Print

Mál nr. 241/2006

Lykilorð
  • Opinberir starfsmenn
  • Niðurlagning stöðu
  • Uppsögn
  • Andmælaréttur
  • Stjórnsýsla
  • Veikindaforföll
  • Laun
  • Tómlæti
  • Innheimtukostnaður

Fimmtudaginn 22

 

Fimmtudaginn 22. febrúar 2007.

Nr. 241/2006.

Auðólfur Gunnarsson

(Karl Axelsson hrl.)

gegn

Landspítala-háskólasjúkrahúsi

(Anton Björn Markússon hrl.)

og gagnsök

 

Opinberir starfsmenn. Niðurlagning stöðu. Uppsögn. Andmælaréttur. Stjórnsýsla. Veikindaforföll. Laun. Tómlæti. Innheimtukostnaður.

 

A starfaði sem yfirlæknir við skurðstofur kvennasviðs L. Í janúar 2004 var honum tilkynnt að starf hans hefði verið lagt niður og að honum væri því jafnframt sagt upp störfum. Í málinu gerði A fjárkröfu sem skiptist í fjóra liði. Var sá fyrsti um greiðslu yfirvinnulauna í veikindaforföllum, annar um greiðslu vegna áunnins námsleyfis, sá þriðji fyrir miska og sá fjórði fyrir innheimtuþóknun til lögmanna hans. Krafa A um greiðslu yfirvinnulauna var studd við það að hann hefði þurft að hætta yfirvinnu að læknisráði í lok árs 2001. Fyrir lá að A hafði ekki krafist greiðslu yfirvinnulauna á grundvelli ætlaðs veikindaréttar fyrr en eftir að hann lét af störfum hjá L. Að því virtu var talið að hann hefði glatað ætluðum rétti til þessara launagreiðslna, enda yrði engin stoð fundin fyrir því í kjarasamningi að slík laun féllu fyrst í gjalddaga að liðnu ári frá því að rétturinn hæfist. Þá var ekki talið að A hefði sýnt fram á að hann ætti rétt á greiðslu vegna áunnins námsleyfis, enda var krafan ekki sett fram sem endurgreiðsla á kostnaði á þeim tíma sem ferðir höfðu verið farnar eins og gert var ráð fyrir í kjarasamningi. Krafa A um miskabætur var meðal annars reist á því að ákvörðun L hefði byggst á röngum forsendum og að ekki hefði verið leitað álits læknaráðs áður en hún var tekin. Talið var ósannað að ákvörðunin hefði byggst á röngum forsendum og var komist að þeirri niðurstöðu að hún félli utan skyldu til að leita álits læknaráðs samkvæmt 32. gr. laga nr. 97/1990 um heilbrigðisþjónustu. Fallist var á að L hefði verið óskylt að gefa A kost á að tjá sig áður en ráðstafanir hans komu til framkvæmdar, enda tengdust þær rekstri hans en að engu leyti ávirðingum í starfi. Jafnframt var ekki talið að brotið hefði verið gegn meðalhófsreglu eða rannsóknarreglu stjórnsýsluréttar við töku ákvörðunarinnar. Var L því sýknað af kröfu A um miskabætur. Hins vegar var fallist á að A ætti rétt á þóknun til lögmanna hans vegna innheimtu þeirra biðlauna sem honum bar á grundvelli 3. og 5. mgr. ákvæðis til bráðabirgða í lögum nr. 70/1996, sbr. 34. gr. laganna.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Garðar Gíslason og Markús Sigurbjörnsson.

Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 4. maí 2006. Hann krefst þess að gagnáfrýjandi verði dæmdur til að greiða sér 5.135.391 krónu með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 4.196.088 krónum frá 5. mars 2004 til 10. júlí sama ár, af 4.596.088 krónum frá þeim degi til 30. júní 2005, en af 5.135.391 krónu frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Gagnáfrýjandi áfrýjaði héraðsdómi fyrir sitt leyti 17. júlí 2006. Hann krefst sýknu af kröfu aðaláfrýjanda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

I.

Aðaláfrýjandi starfaði sem yfirlæknir við skurðstofur kvennasviðs gagnáfrýjanda. Með bréfi þess síðarnefnda 5. janúar 2004 var aðaláfrýjanda tilkynnt að framkvæmdastjórn gagnáfrýjanda hefði tekið ákvörðun 23. desember 2003 um að flytja stjórnun á skurðstofum á kvennasviði yfir til svæfinga-, gjörgæslu- og skurðstofusviðs sjúkrahússins. Í samræmi við þetta hafi verið lagt niður starf yfirlæknis á skurðstofum kvennasviðs, sem gagnáfrýjandi hafi verið ráðinn til að gegna 20. ágúst 1998. Væri honum því sagt upp starfi yfirlæknis frá sama tíma, sbr. nánar tilvitnað ákvæði í kjarasamningi Læknafélags Íslands og fjármálaráðherra frá 2. maí 2002. Samhliða uppsögn á ráðningu sem yfirlæknir var aðaláfrýjanda boðið starf sérfræðings á kvennasviði í 80% starfshlutfalli, sem hann hafnaði. Starfslok hans urðu 19. janúar 2004 og er óumdeilt að honum voru eftir það greidd biðlaun í 12 mánuði í samræmi við 5. mgr. ákvæðis til bráðabirgða í lögum nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Málavöxtum er nánar lýst í héraðsdómi, þar á meðal bréfaskiptum gagnáfrýjanda og lögmanna aðaláfrýjanda í kjölfar áðurnefnds bréfs 5. janúar 2004.

Fyrir héraðsdómi krafðist aðaláfrýjandi þess í fyrsta lagi að felld yrði úr gildi ákvörðun gagnáfrýjanda um niðurlagningu stöðu hans og uppsögn. Niðurstaða héraðsdóms varð sú að þeirri kröfu var vísað frá dómi, sem staðfest var með dómi Hæstaréttar 25. apríl 2006 í máli nr. 196/2006. Í annan stað gerði aðaláfrýjandi fjárkröfu, sem skiptist í fjóra liði. Var sá fyrsti um greiðslu yfirvinnulauna í veikindaforföllum, annar um greiðslu vegna áunnins námsleyfis, sá þriðji fyrir miska og sá fjórði fyrir innheimtuþóknun til lögmanna hans. Í hinum áfrýjaða dómi var gagnáfrýjandi sýknaður af öllum liðum kröfunnar að undanskildum þeim, sem var fyrir innheimtuþóknun lögmanna aðaláfrýjanda. Eru allir liðir kröfunnar til úrlausnar fyrir Hæstarétti. Málsástæður aðilanna eru raktar í héraðsdómi.

II.

Með vísan til forsendna héraðsdóms verður staðfest niðurstaða hans um sýknu gagnáfrýjanda af kröfulið aðaláfrýjanda um greiðslu fyrir áunnið námsleyfi og að taka beri til greina kröfulið vegna innheimtuþóknunar lögmanna hans.

Krafa aðaláfrýjanda um greiðslu yfirvinnulauna í veikindaforföllum er studd við það að hann hafi þurft að hætta yfirvinnu að læknisráði í lok árs 2001. Þetta hafi yfirmönnum hans verið fullkunnugt um. Eftir það hafi hann ekki unnið á næturvöktum, en fram að því hafi drjúgur hluti launa hans verið fyrir slíkar vaktir. Telur hann að veikindalaunin fyrir allt árið 2002 hafi ekki gjaldfallið fyrr en að því ári liðnu og að veikindalaun fyrir árið 2003 hafi gjaldfallið með sama hætti í lok þess árs. Hann hafi því ekki sýnt tómlæti við að halda fram þessum kröfulið, þótt það hafi ekki verið gert fyrr en eftir að honum var sagt upp starfi.

Eftir lok árs 2001 hélt aðaláfrýjandi áfram í fullu starfi og er óumdeilt að hann hafi innt af hendi vinnuskyldu í samræmi við það. Verður ráðið að það hafi hann einkum gert innan dagvinnumarka. Í kröfuliðnum felst því að hann hafi verið óvinnufær að lokinni 8 klukkustunda dagvinnu. Þótt fyrir liggi í málinu að yfirmönnum aðaláfrýjanda hafi verið kunnugt um að hann teldi sig ekki færan af heilsufarsástæðum um að leysa af hendi yfirvinnu krafðist hann ekki samkvæmt gögnum málsins greiðslu yfirvinnulauna á grundvelli ætlaðs veikindaréttar fyrr en eftir að hann lét af störfum hjá gagnáfrýjanda. Að þessu virtu og með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður staðfest niðurstaða hans um að aðaláfrýjandi hafi glatað ætluðum rétti til þessara launagreiðslna í veikindaforföllum, enda verður engin stoð fundin fyrir því í áðurnefndum kjarasamningi að slík laun falli fyrst í gjalddaga að liðnu ári frá því að sá réttur hefst. Verður því staðfest niðurstaða héraðsdóms um sýknu gagnáfrýjanda af þessum kröfulið.

III.

Í héraðsdómi er greint frá því að 18. júní 2003 skilaði skýrslu til gagnáfrýjanda sérstök nefnd, sem falið hafði verið að fara yfir hagkvæmni þess að breyta hlutverki skurðstofa kvennasviðs sjúkrahússins. Studdist framkvæmdastjórn gagnáfrýjanda við tillögur nefndarinnar þegar hún tók þá ákvörðun, sem áður var getið um. Meðal þeirra sem gáfu skýrslu fyrir dómi voru tveir læknar, sem voru í hópi þeirra sjö manna sem sátu í nefndinni. Báru þeir að í tillögum þeirra hefði einkum falist að breyta því, sem þeir nefndu rekstrar- og hjúkrunarþætti skurðstofa kvennasviðs, en ekki þeim þætti, sem sneri að lækningum. Gat annar þeirra þess að þetta hafi verið tillögur hjúkrunarfræðinga í nefndinni. Reisir aðaláfrýjandi kröfu sína um miskabætur meðal annars á því að ákvörðun gagnáfrýjanda, sem komi fram í bréfinu 5. janúar 2004, hafi samkvæmt þessu byggst á röngum forsendum og verið ólögmæt.

Í niðurstöðum nefndarinnar segir meðal annars: „Lagt er til að skurðstofur kvennasviðs verði sameinaðar SGS, en svæfingadeild og vöknum á kvennadeild tilheyra nú þegar því sviði.“ Ekkert kemur að öðru leyti fram í skýrslunni eða fylgiskjali með henni um að lagt sé til að greint sé á milli lækninga og hjúkrunar, eða að tillaga þess efnis sé komin frá hjúkrunarfræðingum sérstaklega. Aðaláfrýjandi lagði sjálfur fram í málinu skýrslu nefndarinnar og fylgiskjalið. Af skýrslunni má ráða að tvö önnur fylgiskjöl hafi verið með henni, sem þó hafa ekki verið lögð fram. Í framburði læknanna tveggja fyrir dómi var ekki vísað til fylgiskjala með skýrslunni um það, sem þeir héldu fram. Að þessu virtu er ósönnuð sú staðhæfing aðaláfrýjanda, sem að framan er getið og kom fyrst fram við munnlegan flutning málsins í héraði.

Aðaláfrýjandi styður kröfu sína um miskabætur jafnframt við það að gagnáfrýjandi hafi ekki leitað álits læknaráðs sjúkrahússins áður en ákvörðunin, sem málið er sprottið af, var tekin. Það hafi honum verið skylt að gera samkvæmt 1. mgr. 32. gr. laga nr. 97/1990 um heilbrigðisþjónustu og ákvæði 1.2.1. í starfsreglum læknaráðs gagnáfrýjanda frá 27. maí 2003, en af þessari ástæðu sé ákvörðunin ógildanleg. Ákvörðunin sem um ræðir laut að því hvernig yfirstjórn skurðstofa kvennasviðs gagnáfrýjanda skyldi fyrir komið og fellur ekki undir þá skyldu til að leita álits læknaráðs, sem kveðið er á um í nefndi lagagrein. Starfsreglur, sem læknaráð hefur sett sér, skipta ekki máli við úrlausn um hvað felist í þessari skyldu.

Í bréfi gagnáfrýjanda 5. janúar 2004 fólst í senn tilkynning til aðaláfrýjanda um að starf hans sem yfirlæknir hafi verið lagt niður og að honum væri því jafnframt sagt upp starfi. Þótt gagnáfrýjandi hafi kosið að fara þessa leið verður samkvæmt því, sem að framan er rakið, að leggja til grundvallar að ástæður fyrir þessum ráðstöfunum hafi tengst rekstri gagnáfrýjanda, en að engu leyti ávirðingum í starfi. Var gagnáfrýjanda því ekki skylt að gefa aðaláfrýjanda kost á að tjá sig áður en þessar ráðstafanir komu til framkvæmdar. Samkvæmt öllu framangreindu og að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms verður staðfest niðurstaða hans um sýknu gagnáfrýjanda af kröfu aðaláfrýjanda um miskabætur.

Ákvæði héraðsdóms um málskostnað verður staðfest. Rétt er að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

                                                                                                                  

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 29. mars 2006.

Mál þetta, sem dómtekið var 13. mars sl., var höfðað 29. júní 2005 af Auðólfi Gunnars­syni, Birkigrund 15, Kópavogi, á hendur Landspítala - há­skóla­sjúkrahúsi, Eiríks­­­götu 5, Reykjavík.

Stefnandi krefst þess að felld verði úr gildi ákvörðun stefnda 5. janúar 2004 um niðurlagningu stöðu stefnanda og uppsögn stefnanda. Einnig krefst stefnandi þess að stefndi greiði honum 5.135.391 krónu með dráttarvöxtum samkvæmt lögum nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 4.196.088 krónum frá 5. mars 2004 til 10. júlí 2004 en af 4.596.088 krónum frá þeim degi til 30. júní 2005 en af allri fjárhæðinni frá þeim degi til greiðsludags. Stefnandi krefst einnig málskostnaðar að skaðlausu auk virðis­­auka­skatts og að málskostnaðaryfirlit stefnanda verði haft þar til hliðsjónar.

   Stefndi krefst aðallega sýknu af öllum dómkröfum stefnanda en til vara að gagn­vart sérhverri kröfufjárhæð, sem stefnanda kunni að verða tildæmd, verði viðurkennd gagnkrafa stefnda á hendur stefnanda til skulda­jafnaðar, allt að sömu fjárhæð, vegna launa sem stefnandi hefur notið á þeim tíma sem biðlaunagreiðslur voru inntar af hendi. Stefndi krefst einnig málskostnaðar úr hendi stefnanda að mati dómsins.

Yfirlit málsatvika og ágreiningsefna

Stefnandi hóf störf sem læknir hjá stefnda á árinu 1975 og vann á sjúkrahúsinu þar til hann lét af störfum í janúar 2004. Stefnandi var yfirlæknir á skurðstofu kvennadeildar frá árinu 1998 samkvæmt ráðningarsamningi sem þá var gerður.

Í desem­ber 2003 var ákveðið að skurðstofa kvennadeildar yrði sameinuð svæfinga-, gjörgæslu- og skurð­stofu­sviði. Í kjölfarið var yfirlæknisstaðan, sem stefnandi hafði gegnt, lögð niður. Stefnanda var tilkynnt um það með bréfi fram­kvæmda­stjóra lækn­inga og forstjóra stefnda 5. janúar 2004, en þar kemur fram að um sé að ræða skipu­lags­breytingar, niðurlagningu á starfi og uppsögn á starfi yfirlæknis. Ákvörðun hafi verið tekin um að flytja stjórnun skurðstofu á kvennasviði yfir til svæfinga-, gjörgæslu- og skurðstofusviðs, en í bréfinu er vísað í því sambandi til samþykktar framkvæmda­stjórnar 23. desember 2003. Ákvörðunin hafi tekið gildi frá og með 1. janúar 2004. Starf yfirlæknis á skurðstofu kvennasviðs hafi verið lagt niður og sé stefnanda því sagt upp störfum yfirlæknis. Stefnanda var í bréfinu boðið starf sérfræðings við kvennasvið frá sömu tímamörkum en hann afþakkaði það í bréfi til stefnda 16. janúar s.á. Fram hefur komið að stefnandi hafi aðeins viljað vera í 80% starfi hjá stefnda. Stefnandi starfaði áfram hjá stefnda sem yfirlæknir og fékk greidd laun í samræmi við það til 19. janúar s.á. Eftir þann tíma fékk hann greidd biðlaun í 12 mánuði.

Stefnandi telur ákvörðunina um að leggja yfirlæknisstöðuna niður og segja honum upp störfum ólögmæta en máls­­­meðferðarreglur hafi verið brotnar þegar hún var tekin. Hann hefur því krafist þess að ákvörðunin verði felld úr gildi. Hann krefst þess einnig að stefndi verði dæmdur til að greiða honum kjarasamningsbundnar yfirvinnustundir á árunum 2001 til 2003 ásamt námskostnaði. Þá krefst hann miskabóta vegna hinnar ólögmætu uppsagnar og innheimtuþóknunar vegna biðlauna sem ekki voru greidd að fullu fyrr en eftir að innheimtubréf lögmanns stefnanda hafði verið sent stefnda. Við munnlegan málflutning var því mótmælt af hálfu stefnanda að hann hefði fengið laun á biðlaunatímanum sem koma ættu til frádráttar kröfum hans á hendur stefnda. Laun hans hefðu ekkert hækkað á þessum tíma sem hafi verið þau sömu og áður.

Af hálfu stefnda er öllum kröfum stefnanda mótmælt. Stefndi telur verulegan vafa leika á því hvort stefnandi hafi lögvarða hagsmuni af því að fá úrlausn um ógildingar­kröfuna og því beri að vísa henni sjálfkrafa frá dómi. Enn fremur telur stefndi að stefnandi hafi fengið að fullu allar greiðslur sem honum beri vegna starfa hans hjá stefnda. Þá er miskabótakröfunni mótmælt enda hafi uppsögnin verið lögmæt og engin skilyrði uppfyllt fyrir því að hún verði tekin til greina. Einnig er kröfu stefnanda um innheimtulaun mótmælt en stefndi telur að stefnandi hafi stofnað til hennar að óþörfu.

Málsástæður og lagarök stefnanda

Stefnandi lýsir málsatvikum þannig að hann eigi að baki farsælan starfsferil sem læknir sem hann hafi einkum helgað stefnda. Um starfslok hans hafi verið teknar ólög­­mætar ákvarðanir af hálfu stefnda. Með bréfi stefnda 5. janúar 2004, undirrituðu af Jóhannesi M. Gunnarssyni, fram­kvæmda­stjóra lækninga, og Magnúsi Péturssyni for­stjóra, hafi stefnanda verið til­kynnt að ákvörðun hefði verið tekin um að flytja stjórnun skurðstofu á kvennasviði yfir til svæfinga-, gjörgæslu- og skurðstofusviðs. Vísað hafi verið til samþykktar fram­kvæmda­stjórnar 23. desember 2003, en þar sé vísað til skýrslu nefndar um málefni skurð­stofu kvennasviðs frá 18. júní sama ár. Í bréfi stefnda 5. janúar 2004 sé tekið fram að ákvörðun­in hefði tekið gildi frá og með 1. janúar, þ.e. fjórum dögum áður en bréfið var dagsett og rúmri viku áður en stefnandi fékk bréfið í hendur. Í bréfinu segi einnig að í samræmi við ákvörðunina hefði starf yfirlæknis á skurð­stofum kvenna­sviðs, sem stefnandi hefði verið ráðinn til að gegna frá 20. ágúst 1998, verið lagt niður. Honum væri því sagt upp störfum yfirlæknis frá sama tíma. Samhliða ákvörð­un­inni hafi stefnanda verið boðið starf sérfræðings við kvennasvið frá sömu tíma­mörkum í 80% starfshlutfalli. Á uppsagnarfrestinum yrðu honum greidd laun samkvæmt launa­flokki 400 en að uppsagnarfresti liðnum samkvæmt launaflokki 300.

Ákvörðun stefnda hafi verið mótmælt með bréfi 16. janúar 2004. Bent hafi verið á efnislega annmarka ákvörðunarinnar og að ekkert lægi fyrir um lögmæti hennar. Einnig hafi verið bent á að fjöldi sjúklinga væri á biðlista eftir aðgerðum stefnanda. Stefnanda væri í raun óheimilt að framkvæma þær þar sem ákvörðun stefnda hefði verið tekin afturvirkt. Af hálfu stefnanda hafi verið boðið að hann sinnti aðgerðum bið­­lista­sjúklinga.

Stefnandi hafi sent heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra bréf 20. janúar sama ár þar sem óskað hafi verið ráðlegginga vegna þeirrar stöðu sem upp hafi verið komin í kjölfar ákvörðunar stefnda en því hafi ekki verið svarað. Fimmtán nafngreindir læknar hafi sent lækningaforstjóra bréf 21. sama mánaðar, þar sem þeir hafi harmað að farsælu ævistarfi stefnanda skyldi lokið með þeim hætti sem þá vofði yfir. Fágæt væri sú elja og trúmennska sem stefnandi hefði sýnt deildinni, samstarfsmönnum og ekki síður sjúklingum áratugum saman, langt út fyrir mörk venju­­legs vinnutíma. Lítið væri gert úr mikilvægi og sérstöðu skurðstofu kvennadeildar með því að leggja yfirlæknis­stöðuna niður.

Stefndi hafi sent lögmönnum stefnanda bréf 22. janúar s.á. sem hafi verið svar við bréfi 16. sama mánaðar. Þar hafi verið tilkynnt að ákvörðun um niðurlagningu stæði áfram í samræmi við efni bréfsins frá 5. janúar s.á. og fram komi að um greiðslu bið­launa fari eftir ákvæði 5. mgr. til bráðabirgða í lögum nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

Lögmenn stefnanda hafi sent stefnda bréf 5. febrúar s.á. en þar hafi verið hafðar uppi fjárkröfur vegna starfslokanna. Krafist hafi verið greiðslu áunnins frítökuréttar og orlofs, greiðslu á kjarasamningsbundnum yfirvinnustundum, launa til 15. janúar og lögmannsþóknunar. Ítrekaður hafi verið fyrirvari um lögmæti ákvörðunarinnar um niður­­lagningu stöðu stefnanda.

Lögmenn stefnanda hafi sent læknaráði stefnda bréf 10. febrúar s.á. þar sem óskað hafi verið svara við því hvort ráðið liti svo á að ákvörðun um niðurlagningu stöðu stefnanda hafi varðað læknisþjónustu spítalans og hvort leitað hafi verið álits lækna­ráðs áður en ákvörðunin var tekin. Bréfinu hafi verið svarað með bréfi lögmanns stefnda 28. febrúar s.á. Þar hafi greiðslu orlofs og áunnins frítöku­réttar verið lofað. Greiðslu vegna kjarasamningsbundinna yfirvinnu­stunda og greiðslu lögmanns­þóknunar hafi verið hafnað. Fallist hafi verið á að greiða stefnanda laun til 19. janúar s.á. en frá þeim tíma biðlaun.

Með bréfi 10. mars s.á. hafi formaður læknaráðs stefnda svarað bréfi lögmanna stefnanda frá 10. febrúar s.á. Þar komi fram að ráðið starfaði eftir starfsreglum og væri fyrst og fremst ráðgefandi aðili fyrir stjórnendur. Ekki væri vitað um fordæmi þess að læknaráð svaraði lög­mönnum beint og heppilegra talið að vísa spurningum til framkvæmda­stjóra lækninga. Stefnandi hafi þá óskað eftir afstöðu lögmanns stefnda með bréfi 10. júní s.á. Í bréfinu hafi jafnframt verið ítrek­aðar fjárkröfur, sem hefðu verið settar fram, og fyrri fyrirvarar um lögmæti ákvörðunar um niðurlagningu stöðu stefnanda. Krafist hafi verið miskabóta á grundvelli 26. gr. skaðabótalaga vegna ákvarðanatöku stefnda og aðferðafræði stefnda við hana.

Lögmaður stefnda hafi svarað bréfinu 9. september s.á. Í svarbréfinu komi meðal annars fram að stefndi líti svo á að honum væri óskylt að leita afstöðu læknaráðs við ákvörðun um niðurlagningu stöðu stefnanda og að stefndi hefði greitt stefnanda fjárkröfur hans að öllu leyti. Stefnandi hafi leitað eftir rétti sínum vegna áunnins námsleyfis en hann hafi átt inni námsleyfi sem nemi a.m.k. 30 dögum. Með bréfi stefnda 13. apríl 2005 hafi honum verið tilkynnt að hann ætti ekki rétt á því. Óhjákvæmilegt hafi því verið fyrir stefnanda að höfða málið vegna afstöðu stefnda og hinnar ólögmætu ákvarðanatöku.

Krafa stefnanda um að ógilt verði með dómi sú ákvörðun stefnda frá 5. janúar 2004 að leggja niður stöðu stefnanda og segja honum upp störfum sé byggð á nokkrum þáttum sem hver og einn ætti að leiða sjálfstætt til þess að ógilda verði ákvörðunina. Stefnandi hafi lögvarða hagsmuni af því að dómstólar taki afstöðu til ógildingarkröfunnar, enda þótt réttaráhrif slíks dóms yrðu ekki þau að hann tæki við starfi sínu að nýju. Dómur þess efnis að ákvörðunin yrði ógilt hefði þau áhrif á réttarstöðu stefnanda að stefndi yrði að taka nýja ákvörðun um starfslok stefnanda á réttum lagagrundvelli og að gættum málsmeðferðarreglum. Slík niðurstaða hefði m.a. áhrif á rétt stefnanda til biðlauna, enda stofnaðist sá réttur þegar lögmæt ákvörðun hefði verið tekin um niðurlagningu stöðu. Fram að því að slík lögmæt ákvörðun hafi verið tekin eigi stefnandi rétt á hefðbundnum launum fyrir starf sitt.

Ákvörðun stefnda um niðurlagningu stöðu stefnanda hafi verið stjórnvalds­ákvörðun í skilningi 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Stefnda hafi því borið að gæta að málsmeðferðarreglum stjórnsýslulaga gagnvart stefnanda áður en ákvörð­un­in var tekin.

Stefndi hafi brotið gegn meðalhófsreglu stjórn­sýslu­réttarins, sbr. 12. gr. stjórn­sýslulaga nr. 37/1993, við töku ákvörðunar um niður­lagningu stöðu stefnanda, sbr. 34. gr. laga nr. 70/1996. Stefndi hefði getað náð því markmiði sem að var stefnt með skipu­­lags­breytingum með vægari hætti en að leggja stöðuna niður. Að minnsta kosti verði stefndi að bera sönnunarbyrðina fyrir því að svo hafi ekki verið. Þannig verði hann að sýna fram á að viðhlítandi mat hafi farið fram á því hvort mögulegt hefði verið að beita vægara úrræði en niðurlagningu stöðunnar til að ná markmiðum sem að var stefnt en slíkt mat liggi ekki fyrir. Í ákvörðun stefnda frá 5. janúar 2004 sé vísað til samþykktar framkvæmdastjórnar frá 23. desember 2003, en þar sé vísað til skýrslu nefndar um málefni skurðstofu kvennasviðs frá 18. júní s.á. Í ákvörðuninni 5. janúar 2004 hafi verið gengið lengra en fram komi í fundargerð framkvæmda­stjórnar frá 23. desember 2003 en þar komi aðeins fram að rekstur og starfsemi skurð­stofu kvennasviðs skuli frá áramótum falla undir svæfinga-, gjörgæslu- og skurð­stofusvið en hvergi sé þar minnst á að leggja skuli niður stöðu stefnanda. Enn fremur hafi verið gengið mun lengra en lagt hafi verið til í tillögum nefndarinnar um málefni skurðstofu kvennasviðs og að sumu leyti farið þvert gegn þeim. Þannig sé ósamræmi milli tillagn­anna og ákvörðunarinnar 5. janúar 2004. Í tillögunum hafi m.a. verið lögð til fagleg styrking á skurðstofum kvennasviðs. Ákvörðun stefnda hafi hins vegar leitt til faglegrar veikingar þar eð staða yfirlæknis, þ.e. stefnanda, sem hafi borið fag­lega ábyrgð á skurðstofunni og hafi til að bera sérfræðiþekkingu í skurð­lækningum, hafi verið lögð niður og ábyrgð færð til aðila sem ekki hafi slíka sérfræði­þekkingu. Í tillögum nefndarinnar komi fram það álit að áður en til ákvörðunar komi um samein­ingu skurðstofa og breytingar þeim tengdar skuli tillögur þess efnis kynntar starfs­mönnum og „þeim gefinn kostur á að koma fram með sín sjónarmið“. Það hafi ekki verið gert.

Stefndi hafi ekki gefið stefnanda færi á að tjá sig. Við niðurlagningu stöðu samkvæmt 34. gr. laga nr. 70/1996 verði að gæta að andmælarétti starfsmanns, sbr. 13. gr. stjórnsýslulaga, enda eigi undantekningar þær frá andmælarétti sem getið sé um í 1. mgr. 44. gr. laga nr. 70/1996 ekki við um niðurlagningu stöðu í skilningi 34. gr. laganna. Með þessu hefði stefndi brotið gegn andmælareglunni sem leiði til ógild­ingar á ákvörðuninni. Brot stefnda hafi verið gróft, þ.e. stefnanda hafi ekki verið gefið neitt færi á að tjá sig eða koma sjónarmiðum sínum á framfæri áður en ákvörðun hafi verið tekin og um hafi verið að ræða verulega íþyngj­andi ákvörðun.

Þá hafi stefndi brotið gegn rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga með því að leggja ekki nægilega viðhlítandi grundvöll að ákvörðun sinni. Á stefnda hafi hvílt að afla fullnægjandi upplýsinga um þau atriði sem horfa yrði til þegar ákvörðun um niðurlagningu var tekin. Það hafi stefndi ekki gert en ósamræmi sé á milli tillagna nefndar um málefni skurðstofu kvennasviðs og ákvörðunarinnar 5. janúar 2004. Stefndi hafi heldur ekki hirt um að heyra sjónarmið stefnanda eða annarra starfsmanna áður en ákvörðun var tekin en það hefði orðið til að upplýsa málið enn frekar, m.a. um nauðsyn umræddrar niðurlagningar.

Ákvörðun um starfslok stefnanda hafi verið tekin afturvirkt sem fari gegn 20. gr. stjórnsýslulaga en af því lagaákvæði leiði að ákvörðun hafi aðeins réttaráhrif eftir að hún er birt.

Þá hafi yfirstjórnendur stefnda ekki haft lögbundið samráð við læknaráð áður en þeir tóku ákvörðun um niðurlagningu stöðu stefnanda og uppsögn hans. Samkvæmt ákvæði 32.1 laga um heilbrigðisþjónustu nr. 97/1990 skuli við öll sjúkrahús, þar sem þrír læknar eða fleiri starfi og a.m.k. tveir í fullu starfi, starfa læknaráð. Læknaráð skuli samkvæmt ákvæðinu vera stjórnendum til ráðuneytis um öll læknisfræðileg atriði í rekstri sjúkrahússins, og beri stjórnendum að leita álits læknaráðs um allt sem varði læknisþjónustu sjúkrahússins. Í ákvæði 1.2.1 í starfsreglum læknaráðs stefnda frá 27. maí 2003 segi að læknaráð skuli vera stjórn­endum til ráðuneytis í málum er varði þróun stefnda og skipulag, samstarf og sam­hæfingu starfskrafta, rekstur, stjórn­un, uppbyggingu og nýtingu einstakra stofnana stefnda. Í málinu sé óumdeilt að yfir­stjórnendur stefnda, sem stóðu að ákvörðuninni um niðurlagningu starfs stefnanda, leituðu ekki álits læknaráðsins vegna ákvörðunarinnar sem þeim hafi borið augljós og ótvíræð skylda til samkvæmt framangreindu ákvæði laga um heilbrigðisþjónustu.

Með vísan til málsástæðna og sjónarmiða stefnanda verði að telja ákvörðun stefnda, sem tilkynnt hafi verið með bréfi 5. júní 2004, ólögmæta. Verði því að taka til greina kröfu stefnanda um að hún verði ógilt. Stefnandi hafi frá upphafi haft uppi fyrirvara um lögmæti niðurlagningar stöðu hans og við biðlaunum hafi verið tekið með fyrirvara um lögmætið. Þar eð ákvörðunin hafi verið ólögmæt eigi stefnandi rétt á launum enn þann dag í dag því að engin lögmæt ákvörðun hafi verið tekin um starfslok hans hjá stefnda.

Stefnandi krefjist greiðslu að fjárhæð 3.945.228 krónur á grundvelli ákvæða kjara­samnings milli fjármálaráðherra, f.h. ríkissjóðs, og St. Franciskusspítala annars vegar og Læknafélags Íslands hins vegar. Hann hafi þurft að hætta yfirvinnu að læknis­ráði um áramótin 2001/2002 eins og fram komi í vottorði Árna Kristinssonar, yfir­læknis hjá stefnda, 2. júní 2004. Þar komi fram að á árinu 1996 hafi stefnandi farið að finna fyrir óþægindum í brjósti og verið lagður inn á hjartadeild það ár. Stefnandi hafi farið í hjartaþræðingu og hafi komið í ljós þrengsli í kransæðum og háþrýstingur. Einkenni hafi svo komið aftur árið 2000 og hafi stefnandi þá farið í aðra hjarta­þræðingu. Í desember 2001 hafi svo komið í ljós háþrýstingur og í kjölfarið hafi honum eindregið verið ráðlagt að hætta að taka næturvaktir. Í vottorði Tönju Þorsteinsson 8. mars 2005 sé staðfest að stefnandi hafi formlega hætt að taka vaktir frá og með byrjun árs 2002 sökum veikinda. Vegna mönnunarerfiðleika hafi hann þó tekið nokkrar vaktir að beiðni yfirmanna. Stefnandi mótmæli því að hann hafi sýnt tómlæti eða að krafan hafi fallið niður af þeim sökum eins og stefndi haldi fram. Samkvæmt fyrningarreglum sé krafan ófyrnd.

Réttur stefnanda til yfirvinnugreiðslna í veikindum sé leiddur af ákvæði 9.2.1 kjarasamningsins. Þar segi að starfsmaður, sem ráðinn sé til starfa á mánaðarlaunum í a.m.k. tvo mánuði, skuli halda launum samkvæmt gr. 9.2.6-9.2.7 svo lengi sem veikindadagar verði ekki fleiri á hverjum 12 mánuðum en 175 þegar um sé að ræða starfsmann sem hafi starfað í a.m.k. sjö ár en stefnandi hafi starfað mun lengur hjá stefnda. Nánar sé kveðið á um réttinn í ákvæði 9.2.7 kjarasamningsins þar sem segi að eftir fyrstu viku veikinda- og slysaforfalla, eða þann tíma sem svari til einnar viku vinnuskyldu starfsmanns, skuli hann auk launa sem greidd verði samkvæmt gr. 9.2.6, fá greitt meðaltal þeirra yfirvinnustunda sem hann hafi fengið greiddar síðustu 12 mánaðarleg uppgjörstímabil yfirvinnu eða síðustu 12 heilu almanaksmánuðina. Við útreikning yfirvinnustunda samkvæmt þessari grein skuli ekki telja með þær yfir­vinnu­stundir sem greiddar hafi verið samkvæmt gr. 9.2.6. Samkvæmt ákvæðinu fari laun stefnanda árin 2002-2004 eftir meðaltali yfirvinnustunda sem hann hafi fengið greiddar síðustu tólf mánuði áður en hann hafi látið af yfirvinnunni vegna veikinda.

Yfirvinnulaun stefnanda árið 2001 hafi verið 2.203.684 krónur, eins og fram komi á launamiða fyrir það ár. Til viðbótar því komi 13,04% orlof samkvæmt ákvæði 5.2 kjarasamningsins. Þá bætist við framlag vinnuveitanda í lífeyrissjóð samkvæmt ákvæðum í 13. kafla kjarasamningsins, þ.e. 8,4%. Loks bætist við 2% við­­bótar­­framlag vinnuveitanda í séreignasjóð samkvæmt ákvæði 13.2 kjara­samnings­ins. Grundvöllur út­­reikn­ings kröfu stefnanda séu því yfirvinnugreiðslur á árinu 2001, samtals að fjárhæð 2.754.298 krónur (2.203.684 + 13,04% + 8,4% + 2%).

Stefnandi eigi rétt á yfirvinnulaunum fyrir árin 2002 og 2003 þegar hann starfaði enn í þágu stefnda og enn fremur þá 12 mánuði sem hann hafi notið biðlauna. Við biðlaunum hafi verið tekið með fyrirvara og sé þess krafist að greiðsla vegna yfirvinnu komi til viðbótar greiðslum frá stefnda á árinu 2004, hvort sem talið verði að um sé að ræða biðlaun eða hefðbundin laun. Alls sé því um að ræða þrjú heil ár. Fyrir hvert ár sé réttur stefnanda 1.320.554 krónur (2.754.298 x 175 dagar/365 dagar). Heildarkrafa hans vegna tilgreindra þriggja ára sé því 3.961.662 krónur (1.320.554 x 3).

Verði ekki fallist á að stefnandi eigi rétt á yfirvinnugreiðslum vegna veikinda á þessum grundvelli, þ.e. miðað við síðustu 12 mánuði áður en hann hafi þurft að láta af yfirvinnustörfum vegna áranna 2002-2004, sé þess krafist til vara að vegna hvers árs, sem krafist er yfirvinnulauna fyrir, sé tekið mið af 12 mánuðum á undan því ári. Krafan vegna yfirvinnugreiðslna verði því þannig að vegna ársins 2002 eigi að miða við árið 2001, vegna ársins 2003 eigi að miða við árið 2002 og vegna ársins 2004 eigi að miða við árið 2003. Krafa vegna ársins 2002 sé að fjárhæð 1.320.554 krónur (2.754.298 x 175 dagar/365 dagar). Krafa vegna ársins 2003 sé 633.142 krónur (1.320.554 x 175 dagar/365 dagar) og vegna ársins 2004 sé hún 303.561 krónur (633.142 x 175 dagar/365 dagar). Varakrafan sé því alls að fjárhæð 2.257.257 krónur. Dráttarvaxta sé í báðum tilfellum krafist frá 5. mars 2004 en þá hafi mánuður verið liðinn frá því að krafa um þennan þátt hafi verið lögð fram með bréfi lögmanna stefnanda.

Stefndi krefjist greiðslu að fjárhæð 539.303 krónur vegna áunnins námsleyfis. Samkvæmt grein 8.1 sama kjarasamnings eigi læknir með sérfræðileyfi rétt á að fá greiddan kostnað, þ.m.t. eðlileg námskeiðsgjöld, við náms­ferðir til útlanda í 15 almanaksdaga árlega eftir nánari ákvörðun vinnuveitanda. Samkvæmt ákvæðinu geti ónotaður réttur aldrei orðið meiri en 30 almanaksdagar. Stefnandi hafi ekki fengið greitt námsleyfi fyrir árin 2003 og 2004. Eigi hann því inni sem nemi a.m.k. 30 dögum. Stefndi hafi hafnað því að stefnandi eigi rétt á námsleyfi, sbr. bréf til stefn­anda 13. apríl 2005. Fjárhæð kröfunnar taki mið af einum launamánuði stefnanda hjá stefnda, 431.491 krónu. Til viðbótar því komi 13,04% orlof samkvæmt ákvæði 5.2 kjarasamningsins. Þá bætist við framlag vinnuveitanda í lífeyrissjóð samkvæmt ákvæðum 13. kafla kjarasamningsins, þ.e. 8,4%. Loks bætist við 2% viðbótarframlag vinnuveitanda í séreignasjóð samkvæmt ákvæði 13.2 kjarasamningsins. Krafan um greiðslu áunnins námsleyfis sé því 539.303 krónur. Krafist sé dráttarvaxta af þessari kröfu frá þing­festingardegi málsins, sbr. 4. mgr. 5. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001.

Stefnandi krefjist miskabóta að fjárhæð 400.000 krónur en krafan sé byggð á 26. gr. skaðabótalaga og sé til komin vegna þeirrar meingerðar gegn æru og persónu stefnanda sem felist í því hvernig staðið var að uppsögn hans og niðurlagningu stöðu hans. Stefnandi hafi mest af starfsævi sinni starfað hjá stefnda og helgað honum starfskrafta sína nær óskipt í 29 ár. Stefnandi hafi framkvæmt um og yfir 25.000 aðgerðir á starfsferli sínum og sinnt mikilli yfirvinnu í þágu stefnda í áratugi. Með því að standa að ákvörðun sinni eins og raun beri vitni hafi stefndi ráðist harkalega að starfsheiðri stefnanda, æru hans og persónu. Einkum verði þar að líta til þeirra atriða sem eigi að leiða til ógildingar á ákvörðun stefnda og hér hafi verið rakin. Þá hafi stefndi á sama tíma reynt að skerða óumdeild og skýr réttindi sem stefnandi hafi átt að njóta samkvæmt lögum. Fjárhæð miskabótakröfunnar sé matskennd en til hliðsjónar væru dómafordæmi Hæstaréttar, eftir því sem unnt væri, og sé fjárhæð kröfunnar stillt í hóf. Krafan beri dráttarvexti frá 10. júlí 2004 en þá hafi mánuður verið liðinn frá því að hún var fyrst sett fram, sbr. lög um vexti og verðtryggingu.

Vegna ákvörðunar stefnda 5. janúar 2004 hafi stefnandi leitað til lögmanna við aðstoð mála sinna. Stefnandi krefjist í málinu að stefndi greiði innheimtuþóknun lög­manna stefnanda sem nemi 234.426 krónum vegna innheimtu þeirra biðlauna stefn­anda sem stefndi hafi ætlað að skerða með ólögmætum hætti. Stefnanda hafi verið tilkynnt að hann fengi greidd laun í uppsagnarfresti í sex mánuði. Óumdeilt sé að stefnandi hafi átt rétt á biðlaunum í tólf mánuði en stefndi hafi reynt að skerða þann rétt í sex mánuði. Þar sem stefndi hafi ekki viðurkennt rétt stefnanda fyrr en eftir aðkomu lögmanna stefnanda og vegna kröfubréfs þeirra sé stefnda skylt að standa stefnanda skil á lögmannskostnaði. Vísist til almennra reglna og dómvenju fjármuna­réttar að þessu leyti og til Hæstaréttardóms 1988 bls. 1326. Þess sé krafist að stefndi greiði innheimtuþóknun lög­manna sem nemi mismuni á greiðslu fyrir tólf mánuði annars vegar og greiðslu fyrir sex mánuði hins vegar, en aðeins sé miðað við grunn­biðlaun í þessu sambandi. Stefnandi hafi fengið biðlaun að fjárhæð 4.908.210 krónur á árinu 2004 og í janúar 2005 hafi honum verið greidd biðlaun að fjárhæð 277.773 krónur. Biðlaunagreiðslur hafi því verið alls 5.185.983 krónur. Til viðbótar komi 13,04% orlof, 8,4% framlag vinnuveitanda í lífeyrissjóð og 2% viðbótarframlag vinnuveitanda í séreignasjóð. Heildarbiðlauna­greiðslur hafi verið 6.481.756 krónur (5.185.983 + 13,04 + 8,4% + 2%). Mismunur­inn á launum í uppsagnarfresti í sex mánuði annars vegar og rétt­mætum biðlaunum í tólf mánuði hins vegar sé því 3.240.878 krónur (6.481.756/ 2). Inn­heimtuþóknun reiknist í samræmi við ákvæði 2. gr. A gjaldskrár Nestor lögmanna, eins og hún hafi verið þegar krafan var sett fram. Samkvæmt ákvæðinu sé innheimtu­þóknun af 3.240.878 krónum alls 188.294 krónur. Að auki sé krafist 24,5% virðis­auka­skatts. Krafan sé því alls 234.426 krónur. Hún hafi verið sett fram með bréfi 5. febrúar 2004 og sé því krafist dráttarvaxta af henni frá 5. mars það ár í samræmi við lög um vexti og verð­tryggingu.

Fjárkrafa stefnanda sundurliðist samkvæmt öllu framansögðu sem hér segi:

Krafa vegna kjarasamningsbundinna réttinda

3.961.662 krónur

Miskabætur samkvæmt 26. gr. skaðabótalaga  

400.000  

Námsleyfi   

539.303  

Innheimtuþóknun lögmanns         

234.426  

                                                                    Samtals

5.135.391 króna

 

Um lagarök vísi stefnandi til framangreindra sjónarmiða, þ.á m. til starfs­manna­laga, stjórnsýslulaga, meginreglna stjórnsýsluréttar og kjarasamnings. Vísað sé til meginreglna fjármunaréttar vegna innheimtukostnaðar á fjárkröfu og til 26. gr. skaða­bóta­laga vegna kröfu um miskabætur. Um dráttarvaxtakröfu vísist til laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 og um málskostnaðarkröfu til laga um meðferð einkamála nr. 91/1991, einkum 129. og 130. gr. laganna.

Málsástæður og lagarök stefnda

Af hálfu stefnda er málsatvikum lýst þannig að stefnandi hafi verið ráðinn til starfa hjá ríkisspítölum á árinu 1975 sem sérfræðingur samkvæmt venjubundinni ráðningu. Stefnandi hafi verið ráðinn í starf yfir­læknis frá 20. ágúst 1998 og hafi hann gegnt því starfi til janúarmánaðar 2004.

Stefndi sé sjúkrahús sem starfi samkvæmt ákvæðum laga nr. 97/1990 um heil­brigðis­þjónustu. Stefndi hafi tekið við starfsemi Sjúkrahúss Reykjavíkur og ríkis­spítala, sbr. nánar ákvæði reglugerðar nr. 127/2000 um sameiningu heilbrigðis­stofnana er hafi öðlaðist gildi 2. mars 2000. Í kjölfar sameiningar Sjúkrahúss Reykjavíkur og ríkisspítala og stofnun stefnda hafi verið unnið að sameiningu sviða og deilda, auk þess sem tilteknir þættir í starfsemi sjúkrahússins hafi verið endurskipulagðir. Vinnu sem tekið hafi til starfsemi skurðstofa hafi að mestu lokið á árunum 2003 og 2004. Starfsemi stefnda sé í sífelldri endurskoðun þar sem leitast sé við að bæta hana og auka þjónustu við sjúklinga.

Í maímánuði 2003 hafi verið skipuð nefnd til að kanna hagkvæmni breytinga á hlutverki skurðstofu kvennasviðs á næstu áratugum. Hún hafi verið skipuð sjö sér­fræð­ingum lækninga og hjúkrunar. Í skýrslu nefndarinnar 18. júní 2003 komi fram að hún hafi við meðferð málsins kallað til sviðsstjóra barnasviðs, yfirlækni barnaskurð­lækninga, sviðsstjóra byggingasviðs og jafnframt hafi verið farið yfir þarfir skurð­lækna vegna brjóstakrabbameins. Í niðurstöðu nefndarinnar komi fram sú tillaga að skurðstofur kvennasviðs verði sameinaðar skurðstofurekstri svæfinga-, gjör­gæslu- og skurðstofusviðs (SGS).

Á fundi framkvæmdastjórnar 23. desember 2003 hafi verið samþykkt tillaga fram­kvæmdastjóra hjúkrunar og framkvæmdastjóra lækninga, að rekstur og starfsemi skurðstofu á kvennasviði félli frá áramótum undir svæfinga-, gjörgæslu- og skurð­stofusvið. Í samþykktinni segi enn fremur að þetta sé í samræmi við skýrslu nefndar um skipulag skurðstofu kvennasviðs 18. júní 2003.

Með bréfi stefnda 5. janúar 2004 hafi stefnanda verið tilkynnt um niðurlagningu á starfi hans er miðast skyldi við 1. janúar það ár. Stefnanda hafi verið tilkynnt um upp­sögn á starfi yfirlæknis en í sama bréfi hafi stefndi boðið stefnanda áframhaldandi starf á sjúkrahúsinu. 

Lögmaður stefnanda hafi ritað stefnda bréf 16. janúar s.á. þar sem gerðar hafi verið athugasemdir við ákvörðun stefnda. Þar hafi því verið lýst yfir að stefnandi hefði ekki í hyggju að taka boði um starf hjá stefnda og jafnframt hafi verið gerð krafa um greiðslu biðlauna í fulla 12 mánuði frá 1. janúar 2004 að telja. Þá hafi verið gerður sérstakur fyrirvari um lögmæti ákvörðunar stefnda. Í bréfi stefnda til lögmanns stefnanda 22. janúar komi fram sú afstaða stefnda að greiða stefnanda bið­laun í 12 mánuði og jafnframt hafi stefndi ákveðið að ganga lengra en krafa stefnanda hljóðaði varðandi upphafstímamark niðurlagningar, þ.e. að miða við 5. janúar í stað 1. janúar eins og lögmaður stefnanda hefði gert kröfu um.

Lögmaður stefnanda hafi ritað stefnda enn á ný bréf 5. febrúar s.á. þar sem gerðar hefðu verið kröfur um fjárhagslegt uppgjör á milli aðila. Gerðar hafi verið kröfur um greiðslu frítökuréttar, vangreiddra yfirvinnulauna, launa fyrir vinnu á tíma­bilinu 1. til 15. janúar 2004 auk lögmannsþóknunar. Í bréfi lögmanns stefnda til lögmanns stefnanda 28. febrúar s.á. komi fram afstaða stefnda til krafna stefnanda. Stefndi hafi staðfest í bréfi að áunninn frítökuréttur og orlof yrði greitt við næstu launaútborgun eins og venja væri til, en þá hafi laun vegna janúarmánaðar 2004 þegar verið greidd. Kröfum stefnanda hafi að öðru leyti verið hafnað þar sem skilyrði til greiðslu þeirra hafi ekki verið talin fyrir hendi. Stefndi hafi upplýst að hann hefði ákveðið, án kröfu stefnanda þar að lútandi, að breyta viðmiðun upphafs­tíma­marks niður­lagningar í 20. janúar í stað 5. janúar eins og áður hefði verið lagt til grundvallar. Ákvörðun stefnda hafi byggst á upplýs­ingum frá sviðsstjóra kven­lækninga­sviðs, þess efnis að síðasti aðgerðardagur stefnanda hefði verið 19. janúar.

Þá hafi lögmaður stefnanda ritað bréf til læknaráðs 10. febrúar 2004, þar sem óskað hafi verið eftir afstöðu ráðsins til þess álitaefnis hvort ákvörðun um breytingar á starfsemi, sem stefnanda hafi verið tilkynnt með bréfi 5. janúar 2004, hafi varðað læknisþjónustu spítalans og þá jafnframt hvort stefndi hefði leitað álits læknaráðs áður en ákvörðun var tekin. Í bréfi læknaráðs til lögmanns stefnanda 10. mars s.á. segi að læknaráð starfi eftir starfsreglum og sé fyrst og fremst ráðgefandi aðili fyrir stjórn­endur. Að öðru leyti hafi læknaráð vísað erindi þessu til stefnda. Lögmaður stefnanda hafi ritað stefnda bréf 10. júní sama ár, þar sem gerðar hafi verið kröfur á hendur stefnda og áréttaður fyrirvari um lögmæti uppsagnar/niðurlagningar á starfi. Krafist hafi verið greiðslu á kjarasamningsbundnum yfirvinnugreiðslum vegna veik­inda stefn­anda, innheimtuþóknunar lögmanns og miskabóta. Með bréfi lögmanns stefnda til lögmanns stefnanda 10. september s.á. hafi öllum kröfum verið hafnað.

Stefndi byggi kröfu um sýknu á því að hann hafi haft ótvíræðar heimildir til að leggja starfi stefnanda niður og allar ráðstafanir gagnvart honum verið í sam­­ræmi við ákvæði laga. Stefndi hafi að fullu og öllu leyti efnt allar fjárhagslegar kröfur gagnvart stefnanda sem eigi því engar van­goldnar kröfur á hendur stefnda.

Stefnandi hafi verið ráðinn til stefnda á árinu 1975. Þar hafi hann starfað sem sér­fræð­­ingur og síðar yfirlæknir allt til upphafs árs 2004. Stefnandi hafi verið ráðinn venju­bundinni ráðningu með gagnkvæmum uppsagnarfresti. Um starfs­menn stefnda gildi ákvæði laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkis­ins. Stofnunin fari sjálf með ákvörðunarvald í málefnum starfsmanna, þ.m.t. varðandi breytingar og endurskipu­lagningu á starfsemi stofnunarinnar. Ákvörðun um niður­lagningu á starfi stefnanda hafi verið lögmæt og hafi stefndi uppfyllt öll nauðsynleg skilyrði við ákvarð­anatökuna. Um starfslok stefnanda hafi farið samkvæmt IX. kafla laga nr. 70/1996, sbr. ákvæði 5. mgr. til bráðabirgða.

Rök stefnda fyrir sýknu af kröfu stefnanda um ógildingu ákvörðunarinnar séu aðallega þau að ákvörðun um niðurlagningu á starfi stefnanda frá 5. janúar 2004 teljist ekki stjórnvaldsákvörðun í skilningi stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Ákvörðunin hafi grundvallast á ákvæðum laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, en þau séu sérlög sem gildi um ríkisstarfsmenn. Samkvæmt því hafi stefnda hvorki borið skylda til að hlíta ákvæðum stjórnsýslulaga né meginreglum stjórnsýsluréttarins við töku ákvörðunar um niðurlagningu á starfi stefnanda. Fyrirkomulag niðurlagningar og ákvarð­ana­taka þar að lútandi fari einvörðungu eftir fyrirmælum laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, en þau séu sérlög sem gangi framar almennum lögum.

Jafnvel þótt talið yrði að stefnda hafi borið að fara að ákvæðum stjórnsýslulaga eða meginreglum stjórnsýsluréttarins í þessum efnum hafi öll nauðsynleg skilyrði verið upp­fyllt. Við undirbúning að töku ákvörð­unar um niðurlagningu á starfi stefnanda hafi verið gætt ýtrustu varúðar og vandað til málsmeðferðar að öllu leyti. Stefndi hafi skipað starfshóp 21. maí 2003 til að fara yfir hagkvæmni breytinga á hlutverki skurðstofu kvennasviðs næsta áratug. Nefndin hafi skilað skýrslu 18. júní s.á. og í kjölfar þess hafi ákvörðun verið tekin um niðurlagningu á starfi stefnanda. Sú ákvörðun hafi að fullu og öllu leyti verið í samræmi við niðurstöðu skýrslunnar.

Verulegur vafi sé á því hvort stefnandi hafi lögvarða hagsmuni af dómsúrlausn varðandi ógildingarkröfuna. Hann hafi verið ráðinn til starfa hjá stefnda á árinu 1975 samkvæmt venjubundinni ráðningu með gagnkvæmum uppsagnarfresti og aftur síðar sem yfirlæknir. Um niður­lagningu á starfi stefnanda hafi farið samkvæmt ákvæðum laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, sbr. ákvæði IX. kafla, sbr. enn fremur ákvæði 5. mgr. ákvæðis til bráðabirgða. Við túlkun ráðstafana og/eða ákvarðana beri að líta til meginreglna sem gildi á hlutaðeigandi réttarsviði. Hér beri því að líta til meginreglna sem gildi í vinnurétti, þ.m.t. um stjórnunarrétt vinnu­veitanda. Enn fremur beri að hafa í huga þá megin­reglu í vinnurétti að starfs­maður geti ekki fengið sig dæmdan í starf á ný, en dómkrafa þessa máls um ógildingu ákvörðunar verði ekki skilin öðruvísi en svo að slík réttaráhrif vaki fyrir stefnanda.  Stefnandi hafi látið af störfum hjá stefnanda og með því fallist á starfslok. Stefnandi hafi á engan hátt sýnt fram á að fyrir hendi séu skilyrði til að fella ákvörðunina úr gildi, en í málatilbúnaði hans sé byggt á því að óverulegir annmarkar séu á ákvörðun­inni sem geti undir engum kringumstæðum leitt til þess að kröfur hans verði teknar til greina.

Verði talið að ákvæði stjórnsýslulaga eða megin­reglur stjórnsýsluréttar hafi gilt um ákvörðunina sé því mótmælt að brotið hafi verið gegn ákvæðum 12. gr. stjórn­sýslu­laga af hálfu stefnda. Stefnda hafi verið heimil sú ákvörðun sem um ræði, enda hafi sérstök skoðun á málefnum skurðstofu legið til grundvallar ákvörðuninni. Vandað hafi verið sérstaklega til alls undirbúnings. Stefndi mótmæli því að ekki hafi farið fram viðhlítandi mat á því hvort unnt hefði verið að beita vægari úrræðum. Með bréfi til stefnanda 5. janúar 2004 hafi stefndi tilkynnt niðurlagningu á starfi stefnanda. Samhliða hafi stefndi boðið stefnanda starf sérfræð­ings við kvennasvið og jafnframt upplýst að sjúkrahúsið myndi greiða honum mismun launa út tímabil sem samsvaraði uppsagnarfresti. Í lok bréfsins hafi stefnanda verið þökkuð stjórnunarstörf í þágu stefnda og að þess væri vænst að hann gæti átt áframhaldandi samleið með stefnda þrátt fyrir þessar skipulagsbreytingar.

Samkvæmt 5. mgr. 29. gr. laga nr. 97/1990 um heilbrigðisþjónustu beri yfir­læknar ábyrgð á lækningum sem fari fram á sérdeildum. Jafnframt skuli yfirlæknir hafa eftirlit með starfsemi deildarinnar og stuðla að því að hún sé ávallt sem hag­kvæmust og markvissust. Í þessu felist ábyrgðar- og stjórnunarhlutverk yfirlækna. Munur á störfum yfirlækna og sérfræðinga felist því í starfsskyldum tengdum ábyrgð og stjórnun sem yfirlæknar beri gagnvart stefnda. Störf þeirra séu í reynd að öðru leyti sambærileg, daglegar starfsskyldur þær sömu og yfirlæknar sinni öllum verk­þáttum sem sérfræðilæknar hafi með höndum. Eigi það t.d. við um meðhöndlun og móttöku sjúklinga, almenna göngudeildarþjónustu o.þ.h. Þannig væri einfaldast að lýsa starfi yfirlæknis sem sérfræðilækni með sérstaka ábyrgð gagnvart stefnda vegna sérgreinar og stjórnunar. Stefndi hafi leitast við að beita vægustu úrræðum í ljósi aðstæðna og sam­hliða því sem væri hagfelldast stefnanda. Í boði stefnda hafi falist sú skýra og af­dráttar­lausa afstaða að hann vænti frekara vinnuframlags og samstarfs við stefnanda. 

Stefndi mótmæli þeirri staðhæfingu stefnanda að ákvörðun um niðurlagningu á starfi stefnanda hafi gengið lengra en fram hafi komið í fundargerð framkvæmda­stjórnar 23. desember 2003. Stefnandi haldi því fram að í fundar­gerðinni hafi einungis komið fram að rekstur og starfsemi skurðstofu kvennasviðs skyldi frá áramótum falla undir svæfinga-, gjörgæslu- og skurðstofusvið en þar hafi ekki verið minnst á að leggja niður starf stefnanda. Nefndinni sem skilað hafi skýrslu 18. júní s.á. hafi verið falið að fara yfir hagkvæmni breytinga á skurðstofu kvennasviðs næsta áratug. Hún hafi skilað skýrslu og gert tillögur sem lotið hafi að skipulagi og fyrir­komu­lagi starfseminnar, en eðli máls samkvæmt hafi ekki verið fjallað um nánari út­færslu á tillögum þar enda hafi stefndi ekki verið skuldbundinn að hlíta þeim. Samþykktin sem fjallað sé um í fundargerð framkvæmdastjórnar 23. desember taki til breytinga á skipulagi og fyrir­komulagi á starfsemi sjúkrahússins. Í breyting­unum hafi jafnframt falist að skurðstofa kvennasviðs yrði ekki lengur sjálfstæð deild eða svið og um leið hafi starf yfirlæknis ekki lengur talist vera til. Þá hafi falist í breyting­unum að fram­kvæmdastjóra lækninga hafi borið að gera viðhlítandi ráðstaf­anir vegna þessa, þ.m.t. að tilkynna stefnanda um niðurlagningu á starfi hans. Stefndi mótmæli því að ákvörðun stefnda hafi gengið mun lengra en lagt hafi verið til í til­lögum nefndarinnar um málefni skurðstofu kvennasviðs eða að farið hafi verið gegn þeim eins og stefnandi haldi fram. Ákvörðunin hafi ekki leitt til faglegrar veikingar starfseminnar, en í skýrslu nefndarinnar komi fram að markmið hennar hafi verið að skoða þarfir og hagkvæmni starfsemi skurðstofu kvennasviðs. Skýrsla nefndarinnar og starfsemin hafi verið skoðuð að öðru leyti af hálfu forsvarsmanna stefnda áður en ákvörðun var tekin. Talið hafi verið að ákvörðun þessi myndi styrkja starfsemi sjúkrahússins til framtíðar litið. Varðandi núverandi fyrirkomulag á faglegri ábyrgð á skurðstofu kvennasviðs hafi hún verið lögð niður og falli starfsemin undir svæfinga-, gjörgæslu- og skurð­stofusvið. Sviðsstjóri hafi falið starfandi yfirlæknum ábyrgð eftir því sem við eigi hverju sinni. Skurðstofa kvennasviðs teljist ekki sérgrein í skilningi 5. mgr. 29. gr. laga nr. 97/1990 um heilbrigðisþjónustu og gildi því að nokkru leyti önnur viðmið þar um. Ákvörðun um sameiningu á skurðstofu kvennasviðs hafi í reynd verið hluti af víðtækari endur­skipu­lagningu sem falist hafi í því að sameina stjórnunarlega allar skurðstofur stefnda á sjúkrahúsinu við Hringbraut annars vegar og í Fossvogi hins vegar undir stjórn eins yfirlæknis á hvorum stað. Hins vegar hafi yfirlæknar sérgreina verið faglega ábyrgir. Í skýrslu nefndarinnar komi fram að til­lögur skyldu kynntar starfsmönnum og þeim gefinn kostur á að koma fram með sín sjónarmið. Þar hafi einungis verið um tillögu að ræða sem stefndi hafi verið óbundinn af. Nokkur umfjöllun hafi farið fram innan sjúkrahússins, bæði áður en skýrsla var unnin og einnig eftir að hún var lögð fram. Stefndi telji fráleitt að með þessu hafi verð brotinn réttur á stefnanda eða farið hafi verið gegn ákvæði 12. gr. laga nr. 37/1993. 

Um starfslok stefnanda hafi gilt ákvæði IX. kafla laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Af 44. gr. lagaanna megi ljóst vera að stefnda hafi ekki verið skylt að veita stefnanda færi á að tjá sig áður en ákvörðun var tekin. Jafnvel þótt talið yrði að ákvæði 13. gr. laga nr. 37/1993 hafi átt við hafi andmælaréttur í reynd verið augljóslega óþarfur í skilningi laganna.

Mótmælt sé að brotið hafi verið gegn ákvæði 10. gr. stjórnsýslu­laga af hálfu stefnda með því að ekki hafi verið lagður nægjanlega viðhlítandi grundvöllur að ákvörðuninni, en stefndi vísi til fyrri umfjöllunar varðandi skýrslu nefndar um málefni skurðstofu kvennasviðs 18. júní 2003 og meðferð sjúkrahússins að öðru leyti sem hér hafi verið lýst.

Ekki skipti máli við úrlausnina þótt upphafleg ákvörðun hafi verið tilkynnt með bréfi 5. janúar 2004 með gildistöku frá 1. janúar s.á. Stefnandi hafi ritað bréf til stefnda 16. janúar s.á. þar sem bent hafi verið á þetta en krafa gerð um greiðslu biðlauna í 12 mánuði frá 1. janúar 2004. Með bréfi stefnda til stefnanda 22. janúar s.á. komi fram sú afstaða stefnda að þar sem stefnandi hefði ekki í hyggju að taka við starfi hjá stefnda skyldu biðlaun greidd. Fallist hafi verið á kröfu stefnanda að miða upphaf biðlaunagreiðslna við 1. janúar 2004. Í bréfi stefnanda til stefnda 5. febrúar  s.á. segi að stefnandi hefði þurft að gegna störfum allt til 15. janúar 2004 og þess því krafist að upphaf biðlaunagreiðslna miðaðist við þá dagsetningu. Með bréfi stefnda til stefnanda hafi verið fallist á framangreinda kröfu stefnanda og reyndar gengið nokkru lengra með því að greiða stefnanda laun til 19. janúar og því hefði upphaf biðlauna­greiðslna miðast við 20. janúar 2004. Almennt gildi sú regla að ákvörðun taki gildi eigi síðar en frá birtingu hennar og með framangreindu háttarlagi hafi stefnandi með skuldbindandi hætti fallist á viðmið gildistöku ákvörð­unar.

Stefnda hafi ekki borið að leggja málið sérstaklega fyrir læknaráð, sbr. 1. mgr. 32.  gr. laga nr. 97/1990 um heilbrigðisþjónustu. Hlutverk læknaráðs lúti að læknis­fræði­legum og faglegum hluta starfsemi sjúkrahússins en ekki stjórnunarlegum, sbr. starfs­reglur ráðsins. Stefndi fari með ákvörðunarvald um daglega starfsemi sjúkrahússins. Afstaða læknaráðs liggi þó í reynd fyrir. Ráðið hafi engar athugasemdir gert vegna þessa og af því megi ráða að engir annmarkar hafi verið á ákvörðuninni. Öðrum sér­fræð­ingum hafi verið falin sú ábyrgð og þær skyldur sem stefnandi hefði áður haft og því hafi aldrei verið um breytingar á starfsemi sjúkrahússins að ræða. Læknis­þjónusta stefnda hafi á engan hátt breyst í tengslum við framangreinda ákvörðun um starfsemi skurð­stofu kvennasviðs.

Forsendur fyrir dómkröfu um að felld verði úr gildi ákvörðun um niðurlagningu á starfi stefnanda frá 5. janúar 2004 séu fráleitt fyrir hendi. Ákvörðunin hafi verið tekin af réttum og þar til bærum aðila og hafi niðurlagning þegar farið fram. Stefndi hafi nú fullnustað öll þau réttindi gagnvart stefnanda sem falist hafi í ákvörðuninni. Stefnandi hafi lokið töku biðlauna og hafi engar athugasemdir eða mótbárur haft uppi vegna þessa. Verði dómkrafa um ógildingu tekin til greina muni sú staða óhjákvæmilega koma upp, hvað sem fullyrðingum stefnanda líði, að stefnandi telji ráðningarsamband málsaðila hafa endurnýjast. Stefnandi hafi þó lýst því yfir á fyrri stigum málsins að störfum hans hjá stefnanda sé lokið. Því séu ekki efnislegar forsendur til að líta svo á að ákvörðunin sé ógild og þá sérstaklega ef litið sé til eftirfarandi háttsemi stefnanda. Stefnandi hafi með beinum hætti átt hlut að máli vegna greiðslu biðlauna og haft uppi kröfur sem stefndi hafi fallist á, þ.m.t. um upphafstímamark biðlaunagreiðslna. Sam­komu­lag hafi orðið um þá þætti og sé stefnandi bundinn niðurstöðunni á þeim grund­velli. Allt að einu hefði stefnandi átt að grípa þá þegar til annarra úrræða eða hafa uppi aðrar kröfur hafi hann talið ákvörðunina ógilda. Stefnanda hafi borið að halda kröfu sinni um ógildingu fram án ástæðulauss dráttar. Miða beri við sambærileg viðmið eða fresti og tilgreindir séu í stjórnsýslulögum og lúti að kröfu um ógildingu, kæru eða endurupptöku stjórnvaldsákvarðana, sbr. VI. og VII. kafli stjórnsýslulaga. Fyrirvari sem stefnandi hafi gert í bréfum til stefnda sé þýðingarlaus að því er dóm­kröfu um ógildingu ákvörðunar varði. Stefnandi hafi ekki haldið rétti sínum fram tíman­lega séð og með tómlæti og aðgerðarleysi sínu hafi hann glatað rétti til að gera slíka kröfu. Stefnandi hafi haft uppi fyrirvara 16. janúar 2004 en mál hafi verið þing­fest fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur 30. júní 2005. Fyrirvari stefnanda hafi einungis varðað meint ólögmæti ákvörðunarinnar, en ekki tekið til þess hvort hún væri ógild eða ógildanleg. Fyrirvarinn samrýmdist því ekki dómkröfu stefnanda og beri því þá þegar að sýkna stefnda.

Kröfum stefnanda um greiðslu launa í veikindum sé hafnað en skilyrði þess séu ekki uppfyllt. Um laun stefnanda í veikindum fari samkvæmt ákvæðum kjarasamnings Læknafélags Íslands og fjármálaráðherra, sbr. 9. kafli kjarasamnings­ins. Samkvæmt grein 9.1. skuli starfsmaður, sem verði óvinnufær vegna veikinda, tilkynna það þegar í stað yfirmanni sínum. Stefnanda hafi samkvæmt því borið að upplýsa stefnda á því tímamarki sem veikindi áttu sér stað svo stefndi gæti tekið um það ákvörðun að óska eftir læknisvottorði á þeirri stundu frá lækni starfsmanns eða frá trúnaðarlækni sjúkrahússins. Vottorðsskylda sé ótvíræð eftir 5 daga veikindi, sbr. ákvæði greinar 9.2.1. Stefnandi hafi ekki uppfyllt skilyrði þessa ákvæðis og ber stefnda því ekki að greiða honum vegna þessa. Stefnandi hafi verið í fullu starfi á þessum tíma og því fráleitt veikur í skilningi ákvæða kjarasamnings eða óvinnufær í skilningi laga og kjara­­samninga. Þá liggi ekki fyrir hvort fyrir hendi séu ástæður sem dregið geti úr gildi læknisvottorða sem stefnandi hafi lagt fram. Vottorð lækna í máli þessu uppfylli heldur á engan hátt skilyrði kjarasamninga til að geta talist grundvöllur launagreiðslna í veikindum, en þau hafi verið gefin út löngu eftir að meintum veikindum lauk og teljast því ekki læknisvottorð í skilningi 9. kafla kjarasamnings. Þá geti viðmið yfirvinnu stefnanda á árinu 2002 ekki talist viðhlítandi grundvöllur kröfugerðar. Skortur hafi verið á deildarlæknum á árinu 2001 og hafi sérfræðingar þá gengið næturvaktir. Frá ársbyrjun 2002 hafi einungis þeir sérfræð­ingar sem sinnt hafi fæðingum starfað á næturvöktum en aðrir sérfræðingar, sem sinnt hafi almennum kvenlækningum eins og stefnandi, hafi ekki starfað á næturvöktum. Stefnandi hafi samkvæmt því ekki farið á mis við neinar launagreiðslur. Jafnvel þó svo að stefnandi hafi átt rétt til greiðslu launa samkvæmt því sem hann haldi fram sé dóm­krafa hans alltof há. Túlka beri ákvæði kjarasamnings um greiðslu launa í veik­indum þannig að tilgreindur fjöldi daga sé hámarksfjöldi. Í því felist að starfs­maður geti að hámarki átt rétt til greiðslu launa í þann dagafjölda í samfelldum veikindum eins og dómkrafa byggist á. Í samræmi við ákvæði greinar 9.2., sbr. einkum ákvæði greinar 9.2.1. megi ljóst vera að um hámarksrétt sé að ræða á 12 mánaða tíma­bili. Eins og kröfugerð hafi verið sett fram í máli þessu virtist sem um samfelld veikindi hafi verið að ræða á tíma­bilinu. Veikindaréttur samkvæmt kjarasamningi endurnýist ekki við slíkar að­stæður. Forsendur útreiknings séu andstæðar ákvæðum kjarasamnings. Kröfur stefn­anda um greiðslu yfirvinnulauna á biðlaunatíma séu and­stæðar ákvæðum laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins sem og dómaframkvæmd. Stefnandi eigi einungis rétt til biðlauna er samsvari föstum mánaðarlaunum og falli tilfallandi yfirvinna eða meðaltalsyfirvinna þar utan. Þá hafi stefnandi fyrirgert rétti sínum vegna tómlætis og aðgerðarleysis til að hafa uppi fjárkröfur nú enda langt um liðið síðan meint veikindi áttu sér stað. Honum hafi borið að hafa uppi kröfur á meintum veikinda­­tíma en kröfur nú séu niður fallnar. Stefndi mótmæli sérstaklega kröfufjár­hæðum og dagafjölda í þessum kröfulið en það eigi bæði við um aðalkröfur og vara­kröfur auk þess sem viðmiðin, sem stefnandi byggi útreikning daga­fjölda og greiðslna á, standist hvorki ákvæði kjarasamnings að því er aðalkröfur varði né varakröfur. Dómkröfum stefnanda sé mótmælt sem röngum, órök­studdum og of háum og vara­kröfunni sem vanreifaðri. Upp­hafs­tíma dráttar­vaxta sé enn fremur mótmælt.

Kröfum stefnanda um greiðslu vegna áunnins námsleyfis sé mótmælt. Um náms­leyfi stefnanda hafi í starfi hans hjá stefnda farið eftir ákvæði 8. kafla kjarasamn­ings Læknafélags Íslands og fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs. Ákvæði greinar 8.1. veiti lækni rétt til að fá greiddan kostnað, þ.m.t. eðlileg námskeiðsgjöld, við námsferðir til útlanda í 15 almanaksdaga árlega eftir nánari ákvörðun vinnuveitanda. Inntak náms­leyfis sé að viðhalda og bæta við þekkingu og hæfni læknis. Eðli máls samkvæmt geti læknir átt slíkan rétt á meðan hann sé í starfi en ekki eftir að því ljúki. Í ákvæðinu segi að taka námsleyfis fari eftir nánari ákvörðun vinnuveitanda, en ekki hafi verið fallist á að stefnandi færi í námsferðir á umræddum tíma. Venja hafi skapast um þessa túlkun sem og framkvæmdina að öðru leyti. Megininntak ákvæðisins sé engu að síður réttur læknis til að fá greiddan kostnað, þ.m.t. námskeiðsgjöld, og jafnframt að fá leyfi frá störfum á sama tíma. Ákvæði greina 8.2. og 8.3. styðji framangreinda túlkun og af þeim sé ljóst að greiðslur í námsleyfi séu bundnar því að um eiginlega námsferð sé að ræða og jafnframt að markmiðið sé að greiða kostnað þeirra sem til falli vegna námsferða. Því geti aðeins verið um greiðslu dagpeninga að ræða. Skilyrði skorti því til að greiða námsleyfi út við starfslok eins og dómkrafa stefnanda miðist við. Stefnandi geri enn fremur kröfu um greiðslu námsleyfis á biðlaunatíma en á þeim tíma eigi hann einungis rétt til greiðslu fastra mánaðarlauna. Því geti þessi hluti dóm­kröfu stefnanda ekki komið til álita.

Kröfu stefnanda um greiðslu miskabóta sé hafnað. Stefndi hafi á engan hátt brotið gegn stefnanda og ákvörðun um niðurlagningu stöðunnar hafi að öllu leyti verið lög­mæt. Stefndi mótmæli því að sú ákvörðun hafi á einhvern hátt beinst gegn stefnanda persónulega, starfsheiðri hans, æru eða persónu, hvað þá að í henni hafi falist mein­gerð í hans garð. Um endurskipulagningu á starfsemi stefnda hafi verið að ræða.  Stefndi hafi leitað eftir frekara vinnuframlagi úr hendi stefnanda en hann hafi hafnað því. Störf fjölmargra annarra starfsmanna hafi verið lögð niður á fyrri stigum endurskipulagningar og hafi sömu aðferð verið beitt við niður­lagningu á starfi stefnanda og almennt hafi tíðkast gagnvart starfsmönnum stefnda. Því sé alfarið hafnað að skilyrði 26. gr. skaða­bóta­­­laga séu fyrir hendi í máli þessu. Kröfu stefnanda um miskabætur sé hafnað, dráttarvöxtum og upphafstímamarki dráttar­vaxta.

Kröfu stefnanda um greiðslu lögmannskostnaðar sé mótmælt. Enginn ágreiningur hafi verið á milli málsaðila um önnur atriði en um ræði í dómsmáli þessu. Stefndi hafi í upphafi lagt fram tilkynningu um niðurlagningu á starfi og samhliða boð um annað starf. Stefnandi hafi hafnað þessu boði og stefndi hafi þá fallist á að greiða honum biðlaun. Enginn ágreiningur hafi verið um það hvort miða ætti við 6 eða 12 mánaða greiðslutíma eftir að fullnægjandi upplýsingar höfðu borist. Biðlaunagreiðslur hafi allar verið inntar af hendi á réttum gjalddögum og aldrei hafi orðið greiðsludráttur. Hins vegar hafi þurft að afla upplýsinga frá starfstíma hans hjá ríkisspítölum og stefnda. Stefnanda hafi verið í sjálfsvald sett að afla sér atbeina lögmanns eða eftir atvikum stéttarfélags hans sem hafi það hlutverk að gæta réttar félagsmanna. Dóm­inum beri að skera úr um greiðslu málskostnaðar hvað varðar þau atriði sem um sé deilt.

Stefndi hafi ítrekað skorað á stefnanda að leggja fram upplýsingar um laun og aðrar greiðslur sem hann hafi notið á biðlaunatímanum, en stefndi hafi heimildir fyrir því að stefnandi hafi notið verulegra launa á tímabilinu sem komi til frádráttar. Samkvæmt 2. mgr. 34. gr. laga nr. 70/1996 skuli laun sem sá er biðlauna njóti á greiðslutímabili dragast frá biðlauna­greiðslum.

Stefndi vísi til ákvæða laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkis­ins, meginreglna íslensks vinnuréttar, stjórnsýslulaga nr. 37/1993, meginreglna stjórn­sýslu­réttar, laga nr. 97/1990 um heilbrigðisþjónustu, 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, meginreglna samningaréttar um skuldbindingagildi og meginreglna fjár­muna­­­réttar. Þá vísi stefndi til meginreglna um réttarverkanir tóm­lætis og athafna­leysis. Um heimild til að leggja fram gagnkröfu til skuldajafnaðar vísist til 28. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Um málskostnað vísi stefndi til ákvæða 129. og 130. sömu laga.  

Niðurstaða

Af hálfu stefnanda er vísað til þess að hann hafi lögvarða hagsmuni af því að dómurinn taki afstöðu til ógildingarkröfu hans. Hann telur að með því að krafan verði tekin til greina hefði það þau áhrif á réttarstöðu hans að stefndi yrði að taka nýja ákvörðun um starfslok stefnanda á réttum lagagrundvelli og að gættum málsmeð­ferðar­reglum. Niður­­staðan hefði meðal annars áhrif á rétt stefnanda til biðlauna, enda stofnaðist sá réttur þegar lögmæt ákvörðun hefði verið tekin um niðurlagningu yfir­læknisstöðunnar. Fram að þeim tíma er lögmæt ákvörðun hefði verið tekin um starfs­lok stefnanda hjá stefnda ætti hann rétt á hefðbundnum launum fyrir starf sitt. Þessu heldur stefnandi fram þrátt fyrir að óumdeilt sé að stefnandi hvorki gegndi yfirlæknis­stöðunni né starfaði hjá stefnda eftir 19. janúar 2004.

Dómurinn telur að ekki hafi verið færð fullnægjandi rök fyrir þeirri staðhæfingu stefnanda að hann hafi lögvarða hagsmuni af því að fá sérstaklega leyst úr ógildingar­kröfunni án þess að fram komi hverjar kröfur stefnandi telji sig eiga á hendur stefnda af þessu tilefni. Stefn­andi krefst þó í málinu miska­bóta úr hendi stefnda vegna hinna meintu ólög­mætu ákvarðana stefnda. Við úrlausn á miskabóta­kröfunni er óhjákvæmi­legt að taka afstöðu til máls­ástæðna stefnanda um að ólögmætt hafi verið að leggja yfirlæknisstöðuna niður og segja stefnanda upp stöðunni. Af þeim sökum er stefnanda engin þörf á því að hafa uppi sérstaka ógild­ingar­­kröfu um þessar ákvarðanir stefnda eins og hann hefur hér gert. Með þessum mála­til­búnaði stefnanda eru ekki uppfyllt skilyrði 1. og 2. mgr. 25. gr. laga um meðferð einkamála hvað ógild­ingar­kröfuna varðar sem þurfa að vera fyrir hendi til þess að unnt verði að leysa úr henni eins og stefnandi krefst. Verður af þeim sökum að vísa kröfunni frá dómi.

Krafa stefnanda um greiðslu fyrir yfirvinnu sem hann hafi ekki getað unnið í veikindum á árunum 2002 til 2004 sem hann telur sig eiga rétt á samkvæmt ákvæði 9.2.1 í kjarasamningi frá árinu 2002 á milli fjármálaráðherra fyrir hönd ríkissjóðs og St. Franciskus­spítala annars vegar og Læknafélags Íslands hins vegar kom fyrst fram í bréfi lögmanna stefnanda til stefnda 5. febrúar 2004. Samkvæmt þessu kjarasamnings­ákvæði skal starfs­maður halda launum vegna veikinda í ákveðinn fjölda daga á hverjum 12 mánuðum en daga­fjöldinn miðast við starfstíma. Óumdeilt er að yfirlækni á kvennadeild stefnda var kunnugt um að stefnandi hætti að vinna yfirvinnu og gegna næturvöktum frá árinu 2002 af heilsufarsástæðum og að læknisráði. Af hálfu stefnda hefur þó aldrei verið viðurkennt að stefnandi ætti rétt á greiðslum vegna þessa, enda var ekki farið fram á það af stefnanda hálfu á þessum tíma. Af því sem fram hefur komið í málinu verður ekki talið að réttur stefnanda til þessa sé ótvíræður. Stefnandi fékk greidd laun mánaðarlega út starfstíma sinn hjá stefnda. Á þeim tíma komu aldrei fram athuga­semdir af hans hálfu þess efnis að launagreiðslum væri áfátt og engir fyrirvarar voru gerðir vegna launanna fyrr en til greiðslu biðlauna kom á árinu 2004. Stefndi hafði því enga vitneskju um að stefnandi teldi sig eiga kröfu vegna yfirvinnugreiðslna í veikindum frá árinu 2002 fyrr en á árinu 2004. Að þessu virtu verður að telja að réttur stefnanda til að krefja stefnda um hina umdeildu greiðslu hafi fallið niður vegna tómlætis hans. Krafa stefnanda um þessa greiðslu verður því þegar af þeirri ástæðu ekki tekin til greina.

Námsleyfi sem stefnandi krefst að fá greitt fyrir á árunum 2003 og 2004 er vegna námsferða sem stefnandi fór ekki í. Í kjarasamningsákvæðinu sem stefnandi vísar til í þessu sambandi segir að læknir með sérfræðileyfi eigi rétt á að fá greiddan kostnað, þ.m.t. eðlileg námskeiðsgjöld, við náms­ferðir til útlanda í 15 almanaksdaga árlega eftir nánari ákvörðun vinnuveitanda. Stefnandi hefur reiknað fjárhæð kröfunnar þann­ig að tekið er mið af einum launamánuði stefnanda hjá stefnda. Krafan er því ekki sett fram sem endurgreiðsla á kostnaði á þeim tíma sem ferðir hafi verið farnar. Með vísan til þessa þykir stefnandi ekki hafa sýnt fram á að hann eigi rétt á greiðslu úr hendi stefnanda samkvæmt þessum kröfulið og verður hann af þeim sökum ekki tekinn til greina.

Krafa stefnanda um miskabætur úr hendi stefnda er byggð á 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 en samkvæmt henni er heimilt að láta þann sem ber ábyrgð á ólögmætri meingerð gegn frelsi, friði, æru eða persónu annars manns greiða miskabætur til þess sem misgert er við. Stefnandi vísar í því sambandi til þess að ólögmætt hafi verið að leggja yfirlæknisstöðu hans niður og segja honum upp stöðunni. Einkum hafi máls­með­ferðar­­reglur verið brotnar. Skýra verður 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 þannig að þar sé átt við að lögin taki til ákvarð­ana um skipun, setningu og ráðningu opinberra starfsmanna, svo og lausn þeirra frá störf­um, en slíkar ákvarðanir teljast stjórnvaldsákvarðanir.

Samkvæmt 1. mgr. 30. gr. laga um heilbrigðisþjónustu nr. 97/1990 er stefndi undir yfirstjórn heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins, en stjórn spítalans er að öðru leyti í höndum sjö manna stjórnarnefndar. Forstjóri stefnda er skipaður af ráð­herra að fengnum tillögum stjórnarnefndar. Forstjóri stjórnar fjár­málum og dag­legum rekstri spítalans í umboði stjórnarnefndar og ráðuneytis. Fram kemur í 8. mgr. sömu laga­­greinar að forstjóri stefnda ráði annað starfslið stefnda en það sem ráðherra skipar. Samkvæmt 1. mgr. 32. gr. laganna skal starfa læknaráð við öll sjúkrahús þar sem þrír læknar eða fleiri starfa. Læknaráð skal samkvæmt lagaákvæðinu vera stjórnendum til ráðuneytis um öll læknis­fræðileg atriði í rekstri sjúkrahússins og ber stjórnendum að leita álits læknaráðs um allt sem varðar læknisþjónustu sjúkrahússins.

Ákvörðun stefnda um að rekstur og starfsemi skurðstofu á kvennasviði yrði frá 1. janúar 2004 felld undir svæfinga-, gjörgæslu- og skurðstofusvið var tekin af fram­kvæmda­stjórn stefnda á fundi 23. desember 2003, eins og fram hefur komið. Í fundar­gerðinni er vísað til þess að það sé í samræmi við skýrslu nefndar um skipulag skurð­stofu kvennasviðs. Í framburði tveggja lækna fyrir dóminum, sem höfðu undirritað skýrsluna, kom meðal annars fram að í skýrslunni væri aðeins átt við hjúkrunarþáttinn en ekki lækningar. Sú skýring hafði ekki komið fram áður í málinu og ekki er að sjá að hún hafi viðhlít­andi stoð í gögnum málsins eða að stefnandi byggi á þessu í málatilbúnaði sínum. Skilja verður málsvörn stefnda þannig að eftir að rekstur og starf­semi skurð­stofu kvennasviðs var felld undir svæfinga-, gjör­gæslu- og skurð­stofu­svið hafi ekki lengur átt við að sérstakur yfirlæknir skurðstofu kvennasviðs hefði eftirlit með starf­sem­inni sem þar færi fram eða gegndi þar stjórnunarstörfum. Af þessu leiddi óhjá­kvæmilega að yfirlæknisstaðan, sem stefnandi hafði gegnt frá árinu 1998, var lögð niður. Verður ekki fallist á þau rök stefnanda að gengið hafi verið lengra með ákvörð­uninni 5. janúar 2004 en fram komi í fundargerð framkvæmdastjórnarinnar og lagt hafi verið til í tillögum nefndar um málefni skurðstofu kvennasviðs frá 18. júní 2003 eða að farið hafi verið gegn þeim eða ósamræmis gæti milli ákvörðunarinnar og til­lagnanna. Staðhæfingar stefnanda um að ákvarðanir stefnda hafi leitt til faglegrar veikingar á starfseminni, þar sem ábyrgð á henni hafi verið færð til aðila sem hafi ekki sérþekkingu í skurðlækningum, eru ekki studdar viðeigandi gögnum og verður því að telja þær ósannaðar. Ekki liggur heldur fyrir að stefndi hafi átt kost á að beita öðrum vægari úrræðum en gert var, en stefnandi hefur ekki upplýst hver hann telur úrræðin hafa átt að vera önnur en þau að stefndi hefði átt að láta fara fram viðhlítandi mat á því hvort unnt hefði verið að beita vægara úrræði en að leggja stöðuna niður til að ná markmiðum sem stefnt hafi verið að. Við úrlausn málsins verður að miða við að ákvarðanir stefnda hafi byggst á málefnalegum sjónarmiðum, en mat á því hverra skipulags­breytinga sé þörf í því skyni að koma til leiðar hagræðingu í rekstri er í höndum stefnda og sætir ekki öðrum takmörkunum en þeim að þar sé um réttmætar og eðli­legar ákvarðanir að ræða sem verði ekki taldar meira íþyngjandi fyrir stefnanda en nauðsyn beri til. Stefndi reyndi að koma til móts við óskir stefnanda með því að bjóða honum starf sérfræðings í 80% starfi eins og stefnandi hafði sjálfur kosið. Að öllu þessu virtu þykja ekki hafa verið færð fram fullnægjandi rök fyrir því að stefndi hafi ekki gætt meðalhófs og þannig brotið gegn lögmætum rétti stefnanda þegar umræddar ákvarð­anir voru teknar. Ekki þykir heldur fram komið að ákvarðanir stefnda hafi verið teknar án þess að fullnægjandi upplýsinga hafi verið aflað og að stefndi hafi með því brotið gegn rannsóknarreglu 10. gr. laganna. 

Óumdeilt er að um ráðningu stefnanda í stöðu yfirlæknis gilti gagnkvæmur uppsagnarfrestur sam­kvæmt ráðningarsamningi. Með því að sameina skurðstofuna öðru sviði, eins og gert var af hálfu stefnda og hér hefur verið lýst, var um að ræða breytt fyrirkomulag og hagræðingu í skipulagi og rekstri sjúkrahússins. Ástæður upp­sagnar­innar snertu því hvorki stefnanda né verða þær raktar til þess að stefnandi hafi talið að stefnandi sinnt starfi sínu ekki sem skyldi enda er ekki á því byggt af hálfu stefnanda. Samkvæmt 1. mgr. 44. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins er ekki skylt að gefa starfsmanni kost á að tjá sig um ástæður uppsagnar áður en hún tekur gildi ef hún stafar af öðrum ástæðum en varða starfs­manninn sjálfan, svo sem þegar fækka þarf starfsmönnum vegna hagræðingar. Verður samkvæmt þessu ekki fallist á að ákvarð­anir stefnda hafi verið ólög­mætar sökum þess að stefnanda hafi ekki verið gefinn kostur á að tjá sig um þær áður en þær voru teknar.

Ákvörðun stefnda um að leggja yfirlæknisstöðuna niður 1. janúar 2004 var tekin með skömmum fyrirvara og í raun var fyrirvarinn enginn gagnvart stefnanda en honum var tilkynnt um hana 5. janúar sama ár. Það var þó leiðrétt með því að stefn­andi gegndi stöðunni áfram til 19. janúar eins og hér að framan hefur verið lýst. Verður ekki fallist á þau rök stefnanda að ákvörðunin hafi verið afturvirk þannig að hún verði af þeim sökum talin ólögmæt.

Stefnandi telur að ekki hafi verið farið að lögum við ákvarðana­tökuna þar sem ekki hafi verið leitað álits læknaráðs stefnda áður en hún var tekin. Lagaákvæðið sem stefnandi vísar til í þessu sambandi og fjallar um læknaráð stefnda, eins og hér að framan greinir, kveður ekki með skýrum hætti á um það að leita beri umsagnar læknaráðs stefnda í tilvikum eins og þeim sem hér um ræðir. Starfsreglur læknaráðs stefnda, sem stefnandi vísar til, eru í samræmi við lagaákvæðið og í þeim segir auk þess um hlutverk læknaráðs að það skuli vera stjórnendum stefnda til ráðuneytis í tilgreindum málum. Með vísan til þessa verður ekki fallist á þau rök stefnanda að stefnda hafi verið skylt samkvæmt lögum að leita álits læknaráðs stefnda áður en ákvarðanir sem hér er deilt um voru teknar.

Samkvæmt öllu þessu verður ekki fallist á að stefndi hafi með ólögmætum hætti brotið gegn rétti stefnanda þannig að hann eigi rétt á miskabótum úr hendi stefnda samkvæmt 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Ber því að sýkna stefnda af þeim kröfu­lið stefnanda.

Með bréfi lögmanna stefnanda 16. janúar 2004 var vísað til þess að stefnandi ætti rétt á biðlaunum í 12 mánuði frá þeim tíma er staðan sem hann gegndi hjá stefnda var lögð niður og að sá réttur byggðist á 3. og 5. mgr. ákvæðis til bráðabirgða í lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, sbr. einnig 34. gr. laganna. Í uppsagnarbréfi stefnda 5. janúar sama ár var hins vegar vísað til kjarasamningsákvæðis um upp­sagnar­frest á ráðningarsamningi, en samkvæmt því hefði stefnandi átt rétt á sex mánaða upp­sagnarfresti. Af hálfu stefnda var samkvæmt því sem fram kemur í bréfi framkvæmda­stjóra lækninga 22. janúar fallist á að greiða stefnanda biðlaun í 12 mánuði. Leggja verður til grundvallar við úrlausn málsins að stefnandi hafi þá þegar, er krafa hans til biðlauna var viðurkennd af hálfu stefnda, haft kostnað af því að fá kröfuna viðurkennda enda er ljóst að hann hafði fyrir þann tíma leitað lögmanns­aðstoðar í tilefni af uppsagnarbréfinu. Líta verður einnig til þess að fyrirvarinn, sem stefnanda var veittur varðandi ákvörðun stefnda um að leggja niður yfirlæknisstöðuna sem stefnandi gegndi og segja upp ráðningarsamningnum við hann, var enginn. Þegar fallist var á af hálfu stefnda að greiða stefnanda biðlaun í 12 mánuði var jafnframt tekið fram í bréfinu frá 22. janúar að réttur stefnanda til biðlauna væri ekki ótvíræður, þ.e. að vafi væri um rétt hans til greiðslu biðlauna almennt svo og um tímalengd biðlauna­greiðslna. Verður ekki fallist á þá málsvörn stefnda að kostnaðurinn sem um ræðir hafi verið óþarfur. Með vísan til þessa þykir rétt að taka þennan lið í kröfu stefnanda, að fjár­hæð 234.426 krónur, til greina ásamt dráttarvöxtum frá 5. mars 2004 eins og krafist er. Með því er fallist á að krafa stefnanda um innheimtulaun hafi komið fram í bréfi lögmanna hans 5. febrúar 2004 en stefndi hefur aldrei fallist á að greiða nokkra innheimtu­þóknun vegna biðlaunanna eins og fram hefur komið hér að framan.

Með vísan til 3. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála þykir rétt að stefndi greiði stefnanda hluta málskostnaðar sem þykir hæfilega ákveðinn 150.000 krónur og hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts.  

Dóminn kvað upp Sigríður Ingvarsdóttir héraðsdómari.

DÓMSORÐ:

Kröfu stefnanda, þess efnis að felld verði úr gildi ákvörðun stefnda 5. janúar 2004 um niðurlagningu stöðu stefnanda og uppsögn stefnanda, er vísað frá dómi.

Stefndi, Landspítali – háskólasjúkrahús, greiði stefnanda, Auðólfi Gunnarssyni, 234.426 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 5. mars 2004 til greiðsludags og 150.000 krónur í máls­kostnað.