Mál nr. 747/2015
- Fjárdráttur
- Opinberir starfsmenn
- Ómerkingu héraðsdóms hafnað
- Skilorð
M var sakfelld fyrir fjárdrátt í opinberu starfi með því að hafa á nánar tilgreindu tímabili, sem verkstjóri í matsal Landspítalans í Fossvogi, dregið sér samtals 841.572 krónur sem voru afrakstur sölu matvara í matsalnum og greiddar höfðu verið með peningum sem henni bar að skila í öryggishólf hjá öryggisvörðum spítalans. Var brot hennar talið varða við 247. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 138. gr. laganna. Var refsing M ákveðin fangelsi í fjóra mánuði en fullnustu refsingarinnar frestað skilorðsbundið í tvö ár. Þá var henni gert að greiða Landspítalanum skaðabætur sem svöruðu til fyrrgreindrar fjárhæðar.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma Benedikt Bogason hæstaréttardómari og Ingibjörg Benediktsdóttir og Ingveldur Einarsdóttir settir hæstaréttardómarar.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 14. október 2015 í samræmi við yfirlýsingu ákærðu um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að refsing ákærðu verði þyngd.
Ákærða krefst þess aðallega að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur og málinu vísað heim í hérað, til vara að hún verði sýknuð af kröfu ákæruvaldsins, en að því frágengnu að refsing hennar verði milduð. Þá krefst hún þess aðallega að einkaréttarkröfu verði vísað frá dómi, en til vara að hún verði lækkuð.
Brotaþoli, Landspítalinn, hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti og verður því litið svo á að hann krefjist þess að ákvæði héraðsdóms um einkaréttarkröfu sína verði staðfest, sbr. 1. mgr. 208. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.
Ákærða hefur krafist ómerkingar hins áfrýjaða dóms og reisir þá kröfu sína á því að mat héraðsdóms á sönnunargildi munnlegs framburðar fyrir dómi sé rangt. Í niðurstöðu dómsins var tekin afstaða til munnlegs framburðar vitna fyrir dómi og er ekkert fram komið í málinu um að niðurstaða héraðsdóms um að mat á sönnunargildi þess framburðar sé rangt svo einhverju skipti um úrslit málsins, sbr. 3. mgr. 208. gr. laga nr. 88/2008. Samkvæmt þessu er ómerkingarkröfu ákærðu hafnað.
Ákærða, sem var verkstjóri í matsölu Landspítalans í Fossvogi, sá um að fara með þá peninga sem inn komu vegna matsölunnar í þar til gerð peningaumslög og skila þeim í kassa til öryggisvarða. Gat hún samkvæmt því haft áhrif á ráðstöfun opinberra hagsmuna, sbr. niðurlag 141. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Að þessu gættu en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.
Ákærðu verður gert að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Ákærða, Marzena Wilk, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, samtals 531.838 krónur, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns, Unnars Steins Bjarndal hæstaréttarlögmanns, 496.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 4. mars 2015.
I
Mál þetta, sem dómtekið var 24. febrúar síðastliðinn, var höfðað með ákæru ríkissaksóknara, útgefinni 5. september síðastliðinn, á hendur Marzenu Wilk, kennitala [...], Flúðaseli 40, Reykjavík, „fyrir fjárdrátt í opinberu starfi, með því að hafa á tímabilinu frá 8. október til 2. desember 2013, sem verkstjóri í matsal Landspítalans í Fossvogi, í Reykjavík, dregið sér samtals kr. 841.572, sem voru afrakstur sölu matvara í matsalnum og greiddar höfðu verið með peningum framangreinda 56 daga, sem bar að skila í öryggishólf hjá öryggisvörðum spítalans.
Telst þetta varða við 247. gr., sbr. 138. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Þess er krafist að ákærða verði dæmd til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.
Skaðabótakrafa
Landspítalinn háskólasjúkrahús krefst þess að ákærða verði dæmd til að greiða Landspítala kr. 841.572, auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 5. desember 2013 til greiðsludags.“
Ákærða neitar sök og krefst sýknu. Hún krefst þess aðallega að bótakröfunni verði vísað frá dómi en til vara að hún verði lækkuð. Þá krefst hún þess að sakarkostnaður verði greiddur úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun verjanda hennar.
II
Málavextir eru þeir að fimmtudaginn 12. desember 2013 komu tveir starfsmenn Landspítalans til lögreglu og kærðu ákærðu fyrir fjárdrátt. Þau kváðu það hafa verið hlutverk gjaldkera að setja peninga, sem komi inn fyrir matsölu, í þar til gerða poka og skila þeim í kassa hjá öryggisvörðum. Í byrjun október hafi verið skipt um gjaldkera og þá hafi ákærða, sem hafi verið verkstjóri, ákveðið að breyta verklaginu og sjálf tekið að sér að fara með peningana í kassann. Þetta hafi hún ákveðið án þess að aðrir vissu af. Í lok vikunnar, áður en ákærða var kærð, hefðu borist upplýsingar frá bókhaldinu um að peningar frá vinnustað ákærðu hefðu ekki skilað sér. Þetta hefði verið rætt við hana og hún svarað því til að hún hefði skilað peningunum og væri með afrifur af peningapokum hjá sér. Þessar afrifur hefðu verið bornar saman við afrifur öryggisvarðanna og þá hefði komið í ljós að þær stemmdu ekki. Þá hefði aftur verið rætt við ákærðu sem hefði ítrekað að hún hefði skilað peningunum. Þá hefði hún verið spurð hvenær hún hefði síðast skilað af sér og hún sagt það hafa verið að morgni 3. desember. Upptökur úr öryggismyndavél frá þessum tíma hefðu verið skoðaðar og hefði ákærða ekki sést á þeim. Þá hefði aftur verið talað við hana og hún þá sagst vilja fá lögfræðing.
Peningar, sem hér um ræðir, voru settir í þar til gerðan poka. Hver poki er með þremur afrifum og á sá, sem skilar poka í kassa hjá öryggisvörðum, að taka eina afrifu til sönnunar fyrir því að hann hafi skilað pokanum í kassann. Öryggisvörður á að taka aðra afrifu þegar poka er skilað í kassann og þriðja afrifan er svo tekin þegar pokinn er afhentur í banka.
Lögreglan yfirheyrði ákærðu 5. mars 2014 að viðstöddum verjanda. Hún neitaði alfarið að tjá sig um málið. Hún var aftur yfirheyrð 21. mars að viðstöddum verjanda og henni boðið að tjá sig sjálfstætt um málið, en hún neitaði því. Þá var henni kynnt að um væri að ræða samtals 56 tilvik þar sem hún væri grunuð um fjárdrátt og upphæðin væri sú sem í ákæru greinir. Ákærða gerði ekki athugasemdir við þessi tilvik eða fjárhæðina. Síðan er bókað að ákærða hafi tekið til máls og sagt: „Það var alltaf ein kvittun sem skilaði og hélt eftir og ég lét þau hafa kvittanirnar, kannski gerði ég mistök með því að gera það, ég hefði kannski ekki átt að gera það.“
III
Við þingfestingu neitaði ákærða sök og hafnaði bótakröfunni. Hún mætti ekki við upphaf aðalmeðferðar og kvað verjandi hennar hana vera veika og ekki ljóst hvort hún hygðist gefa skýrslu fyrir dómi. Við upphaf seinni hluta aðalmeðferðar upplýsti verjandinn að ákærða ætlaði ekki að mæta og óskaði ekki eftir að gefa skýrslu við aðalmeðferðina.
Nú verður rakinn framburður vitna við aðalmeðferð. Verkefnastjóri í tekjubókhaldi Landspítalans bar að þegar bankareikningur hefði verið stemmdur af við innkomu fyrir matsölu hefði komið í ljós að það vantaði öll innlegg fyrir október og nóvember. Vitnið kvaðst hafa rætt við ákærðu og spurt hana hvort hún hefði gleymt að fara með innleggið. Ákærða kvað peningana vera í skúffu og myndi hún fara með þá í hólfið hjá öryggisvörðunum. Vitnið tók fram að ákærða talaði mjög bjagaða íslensku en það kvaðst hafa skilið hana svona. Ákærða hefði svo hringt í sig nokkrum dögum síðar og sagt að í skúffunni hefðu aðeins verið kvittanir, það er afrifur. Frekari afskipti kvaðst vitnið ekki hafa haft af málinu.
Rekstrarstjóri matsölu Landspítalans á þessum tíma og næsti yfirmaður ákærðu kvað að komið hefði í ljós að uppgjör hefði vantað í banka. Ákærða hefði sagt að hún hefði tekið við af gjaldkera að skila uppgjörunum. Þetta hefði hún gert eftir að nýr gjaldkeri hefði komið til starfa. Eftir það hefðu uppgjörin ekki borist bankanum. Vitnið kvaðst hafa spurt ákærðu um þetta og hefði hún svarað því til að hún hefði skilað uppgjörunum. Vitnið kvaðst hafa, ásamt deildarstjóra öryggissviðs, farið yfir myndir í öryggismyndavél á þeim dögum og tíma er ákærða sagðist hafa skilað inn uppgjörum og hefði hún ekki sést á myndunum. Eftir þetta hefði ákærða verið spurð aftur um það hvenær hún hefði skilað inn uppgjörum og hefði hún gefið upp sömu dag- og tímasetningar og fyrr. Ítrekað hefði verið reynt að fá skýringar hjá ákærðu en hún hefði haldið fast við að hún hefði skilað inn uppgjörum á áðurgreindum tíma. Vitnið kvað ákærðu tala góða íslensku og hefðu samskipti þeirra farið fram á málinu.
Deildarstjóri öryggismála hjá Landspítalanum kvað yfirmann eldhúss spítalans hafa leitað til sín vegna þess að peningauppgjör frá einu eldhúsinu hefðu ekki skilað sér til banka. Hann kvað yfirmanninn hafa skýrt frá því að gjaldkeri í matsölu gengi frá uppgjöri eftir daginn og setti peninga í verðmætapoka. Þetta séu pokar sem límdir séu aftur og auðkenndir með tölum og bókstöfum á þremur flipum. Þegar gengið væri frá uppgjörinu frá matsalnum væri pokinn settur í verðmætahólf hjá öryggisvörðum. Hjá þessu hólfi er öryggismyndavél sem beint er að hólfinu þannig að það sjáist hverjir setji í hólfið. Deildarstjórinn kvaðst hafa, ásamt rekstrarstjóra, rætt við ákærðu sem sagðist hafa skilað uppgjörunum í verðmætahólfið. Hún kvaðst hafa skilað þeim á tímabilinu hálfellefu til hálftólf á morgnana. Þegar skilað er eigi að rífa eina afrifu af pokanum og hafi ákærða verið spurð um afrifurnar en hún hafi ekki getað gert grein fyrir þeim. Hún hefði heldur engum afrifum getað skilað en þær hefðu átt að vera hennar sönnun fyrir því að hafa skilað peningapokum. Þessu næst hafi myndir úr öryggismyndavél verið skoðaðar. Hann kvað ákærðu aldrei sjást skila pokum af sér í verðmætahólfið. Ákærða hefði hins vegar sést greinilega þegar hún kom til vinnu. Hún sé auðgreinanleg. Hann kvað aftur hafa verið gengið á ákærðu um að skýra satt og rétt frá og þá hefði hún svarað að hún vildi fá lögfræðing. Eftir þetta hefði ákærða verið kærð til lögreglu.
Deildarstjórinn kvað pokana ekki vera auðkennda þannig að ekki væri hægt að vita hvaðan hver einstakur poki væri, en þarna væru geymdir pokar frá öllum þeim stöðum þar sem peningar væru innheimtir hjá spítalanum. Hann kvað verðmætahólfið vera læst og lykillinn hefði verið geymdur í skáp hjá öryggisvörðum. Hann kvaðst ekki muna á hvaða tungumáli hafi verið rætt við ákærðu en taldi rekstrarstjórann aðallega hafa haft orð fyrir þeim.
Yfirmaður ákærðu, deildarstjóri eldhúss og matsala á spítalanum, bar að borist hefði tilkynning um að uppgjör vantaði frá vinnustað ákærðu. Rekstrarstjóri hefði haft samband við sig og sagt sér frá þessu. Þær hefðu rætt við ákærðu sem hefði sagt þeim að hún hefði sett peningapokana á réttan stað, það er í öryggishólfið. Þessu næst hefðu myndir úr öryggismyndavél verið skoðaðar en þar hefði hún ekki sést setja poka í hólfið. Þá hefði aftur verið rætt við hana en hún hefði ekki getað gefið skýringar á þessu. Henni hefði verið boðið að fara í annað starf þar sem hún myndi ekki hafa fjármál með höndum en hún hefði ekki þegið það. Þá kvað hún ákærðu hafa framvísað afrifum en þær hafi verið af gömlum pokum og ekki getað skýrt málið. Hún kvað ákærðu hafa talað ágæta íslensku og hefði hún rætt við hana á því máli. Íslenskukunnáttan hefði reyndar verið forsenda þess að hún fékk starfið.
Gjaldkeri á vinnustað ákærðu kvað hana hafa verið yfirmann sinn á þessum tíma. Gjaldkerinn kvaðst hafa tekið við peningum og eftir hádegismat hefði hún átt að telja þá og setja í sérstakt umslag. Það hefði svo verið sett í skúffu inni á skrifstofu. Á föstudögum átti svo að senda peningana í banka. Gjaldkerinn kvað ákærðu oft hafa beðið sig að vinna við ýmislegt annað en að sýsla með peningana og þá hefði hún sjálf talið þá og sent. Gjaldkerinn kvað ákærðu hafa sýnt sér hvert peningarnir ættu að fara en hún taldi sig aldrei hafa farið með þá. Ákærða hefði sagst hafa farið með peningana en gjaldkerinn kvaðst ekki hafa séð hana gera það.
IV
Ákærða neitar sök en hefur ekki gefið skýrslu, hvorki hjá lögreglu né fyrir dómi, eins og rakið var. Í kaflanum hér að framan var rakinn framburður vitna og í II. kafla var gerð grein fyrir því hvernig meðferð peninga fyrir matsölu átti að vera háttað. Samkvæmt því, sem þar kemur fram, átti að setja peninga í þar til gerðan poka og koma honum í öryggishólf. Um leið átti að rífa flipa af pokanum og geyma til sönnunar því að pokanum hefði verið skilað. Samkvæmt framburði vitna ákvað ákærða að fara sjálf með peningapokana í hólfið og breytti með því fyrra verklagi. Af framangreindum gögnum málsins er sannað að peningapokar frá matsal þeim, er ákærða veitti forstöðu, skiluðu sér ekki í hólfið eftir þann tíma. Starfsfólk spítalans hefur borið að hafa rætt við ákærðu og hún gefið því framangreindar skýringar. Þessi vitni hafa og borið að skýringar ákærðu hafi ekki staðist eins og rakið var. Samkvæmt þessu telur dómurinn sannað að ákærða hafi dregið sér þetta fé eins og henni er gefið að sök í ákærunni. Brot ákærðu er rétt fært til refsiákvæðis í ákærunni og með því að hún var opinber starfsmaður verður henni gerð refsing eftir reglu 138. gr. almennra hegningarlaga. Ákærðu hefur ekki áður verið refsað og er refsing hennar hæfilega ákveðin 4 mánaða fangelsi er bundin skal skilorði eins og í dómsorði greinir.
Eins og rakið var gerði ákærða ekki athugasemdir hjá lögreglu við fjárhæð þá sem hún síðar var ákærð fyrir að draga sér. Það eru því ekki efni til annars en taka bótakröfuna til greina með vöxtum eins og í dómsorði greinir. Það athugast að ákærðu var birt bótakrafan 21. mars 2014 og miðast upphaf dráttarvaxta við þann dag er liðnir voru 30 dagar frá þeim degi.
Loks verður ákærða dæmd til að greiða málsvarnarlaun verjanda síns að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir en annan kostnað leiddi ekki af rekstri málsins.
Arngrímur Ísberg héraðsdómari kvað upp dóminn.
D ó m s o r ð :
Ákærða, Marzena Wilk, sæti fangelsi í 4 mánuði, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og falli hún niður að liðnum 2 árum frá deginum í dag að telja, haldi ákærða almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Ákærða greiði Landspítalanum 841.572 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 5. desember 2013 til 21. apríl 2014 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.
Ákærða greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Leifs Runólfssonar hdl., 327.360 krónur.