Print

Mál nr. 211/2008

Lykilorð
  • Líkamsárás
  • Miskabætur
  • Skilorð

Dómsatkvæði

 

Fimmtudaginn 9. október 2008.

Nr. 211/2008.

Ákæruvaldið

(Daði Kristjánsson settur saksóknari)

gegn

Högna Vali Högnasyni

(Sigmundur Hannesson hrl.)

 

Líkamsárás. Miskabætur. Skilorð.

H var sakfelldur fyrir brot gegn 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því að hafa slegið HD með þeim afleiðingum að vinstri framtönn hans brotnaði. Upplýst var að tönnin sem brotnaði hefði verið postulínstönn. Fallist var á með héraðsdómi að brotið hefði verið réttilega heimfært til 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga þar sem tönnin og rót hennar eyðilögðust en ekki einungis postulínskróna hennar.

 

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Hjördís Hákonardóttir og Páll Hreinsson. 

Ríkissaksóknari skaut máli þessu til Hæstaréttar 3. apríl 2008 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en jafnframt af hálfu ákæruvalds sem krefst staðfestingar á refsiákvörðun en að dæmdar verði miskabætur til handa Hrafni Davíðssyni að fjárhæð 350.000 krónur.

Ákærði krefst aðallega sýknu en til vara krefst hann refsilækkunar. Þá krefst hann að miskabótakröfu verði vísað frá dómi en að öðrum kosti krefst hann lækkunar hennar.

Með vottorðum Daða Hrafnkelssonar tannlæknis 3. janúar og 3. september 2007 svo og framburði hans fyrir héraðsdómi 19. febrúar 2008 er leitt í ljós að framtönn sú, sem brotnaði í Hrafni Davíðssyni, hafi verið tönn með venjulegri rót en postulínskrónu. Hafi rót tannarinnar skemmst og því orðið að fjarlægja hana. Hafi því orðið að græða títan gervirót í efri kjálka Hrafns sem ætlunin sé að festa gervitönn við. Hörfun hafi hins vegar orðið á tannholdi í kringum gervirótina og hafi verið reynt að lagfæra það með mjúkvefjaflutningum. Ekki sé fullreynt hvort það muni takast, en að öðrum kosti muni Hrafn bera lýti við framtönn sem sé bagalegt fyrir hann.

Þegar litið er til þess að tönnin og rót hennar eyðilögðust en ekki einungis postulínskróna hennar er fallist á með héraðsdómi að brotið sé réttilega heimfært til 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Við ákvörðun refsingar er litið þess að ákærði, sem ekki hefur áður gerst sekur um refsivert brot, játaði að hafa slegið til brotaþola bæði hjá lögreglu og fyrir dómi. Þá verður einnig litið til 4. töluliðar 1. mgr. 74. gr. almennra hegningarlaga, en brotaþoli hafði rétt áður sýnt sambúðarkonu ákærða stórfellda móðgun í verki. Refsing ákærða er ákveðin fangelsi í tvo mánuði, sem bundin verður skilorði, eins og nánar greinir í dómsorði.

Ákærði hefur ekki fært fullnægjandi rök fyrir frávísun miskabótakröfu brotaþola sem byggð er á 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Með vísan til forsendna héraðsdóms þykja miskabætur hæfilega ákveðnar 300.000 krónur. Þá skulu óröskuð standa ákvæði héraðsdóms um frávísun skaðabótakröfu.

Niðurstaða héraðsdóms um sakarkostnað verður staðfest. Með tilliti til þess að ákærði er dæmdur fyrir þá háttsemi sem hann játaði í héraði verður áfrýjunarkostnaði málsins, þar með talin málsvarnarlaunum skipaðs verjenda ákærða, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti, eins og nánar greinir í dómsorði, samkvæmt 1. mgr. 169. gr. laga nr. 19/1991, skipt þannig að ákærði greiði tvo þriðju hluta hans en einn þriðji hluti greiðist úr ríkissjóði, allt eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Ákærði, Högni Valur Högnason, sæti fangelsi í tvo mánuði. Fullnustu refsingarinnar er frestað og skal hún falla niður að liðnum þremur árum frá uppsögu þessa dóms haldi ákærði almennt skilorð samkvæmt 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Ákærði greiði Hrafni Davíðssyni 300.000 krónur í miskabætur, ásamt vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 27. september 2006 til 9. desember 2007, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga af fjárhæðinni frá þeim degi til greiðsludags.

Ákvæði héraðsdóms um frávísun kröfu um skaðabætur og sakarkostnað skulu vera óröskuð.

Málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða fyrir Hæstarétti, Sigmundar Hannessonar hæstaréttarlögmanns, ákveðast 249.000 krónur. Þau og annan áfrýjunarkostnað, samtals  krónur 263.287, skal ákærði greiða að tveimur þriðju hlutum, en einn þriðji hluti áfrýjunarkostnaðar greiðist úr ríkissjóði.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 6. mars 2008.

            Mál þetta, sem dómtekið var 19. febrúar sl., er höfðað með ákæru útgefinni af lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu 3. október 2007 á hendur Högna Val Högna­syni, kt. 150883-3349, Unufelli 8, Reykjavík, fyrir líkamsárás, með því að hafa aðfaranótt miðvikudagsins 27. desember 2006, á skemmtistaðnum Thorvaldsenbar, Austurstræti 8 í Reykjavík, slegið Hrafn Davíðsson, kt. 301084-3319, hnefahöggi í andlit, með þeim afleiðingum að vinstri framtönn brotnaði.

                Þetta er talið varða við 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 11. gr. laga nr. 20/1981 og 111. gr. laga nr. 82/1998.

                Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar. Í málinu gerir áðurnefndur Hrafn þá kröfu að ákærði verði dæmdur til að greiða bætur að fjárhæð 1.046.840 krónur. Krafist er vaxta af allri fjárhæðinni, skv. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, frá 27. desember 2006 til þingfestingardags, en dráttarvaxta skv. III. kafla sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Krafist er greiðslu lögmannskostnaðar að mati dómsins, að teknu tilliti til greiðslu virðisaukaskatts.

                Verjandi ákærða krefst þess að ákærði verði sýknaður af kröfum ákæruvalds, að skaðabótakröfum verði vísað frá dómi og að sakarkostnaður, þ.m.t. málsvarnarlaun, verði greiddur úr ríkissjóði.

                Samkvæmt skýrslu lögreglunnar í Reykjavík frá 28. desember 2006 kl. 14.20, mætti Hrafn Davíðsson í rannsóknardeild lögreglunnar til þess að kæra líkamsárás sem að hann kvaðst hafa orðið fyrir á skemmtistaðnum Thorvaldsenbar aðfaranótt 27. desember 2006. Er því lýst í kærunni að Högni Valur Helgason, ákærði í máli þessu, hafi slegið kæranda hnefahöggi í andlit með þeim afleiðingum að vinstri framtönn brotn­aði. Lýsti Hrafn atvikum nánar í kæruskýrslunni.

                Í rannsóknargögnum málsins liggur fyrir vottorð Daða Hrafnkelssonar tann­læknis frá 3. janúar 2007. Samkvæmt vottorðinu er staðfest að Hrafn Davíðsson hafi komið til skoðunar á stofu 28. desember 2006. Við skoðun hafi komið í ljós að tönn 21 væri brotin í tvennt við glerungsmörk. Væri tönnin dæmd ónýt. Frekari læknis­meðferð fælist í tannplanta í stæði 21 og tannplantakrónu.  

                Tekin var skýrsla af ákærða vegna atviksins hjá lögreglu 29. desember 2006. Ákærði kvaðst umrætt kvöld hafa verið á Thorvaldsenbar í Austurstræti með kærustu sinni, Yrsu Örk Þorsteinsdóttur, og öðrum vinum. Hafi ákærði gengið til kærustu sinnar eftir að hafa verið að spjalla við vini sína er hún hafi tjáð honum að ókunnugur maður hafi komið aftan að henni og klipið hana nokkrum sinnum í klofið. Ákærði kvaðst hafa reiðst við þetta og látið Yrsu vísa sér á manninn. Hafi ákærði spurt manninn út í atvikið en maðurinn neitað í fyrstu en játað svo glottandi og hlegið við. Ákærði kvaðst hafa reiðst við þetta og slegið manninn einu höggi í andlit. Maðurinn hafi við það tekið eitt skref aftur en andartaki síðar hafi kærasta mannsins komið til ákærða og beðist afsökunar á framferði hans. Hafi hún sagt að um misskilning hafi verið að ræða. Ákærði kvaðst þá hafa gengið í burtu til kærustu sinnar og þau haldið áfram að skemmta sér. Undir ákærða var borið vottorð tannlæknis um að vinstri framtönn kæranda hafi brotnað. Ákærði kvaðst ekki hafa slegið kæranda svo fast að tönn hans hefði getað brotnað. Þá kvaðst ákærði ekki hafa fengið neina áverka á þá hendi er hann hafi slegið kæranda með. Ákærði kvaðst ekki hafa séð neitt blóð og engin ummerki þess að kærandi hefði orðið fyrir einhverju líkamstjóni. Ákærði var inntur eftir því hvort hann hefði skýringu á ákverkum kæranda. Ákærði kvaðst ekki geta skýrt þá en taldi allt eins líklegt að maðurinn hefði klipið í fleiri konur á staðnum og einhver annar kýlt hann þyngra höggi.

                Fyrir dómi greindi ákærði svo frá að hann hafi verið að skemmta sér á umræddum skemmtistað. Ákærði kvaðst hafa neytt einhvers áfengis en í litlu magni þó. Ákærði hafi komið til kærustu sinnar, Yrsu Arkar Þorsteinsdóttur, en hún hafi verið í miklu uppnámi við barinn og greint honum frá því að ókunnugur maður hafi gripið í kynfæri hennar nokkrum sinnum. Ákærði kvað kærustu sína hafa verið í kjól og að hún hafi sagt honum að umræddur maður hafi farið undir kjólinn og gripið í klof hennar nokkrum sinnum. Kvaðst ákærði hafa beðið Yrsu um að benda sér á umræddan mann og hún gert það. Hafi ákærði gripið í manninn og spurt hvort hann hefði káfað á kærustu sinni. Maðurinn hafi ekki hafa svarað og einungis glott út í eitt. Eftir nokkra stund hafi hann játað og hlegið. Kvaðst ákærði hafa slegið manninn eitt högg með opnum lófa en við það hafi maðurinn stigið eitt skref til baka. Ákærði kvaðst ekki hafa séð neitt blóð og fullyrti að gleraugu mannsins hafi ekki dottið af honum við höggið. Þá kvaðst ákærði ekki hafa séð manninn taka fyrir munn sér. Ákærði kvaðst ekki hafa fengið þá skýringu hjá manninum að hann hefði farið mannavillt er hann hafi klipið Yrsu Örk í rassinn. Kærasta mannsins hafi komið eftir höggið og beðist afsökunar á hegðun hans og tjáð ákærða að um misskilning hafi verið að ræða. Eftir þetta hafi ákærði ásamt Yrsu Örk haldið áfram að skemmta sér.

                Hrafn Davíðsson kvaðst hafa verið að skemmta sér á skemmtistaðnum Thor­valdsenbar í Austurstræti aðfararnótt 27. desember 2006. Þar hafi hann verið ásamt unnustu sinni, Jenný Ýr Jóhannsdóttur, og öðrum vinum sínum. Kvaðst Hrafn hafa neytt áfengis þessa nótt en ekki hafa verið ofurölvi. Hafi hann komið aftan að stúlku sem stóð við barinn er hann taldi vera unnustu sína Jenný Ýr. Hafi hann klipið hana í rassinn. Stúlkan hafi sennilega verið í pilsi. Hrafn kvaðst hafa áttað sig fljótt á mistökum sínum og verið brugðið vegna þessa. Hafi hann beðið stúlkuna afsökunar. Eftir atvikið hafi hann farið til Jenný og greint henni frá atvikinu. Stuttu síðar hafi ákærði komið að Hrafni og gripið í hálsinn á honum. Hafi hann beðið Hrafn að stíga út fyrir með sér. Hrafn kvaðst hafa gert sér grein fyrir því hver væri á ferðinni og strax grunað að umræddur maður væri unnusti þeirrar stúlku er hann fór mannavillt á. Hrafn kvaðst hafa farið að útskýra mál sitt fyrir ákærða og að um misskilning af hans hálfu hafi verið að ræða. Ákærði hafi ekki hlustað og skyndilega slegið Hrafn eitt þungt höggi með hnefa sem hafi komið á munninn. Við það hafi Hrafn misst jafnvægið en ekki dottið. Við höggið hafi tönn í munni Hrafns brotnað. Ekki hafi ákærði gert sig líklegan til frekari árása. Hafi strax blætt undan högginu og hafi Hrafn haldið á tönninni sem hafi brotnað. Hrafn kvaðst hafa forðað sér inn á salerni skemmtistaðarins til að þrífa sig. Þá hafi hann tekið eftir því að gleraugu sín hefðu dottið af honum við höggið og hann ekki fundið þau aftur. Hrafn kvaðst ekki hafa séð ákærða aftur er hann kom af salerninu en Jenný Ýr hafi fengið nafn hans frá aðila sem gefið hafi sig fram við hana. Þau hafi farið heim til sín skömmu síðar. Hrafn kvaðst hafa leitað til Daða Hrafnkelssonar tannlæknis vegna þess að vinstri framtönn í efri góm hafi brotnað úr munni hans við höggið. Kvaðst hann hafa fengið þær upplýsingar frá Daða að fjarlægja þyrfti botnstykki eða rót tannarinnar og búa til nýja tönn sem festa þyrfti með skrúfum. Hrafn kvaðst ekki enn vera kominn með nýja tönn í stað þeirrar sem hafi brotnað. Væri enn verið að vinna í því að koma þeim málum í lag og væru allar líkur á að ný tönn yrði komin í sumarið 2008. Hrafn kvaðst nú þegar hafa greitt í tannlæknakostnað um 200.000 krónur. Enn ætti hann eftir að þurfa að greiða megnið af þeim kostnaði er hlytist af því að koma nýrri tönn fyrir. Sú tönn sem hafi brotnað hafi áður verið búin að brotna og hafi þá verið sett ný tönn ofan á rót þeirrar sem fyrir hafi verið. Hrafn kvaðst hafa verið boðaður til skýrslugjafar hjá lögreglu vegna kæru sem Yrsa Örk Þorsteinsdóttir hefði lagt fram á hendur honum vegna kynferðislegs áreitis umrætt sinn. 

                Yrsa Örk Þorsteinsdóttir kvaðst hafa verið að skemmta sér umrætt kvöld með ákærða ásamt fleiri vinum. Hafi hún staðið við bar er hún hafi fundið að farið hafi verið undir pils hennar og hún klipin í klofið nokkrum sinnum. Kvaðst hún hafa snúið sér við og séð ókunnugan mann sem hafi ,,flissað”. Sennilega hafi nokkuð fát komið á hann. Kvaðst hún hafa móðgast við atvikið en ekkert sagt við manninn. Í framhaldinu hafi hún greint ákærða frá atvikinu. Kvaðst hún hafa fylgst með úr nokkurri fjarlægð er ákærði fór til mannsins og hafa séð er maðurinn kinkaði kolli til ákærða. Því næst hafi ákærði slegið manninn eitt högg. Ekki hafi hún séð sjálft höggið, en maðurinn hafi bakkað um eitt skref við höggið. Að öðru leyti hafi verið í lagi með hann. Stuttu síðar hafi kærasta mannsins komið og afsakað framferði hans. Hafi hún sagt að hún teldi vera um misskilning að ræða. Hafi Yrsa séð manninn ásamt kærustu sinni ganga í burt. Yrsa kvaðst ekki hafa séð manninn grípa fyrir munninn eftir höggið og kvaðst frekar viss að gleraugu mannsins hafi verið á honum allan tímann. Kvaðst hún hafa haldið áfram að skemmta sér á umræddum skemmtistað ásamt ákærða eftir atvikið. Hafi Yrsu ekki liðið vel eftir þessa atburði og nokkru síðar lagt fram kæru á hendur manninum fyrir kynferðislega áreitni. Mál það væri til meðferðar hjá lögreglu.

                Jenný Ýr Jóhannsdóttir kvaðst umrædda nótt hafa verið að skemmta sér með kærasta sínum Hrafni Davíðssyni á skemmtistaðnum Thorvaldsenbar. Kvaðst hún hafa verið á dansgólfinu er Hrafn hafi komið til hennar og greint henni frá því að hann hafi farið mannavillt gagnvart annarri stúlku er hann hafi talið vera Jenný. Hafi hann sagt eitthvað eins og ,,shit, var að focka í vitlausri stelpu”. Ekki hafi Hrafni fundist það fyndið. Stuttu síðar hafi ókunnugur maður togað í Hrafn. Hafi Jenný séð samskipti þeirra á milli. Hafi Hrafn kinkað kolli til mannsins. Andartaki síðar hafi maðurinn skyndileg slegið Hrafn einu hnefahöggi í andlitið. Jenný kvaðst hafa séð höggið lenda á munni Hrafns. Hafi hún séð Hrafn reyna að setja tönn sem hafi brotnað aftur í sárið. Þá hafi Hrafn misst gleraugu sín við árásina. Í framhaldi hafi Hrafn farið inn á salerni skemmtistaðarins. Hafi hún gengið að árásarmanninum og leitað eftir ástæðu fyrir gerðum hans. Þá hafi hún ennfremur reynt að gera honum grein fyrir því að um mistök væri að ræða. Hrafn hefði fyrr um nóttina farið mannavillt. Vinir Hrafns hafi farið til hans inn á snyrtinguna. Eftir að Hrafn hafi komið út af snyrtingunni hafi hún tekið við tönninni frá Hrafni. Ónafngreindur aðili hafi veitt henni upplýsingar um árásar­manninn. Jenný kvaðst hafa yfirgefið skemmtistaðinn ásamt Hrafni stuttu eftir atvikið. Ekki hafi þau fundið gleraugun aftur.

                Fyrir dóminn komu Hjörleifur Gíslason og Arnar Freyr Einarsson. Kváðust þeir vera vinir Hrafns Davíðssonar og hafa verið að skemmta sér á skemmtistaðnum Thorvaldsenbar í Austurstræti aðfaranótt 27. desember 2006. Ekki hafi þeir séð er Hrafn hafi verið sleginn í andlitið en heyrt að hann hafi lent í átökum. Þeir hafi farið á eftir honum inn á salerni skemmtistaðarins. Hafi Hrafn verið blóðugur og haldið á tönn í hendi. Hafi honum verið mjög brugðið. Hafi tönn Hrafns verið vafin inn í pappír. Ekki kvaðst Hjörleifur muna hvort Hrafn hafi verið með gleraugu inni á snyrt­ingunni, en Arnar Freyr kvað hann sennilega hafa verið með gleraugu. 

                Daði Hrafnkelsson tannlæknir staðfesti vottorð í rannsóknargögnum málsins um skoðun á Hrafni Davíðssyni 28. desember 2006. Daði kvað Hrafn Davíðsson hafa komið til sín með brotna tönn fimmtudaginn 28. desember 2006. Hafi krónu hluti postulínstannar verið brotinn af alveg af við rótarháls, en rót af venjulegri tönn setið eftir. Hafi hann einnig verið með sár á vör. Í framhaldi skoðunar hafi verið tekið mót fyrir bráðabirgðalausn og rót þeirrar tannar sem hafi brotnað verið fjarlægð. Komið hafi verið fyrir gervirót í efri kjálka. Tannhold hafi hins vegar hopað og hafi þurft tvær til þrjár aðgerðir til að lagfæra það til að hann bæri ekki lýti af. Hafi þurft að færa til tannhold til að hylja rótina. Þessi aðgerð hafi gengið illa og væri sennilegt að Hrafn fengi eitthvert lýti af þessu. Kvaðst Daði telja að gervitönn væri sennilega viðkvæmari fyrir höggi en venjuleg tönn. Mögulegt væri að tönn sem þessi gæti brotnað við að slegið væri fast með flötum lófa á kjálka. Kvaðst Daði hafa gert kostnaðaráætlun um viðgerð á tönninni.    

 

                Niðurstaða:

                Ákærða er gefið að sök að hafa aðfaranótt miðvikudagsins 27. desember 2006 á skemmtistaðnum Thorvaldsenbar við Austurstræti slegið Hrafn Davíðsson hnefa­högg í andlit. Um afleiðingar árásarinnar getur í ákæru. Ákærði hefur viðurkennt að hafa slegið Hrafn í andlitið. Er ákærði gaf skýrslu hjá lögreglu lýsti hann högginu svo að hann hefði slegið einu höggi til Hrafns sem lent hafi í andliti hans. Fyrir dómi kvaðst ákærði hafa gert það með lófanum og kvaðst hann ekki hafa valdið þeim áverkum er ákæra miðar við.

                Í máli þessu liggur fyrir sá framburður Hrafns Davíðssonar að hann hafi umrætt sinn orðið fyrir þungu höggi með hnefa frá ákærða sem hafi leitt til þess að vinstri framtönn í Hrafni hafi brotnað. Unnusta Hrafns, Jenný Ýr Jóhannsdóttir, var á staðnum og hefur hún staðfest þessa fullyrðingu Hrafns, en hún kveðst hafa séð greinilega þar sem ákærði hafi slegið Hrafn hnefahögg sem hafi komið á munn Hrafns. Hrafn og Jenný bera bæði að Hrafn hafi í framhaldinu farið inn á snyrtingu skemmtistaðarins. Kvaðst Jenný hafa séð Hrafn reyna að setja hina brotnu tönn aftur í sama farið. Hrafn kvaðst hafa tekið tönnina í hendi sér inni á salerninu. Vinir Hrafns, Hjörleifur Gíslason og Arnar Freyr Einarsson, hafa staðfest að þeir hafi komið að Hrafni inni á salerninu þar sem hann hafi verið með brotna tönn. Hafi tönnin verið vafin inn í pappír. Loks liggur fyrir staðfesting tannlæknis þess efnis að næsta dag hafi Hrafn Davíðsson leitað til læknis vegna brotinnar framtannar.

                Þegar til samhljóða framburða Hrafns Davíðssonar og Jennýjar Ýr Jóhanns­dóttur er litið, sem stuðning hefur í framburði Hjörleifs Gíslasonar og Arnars Freys og að sínu leyti ákærða sjálfs, og með hliðsjón af vottorði tannlæknis, telur dómurinn sannað að ákærði hafi slegið Hrafn eitt hnefahögg sem komið hafi í andlit Hrafns, með þeim afleiðingum að vinstri framtönn í Hrafni hafi brotnað. Með hliðsjón af því verður ákærði sakfelldur samkvæmt ákæru.

                Afleiðingar háttsemi ákærða er brotin vinstri framtönn í Hrafni Davíðssyni. Daði Hrafnkelsson tannlæknir hefur lýst því að sú tönn sem hafi brotnað hafi verið krónu­tönn, sem hafi brotnað við rótina, sem hafi verið venjuleg rót af tönn. Tönnin hafi áður brotnað og gert við hana með þeim hætti að postulínskróna hafi verið sett ofan í rót tannarinnar. Dómstólar hafa áður dæmt um mörk 1. mgr. 217. gr. og 1. mgr. 218. gr. laga nr. 19/1940 þegar framtennur hafa brotnað. Hefur háttsemin m.a. verið felld undir 1. mgr. 217. gr. laga nr. 19/1940 þegar um gervitennur er að ræða. Má í því efni m.a. vísa til dóma Hæstaréttar Íslands frá árinu 1988 á blaðsíðu 422 í dómasafni réttarins frá því ári og dóms réttarins frá árinu 1992 á blaðsíðu 87 í dómasafni réttarins frá því ári. Í því tilviki sem hér er til meðferðar er ekki um venjulegar gervitennur að ræða þar sem þær eru ekki róttengdar. Er hér um að ræða tönn með venjulegri rót, en með postulínskrónu. Í dómi réttarins frá árinu 1989 á blaðsíðu 1716 í dómasafni réttarins frá því ári var talið að brot á tveim framtönnum ætti að fella undir 1. mgr. 218. gr. laga nr. 19/1940. Í ljósi þess að afleiðingar þess að tönn eins og sú er brotnaði í Hrafni Davíðssyni hefur í för með sér sömu niðurstöðu varðandi viðgerð eins og þegar um venjulega tönn er að ræða lítur dómurinn svo á að afleiðingar varðandi heimfærslu til refsiákvæða séu hinar sömu. Með hliðsjón af dómi Hæstaréttar Íslands frá árinu 1989 er það niðurstaða þessa dóms að fella háttsemi ákærða undir 1. mgr. 218. gr. laga nr. 19/1940.

                Ákærði er fæddur í ágúst 1983. Hefur hann ekki áður gerst sekur um refsivert brot svo kunnugt sé. Við ákvörðun refsingar er litið til þess að atlaga ákærða gagnvart Hrafni var frekar harkaleg. Þó svo ákærði hafi talið sig vera að rétta hlut kærustu sinnar gagnvart Hrafni hafði hann enga heimild til að ganga fram með þeim hætti er hann gerði er hann sló Hrafn fyrirvaralaust með hnefa í andlitið. Með hliðsjón af þessu er refsing ákærða ákveðin fangelsi í 5 mánuði. Í ljósi sakaferils hans þykir fært að skilorðsbinda refsinguna að öllu leyti, svo sem í dómsorði er kveðið á um.

                Af hálfu Hrafns Davíðssonar hefur verið krafist skaðabóta úr hendi ákærða að fjárhæð 1.046.840 krónur, auk vaxta. Sundurliðast krafan sem hér segir:

 

Þegar greiddur tannlæknakostnaður vegna árásar

235.825 krónur

Áætlaður ógreiddur tannlæknakostnaður vegna árásar                 

237.735 krónur

Tannlæknakostnaður vegna fyrri meðferðar  

85.565 krónur

Launatap

40.008 krónur

Flugmiðakaup, innanlandsflug

7.630 krónur

Flugmiðakaup, millilandaflug

33.600 krónur

Gleraugnakaup    

54.500 krónur

Verkjalyfjakaup

1.977 krónur

Miskabætur

350.000 krónur

 

                Að mati þess tannlæknis er meðhöndlað hefur Hrafn Davíðsson mun Hrafn væntanlega búa við útlitslýti eftir tannbrotið. Fyrir liggur að viðgerð á tannbrotinu er hvergi nærri lokið og hefur reynst erfiðara að gera við ákveðna hluti en talið var í fyrstu. Liggur fyrri áætlun um viðgerðarkostnað, sem í ljósi reynslunnar verður að telja geta breyst. Þykir óvarlegt að dæma um annað tjón Hrafns í þessu máli en miska­bætur þegar svo óvíst er um endanlegt tjón hans. Verður því einungis dæmt um miska­bæturnar, en öðrum kröfuliðum skaðabótakröfunnar vísað frá dómi. Er það gert til að Hrafni veitist færi á að búa kröfur sínar betur úr garði þegar endanlegt tjón liggur fyrir. Árás ákærða á Hrafn var til þess fallin að valda Hrafni miska, en hann hefur ítrekað þurft að leita sér læknisaðstoðar til að gera við þá framtönn sem brotnaði. Eru miskabætur hæfilega ákveðnar 140.000 krónur. Um vexti fer sem í dómsorði greinir.    

                Þá verður ákærði dæmdur til að greiða Hrafni kostnað sem hann hefur haft af því að halda fram kröfu sinni, sbr. 4. mgr. 172. gr. laga nr. 19/1991. Lögmanns­kostnaður telst hæfilega ákveðinn 60.000 krónur.

                Ákærði greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda, að viðbættum virðisauka­skatti, með þeim hætti er í dómsorði er kveðið á um.

                Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Þorbjörg S. Gunnlaugsdóttir fulltrúi lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu.

Símon Sigvaldason héraðsdómari kvað upp dóminn.

 

D ó m s o r ð:

                Ákærði, Högni Valur Högnason, sæti fangelsi í 5 mánuði, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og hún falla niður að liðnum 3 árum frá birtingu dóms þessa, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

                Ákærði greiði Hrafni Davíðssyni 140.000 krónur í miskabætur, ásamt vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 27. desember 2006 til 9. desember 2007, en með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. sömu laga af fjárhæðinni frá þeim degi til greiðslu­dags. Ákærði greiði Hrafni 60.000 krónur í lögmannskostnað.

                Skaðabótakröfu Hrafns Davíðssonar er að öðru leyti vísað frá dómi.

                Ákærði greiði málsvarnarlauna skipaðs verjanda síns, Sigmundar Hannessonar hæstaréttarlögmanns, 170.316 krónur.