stefnda Guðmundar. Samþykki samkvæmt 1. tl. 1. mgr. 8. gr., sbr. 7. tl. 2. gr. sömu laga, eða 1. tl. 1. mgr. 9. gr. lá ekki fyrir eins og þegar hefur verið tekin afstaða til. Í 2. tl. 1. mgr. 9. gr. segir að vinnsla viðkvæmra persónuupplýsinga sé heimil ef sérstök heimild standi til vinnslunnar samkvæmt öðrum lögum. Stefnandi hefur ekki sýnt fram á að önnur lög hafi heimilað aðgang hans að sjúkraskrá stefnda Guðmundar. Samkvæmt 7. tl. 1. mgr. 9. gr. er vinnsla viðkvæmra persónuupplýsinga heimil ef hún er nauðsynleg til að krafa verði afmörkuð, sett fram eða varin vegna dómsmáls eða annarra slíkra laganauðsynja. Nægir í þessu sambandi ekki að skilyrði samkvæmt 1. mgr. 9. gr. laganna sé uppfyllt þar sem jafnframt verður að vera uppfyllt eitthvert af skilyrðum 1. mgr. 8. gr. laganna, sbr. 1. mgr. 9. gr. sömu laga. Verður því ekki á þessar málsástæður stefnanda fallist.
Stefnandi vísar loks til þess að vinnubrögð hans í þessu máli hafi á engan hátt verið frábrugðin þeim sem tíðkast hafi um árabil meðal lækna sem unnið hafa matsstörf um læknisfræðileg efni, en slíkt verði ekki gert án þess að skoða sjúkrasögu þess sem í hlut eigi. Þótt þessi staðhæfing geti að öllu leyti verið rétt verður engu að síður að gæta þess að lagaskilyrðum um heimildir til aðgangs að sjúkraskrám og vinnslu á gögnum sem þær innihalda sé fullnægt. Samkvæmt því sem að framan er rakið er ekki fallist á að svo hafi verið.
Með vísan til þess sem að framan greinir verður ekki fallist á að úrskurður stefnda Persónuverndar sé byggður á ófullnægjandi lagaheimildum eða að hann sé rangur. Verður því ekki fallist á kröfu stefnanda um að hann verði felldur úr gildi. Ber því að sýkna stefndu af kröfum stefnanda í málinu.
Með vísan til 3. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála þykir rétt að málkostnaður falli niður.
Gjafvarnarkostnaður stefnda Guðmundar greiðist úr ríkissjóði, sem er málsvarnarlaun lögmanns hans, Þormóðs Skorra Steingrímssonar hdl., en þau þykja hæfilega ákveðin 300.000 krónur án virðisaukaskatts.
Dóm þennan kvað upp Sigríður Ingvarsdóttir héraðsdómari.
D Ó M S O R Ð:
Stefndu, Persónuvernd og Guðmundur Ingi Kristinsson, eru sýknuð af kröfum stefnanda, Yngva Ólafssonar, í máli þessu.
Málskostnaður fellur niður.
Gjafvarnarkostnaður stefnda Guðmundar greiðist úr ríkissjóði, sem er málsvarnarlaun lögmanns hans, Þormóðs Skorra Steingrímssonar hdl., 300.000 krónur.