Print

Mál nr. 96/2013

Sjóvá-Almennar tryggingar hf. (Kristín Edwald hrl.)
gegn
A (Björn L. Bergsson hrl.)
Lykilorð
  • Viðurkenningarkrafa
  • Vinnuslys
  • Líkamstjón
  • Ábyrgðartrygging

Viðurkenningarkrafa. Vinnuslys. Líkamstjón. Ábyrgðartrygging.

A krafðist þess að viðurkenndur yrði réttur hans til bóta úr ábyrgðartryggingu Í hf., sem félagið hafði tekið hjá S hf., vegna vinnuslyss sem hann varð fyrir er hann féll af húsþaki þar sem hann hugðist stafla þakplötum. Talið var að Í hf. hefði borið ábyrgð á því að öryggis væri gætt með viðhlítandi verkstjórn. Þá þótti ósannað að A hefði brotið gegn fyrirmælum um hvernig standa ætti að því að fjarlægja þakplöturnar, auk þess sem fallvörnum hafði verið áfátt þegar A varð fyrir umræddu slysi sem metið var starfsmönnum Í hf. til sakar með vísan til ákvæða laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum og reglna, settum samkvæmt heimild í þeim lögum. Var viðurkenningarkrafa A því tekin til greina

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Helgi I. Jónsson og Þorgeir Örlygsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 11. febrúar 2013. Hann krefst aðallega sýknu af kröfu stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti en til vara að hann verði einungis dæmdur bótaskyldur að hluta vegna slyss stefnda þann 24. febrúar 2009.  

Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti, án tillits til gjafsóknar sem honum hefur verið veitt.

Fallist er á með héraðsdómi að ekki sé fram komið að gefin hafi verið fyrirmæli af hálfu verkstjóra um verklag, sem stefndi hafi brotið gegn er hann hugðist stafla þakplötum, sem teknar voru af eldra þaki hússins, í því skyni að þær yrðu tiltækar þegar hífa skyldi þær og annað efni niður af þakinu. Er og óumdeilt að þetta var flutningaleið efnis, sem notað var við þaksmíðina og efnis, sem til féll, er eldra þakið var rifið.

Við flutning málsins fyrir Hæstarétti féll áfrýjandi frá þeirri málsástæðu að baki varakröfu sinni að ekki væri, hvað sem öðru líður, unnt að dæma hann til ábyrgðar nema að því leyti sem tjón stefnda kynni að vera umfram eigin ábyrgð Ístaks hf., vinnuveitanda stefnda og vátryggingartaka, er slysið varð. Samkvæmt skilmálum frjálsrar ábyrgðartryggingar, sem Ístak hf. tók hjá áfrýjanda, nam eigin ábyrgð vátryggingartaka 2.200.000 krónum. Kemur því málsástæðan ekki til úrlausnar.

Samkvæmt framansögðu, en að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms, verður hann staðfestur á þann hátt sem í dómsorði greinir.

Ákvæði héraðsdóms um málskostnað og gjafsóknarkostnað verða staðfest.

Eftir þessum úrslitum málsins verður áfrýjandi dæmdur til að greiða málskostnað fyrir Hæstarétti, sem renni í ríkissjóð, en um þann málskostnað og gjafsóknarkostnað stefnda fer samkvæmt því, sem nánar greinir í dómsorði.  

Dómsorð:

Viðurkennd er bótaskylda áfrýjanda, Sjóvár-Almennra trygginga hf., úr ábyrgðartryggingu Ístaks hf. hjá félaginu, á tjóni stefnda, A, vegna vinnuslyss hans hjá Ístaki hf. 24. febrúar 2009.

Málskostnaðarákvæði héraðsdóms og ákvæði hans um gjafsóknarkostnað eru staðfest.

Áfrýjandi greiði 600.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti, sem renni í ríkissjóð.

Allur gjafsóknarkostnaður stefnda fyrir Hæstarétti, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, 600.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 21. nóvember 2012.

Mál þetta, sem dómtekið var 31. október síðastliðinn, var höfðað 28. október 2011 af A, […], gegn Sjóvá-Almennum tryggingum hf., Kringlunni 5, Reykjavík.

          Af hálfu stefnanda er þess krafist að viðurkennd verði skaðabótaskylda úr ábyrgðar­tryggingu Ístaks hf., kt. […], á afleiðingum vinnuslyss stefnanda þann 24. febrúar 2009. Þá er krafist málskostnaðar samkvæmt mati réttarins auk álags er nemi virðisaukaskatti eins og mál þetta væri ekki gjafsóknarmál en stefnanda var veitt gjafsókn 15. júní 2011.

Af hálfu stefnda er aðallega krafist sýknu af kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmdur til að greiða stefnda málskostnað að mati dómsins. Til vara er þess krafist að stefndi verði aðeins talinn skaðabótaskyldur að hluta vegna þess slyss sem stefnandi lenti í 24. febrúar 2009 og að málskostnaður verði felldur niður.

Yfirlit málsatvika og ágreiningsefna

Stefnandi varð fyrir vinnuslysi 24. febrúar 2009 í starfi sínu sem smiður hjá Ístaki hf. en félagið hafði ábyrgðartryggingu hjá stefnda. Stefnandi vann við að taka upp þak­plötur af húsi við […] í […]. Tveir starfsmenn unnu saman við verkið og voru þeir að fjarlægja þakplötur af húsinu þegar slysið varð.

Stefnandi hefur lýst því að hann hafi verið uppi á þakinu og sett frá sér plötu sem skömmu síðar fauk af stað. Stefnandi brást við þessu með því að fara að plötunni en hún reistist þá á rönd og fauk ofan af þakinu og tók stefnanda með í fallinu. Stefnandi lenti á sílói og slasaðist mikið. Fætur mölbrotnuðu og hann hlaut mjaðmabrot. Stefnandi lýsti því að hann hafi farið í fjölda aðgerða. Hann hafi fyrst í ágúst sama ár getað gengið stutta vegalengd án hjálpartækja.

Stefnandi óskað eftir afstöðu stefnda til bótaskyldu en stefndi synjaði fyrir hana með tölvupósti 16. mars 2011 með vísan til þess að slysið mætti rekja til gáleysis og eigin sakar stefnanda. Stefnandi féllst ekki á það og skaut niðurstöðunni til úrskurðar­nefndar í vátryggingarmálum 25. sama mánaðar. Úrskurður var kveðinn upp 3. maí s.á. þess efnis að stefnandi ætti rétt á bótum úr frjálsri ábyrgðartryggingu stefnda. Með tölvupósti stefnda til lögmanns stefnanda 15. maí s.á. var tilkynnt að stefndi hafnaði því að hlíta niðurstöðu nefndarinnar. Af þeim sökum hefur stefnandi höfðað málið til viðurkenningar á bótaskyldu stefnda. Örorkumat lá ekki fyrir þegar málið var höfðað en stefnandi fór til […] eftir slysið þegar honum var sagt upp stöfum hjá Ístaki hf. Við aðalmeðferð málsins var upplýst að gerðar hefðu verið ráðstafanir til að örorkumat færi fram þannig að unnt verði að setja bótakröfuna fram síðar verði skaða­bótaskylda viðurkennd í málinu.    

Í málinu er deilt um það hvort skilyrði eru uppfyllt fyrir bótaskyldu stefnda vegna tjónsins sem stefnandi varð fyrir og rakið er til slyssins þegar hann féll af þakinu við vinnu sína hjá Ístaki hf. Af hálfu stefnanda er því haldið fram að fallvörnum og verkstjórn hafi verið áfátt af hálfu Ístaks hf. og því beri að viðurkenna bótaskyldu úr ábyrgðartryggingu Ístaks hf. hjá stefnda. Þessu er mótmælt af hálfu stefnda og því haldið fram að tjón stefnanda verði rakið til óhappatilviljunar, eigin sakar eða áhættutöku stefnanda sjálfs. Óumdeilt er að stefnandi getur beint kröfum í málinu að hinu stefnda vátryggingafélagi samkvæmt 1. mgr. 44. gr. laga um vátryggingar­samninga nr. 30/2004.

Málsástæður og lagarök stefnanda

Stefnandi vísar til þess að hann hafi orðið fyrir vinnuslysi 24. febrúar 2009 og sé stefndi bótaskyldur vegna afleiðinga slyssins. Stefnandi hafi orðið fyrir slysinu þegar hann var að taka upp þakplötur á húsi við […] í […] í starfi sem smiður hjá Ístaki hf. sem hafði ábyrgðartryggingu hjá stefnda. Stefnandi hafi unnið verkið með öðrum erlendum starfsmanni sem hafi ekki verið mæltur á íslenska tungu. Stefn­andi sé frá […] og hann tali ensku illa. Þeir hafi verið einir við störf uppi á þakinu. Stefnandi hafi verið að hefja verkið þegar slysið átti sér stað upp úr hádegi. Hann hafi ætlað að stafla þakplötunum, sem samstarfsmaður hans tók af þakinu, upp í búnt nærri þakbrún. Staðið hafi til að bæta fleiri plötum ofan á eftir því sem verkið vannst. Stefnandi hafi séð að platan, sem hann lagði frá sér, lyftist þegar skörp vind­kviða skall á henni. Hann hafi verið skjólmegin við plötuna, milli staðarins þar sem stafla átti plötunum og þakbrúnarinnar sem hann hafi snúið baki í. Til þess að freista þess að hemja plötuna hafi hann sett þunga sinn á hana. Það hafi ekki dugað til en þegar stefnanda varð það ljóst hafði vindurinn feykt honum það langt að hann gat ekki varnað falli niður af þakinu.

Stefnandi hafi fallið niður með fram þeirri húshlið þar sem engir vinnupallar eða aðrar fallvarnir voru. Fallið hafi verið um 7,5 metrar. Myndir af slysstað fylgi lögreglu­skýrslu og innri atburðarskýrslu Ístaks hf. Stefnandi hafi lent á steypu­sílói. Í vottorði B læknis sé afleiðingum slyssins lýst, fætur hefðu möl­brotnað og einnig hefði stefnandi hlotið mjaðmabrot. Hann hafi verið fluttur með sjúkrabíl á spítala. Í kjölfarið hefði stefnandi farið í fjölda aðgerða á báðum fótum og fyrst í ágúst s.á. hefði hann verið farinn að geta gengið stutta vegalengd án hjálpar­tækja. Stefnanda hafi verið sagt upp störfum hjá Ístaki hf., áður en hann varð vinnufær, með uppsagnar­bréfi 30. júní s.á.

Óskað hafi verið eftir afstöðu stefnda til bótaskyldu með bréfi 25. september 2009 en synjun stefnda hefði borist stefnanda með tölvupósti 16. mars. 2011. Synjunin byggðist á því að slysið mætti rekja til gáleysis og eigin sakar stefnanda. Stefnandi hafi ekki getað fallist á þá niðurstöðu og hafi hann því skotið henni til úrskurðar­nefndar í vátryggingamálum með erindi sem borist hefði nefndinni 25. mars. s.á. Úrskurður hafi verið kveðinn upp 3. maí s.á. og hafi nefndin komist að þeirri niður­stöðu að stefnandi ætti rétt á bótum úr frjálsri ábyrgðartryggingu Ístaks hf. hjá stefnda. Stefndi hafi tilkynnt úrskurðar­nefndinni með tölvupósti 13. maí s.á. að úrskurði nefndarinnar yrði ekki unað. Af þeim sökum hafi stefnanda verið nauðugur einn sá kostur að höfða málið.

Stefnandi sé nú búsettur í […]. Stefndi hafi neitað sök í málinu og þar af leiðandi hefði stefnandi sjálfur þurft að bera kostnað af því að koma til Íslands og láta meta varanlegar afleiðingar slyssins í samræmi við skaðabótalög en til þess hefði hann ekki haft fjárhagslegt bolmagn. Örorkumat liggi því ekki fyrir. Af þeim sökum hafi verið stefnt til viðurkenningar á bótaskyldu.

Stefnandi byggi málatilbúnað sinn á því að Ístak hf. beri ótvíræða bótaábyrgð á vinnu­slysi stefnanda. Ábyrgðin grundvallist á reglum skaðabótaréttar um ábyrgð atvinnu­rekanda á vanbúnaði á vinnustað og ófullnægjandi verkstjórn. Ístak hf. hafi verið með ábyrgðartryggingu hjá stefnda og sé kröfu beint að stefnda án milligöngu Ístaks hf. á grundvelli 44. gr. laga nr. 30/2004 sem heimili tjónþola að beina skaðabóta­kröfu sinni vegna ábyrgðartryggingar vinnuveitanda síns beint að vátrygg­ingar­félaginu.

Krafist sé viðurkenningar á bótakröfu þar sem ekki liggi fyrir mat á varanlegri örorku stefnanda. Ljóst sé hins vegar af framlögðum vottorðum að stefnandi hafi orðið fyrir fjárhagstjóni. Í læknisvottorði komi fram að stefnandi hafi verið óvinnufær í það minnsta til 16. október 2009.

Skaðabótaábyrgð Ístaks hf. og þar með stefnda sé tvíþætt og beindist annars vegar að verkstjórn en hins vegar að ábyrgð á ófullnægjandi aðbúnaði á vinnustað. Með því hafi verið brotið gegn reglum í lögum nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum og reglugerðum settum á grundvelli laganna. Þegar slysið átti sér stað hafi stefnandi verið að losa þakplötur. Ein þeirra hafi reist upp í vindi og tekið á sig vind. Þar sem stefnandi hafi staðið skjólmegin við plötuna hafi hann fengið þunga vindsins á sig þannig að hann hafi fallið niður af þakinu. Um­rætt þak sé að auki hallandi og hafi fallhæðin verið um 7.5 metrar. Hvoru tveggja hafi gert aðstæður enn viðsjárverðari og því enn brýnna að gæta að ýtrustu öryggis­ráðstöfunum. Í skýrslu Vinnueftirlits séu orsakir slyssins raktar til þess að engar ráð­stafanir hefðu verið gerðar á verkstað til þess að koma í veg fyrir að bárujárn gæti fokið. Jafnframt yrði slysið rakið til skorts á fallvörnum.

Skortur á fallvörnum á þeirri hlið hússins sem stefnandi féll fram af feli í sér skýrt brot á reglum laga nr. 46/1980 en almennt sé kveðið á um skyldur atvinnu­rekanda til að tryggja öryggi starfsmanna sinna í 13. gr. laganna, sbr. og 1. mgr. 37. gr. Brotið hafi verið gegn reglugerð nr. 547/1996 um öryggisráðstafanir á bygginga­vinnustöðum. Auk þess að brjóta gegn almennum varúðarákvæðum reglu­gerðar­innar hafi einnig verið brotið gegn sérstaklega afmörkuðum hátternisreglum, m.a. ákvæði 31.1 og 33.9  í viðauka IV við reglurnar en þar sé lögð á sú skylda að gæta að fall­vörnum áður en vinna er hafin við aðstæður sem voru á slysstað, bæði vegna fallhæðar og halla á þakinu. Þá hafi einnig gengið á með vindkviðum, sbr. veður­úttektir í skýrslu Ístaks hf. og gögn frá Veðurstofu, og því full ástæða til að gæta sérstakrar varúðar. Engar fallvarnir hafi verið til staðar, hvorki öryggislínur né öryggis­­pallar. Skortur á fallvörnum einn og sér nægi til þess að bótaábyrgð verði felld á stefnda enda um skýrt brot á sértækri reglu nefndrar reglugerðar að ræða. Það sé einnig í samræmi við niður­stöður Vinnueftirlits og Úrskurðarnefndar í vátrygginga­málum.

Tjónið megi einnig rekja til ófullnægjandi verkstjórnar vinnuveitanda sem hafi ekki verið í samræmi við 21. gr., sbr. 23. gr. laga nr. 46/1980 og almennar reglur vinnu­réttar. Af gögnum málsins sé ljóst að verkstjóri Ístaks hafi verið víðsfjarri þegar slysið átti sér stað. Synjun stefnda virtist byggjast á því að stefnanda og samstarfsmanni hans hafi verið uppálagt að vinna umrætt verk á einhvern allt annan hátt en þeir gerðu og að vinnuaðferð stefnanda hafi verið óþörf, hættuleg og beinlínis gegn þeirri vinnuaðferð sem viðhafa átti við verkið, eins og fram komi í bréfi stefnda. Í synjunarbréfi stefnda sé haft eftir vinnu­veitanda að verkstjóri hafi verið skammt frá en ekki haft yfirsýn yfir vinnu­svæðið og honum hafi ekki einu sinni verið kunnugt um að starfsmenn væru yfir­höfuð við störf á þakinu.

Þessi rök stefnda fyrir synjun bótaskyldu virtust í raun staðfesta hið andstæða, þ.e. bótaskyldu. Með þessu sé staðfest með óyggjandi hætti að verkstjórn á staðnum hafi verið ábótavant. Frumskylda verkstjóra sé að leiðbeina starfsmönnum telji hann best að vinna verk á einhvern ákveðinn hátt í þeim tilgangi að stuðla að öryggi. Sérstaklega sé nákvæm fyrirsögn nauðsynleg af hálfu verkstjóra gagnvart erlendum starfsmönnum sem skilji ekki íslensku og séu jafnvel illa mæltir á enska tungu. Jafn mikilvægt verði að telja að verkstjóri skýri ekki eingöngu út hug­myndir sínar um framkvæmd verks, heldur gangi úr skugga um að útskýringar hans hafi komist til skila og framkvæmdin sé í samræmi við þær.

Hvorugt virtist hafa verið gert í þessu tilfelli samkvæmt gögnum málsins. Ekkert liggi fyrir um það hvernig verkið hafi verið skýrt út fyrir stefnanda og samstarfsmanni hans. Verkið hafi verið stutt á veg komið en engu að síður hafi verk­stjóri verið staddur fjarri verkstað og ekki haft yfirsýn yfir hann. Hvað sem líði vilja verkstjóra virtist sem kennslu hans hafi verið ábótavant og þannig ekki í samræmi við 25. gr. reglugerðar um skipulag og framkvæmd vinnuverndar­starfs á vinnu­stöðum nr. 920/2006 með tilliti til hættuaðstæðna á staðnum. Verkstjóri hafi ekki gefið fyrirmæli um það hvernig flytja ætti þakplöturnar niður af þakinu. Eina leiðin hafi verið sú að hífa þær niður af efra þakinu með krana. Einu fyrirmælin sem stefnandi og samstarfsfélagi hans hafi fengið hafi verið þau að þeir ættu að rífa þakið af. Þeir tveir hafi verið sammála um hvernig það skyldi gert og hafi þeir farið eftir því enda engin önnur fyrirmæli gefin. Stefnandi telji með öllu ósannað að þeir hafi byrjað að setja plöturnar undir þakið eins og haldið sé fram af hálfu stefnda að þeir hafi gert. 

Á því virtist byggt af hálfu stefnda að ekki hafi verið þörf fyrir fallvarnir þar sem vinna hafi átt verkið þannig að stefnandi og samstarfsmaður hans hafi ekki átt að vera staddir á þeim stað sem slysið varð. Stefnandi hafi engu að síður verið þar. Stefnandi hafi enga ástæðu haft til að vinna starfið á einhvern sérstaklega hættulegan hátt hafi honum verið uppálagt á skiljanlegan hátt að vinna verkið á annan tiltekin hættuminni máta. Því sé þó mótmælt að stefnandi hafi á einhvern hátt unnið verkið á hættulegri hátt en almennt gerðist eða að hann hefði unnið það þvert gegn fyrirmælum. Slíku sé mótmælt sem röngu og ósönnuðu.

Verkstjórn hafi ekki verið til staðar og ekkert eftirlit hafi verið með því hvernig verkið var unnið. Hafi ætlun verkstjóra verið sú að vinna verkið á einhvern þann hátt að fallvarnir væru óþarfar, þá hafi hvílt á honum rík skylda til að ganga úr skugga um að þannig væri verkið unnið. Lögbundin skylda hans hafi staðið til að tryggja að við­eigandi fallvarnir væru til staðar við vinnuna. Ófullnægjandi verkstjórn hafi verið meðorsök slyss stefnanda ásamt skorti á fallvörnum og á því hvoru tveggja beri vinnuveitandi ábyrgð.

Stefnandi verði ekki sviptur bótarétti sínum í málinu að fullu vegna eigin sakar. Um það vísi stefnandi til tilskipunar Evrópuráðsins nr. 89/391/EBE frá 12. júní 1990 sem hafi m.a. verið lögfest með lögum nr. 68/2003 sem og ákvæðum tilskipunar ráðsins nr. 92/57/EBE frá 24. júní 1992 sem innleidd hafi verið í íslenskan rétt með reglum nr. 547/1996, sbr. 38. gr. laga nr. 46/1980. Jafnframt vísist til niðurstöðu EFTA-dóm­stólsins í máli nr. E-2/10 sem einnig eigi rætur sínar að rekja til Ístaks hf. og ófull­nægjandi fallvarna. Á því sé byggt að ofangreindar tilskipanir leiði til þess að einungis í algjörum undantekningartilvikum verði starfsamaður, sem verði fyrir vinnuslysi, látinn bera tjón sitt sjálfur í heild eða að mestum hluta þegar fyrir liggi að vinnu­veitandi hans hafi ekki sinnt öryggisskyldum sínum á vinnustað. Í máli þessu sé það bein­­línis skjalfest í skýrslu Vinnueftirlits, þar sem fram komi að slysið megi rekja til ófullnægjandi fallvarna. Slík undantekningartilvik séu eingöngu fyrir hendi þegar starfsmaður valdi slysi beinlínis af ásetningi eða í það minnsta af talsvert meiri sök en vinnuveitandi. Svo hafi ekki verið í þessu tilfelli. Nauðsynlegt hafi verið að fara upp á þakið og til þess að unnt væri að fjarlægja plöturnar af þaki hússins. Því hafi verið þörf á fallvörnum sem Ístak hf. beri ábyrgð á að voru ekki til staðar.

Við munnlegan málflutning var varakröfu stefnanda um verulega lækkun mótmælt af hálfu stefnanda. Því var einnig mótmælt að lagaskilyrði væru fyrir því að stefndi verði talinn skaðabótaskyldur að hluta vegna slyssins sem stefnandi varð fyrir.

Stefnandi styðji málsóknina við reglur skaðabótaréttar um ábyrgð atvinnurekanda á van­­búnaði á vinnustað sem og ófullnægjandi eftirliti. Stefnandi vísi jafn­­framt til laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum. Um aðild stefnda sé byggt á lögum nr. 30/2004. Krafa um málskostnað styðjist við 130. gr. laga nr. 91/1991. Krafa um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun styðjist við lög nr. 50/1988 en stefnandi sé ekki virðisaukaskattsskyldur og beri því nauðsyn til að fá dóm fyrir skatti þessum úr hendi stefnda.

Málsástæður og lagarök stefnda

Af hálfu stefnda er vísað til þess að stefnandi hafi hafið störf hjá Ístaki hf. 10. desember 2005. Hann hafi orðið fyrir slysi 24. febrúar 2009 er hann féll niður af þaki að […] í […]. Þar hafi hann verið við störf ásamt öðrum starfs­manni félagsins, C. Ístak hf. hafi unnið að viðbyggingu við eldra húsnæði og reist hafi verið nýtt sameiginlegt þak yfir gömlu og nýju bygginguna. Nýja þakið hafi staðið nokkru hærra en gamla þakið á byggingunni sem fyrir var og því hafi þurft að nota lausan stiga til að komast þangað upp af gamla þakinu. Í umrætt sinn hafi stefnandi og samstarfsmaður hans unnið að því að fjarlægja bárujárnsplötur af gamla þakinu og hafi þeir ætlað að stafla þakplötunum upp í búnt uppi á nýja þakinu. Í skýrslu Vinnueftirlits ríkisins sé haft eftir stefnanda að hann hafi verið búinn að leggja eina plötu á þakið og verið að sækja þá næstu þegar hann varð þess var að hún var að fara af stað með vindinum. Hann hafi hlaupið að plötunni í því skyni að stöðva hana. Platan hafi reist sig í vindinum og hann gripið í hana skjólmegin. Við það hafi stefnandi fokið með plötunni u.þ.b. 4 metra eftir þakinu og fallið fram af þakbrúninni á steypusíló og til jarðar. Fallhæðin hafi verið 7,5 metrar.

Atvikalýsing í stefnu virtist ekki vera í fullu samræmi við framangreinda lýsingu á tildrögum slyssins. Í stefnu sé þeim lýst þannig að „þegar [stefnandi] var að koma plötunni fyrir“ hafi hann séð að platan lyftist þegar snörp vindkviða skall á henni. Stefnandi hafi verið skjólmegin við plötuna, milli staðarins þar sem stafla átti plöt­unum og þakbrúnarinnar sem hann snéri baki í. Ósamræmi væri varðandi það hvort stefnandi hafi verið að koma plötunni fyrir eða verið búinn að því og þurft að hlaupa að henni þegar platan tókst á loft í vindinum. Lýsing stefnanda í undirritaðri yfir­lýsingu hans í innri atburðarskýrslu Ístaks hf. væri hins vegar í samræmi við skýrslu Vinnueftirlitsins. Þar segi að þegar stefnandi hafi tekið eftir því að fyrsta platan var að fara af stað í vindkviðu hafi hann hlaupið til baka til að leggja þyngd á hana. Þegar hann hafi komið að henni „röngu megin“ hafi hún rétt sig alveg við og tekið hann með sér fram af. Hann hafi reynt að setjast niður til að fara ekki með plötunni niður en vindurinn hafi þá verið búinn að taka hann fram af. Hið sama komi fram í tilkynningu hans til stefnda 16. mars 2009 sem hann hafi sjálfur undirritað.

Við fallið hafi stefnandi hlotið beinbrot á fótum og mjöðm og hann hafi í kjölfarið gengist undir aðgerðir. Þakplöturnar sem um ræðir hafi verið u.þ.b. 1,1 x 6-7 m að stærð. Vindhraði hafi mælst 7-11 m/sek. þegar slysið átti sér stað.

Í skýrslu Vinnueftirlitsins segi að orsök slyssins megi helst rekja til þess að engar ráðstafanir hefðu verið gerðar til að koma í veg fyrir að bárujárnið gæti fokið. Jafn­framt hafi ekki verið gerðar nægilegar ráðstafanir til að koma í veg fyrir að starfsmenn gætu fallið af þakinu.

Aðalkrafa um sýknu

Sýknukrafa stefnda sé byggð á því að ósannað sé að tjón stefnanda megi rekja til saknæmrar háttsemi starfsmanna Ístaks hf. eða annarra atvika sem Ístak hf. beri skaðabótaábyrgð á að lögum. Stefndi telji að tjón stefnanda verði rakið til óhappa­tilviljunar, eigin sakar eða áhættutöku stefnanda sjálfs.

Stefnandi beri sönnunarbyrðina fyrir orsök tjóns síns en hann hafi ekki sannað að tjónið verði rakið til atvika sem Ístak hf. beri skaðabótaábyrgð á að lögum. Um ábyrgð stefnda fari samkvæmt sakarreglu skaðabótaréttar ásamt reglunni um vinnuveitanda­ábyrgð. Ósannað sé að slysið verði rakið til ófullnægjandi vinnuaðstöðu stefnanda, gáleysis stjórnenda Ístaks hf. eða brots á þeim skyldum sem á félaginu hvíli samkvæmt lögum nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum og reglum, sem settar eru með stoð í þeim lögum, eða öðrum réttarreglum.

Stefndi hafni því alfarið að vinnuaðstæðum hafi verið áfátt og að skort hafi á leið­beiningar eða verkstjórn. Stefnanda og samstarfsmanni hans hafi verið falið að fjar­lægja plöturnar af gamla þakinu. Plöturnar hafi síðan átt að flytja brott af verkstaðnum síðar. Af gamla þakinu hafi verið greið leið niður á gólfið undir nýja þakinu og þar hafi verið gott skjól. Aftur á móti hafi þurft að notast við lausan stiga til að komast upp á nýja þakið af því gamla. Þar hafi plöturnar enn fremur verið berskjaldaðar fyrir veðri og vindum. Því hafi blasað við að ótækt væri að geyma þær þar. Verkstjóri stefnanda hefði enga ástæðu haft til að ætla að stefnanda og samstarfs­manni hans kæmi slíkt til hugar, enda hefðu þeir haft víðtæka þekkingu og reynslu af byggingar­framkvæmdum. Á ljós­myndunum megi sjá að nokkrum þakplötum hafði þegar verið raðað á gólfið undir nýja þakinu þegar slysið varð. Samkvæmt frásögn verkstjórans, sem hafði umsjón með verkinu, hafi það verið stefnandi og samstarfs­maður hans sem gerðu það. Í ljósi þess sætti enn meiri furðu en ella að þeir skyldu skyndilega bregða á það ráð að koma öðrum þakplötum fyrir uppi á nýja þakinu. Í málinu liggi ekki fyrir neinar skýringar á því verklagi og engar viðhlítandi skýringar hefðu nokkru sinni komið fram af hálfu stefnanda.

Hafi stefnandi af einhverjum ástæðum talið sig þurfa að vinna uppi á nýja þakinu hafi honum borið að nota þann öryggisbúnað sem tiltækur var. Á verkstað hafi verið öryggis­belti, hjálmar og líflínur sem starfsmönnum hafi skilyrðislaust borið að nota við vinnu uppi á þökum ef aðstæður gáfu tilefni til. Stefnanda hafi verið full­kunnugt um hvernig nota ætti þann búnað og við hvaða aðstæður enda hefði hann oft áður notað slíkan búnað við störf sín hjá Ístaki hf. Verkstjórinn hafi þess vegna ekki haft ástæðu til að brýna sérstaklega fyrir stefnanda að nota búnaðinn. Auk þess hafi verk­stjórinn vart haft ástæðu til að ætla að stefnandi ætti nokkurt erindi upp á þakið í umrætt sinn.

Telja verði að með verklagi sínu hafi stefnandi tekið verulega áhættu og sýnt af sér svo mikið gáleysi að jafnvel þótt litið yrði svo á að aðstæðum á verkstað eða verk­stjórn hafi með einhverjum hætti verið áfátt verði stefnandi að bera tjón sitt að fullu sjálfur. Stefnandi sé smiður að mennt og hann hefði margra ára starfsreynslu við tré­smíðar, þar af í fjögur og hálft ár hérlendis. Hann hefði starfað við byggingar­fram­kvæmdir hjá Ístaki hf. í rúmlega þrjú ár. Honum hafi mátt vera fyllilega ljóst að nýja þakið væri ekki ákjósanlegur staður til að koma þakplötunum fyrir. Einnig hafi hann mátt vita að það væri áhættusamt að standa einn að því að flytja plöturnar til í vindinum á efra þakinu án aðstoðar samstarfsmanns síns. Þá hafi honum hlotið að vera ljóst að áhætta væri fólgin í því að vera uppi á þakinu án nauðsynlegs öryggisbúnaðar, sérstaklega þar sem vindur hafi verið allnokkur og gengið hafi á með kviðum. Enn fremur hafi það verið sérstaklega gáleysislegt af honum að koma skjólmegin að plöt­unni þegar hún var við það að takast á loft í vindinum. Hann hafi hlotið að vita að plötur af þessari stærð tækju mikinn vind á sig og því væri erfitt að hemja þær ef þær tækjust á loft í vindi. Mun áhættuminna hefði verið að hlaupa vindmegin að plötunni og freista þess að grípa í brún hennar. Með því móti hefðu verið hverfandi líkur á að hann fyki með plötunni.

Stefndi mótmæli því að þau ákvæði í tilskipunum Evrópuráðsins sem stefnandi vísi til, sbr. niðurstöðu EFTA-dómstólsins í máli nr. E-2/10, leiði til þess að stefnanda verði ekki gert að bera tjón sitt sjálfur vegna eigin sakar. Ósannað sé með öllu að slysið verði rakið til þess að vinnuveitandi stefnanda hafi ekki sinnt þeim skyldum sínum að tryggja öryggi á vinnustaðnum.

Umsögn Vinnueftirlits ríkisins um orsakir slyssins í skýrslu þess miðist við að stefnandi hafi verið við störf uppi á efra þakinu. Þar sé hins vegar engin afstaða tekin til þess hvort stefnanda hafi borið að vinna þar í umrætt sinn, enda falli rannsókn á slíku utan verksviðs Vinnueftirlitsins, sbr. 81. gr. laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum. Í skýrslunni sé af sömu ástæðum ekki tekin nein afstaða til þess hvort yfirmönnum hjá Ístaki hf. eða stefnanda sjálfum hafi borið eins og á stóð að gangast fyrir því að nægar öryggisráðstafanir væru gerðar. Af þessum ástæðum feli skýrsla Vinnueftirlitsins ekki í sér neina sönnun um að slysið verði rakið til sakar af hálfu yfirmanna hjá Ístaki hf. Stefndi telji þvert á móti að ef stefnandi hefði talið sig á annað borð eiga erindi með plöturnar upp á efra þakið þá hefði honum sjálfum borið að gera ráðstafanir til að koma í veg fyrir að þær gætu fokið sem og nauðsynlegar öryggisráðstafanir til að koma í veg fyrir að hann gæti fallið fram af þakinu.

Stefndi hafni því alfarið að slys stefnanda megi rekja til þess að verkstjóri hans hafi brugðist þeim skyldum sem á hann séu lagðar í 21. og 23. gr. laga nr. 46/1980 eða í ákvæðum reglugerða sem vísað sé til í stefnu. Ekkert hafi komið fram um að verk­stjóri stefnanda hefði vanrækt að tryggja örugg starfsskilyrði eða að veita þær leið­beiningar sem með þurfti. Líta verði til þess að ef um er að ræða tiltölulega einföld verk, sem viðkomandi starfsmaður hafi auk þess ríka þekkingu á hvernig eigi að sinna, þá sé minni þörf á að veita ítarlega verkstjórn samtímis því sem verk er unnið. Þegar nokkuð augljóst sé með hvaða hætti inna beri verk af hendi verði að telja að leið­beiningar­­skylda verkstjóra sé ekki jafn rík og þegar um er að ræða flókin verk eða verk sem viðkomandi starfsmenn eru óvanir að sinna. Þá mótmæli stefndi því að verk­stjóra hafi borið að gangast fyrir því að fallvörnum yrði komið fyrir við nýja þakið vegna verksins því að alls ekki hafi staðið til að unnið væri uppi á því í umrætt sinn. Sá möguleiki að stefnandi færi upp á þakið hafi verið svo fjarstæðukenndur að verkstjórinn hafi ekki haft nokkra ástæðu til að gangast fyrir því að öryggisbúnaði yrði komið þar fyrir. Ósannað sé að stefnanda hafi borið að vinna uppi á nýja þakinu.  Geyma hafi átt plöturnar undir þakinu á skjólsælli stað þar sem vindur var þennan dag. Þar hefðu starfsmennirnir verið byrjaðir að stafla plötunum. Um þetta hafi ekki þurft að gefa sérstök fyrirmæli. 

Enn fremur sé því mótmælt að verkstjórinn hafi verið „víðsfjarri“ þegar slysið varð. Hann hafi verið inni á skrifstofu sem staðsett hafi verið á vinnusvæðinu og séð til stefnanda uppi á þakinu. Því sé alfarið hafnað að með því að vera þar hafi verkstjórinn brotið gegn framangreindum lagaákvæðum. Við blasi að ekki sé tækt að skýra ákvæði um skyldur verkstjóra svo rúmt að þeim beri á hverjum tíma að fylgjast með sérhverju verki starfsmanna sinna, a.m.k. ekki ef um er að ræða einföld verk sem viðkomandi starfsmenn eigi að kunna góð skil á eða verk sem ætla megi að liggi fyllilega ljóst fyrir hvernig eigi að sinna.

Stefndi mótmæli því að verulegu máli skipti í þessu samhengi að stefnandi skildi ekki íslensku. Hann hafi verið ágætlega mælandi á ensku og verkstjórinn hefði getað komið nauðsynlegum leiðbeiningum til hans á því tungumáli.

Með vísan til framangreinds mótmæli stefndi því alfarið að slys stefnanda megi rekja til þess að yfirmenn eða aðrir starfsmenn vinnuveitanda hans hafi brotið hátternis­reglur sem á starfssviðinu gildi, eða þess að þeir hafi með einhverjum hætti sýnt af sér saknæma og ólögmæta háttsemi.

Varakrafa um verulega lækkun

Til vara byggi stefndi á því að aðeins sé unnt að dæma hann skaðabótaskyldan að hluta. Sú krafa sé annars vegar byggð á því að tjón stefnanda sé að mestu leyti að rekja til eigin sakar hans. Stefnandi eigi því að bera stærstan hluta tjóns síns sjálfur þar sem eigin sök hans upphefji bótaskylduna að mestu leyti. Hins vegar sé byggt á því að taka verði tillit til eigin áhættu Ístaks hf. samkvæmt ábyrgðartryggingu félagsins og að stefndi geti ekki borið bótaábyrgð nema að því leyti sem tjón stefnanda reynist vera umfram þá fjárhæð.

Hvað varði eigin sök stefnanda vísi stefndi til þeirra röksemda sem hafi verið raktar að framan til stuðnings aðalkröfu. Einkum sé vísað til þess að stefnandi hafi sjálfur kosið að koma plötunum fyrir uppi á efra þakinu þrátt fyrir að ljóst væri að unnt væri að fjarlægja þær með mun öruggari og einfaldari hætti með því að koma þeim fyrir á gólfinu undir þakinu. Stefnanda hafi mátt vera þetta ljóst. Fyrst hann kaus að koma plötunum fyrir uppi á efra þakinu hafi honum einnig borið að sýna fyllstu að­gæslu með því að nýta þann öryggisbúnað sem var til staðar, sérstaklega þar sem allnokkur vindur var. Þá hefði hann átt að bera sig að með öðrum hætti þegar hann reyndi að varna því að platan fyki, þ.e. með því að nálgast hana vindmegin. Stefnanda hafi mátt vera þessi atriði ljós enda sé hann menntaður smiður og hefði lengi fengist við sam­bæri­leg störf.

Hvað varði eigin áhættu Ístaks hf. þá hafi hún numið 2.200.000 krónum á slysdegi. Beri að taka tillit til þess, enda sé ekki unnt að fallast á bótaábyrgð og greiðsluskyldu hins stefnda vátryggingafélags nema að því marki sem tjón stefnanda sé metið til hærri fjárhæðar en eigin áhætta. Stefndi hafi ekki fallist á að taka á sig frekari ábyrgð en sem því nemi og gefi því augaleið að ábyrgð stefnda takmarkast við þá fjárhæð.

Um lagarök vísi stefndi einkum til reglna skaðabótaréttar um sönnun tjóns og sönnunar­­­­byrði, óhappatilviljun, gáleysi, orsakatengsl og sennilega afleiðingu og eigin sök tjónþola, auk skaðabótalaga nr. 50/1993, sbr. lög nr. 37/1999. Þá vísist til laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum og laga nr. 30/2004 um vátryggingarsamninga. Um málskostnað sé vísað til XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

          Niðurstöður

          Verkið sem hér um ræðir og unnið var af hálfu Ístaks hf. þegar stefnandi varð fyrir umræddu slysi fólst meðal annars í því að reisa viðbyggingu við eldra hús. Nýtt þak var sett á alla bygginguna og því þurfti að rífa þakið sem fyrir var á eldra húsinu. Nýja þakið var komið á að hluta en rífa þurfti plötur af gamla þakinu sem stefnandi vann við ásamt samverkamanni sínum, C, þegar slysið varð.

          Nýja þakið stendur hærra en hið eldra og flutti stefnandi þakplöturnar af gamla þakinu upp á nýja þakið. Hann hefur gefið þá skýringu á ástæðum fyrir því að hífa hafi þurft plöturnar niður af nýja þakinu með krana en það hafi verið eina leiðin til að koma þeim niður af þakinu. Af hálfu stefnda er því haldið fram að stefnandi hafi ekki átt nokkurt erindi upp á nýja þakið sökum þess að plöturnar hafi átt að setja undir þakið í skjól og það hafi stefnandi og C verið byrjaðir að gera. Staðhæfingar stefnanda um að þakplöturnar hafi þurft að setja upp á nýja þakið til þess að unnt væri að hífa þær niður og fjarlægja af byggingarstað hafa þó ekki verið hraktar af hálfu stefnda.

          Engar upplýsingar liggja fyrir í málinu um það hvernig stefnanda var uppálagt að vinna verkið að öðru leyti en því að þeir C hafi átt að rífa gamla þakið af húsinu sem fyrir var. Í Rekstarhandbók Ístaks hf., Innri atburðarskýrslu, segir í lýsingu á aðdrag­anda slyssins að starfsmennirnir hafi verið byrjaðir að fjarlægja þakplötur fyrir flutning niður. Verkstjóri Ístaks hf. lýsti því fyrir dóminum að á myndum, sem teknar voru á slysdegi, sæist að nokkrum plötum hefði verið staflað undir þakið. Aug­ljóst hafi verið að ekki hafi átt að setja þakplöturnar upp á nýja þakið við þær aðstæður sem þarna voru en óumdeilt er að á gekk með vindhviðum. Af skýrslu verkstjórans fyrir dóminum verður þó ekki ráðið að stefnanda hafi verið sagt að hann ætti að setja þakplöturnar, sem átti að fjarlægja, undir þakið en ekki upp á það. Í Rekstar­hand­bókinni, sem vitnað er til hér að ofan, kemur fram lýsing C á því að þeir, þ.e. hann og stefnandi, hefðu byrjað á því að flytja þakplöturnar niður (had begun to move the sheets down to the ground). Í skýrslunni er hann tilgreindur sem vitni að slysinu en ekki tókst að kalla hann fyrir dóminn þar sem ekki hafðist upp á honum þrátt fyrir talsverða leit og fyrirspurnir lögmanns stefnanda um hann.

          Verkstjóri Ístaks hf. lýsti því fyrir dóminum að stefnandi hefði verið með betri mönnum sem hann hefði haft í verkinu. Menn hafi unnið við hin ýmsu verk en stefnandi og C hafi verið í þakinu. Um hafi verið að ræða viðbyggingu við gamalt hús og að hluta til nýtt þak. Þeir hafi verið búnir með það en eftir stóð að framlengja sperrurnar upp í gamla þakið og rífa það af sem þeir hafi verið byrjaðir á þegar slysið varð. Þeir hafi farið yfir verkið saman í byrjun, þeir hafi rætt hvernig þeir ætluðu að vinna og hverjir verkþættirnir væru en verkinu hafi verið skipt í einingar. Notuð voru dýr tæki þannig að aðgæslu var þörf við skipulag og annað. Varðandi vinnu við nýja þakið hafi allt verið unnið innan frá, þeir hafi aldrei þurft að vinna uppi á þakinu og verkstjórinn kvaðst hafa treyst þeim alveg 100% til að vinna verkið. Þeir hafi rætt saman ef eitthvað kom upp eins og viðtekin venja hafi verið. Verkstjórinn kvaðst ekki hafa gefið starfsmönnunum fyrirmæli um að setja plöturnar upp á nýja þakið en hann hafi séð áður en slysið varð að þeir hafi verið búnir að setja plöturnar undir þakið og hafi hann engar athugasemdir gert við það. Ekki hafi átt að hífa plöturnar niður þennan dag. Fleira hafi þurft að hífa niður og gert hafi verið ráð fyrir að það yrði gert í einu lagi eftir að allt hafði verið rifið. Taka hafi þurft fleira en járnið, þ.e. sperrur og allt timbur, til að unnt væri að framlengja sperrur upp í hitt þakið. Verkstjórinn kvaðst ekki muna hvort hann hefði verið búinn að kynna þessi áform fyrir starfsmönnunum. Aðspurður hvort hann hefði gefið stefnanda fyrirmæli um að setja plöturnar ekki upp á nýja þakið heldur stafla þeim undir þakinu sagðist hann ekki hafa gefið honum nein sérstök fyrirmæli en hann hafi séð hvað þeir voru búnir að gera. Verkstjórinn kvaðst ekki hafa gefið stefnanda fyrirmæli en þeir hafi rætt verk­efnið í byrjun verksins. Aðspurður hvort rætt hefði verið sérstaklega um það að plöturnar ættu ekki að fara upp á þakið til þess að flytja þær í burtu neitaði hann því en þetta lægi bara í hlutarins eðli. Hann staðfesti að eina leiðin til að koma plötunum niður, ásamt öðru sem rifið var af þakinu, hafi verið að hífa það niður af efra þakinu með krana.   

          Í skýrslu Vinnueftirlits ríkisins segir að stefnandi hafi verið ásamt C að vinna við að flytja bárujárnsplötur sem verið var að rífa af þaki eldri byggingarinnar. Plöturnar hafi átt að flytja niður af þakinu og niður á vinnusvæði á jarðhæð. Orsök slyssins megi helst rekja til þess að engar ráðstafanir hefðu verið gerðar til þess að koma í veg fyrir að bárujárnið gæti fokið. Jafnframt hefðu ekki verið gerðar nægar ráðstafanir til þess að koma í veg fyrir að starfsmenn gætu fallið fram af þakinu.

Í 13. gr. laga um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum nr. 46/1980 segir að atvinnurekandi skuli tryggja, að gætt sé fyllsta öryggis og góðs aðbúnaðar og hollustu­hátta á vinnustað. Samkvæmt 21. gr. laganna er verkstjóri fulltrúi atvinnurekanda og skal hann sjá um að allur búnaður sé góður og öruggt skipulag sé ríkjandi á þeim vinnustöðum sem hann hefur umsjón með. Vinnu skal haga og framkvæma þannig samkvæmt 37. gr. sömu laga að gætt sé fyllsta öryggis og góðs aðbúnaðar og hollustu­hátta. Fylgja skal viður­kenndum stöðlum, ákvæðum laga og reglu­gerða svo og fyrir­mælum Vinnu­eftirlits ríkisins að því er varðar aðbúnað, holl­ustu­hætti og öryggi. Í 38. gr. sömu laga segir að félagsmálaráðherra setji nánari reglur um hvaða kröfur skuli upp­fylltar varðandi skipu­lag, tilhögun og framkvæmd vinnu. Í reglum um aðbúnað, hollustuhætti og öryggis­ráðstafanir á byggingar­vinnu­stöðum nr. 547/1996, sem settar voru með heimild í 38. gr. laga nr. 46/1980, eru taldar í IV. viðauka lágmarkskröfur um öryggi og heilsuvernd fyrir byggingarsvæði. Í B-hluta viðaukans, þar sem taldar eru sérstakar lágmarkskröfur sem gilda um vinnustæði á byggingarsvæðum, segir um vinnu á þökum, sbr. liði 31 og 31.1, að ef fram­kvæma skuli vinnu á þaki, og ef aðstæður eru með ákveðnum hætti þannig að valdið geti því að starfs­menn falli niður, megi ekki hefja vinnu fyrr en nauðsynlegar ráðstafanir hafi verið gerðar svo ekki sé hætta á að menn falli niður. 

Þegar virtar eru þær aðstæður sem hér að framan er lýst verður að telja að fallvörnum hafi verið áfátt þegar stefnandi varð fyrir umræddu slysi sem meta verður starfs­mönnum Ístaks hf. til sakar. Jafnframt verður að telja með vísan til framangreindra reglna að verkstjóra hafi borið að tryggja betra skipulag á þeirri vinnu sem stefnandi sinnti ásamt öðrum starfsmanni Ístaks hf. við að rífa þakplötur af gamla þakinu og fjarlægja þær eins og lýst hefur verið hér að framan. Ósannað verður að telja að stefnandi hafi fengið fyrirmæli um hvernig standa ætti að því að fjarlægja þakplöturnar sem um ræðir, hvenær hafi átt að hífa þær niður af þakinu og hvernig skyldi gætt að öryggi þegar farið var upp á þakið. Þá verður að telja að stefndi hafi ekki sýnt fram á að stefnanda verði um það kennt að ekki voru gerðar ráðstafanir til að koma í veg fyrir að þakplöturnar gætu fokið eða að ekki voru viðhafðar nauðsynlegar öryggisráðstafanir til að koma í veg fyrir að stefnandi gæti fallið fram af þakinu.

          Með vísan til alls þessa verður að telja að Ístak hf. hafi borið ábyrgð á því að öryggis væri gætt með viðeigandi fallvörum og viðhlítandi verkstjórn við þær aðstæður sem voru umræddan dag á vinnustaðnum. Tjón stefnanda, sem hann hefur gert nægilega grein fyrir með læknisvottorðum og öðrum gögnum, verður að telja rakið til þess að framangreindra reglna var ekki gætt af hálfu Ístaks hf. Skilyrði skaðabótaskyldu eru samkvæmt þessu fyrir hendi. Félagið hafði ábyrgðartryggingu hjá stefnda og er óumdeilt í málinu að bótaskylda fellur á stefnda verði skilyrði skaðabótaskyldu talin fyrir hendi. 

Varakrafa stefnda, þess efnis að hann verði aðeins talinn skaðabótaskyldur að hluta vegna slyssins, er í fyrsta lagi byggð á því að tjón stefnanda verði að mestu leyti rakið til eigin sakar stefnanda og því verði hann að bera stærstan hluta tjónsins sjálfur. Eins og að framan er rakið var öryggisráðstöfunum og verkstjórn áfátt af hálfu Ístaks hf. þegar stefnandi varð fyrir umræddu slysi. Af hálfu stefnda hefur ekki verið sýnt fram á að stefnandi hafi brotið gegn fyrirmælum verkstjóra um verklag eða að hann eigi af öðrum ástæðum sök á því að hann féll fram af þakinu. Með vísan til þess ber að hafna þessari málsástæðu stefnda.

Í öðru lagi er varakrafa stefnda byggð á því að eigin áhætta Ístaks hf. hafi numið 2.200.000 krónum á slysdegi. Beri að taka tillit til þess enda sé ekki unnt að fallast á bótaábyrgð og greiðsluskyldu stefnda nema að því marki sem tjón stefnanda sé metið til hærri fjárhæðar en eigin áhætta. Þar sem stefndi hafi ekki fallist á að taka á sig frekari ábyrgð en sem því nemi takmarkist ábyrgð stefnda við þá fjárhæð. Krafa stefnanda er viðurkenningarkrafa en með því að krefjast þess að hún nái fram að ganga leitast stefnandi við að fá viðurkenningu á því að skaðabótaskylda sé fyrir hendi og að bótakrafan verði greidd úr ábyrgðartryggingu Ístaks hf. eftir þeim reglum sem um hana gilda. Með dóminum verður ekki skorið úr um fjárhæðir sem stefnda beri að greiða stefnanda nái viðurkenningarkrafa hans fram að ganga í málinu. Með vísan til þessa ber einnig að hafna þessari málsástæðu stefnda en af hvoru tveggja leiðir að vara­krafa hans um að hann verði aðeins talinn skaðabótaskyldur að hluta vegna slyssins verður ekki tekin til greina. 

Að fenginni þessari niðurstöðu ber að taka kröfu stefnanda til greina um að viður­kennd verði skaðabótaskylda stefnda úr ábyrgðartryggingu Ístaks hf. á afleiðingum vinnuslyss stefnanda 24. febrúar 2009.

Gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hans, Magnúsar Hrafns Magnússonar hdl., sem þykir hæfilega ákveðin 600.000 krónur án virðisaukaskatts, en útlagður kostnaður er samtals 288.278 krónur vegna ferða­kostnaðar stefnanda, þýðinga á dómskjölum og dómtúlks.

Með vísan til 1. mgr. 130. gr. og 4. mgr. 128. gr. laga um meðferð einkamála ber að dæma stefnda til að greiða málskostnað, sem er ákveðinn 1.041.278 krónur að teknu tilliti til virðisaukaskatts, sem greiðist í ríkissjóð.

Málið dæmir Sigríður Ingvarsdóttir héraðsdómari.

D ó m s o r ð:

          Krafa stefnanda, A, um að viðurkennd verði skaðabótaskylda stefnda, Sjóvár-Almennra trygginga hf., úr ábyrgðartryggingu Ístaks hf. á afleiðingum vinnu­slyss stefnanda 24. febrúar 2009, er tekin til greina.

          Gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hans, Magnúsar Hrafns Magnússonar hdl., 600.000 krónur án virðisaukaskatts, en útlagður kostnaður er samtals 288.278 krónur.

          Stefndi greiði 1.041.278 krónur í málskostnað í ríkissjóð.