- Kærumál
- Gæsluvarðhald. B. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
- Framsal sakamanns
|
Föstudaginn 17. maí 2013. |
Nr. 330/2013.
|
Ákæruvaldið (Sigríður J. Friðjónsdóttir ríkissaksóknari) gegn X (Brynjólfur Eyvindsson) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. B. liður 1. mgr. 95 gr. laga nr. 88/2008. Framsal sakamanna.
Staðfest var niðurstaða héraðsdóms um að X skyldi gert að sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi á grundvelli b. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála og 15. gr. laga nr. 13/1984 um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Benedikt Bogason og Eiríkur Tómasson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 14. maí 2013 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 16. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 14. maí 2013 þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi á meðan framsalsmál hans er til meðferðar, þó eigi lengur en til þriðjudagsins 28. maí 2013 klukkan 16. Kæruheimild er í 24. gr. laga nr. 13/1984 um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en að því frágengnu að honum verði gert að sæta farbanni í stað gæsluvarðhalds.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 14. maí 2013.
Ríkissaksóknari hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að X, fd. [...], sæti áfram gæsluvarðhaldi á meðan framsalsmál hans er til meðferðar hjá íslenskum stjórnvöldum og dómstólum, þó eigi lengur en til þriðjudagsins 28. maí nk., kl. 16:00.
Í bréfi ríkissaksóknara kemur fram að varnaraðili hafi verið handtekinn þann 26. mars sl., í kjölfar komu hans til landsins, eftir að í ljós kom að hann hafi verið eftirlýstur af kýpverskum yfirvöldum í kerfi Interpol. Framsalsbeiðni kýpverskra yfirvalda, dags. 3. apríl 2013, hafi borist innanríkisráðuneytinu þann 17. apríl sl. Óskað hafi verið eftir framsali varnaraðila til meðferðar tveggja sakamála, sem séu til rannsóknar hjá lögreglunni í Nicosia. Fram komi að fyrra málið varði innbrot og þjófnað í skartgripaverslunina [...] á tímabili frá kl. 13.30 þann 2. maí til kl. 8.30 þann 3. maí 2012. Þjófavarnarkerfi verslunarinnar hafi verið gert óvirkt og skartgripum og gullmunum að verðmæti 200.000 evra (yfir 30 milljónir króna) hafi verið stolið. Seinna málið varði rán og líkamsárás að kvöldi 4. maí 2012, en þá hafi tveir menn með hulin andlit ráðist á framkvæmdastjóra verslunarinnar [...] og slegið hann í höfuð og líkama með höndum og tekið af honum tösku sem innihélt 17.205 evrur (yfir 2,6 milljónir króna), og Nokia-farsíma. Hafi brotaþoli verið fluttur með sjúkrabíl á sjúkrahús og afleiðingarnar hafi verið áverkar á andliti (e. craniofacial injuries), flekkblæðingar og maráverkar víða á líkama. Rannsókn málsins sé lýst og fram komi að á grundvelli sönnunargagna hafi grunur beinst að varnaraðila. Um nánari lýsingu málavaxta vísast til framsalsbeiðninnar, ákvörðunar innanríkisráðuneytis og álitsgerðar ríkissaksóknara, dags. 29. apríl. Þá hafi dómari við héraðsdóm Nicosia gefið út handtökuskipun á hendur varnaraðila þann 9. júní 2012 vegna gruns um aðild hans að sakamálunum tveimur og greint sé frá því að evrópsk handtökuskipun hafi verið gefin út á hendur honum þann 11. febrúar 2013.
Varnaraðili neiti sök og hafni framsali. Eftir að framsalsbeiðnin hafði verið kynnt varnaraðila hjá lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu hafi ríkissaksóknari sent innanríkisráðuneytinu gögn málsins ásamt umsögn, dags. 29. apríl 2013, þar sem skilyrði framsals skv. lögum nr. 13/1984 voru talin uppfyllt. Innanríkisráðuneytið hafi ákveðið að verða við beiðninni um framsal með ákvörðun dags. 30. apríl 2013. Varnaraðili hafi samdægurs krafist úrskurðar héraðsdóms um skilyrði framsals og verði málið þingfest í dag.
Fram kemur einnig í kröfu ríkissaksóknara að varnaraðili sé rúmenskur ríkisborgari, sem hafi aldrei áður komið til Íslands og hafi engin tengsl við landið. Þyki raunhæf hætta á því að hann kunni að reyna að komast úr landi eða koma sér með öðrum hætti undan meðferð málsins og hugsanlegu framsali. Til að tryggja nærveru varnaraðila á meðan framsalsmál hans sé til meðferðar hjá íslenskum stjórnvöldum og dómstólum og með hliðsjón af alvarleika sakargiftanna, sé þess beiðst að krafan nái fram að ganga.
Tekið er fram að varnaraðili hafi sætt gæsluvarðhaldi vegna málsins frá 27. mars sl., sbr. úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur í málum nr. R-121/2013, R-141/2013 og R-171/2013 og dóma Hæstaréttar í málum nr. 269/2013 og 301/2013.
Kröfunni til stuðnings vísar ríkissaksóknari til þess að meint brot varnaraðila myndu varða við 244. gr. og 252. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Um lagaheimild fyrir kröfu um gæsluvarðhald vísast til b. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála og 15. gr. laga nr. 13/1984 um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum.
--------------------------------------------
Eins og áður greinir var varnaraðili handtekinn eftir komu til landsins 26. mars sl., þegar í ljós kom að hann var eftirlýstur af kýpverskum yfirvöldum í kerfi Interpol. Er hann annars vegar grunaður um aðild að innbroti í skartgripaverslun á Kýpur , þar sem verðmæti þýfisins var um 200.000 evrur, en hins vegar að ráni og líkamsárás einnig á Kýpur. Kýpversk yfirvöld hafa óskað eftir framsali varnaraðila vegna þessara sakamála og hefur innanríkisráðuneytið fallist á þá kröfu. Varnaraðili neitar hins vegar sök og hafnar framsali. Hefur hann krafist úrskurðar héraðsdóms um skilyrði framsals og var mál hans þingfest hér fyrir dóminum í dag.
Varnaraðili er rúmenskur ríkisborgari og hefur engin tengsl við Ísland svo vitað sé. Þau brot sem hann er grunaður um eru alvarleg og myndu að íslenskum lögum varða fangelsisrefsingu, sbr. 244. og 252. gr. almennra hegningalaga nr. 19/1940, ef sönnuð væru. Af fyrirliggjandi gögnum má ráða að brot þessi gætu varðað lífstíðarfangelsi samkvæmt kýpverskum lögum. Verður að fallast á það með ríkissaksóknara að raunhæf hætta sé á því að varnaraðili muni reyna að komast úr landi meðan mál hans er til meðferðar fyrir dómi. Er því fullnægt skilyrðum b-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008, sbr. og 15. gr. laga nr. 13/1984, um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum, til þess að verða við kröfu ríkissaksóknara um að varnaraðili sæti gæsluvarðhaldi eins og krafist er og nánar greinir í úrskurðarorði. Í ljósi alvarleika þeirra brota sem að ofan greinir, og að öðru leyti með vísan til framanritaðs, þykir ekki tilefni til að fallast á kröfu varnaraðila um að hann sæti fremur farbanni í stað gæsluvarðhalds.
Ingimundur Einarsson dómstjóri kveður upp þennan úrskurð
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Varnaraðili, X, fd. [...], skal sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi á meðan framsalsmál hans er til meðferðar hjá íslenskum stjórnvöldum og dómstólum, þó eigi lengur en til þriðjudagsins 28. maí nk., kl. 16:00.