Print

Mál nr. 686/2014

Lykilorð
  • Kærumál
  • Dómkvaðning matsmanns
  • Gagnaöflun
  • Málflutningsyfirlýsing

                                     

Mánudaginn 3. nóvember 2014.

Nr. 686/2014.

Halldór J. Kristjánsson

(Friðjón Örn Friðjónsson hrl.)

Brit Insurance Ltd.

Liberty Mutual Insurance Europe Ltd.

QBE International Insurance Ltd.

Allianz Global Corporate & Speciality AG

QBE Corporate Ltd.

Alterra Corporate Capital 2 Ltd.

Alterra Corporate Capital 3 Ltd.

Kelvin Underwriting Ltd.

Nameco (No 11) Ltd.

Nameco (No 231) Ltd.

Novae Corporate Underwriting Ltd.

SCOR Underwriting Ltd.

Sorbietrees Underwriting Ltd.

Brian John Tutin

Bridget Anne Carey-Morgan

Carol Jean Harris

David John De Marle Coulthard

Eileen Elsie Hunter

Gary Frederick Sullivan

Ian Richard Posgate

Joseph Elmaleh

John Leon Gilbart

Julian Michael West

Richard Michael Hodgson Read og

Norman Thomas Rea

(Viðar Lúðvíksson hrl.)

gegn

LBI hf.

(Jóhannes Sigurðsson hrl.)

Kærumál. Dómkvaðning matsmanns. Gagnaöflun. Málflutningsyfirlýsing.

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem tekin var til greina krafa L hf. um dómkvaðningu matsmanna. Í dómi Hæstaréttar kom fram að í október 2012 hefði L hf. óskað eftir því að málinu yrði frestað m.a. til þess að hann gæti lagt fram beiðni um dómkvaðningu matsmanna og var henni þegar andmælt af öðrum aðilum málsins. Þrátt fyrir að hafa haft undir höndum greinargerðir stefndu í málinu og því getað gert sér ljóst að hverju varnir þeirra lytu, fylgdi L hf. þessari ráðagerð ekki eftir fyrr en í þinghaldi meira en 20 mánuðum síðar. Auk þess hafði L hf. áður lýst því yfir að gagnaöflun fyrir sitt leyti væri lokið nema tilefni kæmi til annars. Talið var að L hf. hefði engar haldbærar skýringar fært fyrir því hvaða tilefni hefði fyrst nú gefist til að afla matsgerðar í skjóli þessa fyrirvara í málflutningsyfirlýsingu hans. Var því kröfu L hf. um dómkvaðningu matsmanna hafnað.

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson og Þorgeir Örlygsson og Guðrún Erlendsdóttir settur hæstaréttardómari.

Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með tveimur kærum 8. október 2014, sem bárust réttinum ásamt kærumálsgögnum 21. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 24. september 2014, þar sem tekin var til greina krafa varnaraðila um dómkvaðningu matsmanna. Kæruheimild er í c. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðilar krefjast þess að kröfu varnaraðila verði hafnað. Þá krefjast þeir kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar auk málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili hefur ekki kært úrskurð héraðsdóms fyrir sitt leyti og getur krafa hans um málskostnað í héraði því ekki komið frekar til álita.

Varnaraðili höfðaði mál með stefnu 20. júní 2011 á hendur sóknaraðilum ásamt Sigurjóni Þ. Árnasyni. Eftir þingfestingu þess í héraði 29. september 2011 var því ítrekað frestað þar til stefndu lögðu loks fram greinargerðir 7. september 2012. Dómarinn, sem nú fer með málið í héraði, tók það fyrir í fyrsta sinn 16. október 2012 og var þá fært í þingbók að varnaraðili óskaði eftir að því yrði frestað „til gagnaöflunar og framlagningar matsbeiðni.“ Stefndu í málinu mótmæltu að varnaraðili fengi dómkvadda matsmenn, enda gæti hann „ekki breytt grundvelli málatilbúnaðar síns undir meðferð málsins með öflun matsgerðar“, en hvað sem því liði hefði honum borið að leggja fram beiðni um slíka dómkvaðningu þegar í því þinghaldi. Eftir þetta var málið tekið fyrir á dómþingi 17. desember 2012 og 25. febrúar, 11. mars, 8. apríl og 29. apríl 2013, þar sem meðal annars voru bornar fram óskir um að því yrði frestað um ótiltekinn tíma vegna lögreglurannsóknar, sem tengdist sakarefninu, deilt var um hvort aðilarnir fengju að leggja fram svonefndar bókanir um ýmis atriði, bornar voru upp áskoranir um öflun tiltekinna gagna, ágreiningur reis um hvort skipta ætti sakarefni í málinu og tekið var til athugunar hvort leita ætti ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins í tengslum við það. Í síðastnefndu þinghaldi var kveðinn upp úrskurður um að slíks álits yrði leitað, sem virðist þó ekki hafa verið fylgt frekar eftir. Að auki var fært þar til bókar að varnaraðili, sóknaraðilinn Halldór J. Kristjánsson og Sigurjón Þ. Árnason hafi lýst því yfir að „þeir hafi lokið gagnaöflun nema tilefni komi til annars.“ Í þinghaldi 25. september 2013 lögðu sóknaraðilar, aðrir en Halldór J. Kristjánsson, fram kröfu um dómkvaðningu matsmanna, sem andmælt var af öðrum aðilum, og var henni hafnað með úrskurði 11. október 2013. Í næsta þinghaldi, 26. nóvember 2013, lögðu sömu sóknaraðilar fram nýja kröfu um dómkvaðningu matsmanna, sem aftur var andmælt, en með úrskurði 14. mars 2014 var hún í meginatriðum tekin til greina og var hann staðfestur með dómi Hæstaréttar 29. apríl sama ár í máli nr. 241/2014. Í þinghaldi 25. júní 2014 lagði varnaraðili loks fram fyrir sitt leyti kröfu um dómkvaðningu matsmanna og var þá fært í þingbók að stefndu hafi mótmælt henni „sem of seint fram kominni og eða óskað eftir fresti til þess að taka nánari afstöðu til hennar.“ Á dómþingi 18. september sama ár var bókað að stefndu hafi allir mótmælt kröfu varnaraðila og var málið flutt um þann ágreining, en með hinum kærða úrskurði var hún tekin til greina. Sigurjón Þ. Árnason hefur ekki látið þennan ágreining til sín taka fyrir Hæstarétti.

Svo sem ráðið verður af framangreindu hefur rekstur málsins þegar tekið mjög langan tíma og hafa allir aðilar þess átt hlut að því að hann hafi farið úr böndum, þótt ítrekuð og vítaverð frestun málsins í nærfellt ár til greinargerða stefndu í héraði hafi stafað af framgöngu þeirra einna. Þegar fyrrnefnd krafa annarra sóknaraðila en Halldórs J. Kristjánssonar um dómkvaðningu matsmanna kom til meðferðar í héraði var henni mótmælt af öllum öðrum málsaðilum, meðal annars á þeirri forsendu að hún hafi ekki verið borin tímanlega fram. Að þeim andmælum stóð varnaraðili meðal annarra. Í ágreiningnum, sem nú er til úrlausnar, hafa þessir sóknaraðilar og varnaraðili haft hlutverkaskipti að þessu leyti. Eins og staðið hefur verið að rekstri málsins og í ljósi þess að enn geti tekið verulegan tíma að ljúka matsgerð í samræmi við áðurnefndan dóm Hæstaréttar í máli nr. 241/2014 eru ekki efni til að hafna kröfu varnaraðila um dómkvaðningu matsmanna á þessum grunni einum. Fram hjá því verður á hinn bóginn ekki litið að fært var sem áður segir í þingbók 16. október 2012 að varnaraðili óskaði eftir að málinu yrði frestað meðal annars til þess að hann gæti lagt fram beiðni um dómkvaðningu matsmanna og var því þegar andmælt af öðrum aðilum. Þetta gerðist þegar málið var tekið fyrir í fyrsta sinn eftir að stefndu höfðu tekið til varna. Varnaraðili hafði því undir höndum greinargerðir þeirra og gat gert sér ljóst að hverju varnir þeirra lytu. Þessari ráðagerð fylgdi varnaraðili á hinn bóginn í engu eftir fyrr en í þinghaldi meira en 20 mánuðum síðar. Áður en það var gert hafði hann eins og áður greinir lýst því yfir fyrir sitt leyti að gagnaöflun væri lokið „nema tilefni komi til annars.“ Varnaraðili hefur engar haldbærar skýringar fært fyrir því hvaða tilefni hafi fyrst gefist nú til að afla matsgerðar í skjóli þessa fyrirvara í málflutningsyfirlýsingu sinni. Samkvæmt því verður að hafna kröfu hans um dómkvaðningu matsmanna.

Varnaraðila verður gert að greiða sóknaraðilum kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hafnað er kröfu varnaraðila, LBI hf., um dómkvaðningu matsmanna.

Varnaraðili greiði sóknaraðilum Brit Insurance Ltd., Liberty Mutual Insurance Europe Ltd., QBE International Insurance Ltd., Allianz Global Corporate & Speciality AG, QBE Corporate Ltd., Alterra Corporate Capital 2 Ltd., Alterra Corporate Capital 3 Ltd., Kelvin Underwriting Ltd., Nameco (No 11) Ltd., Nameco (No 231) Ltd., Novae Corporate Underwriting Ltd., SCOR Underwriting Ltd., Sorbietrees Underwriting Ltd., Brian John Tutin, Bridget Anne Carey-Morgan, Carol Jean Harris, David John De Marle Coulthard, Eileen Elsie Hunter, Gary Frederick Sullivan, Ian Richard Posgate, Joseph Elmaleh, John Leon Gilbart, Julian Michael West, Richard Michael Hodgson Read og Norman Thomas Rea hverjum fyrir sig 10.000 krónur og sóknaraðila Halldóri J. Kristjánssyni 250.000 krónur í kærumálskostnað.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 24. september 2014.

Mál þetta var höfðað með stefnu birtri 1. og 5. júní 2011. Stefnandi er LBI hf., Austurstræti 16, Reykjavík. Stefndu eru Sigurjón Þ. Árnason, Granaskjóli 28, Reykjavík og Halldór J. Kristjánsson, með óþekkt heimilisfang í Kanada. Einnig er í málinu stefnt Brit Insurance Ltd. og 24 aðilum, með lögheimili í Stóra-Bretlandi og Þýskalandi, sem seldu stefnanda, sem áður starfaði sem fjármálafyrirtæki undir heitinu Landsbanki Íslands hf., sameiginlega ábyrgðartryggingu fyrir stjórnendur hans og starfsmenn.

Við fyrirtöku málsins 25. júní sl. lagði stefnandi fram beiðni um dómkvaðningu matsmanna. Af hálfu annarra aðila var beiðninni mótmælt sem of seint fram kominni og eða óskað eftir fresti til þess að taka nánari afstöðu til hennar. Við fyrirtöku málsins 18. september sl. var matsbeiðninni formlega mótmælt af hálfu allra stefndu. Var ágreiningur aðila um dómkvaðningu matsmanna tekinn til úrskurðar í þessu þinghaldi eftir að lögmenn höfðu fært fram munnlegar athugasemdir sínar.

Í matsbeiðni er þess farið á leit að dómkvaddir verði hæfir og óvilhallir matsmenn til að meta virði greiðslna, sem samningskröfuhafar fengu skv. nauðasamningi Straums sem staðfestur var af Héraðsdómi Reykjavíkur þann 18. ágúst 2010. Óskað er eftir því að matið sé sett fram sem hlutfall af heildarkröfum samningskröfuhafa og miðað sé við þann dag sem nauðasamningurinn var staðfestur.

Stefnandi vísar til kröfugerðar sinnar og málsatvika eins og þeim er lýst í stefnu. Hann leggur áherslu á að stefndu hafi mótmælt fullyrðingum stefnanda um tjón hans og dregið í efa útreikninga um nánara umfang tjóns. Þá hafi því verið haldið fram að stefnandi hafi um sum atriði ekki takmarkað tjón sitt með fullnægjandi hætti. Stefnandi vísar til þess að í stefnu komi fram áskilnaður um frekari gagnaframlagningu, þar með taldar matsgerðir  um fjárhæð tjóns, ef málatilbúnaður varnaraðila gefi tilefni til. Einnig vísar hann til ummæla í dómi Hæstaréttar 26. september 2013 í máli nr. 491/2013 þess efnis að ekkert sé því til fyrirstöðu eftir lögum nr. 91/1991 að hann afli frekari sönnunargagna um tjón sitt undir rekstri málsins, þar á meðal með því að fara samkvæmt IX. kafla laganna fram á mat sérfróðs manns eða manna. Stefnandi hefur einnig vakið athygli á því að hann hafi áréttað að hann kynni að leggja fram matsbeiðni eftir að greinargerðir stefndu voru lagðar fram. Slík matsbeiðni hafi hins vegar ekki verið lögð fram fyrr en tekin hafði verið afstaða til umfangsmikillar matsbeiðni stefndu Brit Insurance Ltd. o.fl.

Mótmæli stefndu eru annars vegar á því reist að matsbeiðni stefnanda sé of seint fram komin. Hins vegar er því haldið fram að matsspurningar séu annað hvort ótengdar sakarefni málsins eða feli í sér röskun  grundvelli þess. Er þannig á því byggt að með matsbeiðni leitist stefnandi við að sýna fram á tjón sitt samkvæmt öðrum viðmiðum en fram komi í stefnu, einkum þannig að miðað sé við verðgildi hagsmuna á öðrum dagsetningum en miðað sé við í stefnu.

Niðurstaða

Af 95. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála verður dregin ályktun um að stefnandi skuli tefla fram þeim sönnunargögnum, sem hann reisir kröfur sínar á, við þingfestingu máls en verði ella að færa fram haldbærar ástæður fyrir því að hann verði ekki krafinn um þessi gögn þá þegar. Hvað sem þessu líður kann stefnanda að vera heimilt að bregðast við vörnum gagnaðila sem fram koma í greinargerð sem lögð er fram samkvæmt 2. mgr. 99. gr. laga nr. 91/1991, þ.á m. með öflun matsgerðar dómkvaddra manna. Er þá horft til þess að sú krafa verður ekki gerð til stefnanda að hann hafi þegar í stefnu og sóknargögnum brugðist við öllum hugsanlegum vörnum varnaraðila, sbr. m.a. dóm Hæstaréttar 26. september 2013 í máli nr. 491/2013. Verður jafnframt að líta svo á að jafnræði málsaðila við slíka gagnaöflun sé nægilega tryggt með þeim reglum sem gilda um dómkvaðningu matsmanna og störf þeirra samkvæmt IX. kafla laga nr. 91/1991 svo og heimildum þeirra til að afla yfirmats eða hefja sjálfstæðra gagnaöflunar í tilefni af matsgerð. Fer ekki heldur á milli mála að tíðkanlegt er í málum sem höfðuð eru til heimtu skaðabóta, svo sem hér um ræðir, að stefnandi bregðist við mótmælum um fjárhæð tjóns með því að afla matsgerða dómkvaddra manna undir meðferð málsins og er beinlínis gert ráð fyrir slíkri gagnaöflun með IX. kafla laga nr. 91/1991.

Með matsbeiðni sinni leitast stefnandi í meginatriðum við að fá tjón sitt staðreynt, einkum með hliðsjón af tilteknum málsástæðum stefndu um að tjón stefnanda sé ranglega metið og eða ósannað. Af hálfu stefndu hefur því ekki verið haldið fram að málatilbúnaður stefnda teldist svo vanreifaður að varði frávísun málsins.Eins og málið liggur fyrir verður að játa stefnanda verulegu svigrúmi til að afla matsgerðar um nánari atriði tjóns síns enda ber hann áhættuna af sönnunargildi matsgerðar við endanlega úrlausn málsins. Er þá einnig horft til þess að hér er ekki um að ræða gagnaöflun sem telst úr hófi miðað við umfang og rekstur málsins.

Í málinu liggur fyrir að stefnandi áskildi sér rétt til öflunar matsgerðar í stefnu og áréttaði þann fyrirvara í beinu framhaldi af fyrrgreindum dómi Hæstaréttar. Er því ekki um það að ræða að bersýnilegt sé að að matsgerðin verði fyrirsjáanlega tilgangslaus til sönnunar, sbr. 3. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991 af þessari ástæðu.

Samkvæmt framangreindu verður fallist á beiðni stefnanda um dómkvaðningu matsmanna.

Skúli Magnússon héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Úrskurðarorð

Fallist er á beiðni stefnanda LBI hf. 25. júní sl. um dómkvaðningu matsmanna.