- Brot gegn valdstjórninni
- Hótanir
- Skilorðsrof
- Miskabætur
|
Fimmtudaginn 19. febrúar 2009. |
Nr. 551/2008. |
Ákæruvaldið(Sigríður Elsa Kjartansdóttir, saksóknari) gegn X (Gísli M. Auðbergsson hdl.) |
Brot gegn valdstjórninni. Hótanir. Skilorðsrof. Miskabætur.
X var sakfelldur fyrir brot gegn 1. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því að hafa hótað og veist að starfsmönnum félagsmálayfirvalda, sem höfðu málefni fjölskyldu X til meðferðar. Þá var X einnig sakfelldur fyrir brot gegn 233. gr. sömu laga með því að hafa hótað barnsmóður sinni. Við ákvörðun refsingar var meðal annars litið til eðlis brotanna og fjölda þeirra og að með þeim rauf hann skilorð eldra dóms. Með hliðsjón af 77. gr. almennra hegningarlaga þótti refsing X hæfilega ákveðin fangelsi í 10 mánuði.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Hjördís Hákonardóttir og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.
Ríkissaksóknari skaut máli þessu til Hæstaréttar 16. september 2008 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst staðfestingar á sakfellingu ákærða, en að refsing verði þyngd og ákærði dæmdur til greiðslu skaðabóta til B 600.000 krónur og C 200.000 krónur auk nánar tilgreindra vaxta og kostnaðar.
Ákærði krefst aðallega sýknu og frávísunar skaðabótakrafna frá héraðsdómi, en til vara skilorðsbindingar refsingar og lækkunar á skaðabótakröfum.
I
Niðurstaða hins áfrýjaða dóms um sakfellingu að því er varðar ákæruliði 1, 3, 4, 6 og 7 verður staðfest með vísan til forsendna.
Eins og greinir í héraðsdómi játaði ákærði hjá lögreglu þá háttsemi sem lýst er í 2. lið ákæru. Lögreglumaður sá sem tók skýrsluna af ákærða staðfesti hana fyrir dómi og þegar hún var borin undir ákærða við aðalmeðferð málsins gaf hann ekki eðlilega skýringu á breyttum framburði sínum. Með þessari athugasemd en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur um þennan tölulið ákærunnar.
Í 5. ákærulið er ákærða gefið að sök að hafa hótað félagsmálastjóra hjá Fjölskylduþjónustu [...] líkamsmeiðingum og lífláti í tveimur smáskilaboðum eins og nánar er lýst í hinum áfrýjaða dómi. Skilaboðin voru send úr tölvu. Við rannsókn málsins var upplýst að IP tala þeirrar tölvu sem þau voru send frá tengdist opnu þráðlausu neti Orkuveitu [...]. Í skýrslu lögreglu um rannsóknina, sem staðfest var fyrir dómi, segir að það „gæti hvaða talva sem er loggað sig inn á þetta net og því ómögulegt að segja nákvæmlega hvaðan umrædd SMS-skilaboð voru send.“ Í skýrslu ákærða fyrir dómi kemur fram að hann hafi á þessum tíma ekki haft nettengingu á heimili sínu og því farið á bókasafnið eða [...] í þeim erindum. Ákærði kannast við að hafa, um tíu dögum áður en skilaboðin voru send, sett fram nánast samhljóða hótanir á spjallrás Barnalands þar sem hann átti í orðaskiptum við nokkra ónafngreinda aðila.
Vegna ágreinings ákærða við félagsmálayfirvöld vaknaði þegar sá grunur að smáskilaboðin sem ákært er fyrir stöfuðu frá honum. Hann hefur hins vegar staðfastlega neitað að hafa sent þau. Ekki er unnt að staðreyna frá hvaða tölvu skilaboðin voru send og þar sem ýmsir höfðu séð þau orð sem ákærði lét falla á framangreindri spjallrás, þá verður ekki útilokað að einhver annar hafi tekið orðalagið upp eftir ákærða og sent þessi smáskilaboð. Aðstæður eru þannig að fleiri gætu hafa sent skilaboðin. Ákæruvaldinu hefur ekki tekist að sýna fram á það með þeim hætti að ekki verði vefengt með skynsamlegum rökum að ákærði sé sendandinn, verður hann því sýknaður af þeirri háttsemi sem lýst er í 5. ákærulið með vísan til 1. mgr. 109. gr., sbr. 108. gr., laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.
II
Sakarferli ákærða er rétt lýst í hinum áfrýjaða dómi. Eins og þar kemur fram var hann meðal annars dæmdur til skilorðsbundinnar refsingar fyrir almannahættubrot árið 1993, sem því fólki sem hann hótaði var kunnugt um. Um miðjan febrúar árið 2006 var ákærði dæmdur fyrir líkamsárás og hlaut þriggja mánaða skilorðsbundinn fangelsisdóm. Hið fyrsta þeirra brota sem hann er nú sakfelldur fyrir var framið stuttu síðar og rauf hann þar með skilorðið.
Ákærði er nú sakfelldur fyrir fimm brot gegn valdstjórninni samkvæmt ákæruliðum 1, 2, 3, 4 og 7 og eru þau réttilega heimfærð til 1. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Markmið þessa ákvæðis er meðal annars að veita vernd þeim opinberu starfsmönnum sem eiga það sérstaklega á hættu að verða fyrir árásum eða óþægindum vegna þeirra verkefna sem þeir þurfa að sinna í starfi sínu. Ákærði er einnig sakfelldur samkvæmt ákæruliðum 3 og 6 fyrir tvö hótunarbrot sem beindust gegn fyrrum eiginkonu hans og barnsmóður og eru þau rétt heimfærð til 233. gr. almennra hegningarlaga.
Málefni fjölskyldu ákærða voru til meðferðar hjá félagsmálayfirvöldum þegar dóttur ákærða var komið í fóstur í lok apríl 2006. Þau brot sem ákærði er sakfelldur fyrir áttu sér stað á tímabilinu frá vori 2006 til miðs ágúst 2007. Eru þau að hans sögn tengd umgengnisrétti hans við dótturina. Vikið er í málinu að geðheilsu og vitsmunaþroska ákærða en engin læknisvottorð eða próf þar að lútandi eru í málsgögnum. Fyrr þann dag, sem fjallað er um í 6. ákærulið, hafði ákærði og fyrrum eiginkona hans deilt harkalega vegna eigna og hún brotið rúður í bifreið hans. Það atvik sem ákært er fyrir átti sér hins vegar stað mörgum klukkustundum síðar og lýsti ákærði því fyrir dómi að hann hefði áður en hann framdi verknaðinn setið úti í móa og hugleitt hvort hann ætti að gera þetta. Hann hefði verið búinn að segja konunni að hann gæti líka eyðilagt hennar dót. Hafi hann ætlað að sýna henni að hann stæði við það sem hann segði, en skemmdarverk framdi hann þó ekki. Verður ekki fallist á með héraðsdómi að skilyrði séu til að líta til heimildar 75. gr. almennra hegningarlaga til lækkunar á refsingu vegna þessa tilviks eða annarra sem ákært er fyrir.
Þegar litið er til þeirra atriða sem hér að framan hafa verið rakin, þar með talið eðlis brotanna og fjölda þeirra og til skilorðsrofs, en jafnframt höfð hliðsjón af 77. gr. almennra hegningarlaga, þá verður staðfest refsiákvörðun héraðsdóms.
III
Háttsemi ákærða hefur haft alvarlegar afleiðingar fyrir brotaþola B og C. B sagði upp starfi sínu og flutti búferlum með fjölskyldu sína. Bæði lýsa þau einkennum áfallastreitu. Miskabótakröfur beggja verða teknar til greina, sbr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, með vöxtum svo sem nánar greinir í dómsorði. Frávísun bótakröfu [...] frá héraðsdómi og lögmannskostnaður vegna bótakrafna voru ekki til umfjöllunar fyrir Hæstarétti.
Ákærði skal greiða allan áfrýjunarkostnað málsins samkvæmt yfirliti ríkissaksóknara um sakarkostnað, auk málsvarnarlauna skipaðs verjanda, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði, en staðfest verða ákvæði hins áfrýjaða dóms um sakarkostnað í héraði.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður um refsingu ákærða, X.
Ákærði greiði B 600.000 krónur í miskabætur með vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 23. janúar 2007 til 28. desember 2007, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.
Ákærði greiði C 200.000 krónur í miskabætur með vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 9. janúar 2007 til 28. desember 2007, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.
Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað skal vera óraskað.
Ákærði greiði áfrýjunarkostnað málsins, samtals 373.902 krónur, þar með talin málsvarnarlaun og ferðakostnað skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Gísla M. Auðbergssonar héraðsdómslögmanns, 330.980 krónur.
Dómur Héraðsdóms Norðurlands eystra 20. maí 2008.
Mál þetta, sem var dómtekið 25. mars sl. höfðaði ríkissaksóknari hér fyrir dómi þann 19. nóvember 2007 gegn X, kt. [...], [...],[...];
„fyrir hótanir gagnvart A, barnsmóður sinni og fyrrum eiginkonu og brot gegn valdstjórninni gagnvart starfsmönnum Fjölskylduþjónustu [...], [...], vegna starfa þeirra, eins og hér greinir:
1. Fyrir brot gegn valdstjórninni, með því að hafa, vorið 2006, í símtali við B, félagsmálastjóra hjá Fjölskylduþjónustu [...], þar sem hún var stödd á vinnustað sínum, [...], [...], hótað að kveikja í húsi hennar að [...], [...], sem þá var heimili B og fjölskyldu hennar.
2. Fyrir brot gegn valdstjórninni, með því að hafa, þriðjudaginn 3. október 2006, um klukkan 11.40, í símtali við C, starfsmann Fjölskylduþjónustu [...], þar sem hann var staddur á vinnustað sínum, [...], [...], hótað C og ofangreindri B líkamsmeiðingum.
3. Fyrir brot gegn
valdstjórninni og hótanir, með því að hafa, tvisvar sinnum sunnudaginn 8.
október 2006, hótað að taka áðurnefnda B og A, barnsmóður sína, af lífi. Hótanirnar komu annars vegar fram í símtali
ákærða við C um kl. 23.30 um kvöldið og sagði ákærði þá að hann ætlaði að láta
drepa B og A ef D, dóttir ákærða, yrði áfram í fóstri á [...] eftir áramót og
hins vegar í eftirfarandi smáskilaboðum sem send voru í síma B nr. [...] úr
síma ákærða [...], kl. 23.29:
„Ef B lengir fostur heimilid hja E tha kem ep nordur og drep thig og hana”
4. Fyrir brot gegn valdstjórninni, með því að hafa, þriðjudaginn 9. janúar 2007, á skrifstofu áðurnefnds C veist að honum og hent drykkjaríláti sem innihélt kaffi í vegg þannig að ílátið brotnaði og kaffi helltist yfir skrifborð sem C sat við og á veggi og gólf og því næst lyft skrifborðinu upp og ýtt því með afli í átt að C, sem tókst að stöðva ákærða.
5. Fyrir brot gegn
valdstjórninni, með því að hafa, föstudaginn 19. janúar 2007, hótað áðurnefndri
B, líkamsmeiðingum og lífláti í tveimur eftirfarandi smáskilaboðum sem bárust
klukkan 16.56 og 16.58 og send voru í símanúmer hennar, [...], úr óþekktri
tölvu;
„mer er drullu sama tott tu kærir mig tu vilt ekki hitta mig i dimmu husasundi
her a [...]”
„tad verdur gaman ad finna hnifin renna inn i hold titt og sleikja blodi sida
af honum og rista svo u”
6. Fyrir hótanir gagnvart A, barnsmóður sinni, með því að hafa, að kvöldi miðvikudagsins 9. maí 2007, með það fyrir augum að vekja hjá A ótta um velferð hennar og annarra, kastað logandi bensínsprengju á gám sem innihélt eigur A, en gámurinn stóð við hús nr. [...] við [...] á [...], þar sem rekið er sambýli á vegum Félagsþjónustu [...] en þar dvaldist A þá ásamt fleiri einstaklingum.
7. Fyrir brot gegn valdstjórninni, með því að hafa, aðfaranótt sunnudagsins 12. ágúst 2007, á veitingastaðnum [...], ...], [...], veist að F, starfsmanni Fjölskylduþjónustu [...] og hótað honum líkamsmeiðingum og lífláti og að brenna hús og bifreið hans og fyrir að hafa í beinu framhaldi af ofangreindum hótunum reynt að slá F í andlitið.
Teljast brot ákærða samkvæmt ákæruliðum 1,2,3 að því er varðar B, 4, 5 og 7 varða við 1. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, með síðari breytingum, en brot ákærða samkvæmt ákæruliðum 3, að því er varðar A, og 6 varða við 233. gr. sömu laga.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.
Bótakröfur:
Ákæruliður 1., 2., 3. og 5: Af hálfu B, kt. [...], er krafist miskabóta að fjárhæð kr. 600.000 auk vaxta samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001, frá 23. janúar 2007 til greiðsludags, en ef greitt verður síðar en 21. október 2007 með dráttarvöxtum frá þeim degi samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr. sömu laga til greiðsludags. Krafist er lögmannsþóknunar að fjárhæð kr. 47.600, auk virðisaukaskatts.
Ákæruliður 2. og 4: Af hálfu C, kt. [...], er krafist bóta að fjárhæð kr. 200.000 auk vaxta samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001, frá 9. janúar 2007 til greiðsludags, en ef greitt verður síðar en 24 október 2007 með dráttarvöxtum frá þeim degi samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr. .sömu laga til greiðsludags. Krafist er greiðslu lögmannsþóknunar að fjárhæð kr. 35.700, auk virðisaukaskatts.
Ákæruliður 4: Af hálfu [...], kt. [...], er krafist skaðabóta að fjárhæð kr. 30.000 auk vaxta samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001, af kr. 15.000 frá 27. júní 2006 til 9. janúar 2007 og af kr. 30.000 frá þeim degi til greiðsludags, en ef greitt verður síðar en 24.október 2007 með dráttarvöxtum frá þeim degi samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr. sömu laga til greiðsludags. Krafist er greiðslu lögmannsþóknunar að fjárhæð kr. 35.700, auk virðisaukaskatts.”
Ákærði krefst aðallega sýknu, en til vara vægustu refsingar sem lög leyfa. Þá krefst hann þess að bótakröfum verði vísað frá dómi, en til vara að þær verði lækkaðar.
I.
Fjölskylduþjónusta [...] hefur unnið með málefni tengd ákærða. Skýrði B, fyrrverandi félagsmálastjóri svo frá að sú vinna hafi hafist af sinni hálfu sumarið 2005. Hún lýsti því að ákærði eigi við nokkra greindarskerðingu að stríða, svo og andlega erfiðleika. Hann nýti hins vegar vel þá greind sem hann hafi, en eigi erfitt með að halda vinnu. Hann og sambýliskona hans hafi verið með þrjú ung börn og átt við erfiðleika að etja, en ákærði hafi ekki tekið afskiptum félagsmálayfirvalda vel. Lögð hafi verið mikil áhersla á að ná góðu samstarfi. Samskiptin hafi verið betri framan af, en síðan hafi ákærði orðið erfiðari í samstarfi. Hún og C hafi skipt með sér verkefnum sem vörðuðu ákærða og fjölskyldu hans. Vitnið B kveður afleiðingar af atferli ákærða hafa undið upp á sig. Hún rifjaði upp að eftir fund með ákærða hafi hún verið svefnlaus heila nótt og sagt upp starfi sínu daginn eftir. Hún hafi verið nýlega búin að kaupa sér hús, en selt það og flutt í annað sveitarfélag.
Vitnið C starfsmaður Fjölskylduþjónustu [...] lýsir samskiptum við ákærða almennt þannig að málefni hans hafi verið á hendi þeirra B. Hann hafi haft mikil samskipti við ákærða, einkum eftir að ákærði hafi farið að hafa uppi hótanir. Málefni ákærða hafi mjög oft verið til viðfangs og kostað mikla fyrirhöfn. Barnaverndarnefnd fari meðal annars með forsjá dóttur hans. Ákærði hafi oft átt erindi, eða talið sig eiga erindi við vitnið vegna þessa. Vitnið kveðst hafa haft varann á sér vegna ákærða, einkum varðandi börn sín. Vitnið kveðst hafa óttast að ákærði myndi láta verða af hótunum sem hann hafi haft uppi. Hafi það orðið vitninu til andlegra óþæginda. Vitnið kveðst stundum hafa misst svefn og segir að sig dreymi ákærða ennþá, en vitnið hafi ekki haft samskipti við hann síðan síðasta haust. Lund sín hafi smám saman lést eftir að þeim lauk. Vitnið og fjölskylda þess eigi fastar rætur í samfélaginu og ekki hafi komið til greina að flytja búferlum eða skipta um atvinnu, en það hafi verið vitninu erfitt að dvelja í sama samfélagi og ákærði.
Ákærði kveðst eiga barn fætt 2004 með A, fyrrverandi eiginkonu sinni. Afskipti Fjölskylduþjónustunnar hafi byrjað árið 2005. Hafi A samþykkt að barnið færi í tímabundið fóstur. Hafi sér veist örðugt að fá að umgangast dóttur sína eftir það.
Ákærði kveðst hafa fæðst með litningagalla og eiga í samskiptaörðugleikum. Hann kveðst vera öryrki og ekki hafa stundað vinnu síðan í júní 2006.
Vitnið G, starfsmaður Fjölskylduþjónustunnar kveðst ekki hafa orðið vitni að einstökum tilvikum sem þetta mál varðar, en hafa heyrt af þeim og upplifað óróleika sem af þeim leiddi. Hún kveðst hafa skynjað að fyrrverandi eiginkona ákærða var leið og hrædd vegna hegðunar hans.
Vitnið H starfsmaður Fjölskylduþjónustunnar kveðst ekki hafa orðið vitni að þeim atvikum sem þetta mál varðar, en hafa orðið vitni að því að ákærði var með hávaða og læti á skrifstofu C í júnímánuði 2006. Hún hafi ætlað að kalla eftir aðstoð, en áður en af því yrði hafi ákærði yfirgefið staðinn með látum. Hún kvaðst vita að ákærði hefði hótað C og B.
II.
Vitnið B lýsti aðdraganda atviks sem lýst er í 1. tölulið ákæru þannig, að eiginkona ákærða hafi flúið heimilið í lögreglufylgd og dvalið á neyðarathvarfi. Ákærði hafi hringt til vitnisins vegna þessa og verið mjög reiður. Hún hafi neitað að tala við hann og vísað til að þetta skyldu þau ræða síðar, en hann hafi þá orðið svo reiður að hann hafi hótað að kveikja í húsi hennar. Barn hennar hafi verið þar heima.
Ákærði ber að hafa talað við B í síma að kvöldi til og hún hafi greinilega verið að skemmta sér. Hún hafi ekki viljað við sig tala. Hann hafi þá sagt að hann myndi brenna hús hennar áður en hún kæmi heim. Ákærði kveðst hafa sagt þetta vegna þess að hann hafi verið niðurbrotinn vegna málefna dóttur sinnar.
Með framburði ákærða og vitnisins B er nægilega sannað að ákærði hafi í símtali hótað að kveikja í húsi hennar. Má slá því föstu að hótunin hafi verið sett fram út af opinberu starfi B. Í ákæru er þetta talið varða við 1. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga, en það ákvæði áskilur að ráðist sé að opinberum starfsmanni með hótun um ofbeldi. Með því að ákærði hótaði að fremja brot sem var til þess fallið að valda B ótta um líf barns síns, verður háttsemi ákærða talin varða við greint ákvæði.
III.
Vitnið C kveðst hafa fært í dagbók sína um það tilvik sem 2. töluliður í ákæru varðar að hann hafi átt símtal við ákærða 3. október 2006 klukkan 11:40. Ákærða hafi verið boðið að koma í viðtal næsta miðvikudag. Ákærði hafi sagt að ef dóttir hans yrði áfram í fóstri á nánar greindum stað, myndi hann kæra fósturforeldrana fyrir kynferðislegt ofbeldi gegn henni. Jafnframt hafi hann sagt að hann fengi þá vini sína til að beita vitnið og B ofbeldi, til dæmis með því að taka af þeim fingur, fyrir eitt hundrað þúsund krónur.
B kveðst kannast við þetta tilvik, sem líklega hafi sprottið af umgengnismálum ákærða við dóttur sína. Hann hafi sagt að hann gæti vel fengið leigumorðingja á [...], þeir væru ekki svo dýrir og líklega hafi ákærði meira að segja tilgreint hvað þeir kostuðu og hann ætlaði að láta skera fingur af henni og C.
Ákærði ber um þetta atvik að hann hafi þrætt við C í síma seinni part dags, en ekki haft hótanir í frammi. Símtalið hafi snúist um að ákærði hafi verið svikinn um umgengni við dóttur sína. Ákærði greindi lögreglu frá því við skýrslugjöf að hann hefði haft í frammi hótun um líkamsmeiðingar en kveðst fyrir dómi hafa sagt lögreglu ósatt.
Þótt ákærði hafi dregið framburð sinn fyrir lögreglu til baka, verður litið til þess að framburður C er afar trúverðugur. Kveðst hann hafa ritað minnispunkta um samtalið í dagbók sína þegar að því loknu og hafði þá tiltæka við skýrslugjöf fyrir dómi. Verður framburður hans lagður til grundvallar og ákærði sakfelldur fyrir að hafa í greindu símtali hótað C og B líkamsmeiðingum. Var hótunin hvað B varðaði höfð uppi við samstarfsmann hennar. Varðar þetta við 106. gr. almennra hegningarlaga.
IV.
Vitnið C kveður ákærða hafa hringt til sín klukkan 23.30 þann 8. október 2006. Vitnið bar um símtalið samkvæmt minnispunktum dagsettum degi síðar. Þar hafi ákærði sagt að hann ætlaði að láta drepa B og fyrrverandi eiginkonu sína ef dóttir hans yrði áfram í fóstri á nánar greindum stað. Það kostaði 200.000 krónur að fá mann til að drepa þær og að það væri hægt að fá mann til verksins strax.
B kveðst e.t.v. blanda einhverjum hótunum ákærða saman, en hún kveðst minnast þess að ákærði hafi hótað að drepa hana og fyrrverandi sambýliskonu sína. Vitnið skoðaði lögregluskýrslu sem það gaf er það kærði þau skilaboð sem rakin eru í ákæru og kannaðist þá þegar við þau. Gat hún þess að á þessum tíma hefði ákærði ekki haft forsjá dóttur sinnar og hún hefði verið í tímabundnu fóstri. B kveðst aldrei hafa efast um að ákærði væri maður til að framkvæma hótanir sínar.
Ákærði kveðst ekki hafa látið greind orð falla við C, en kannast við að hafa sent símaskilaboðin í fljótfærni, án þess að hafa meint neitt með þeim. Hann hafi rætt í síma við C varðandi umgengni við dóttur sína, en ekki haft uppi neinar hótanir. Hann kveðst hafa reiðst við C og slitið símtalinu fyrirvaralaust.
Borinn var undir ákærða framburður hans fyrir lögreglu í desember 2006 þar sem hann kvaðst hafa sagt ýmislegt í símtalinu. Kvaðst hann hafa verið reiður við C en ekki hafa hótað honum neinu.
Með sömu forsendum og í næsta kafla hér að framan greinir þykir ekki varhugavert að leggja framburð C til grundvallar um efni greinds símtals. Hafði ákærði þar uppi við samstarfsmann B hótun um að lífláta hana. Samskonar hótun beindi ákærði til B með símaskilaboðum. Varðar þetta við 1. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga. Ákærði hótaði einnig í símtalinu og skilaboðunum að lífláta A. Var sú hótun til þess fallin að vekja hjá B og C ótta um líf eða velferð A. Varðar þetta við 233. gr. almennra hegningarlaga.
V.
Vitnið C lýsir því atviki sem 4. töluliður ákæru varðar þannig að ákærði hafi skyndilega misst stjórn á sér á skrifstofu vitnisins. Hann hafi kastað kaffibolla frá sér. Vitnið kveðst ekki geta fullyrt að ákærði hafi ætlað að kasta honum í vitnið, en bollinn hafi ekki farið langt frá vitninu. Ákærði hafi síðan lyft skrifborðinu upp og í átt að vitninu. Vitnið kveðst hafa spyrnt með fæti gegn borðinu. Ákærði hafi ekki náð að ýta því langt og þá sleppt borðinu og gengið út og lokað dyrunum harkalega. Vitnið tók fram að ákærði hafi ráðist að sér með mjög svipuðum hætti í júnímánuði árið 2006.
Ákærði ber um þetta að kaffi hafi ekki skvest á borð, því að hann hafi fleygt eða slegið kaffikrús úr plasti til hliðar við C. Hann hafi lyft borðinu og sett það niður aftur. Þetta hafi ekki beinst gegn C, heldur félagsmálakerfinu í heild. C hafi verið að skýra sér frá neitun barnaverndarnefndar um að ákærði fengi að sækja dóttur sína.
Vitnið B kveðst ekki hafa orðið vitni að þessu atviki. Á þessum tíma hafi staðið til að ganga frá umgengnissamningi við ákærða, en það hafi ekki gengið neitt. Hún hafi orðið vör við læti og öskur. Allt starfsfólkið hafi hlaupið fram. Hún hafi haft áhyggjur af öryggi starfsfólks eftir þetta og meðal annars staðið fyrir því að halda sjálfsvarnarnámskeið fyrir það. Starfsfólkið hafi verið áhyggjufullt og óttast um öryggi sitt.
Vitnið I lögreglumaður kom á vettvang eftir þetta atvik. Aðspurður kvað hann starfsfólk hafa verið miður sín og borið á ótta við ákærða meðal þess.
Vitnið G kveðst ekki hafa orðið vitni að þessu atviki, en orðið vör við það eftir á. Starfsfólk hafi verið nokkuð slegið. Sérfræðingur hafi verið fenginn til að halda sjálfsvarnarnámskeið, sem vitnið hafi sótt. Vitnið kveðst hafa skynjað ótta við ákærða hjá þeim sem mest höfðu með hans málefni að gera. Vitnið kveðst ekki hafa óttast hann, en hafa óttast að hann myndi gera einhverjum mein.
Með framburði C og ákærða, svo og með hliðsjón af ljósmyndum sem lögregla tók af verksummerkjum, er nægilega sannað að ákærði hafi kastað eða slegið frá sér kaffiílát, en ekki verður þó lagt til grundvallar að hann hafi ætlað því að lenda í C. Myndirnar bera með sér að um leirílát var að ræða. Þá er sannað að ákærði hafi lyft skrifborði sem C sat við og látið það falla niður aftur. Var þetta til þess fallið að valda C ótta um að ákærði myndi beita hann líkamlegu ofbeldi og verður að virða það sem hótun um ofbeldi í skilningi 106. gr. almennra hegningarlaga. Verður ákærði því sakfelldur fyrir brot gegn því ákvæði.
VI.
Vitnið B staðfesti að hafa fengið þau skilaboð sem greind eru í 5. tl. ákæru. Hún kveðst vera alveg viss um að þau stafi frá ákærða. Engir aðrir hafi sent henni skilaboð af þessu tagi og engir aðrir komið til greina. Hún hafi þegar þarna var komið verið orðin verulega hrædd um öryggi sitt og barns síns og liðið illa.
Vitnið J lögreglumaður staðfesti að hafa ritað þessi skilaboð eins og þau birtust í síma B. Lögregla fékk heimild dómara til að fá upplýst úr hvaða fjarskiptatæki skilaboðin hefðu verið send. Lauk þeirri upplýsingaöflun með því að upplýst var að þau hefðu farið um opinn beini Orkuveitu [...] og að hvaða tölva sem væri gæti tengst netinu um hann.
Ákærði neitar að hafa sent greind skilaboð og kveðst ekki hafa verið með nettengda tölvu á þessum tíma.
Í málinu liggur frammi texti vefspjalls undir fyrirsögninni „afhverju er féló að níðast svona á manni“ á vefsíðunni barnaland.is. Hefst spjallið samkvæmt textanum þann 9. janúar 2007. Kannast ákærði við að hafa byrjað þetta spjall undir nafninu Trolli. Í textanum er að finna orðin „ja þú mundir ekki vilja hitta mig í dimmu húsasundi á þessu ári eða næstu árum“ og örlitlu síðar orðin „komdu þá ég bíð her til búin eftir þer og finn hvað það er ljúft að renna hnífnumínn í brjóst holið áðer og skera þig svo á hals og sleikja blóðið af hnífnum komdu ég bíð eftir þer“. Kannast ákærði við að hafa ritað báðar þessar setningar á spjallvefinn. Hann kveðst hafa gefið upp á spjallrásinni nöfn C og B og símanúmer þeirra, en sá hluti og fleira úr spjallinu hafi verið tekinn út úr því áður en spjallið var skrifað út í þeim búningi sem liggur frammi í málinu.
Líkindi þeirra setninga sem ákærði ritaði á spjallrásina og þeirra sem bárust tíu dögum síðar í síma B eru augljós og benda líkindin eindregið til þess að sami höfundur sé að báðum. Símaskilaboðin voru send um tölvu sem tengdist opnum beini á [...] og í texta annars þeirra er að finna orðin „hér á [...].“ Skilaboð sem ekki eru rakin í ákæru en bárust í síma B sama dag klukkan 16:57, þ.e. á milli þeirra sem ákæran varðar, hljóða þannig: „hvorki tu ne C tad sem eftir er af tessu lifi.“ Kemur nafnið C þannig við sögu í þessum nafnlausu skilaboðum.
Þegar virt er samsvörun setninganna sem ákærði ritaði á spjallrásina og þeirra sem send voru í síma B, það að símaskilaboðin voru send um beini á [...] og það að í þriðju skilaboðunum er C nefndur á nafn, þykir vart geta leikið skynsamlegur vafi á því að ákærði hafi sent þessi skilaboð. Fólst í þeim hótun um ofbeldi gagnvart B sem varðar við 106. gr. almennra hegningarlaga.
VII.
Ákærði kannast við að hafa kastað flösku með logandi bensíni á gám eins og lýst er í tölulið nr. 6 í ákæru, en í því hafi ekki falist nein hótun eða ógnun af sinni hálfu. Hann og A hafi deilt fyrr um daginn og hún brotið rúður í bifreið hans.
Vitnið K lögreglumaður ber að ákærði og A hafi verið að skilja um þetta leyti. A hafi leitað til lögreglu fyrr um daginn vegna skiptingar á munum. Hafi ákærði skemmt þvottavél, en A brotið rúðu í bifreið ákærða. Ákærði hafi svo um kvöldið kastað tendraðri bensínflösku utan í gám með búslóð A þar sem hann hafi staðið fyrir framan sambýlið að [...]. Hafi ákærði sagst hafa gert þetta til að hræða A eða gera henni ljóst að hann gæti náð sér niðri á henni eða brennt búslóðina eða eitthvað slíkt. Vitnið kveður litla hættu hafa stafað af verknaði ákærða, en sér hafi skilist að það hafi gripið um sig einhver hræðsla meðal íbúa á sambýlinu.
Vitnið A kveðst hafa verið á sambýlinu er þetta gerðist, en heyrt kallað að það væri kviknað í gámnum. Hún hafi séð eld loga við gáminn. Hún kveður sig og ákærða hafa verið í “smá fætingi” skömmu fyrr og þegar tengt þetta við það. Telur hún hafa vakað fyrir ákærða að hefna sín. Aðspurð kveður hún ákærða á öðrum tíma hafa hótað sér og fjölskyldu sinni lífláti þótt hún hafi ekki tekið það alvarlega.
Vitnið B kveður yfirmann í sambýlinu að [...] hafa tilkynnt sér símleiðis um þetta atvik. Hún kveðst hafa litið það mjög alvarlegum augum. Hún kveðst telja að háttsemi ákærða hafi beinst að fyrrverandi eiginkonu hans, sem búið hafi að [...] ásamt fleira fötluðu fólki. Kveðst vitnið hafa óttast um öryggi íbúanna. Hún hafi þurft að setja starfsmenn á vakt þessa nótt og kalla til sálfræðing daginn eftir til að veita áfallahjálp.
Vitnið F kveðst hafa verið kallað til vinnu þetta kvöld og séð ummerki eftir eldinn. Ástand á sambýlinu hafi ekki verið gott. Íbúar þar þurfi að búa við öryggi. Þeir hafi talið sig þekkja ákærða af slæmri afspurn og fundist sér stafa viss ógn af honum.
Sannað er að ákærði kastaði í greint sinn flösku með bensíni í og tendruðum kveik á greindan gám. Mun flaskan hafa brotnað og bensínið brunnið, en ekki mun hafa hlotist nein sprenging af. Skýringar ákærða á því hvað honum gekk til með þessu eru óljósar. Leggja verður til grundvallar að ákærði hafi ætlað með þessu að koma á framfæri einhvers konar skilaboðum til A, í tilefni af deilum þeirra fyrr um daginn. Skilaboðin sendi hann með því að kasta flösku með logandi bensíni á gám sem geymdi eigur hennar. Verður ekki annað talið en að í þessu hafi falist hótun í garð A sem var fallin til að vekja henni ótta um velferð sína. Verður fallist á það að ákærði hafi með þessu brotið gegn 233. gr. almennra hegningarlaga.
VIII.
Vitnið F, starfsmaður Fjölskylduþjónustu [...] ber um það atvik sem lýst er í 7. tölulið ákæru að hann hafi setið við borð á [...] með vinum sínum. Ákærði hafi komið að vitninu og farið að ásaka það um atriði sem hafi varðað starf þess. Vitnið veki skjólstæðinga á sambýlinu að [...] á morgnana. Ákærði hafi sagst hafa heyrt frá fyrrverandi eiginkonu sinni að vitnið færi inn á herbergin til að horfa á brjóst kvenna á sambýlinu. Vitnið kveðst hafa setið sem fastast og ekki ætlað að fara ræða við ákærða um þetta. Vel geti verið rétt sem ákærði haldi fram að vitnið hafi samsinnt þessu. Hann hafi hótað vitninu lífláti, að skemma bifreið þess og kveikja í híbýlum þess. Vitnið kveðst hugsanlega hafa sagt að ákærði skyldi þá bara gera það. Vitnið kveðst þó hafa talið ástæðu til að taka þessar hótanir alvarlega, því að ákærði sé óútreiknanlegur. Ákærði hafi síðan veist að vitninu með höggi, en það hafi geigað. Vitnið kveðst hafa staðið upp og beðið ákærða að setjast. Félagi ákærða hafi komið að og dregið hann til baka. Ákærði hafi þá sest niður og hafi skiptum þeirra lokið þar með. Vitnið kvað hafa verið mælt fyrir um það við starfsfólk að kæra til lögreglu ef ákærði hótaði því. Vitnið B ber um þetta atriði að starfsfólki hefðu verið gerð tilmæli um að líða ekki neitt ofbeldi eða hótanir í sinn garð.
Vitnið kveðst starfa á sambýli fatlaðra við [...]. Á þessum tíma hafi fyrrverandi eiginkona ákærða dvalið þar. Vitnið kveðst telja að að hluta til hafi ákærði veist að sér vegna starfa vitnisins en einnig vegna almennrar gremju í garð félagsmálayfirvalda.
Nánar spurt um orð ákærða kveður vitnið hann hafa sagt „ég drep þig“, að hann vissi hvernig bíl vitnið ætti og að það væri létt mál að koma fyrir sprengju. Hann vissi hvar vitnið byggi. Þá hafi hann látið falla orð um að hann ætlaði að brenna íbúðina.
Högginu hafi ákærði beint að höfði vitnisins vinstra megin en vitnið vikið sér undan. Það hafi verið greitt með krepptum hnefa. Ákærði hafi verið mjög ölvaður.
Ákærði kveðst hafa rifist við F þetta kvöld, en ekki hafa hótað honum neinu. Hann kveðst hafa í fyrstu hafa spurt F hvort það væri satt að hann væri að horfa á kvenkyns íbúa að [...] hálfnakta og hafi F sagt að ákærða kæmi það ekkert við. Hann kveðst hafa orðið reiður við F og reynt að slá hann í andlitið.
Vitnið L kveðst hafa séð að ákærði og F voru að rífast. Síðan hafi vitnið séð að ákærði beindi höggi að höfði F, en það geigaði.
Vitnið K ber að ákærði hafi verið að ræða við F um eitthvað varðandi sambýlið við [...], en F hafi ekki viljað ræða þetta við ákærða. Einhverjar hótanir hafi ákærði verið með í garð F, sem vitnið kveðst þó ekki muna efnislega. Síðan hafi ákærði slegið til F en verið það ölvaður að hann hafi misst marks. Dyravörður hafi fjarlægt ákærða. Vitnið kveðst hafa setið við hlið F í þetta sinn.
Vitnið M kveðst ekki hafa heyrt það sem fram fór milli ákærða og F. Hún hafi séð að þeir töluðu saman, en ekki fylgst með samskiptum þeirra. Hún hafi séð ákærða slá til F, en höggið hafi geigað. Einhverjir hafi þá fjarlægt X. Högginu hafi verið beint að höfði F, en ákærði hafi verið drukkinn og ef til vill hafi höggið geigað þess vegna. F hafi rætt þetta atvik við hana síðar um nóttina og það hvílt töluvert þungt á honum. Hann hafi sagt að ákærði hefði verið með hótanir um að kveikja í íbúð eða bíl og sér hafi fundist F hafa áhyggjur þessa vegna.
Framburður F um orð ákærða er skýr og greinargóður. Vitnið K ber að ákærði hafi verið með einhverjar hótanir í garð F og vitnið M ber að F hafi rætt við sig um hótanir ákærða síðar um nóttina. Fær framburður F stoð í þessu. Verður með þessu talið nægilega sannað að ákærði hafi hótað að gera honum mein. Með framburði vitna og ákærða er sannað að ákærði reyndi í sama sinn að slá F í höfuðið. Hefur ákærði með þessu gerst sekur um ofbeldishótun og ofbeldi gagnvart F. Tilefni þess var starf F hjá Fjölskylduþjónustu [...]. Varðar þetta við 1. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga.
IX.
Ákærði hefur hér verið sakfelldur fyrir mörg brot gegn 1. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga með alvarlegum ofbeldishótunum í garð starfsmanna Fjölskylduþjónustu [...], svo og tvö brot gegn 233. gr. almennra hegningarlaga með hótunum í garð fyrrverandi eiginkonu sinnar. Opinberir starfsmenn, sem fjalla um viðkvæm persónuleg málefni manna geta almennt átt von á því að einstaklingar sem störf þeirra varða geti orðið miður sín og misst andlegt jafnvægi. Hótunarbrot ákærða sem hann er hér sakfelldur fyrir falla hins vegar langt utan þeirra marka hegðunar sem afsakanleg verður talin með skírskotan til þessa. Brot ákærða samkvæmt töluliðum nr. 2-5 í ákæru verða öll talin framin í geðshræringu hans vegna málefna barns síns og brot hans samkvæmt 6. tölulið ákæru í geðshræringu hans í framhaldi af samskiptum við fyrrverandi eiginkonu sína vegna skilnaðar þeirra, þar sem hún hafði fyrr um daginn valdið skemmdum á bifreið hans. Þykir því eiga að beita lækkunarheimild 75. gr. almennra hegningarlaga við ákvörðun refsingar ákærða hvað varðar brot hans samkvæmt greindum töluliðum.
Ákærði var þann 2. desember 1993 dæmdur í sex mánaða fangelsi, skilorðsbundið í fjögur ár fyrir brot gegn 1. mgr. 164. gr. almennra hegningarlaga. Þann 31. desember 1997 var hann dæmdur í sjö mánaða fangelsi, skilorðsbundið í þrjú ár og til sektargreiðslu og sviptur ökurétti fyrir brot gegn lögum nr. 15/1994 og umferðarlögum. Þann 29. desember árið 2000 var hann dæmdur til að greiða sekt fyrir brot gegn umferðarlögum og sviptur ökurétti ævilangt. Þann 15. febrúar árið 2006 var hann dæmdur í þriggja mánaða fangelsi, skilorðsbundið í tvö ár fyrir brot gegn 217. gr. almennra hegningarlaga. Ákærði hefur nú rofið skilorð síðast nefnda dómsins og ber að taka hann upp og dæma ákærða refsingu í einu lagi samkvæmt reglum 77. gr. almennra hegningarlaga.
Með tilliti til þeirra sjónarmiða sem hér hafa verið reifuð að framan, en einnig með tilliti til sakaferils ákærða, sem eins og áður segir var dæmdur fyrir ofbeldisbrot 15. febrúar 2006, verður refsing ákærða ákveðin fangelsi í 10 mánuði. Með því að ákærði hefur rofið skilorð samkvæmt nefndum dómi þykir ekki fært að skilorðsbinda refsinguna.
X.
Í ákæru eru raktar bótakröfur B, C og [...]. Voru bótakröfurnar reifaðar við aðalmeðferð málsins og kröfur vegna kostnaðar af að halda þeim fram hækkaðar við það tilefni.
Bótakröfur B og C eru studdar við 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 með síðari breytingum. Verður fallist á að ákærði hafi bakað sér bótaskyldu gagnvart þeim báðum með vísan til þessa ákvæðis. Í bótakröfu B og framburði hennar hér fyrir dómi kemur fram að henni hafi staðið ógn af ákærða og hún lifað í ótta um að hann gerði henni eða dóttur hennar eitthvert mein. Hafi hún upplifað einkenni áfallastreituröskunar og að lokum tekið þann kost að segja upp starfi sínu og flytja búferlum. Í bótakröfu C og í framburði hans hér fyrir dómi kemur fram að hótanir ákærða hafi valdið honum andlegri vanlíðan og ótta sem hafi haft áhrif á starf hans og einkalíf.
Miskabætur til B ákveðast 250.000 krónur og miskabætur til C 150.000 krónur. Þá verður ákærði dæmdur til að greiða hvoru þeirra um sig 80.000 krónur vegna kostnaðar af aðstoð lögmanns við að halda fram bótakröfu. Dæmdar bætur bera vexti eins og nánar greinir í dómsorði. Upphafstími dráttarvaxta er miðaður við það tímamark er mánuður var liðinn frá birtingu ákæru.
Í þessu máli er ekki ákært fyrir spjöll á eignum [...]. Þykir þegar af þeirri ástæðu eiga að vísa bótakröfu þess aðila frá dómi.
Dæma ber ákærða til að greiða allan kostnað sakarinnar. Kostnaður vegna vitna á dómstigi nemur 60.274 krónum. Samkvæmt yfirliti skipaðs verjanda ákærða, Gísla M. Auðbergssonar hdl., hefur hann neyðst til að aka samtals 1.892 km til að sækja þinghöld í málinu. Er ekki sýnt að verjandanum hafi verið unnt að komast á þingstað með hagstæðari hætti. Þá kveður hann útlagðan kostnað vegna gistingar nema 13.100 krónum. Verður ákærði dæmdur til að greiða ferðakostnað verjandans með 148.378 krónum. Málsvarnarlaun hans ákveðast 435.750 krónur að virðisaukaskatti meðtöldum.
Dóm þennan kveður upp Erlingur Sigtryggsson héraðsdómari. Dómsuppsaga hefur dregist, í fyrstu vegna þess að dómari veiktist af inflúensu eftir dómtöku málsins, en síðan vegna anna hans eftir það.
Dómsorð:
Ákærði, X, sæti fangelsi í 10 mánuði.
Ákærði greiði B 330.000 krónur með vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 af 250.000 krónum frá 23. janúar 2007 til 28. desember 2007, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga af þeirri fjárhæð frá þeim degi til uppsögudags þessa dóms að telja, en af 330.000 krónum frá þeim degi til greiðsludags.
Ákærði greiði C 230.000 krónur með vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 af 150.000 krónum frá 9. janúar 2007 til 28. desember 2007, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga af þeirri fjárhæð frá þeim degi til uppsögudags þessa dóms að telja, en af 230.000 krónum frá þeim degi til greiðsludags.
Bótakröfu [...] er vísað frá dómi.
Ákærði greiði 644.402 krónur í sakarkostnað, þ.m.t. ferðakostnað skipaðs verjanda síns, Gísla M. Auðbergssonar hdl., 148.378 krónur og málsvarnarlaun hans, 435.750 krónur.