Print

Mál nr. 587/2011

Lykilorð
  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008

 

Fimmtudaginn 3. nóvember 2011.

Nr. 587/2011.

Sýslumaðurinn á Selfossi

(Jónína Guðmundsdóttir fulltrúi)

gegn

X

(Sigurður Sigurjónsson hrl.)

 

Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008. B. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.

 

Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi, á grundvelli a. og b. liða 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, og einangrun meðan á gæsluvarðhaldi stæði var staðfestur.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Greta Baldursdóttir og Viðar Már Matthíasson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 31. október 2011 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 2. nóvember sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 28. október 2011, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 4. nóvember 2011 klukkan 16 og einangrun meðan á því stendur. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími og aðallega að sér verði ekki gert að sæta einangrun samkvæmt b. lið 1. mgr. 99. gr. laga nr. 88/2008 meðan á því stendur, en til vara að einangrun verði markaður skemmri tími.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Fallist er á með héraðsdómi að fram sé kominn rökstuddur grunur um að varnaraðili hafi gerst sekur um brot, sem fangelsisrefsing liggur við og að rannsóknarhagsmunir krefjist þess að hann sæti gæsluvarðhaldi þann tíma, sem greinir í hinum kærða úrskurði, sbr. a. og b. liði 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008. Verður niðurstaða úrskurðarins því staðfest um gæsluvarðhaldið og að varnaraðili sæti einangrun á meðan á því stendur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

Úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 28. október 2011.

Lögreglustjórinn á Selfossi hefur krafist þess að Héraðsdómur Suðurlands úrskurði X, fæddan [...], til heimilis í [...], til að sæta gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 24. nóvember 2011, klukkan 16.00. Þá er þess einnig krafist að tilhögun gæsluvarðhaldsins verði samkvæmt b. lið 1. mgr. 99. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008.

Í greinargerð lögreglustjórans á Selfossi kemur fram að kærði, X, hafi ásamt tveimur öðrum mönnum verið handtekinn klukkan 00.40 aðfaranótt fimmtudagsins 27. október sl. í orlofshúsi nr. [...] í [...] grunaður um fíkniefnamisferli. Við húsleit í orlofshúsinu hafi fundist 374,34 grömm af kókaíni, 369,06 grömm af hvítu duftkenndu efni af óþekktum toga, 219 stykki af hylkjum með óþekktu innihaldi, brúsar sem innihéldu aceton (naglalakkseyði), olíuhreinsi og startvökva.

Fyrir liggi  að kærði og samverkamenn hans tveir hafi haft afnot af bifreið sem staðið hafi á bifreiðaplani skammt frá orlofshúsinu en bifreiðin sé í eigu fjórða mannsins sem einnig hafi verið handtekinn aðfaranótt fimmtudagsins 27. október sl. Í fyrrnefndri bifreið hafi fundist leigusamningur um áðurnefnt orlofshús þar sem leigutaki er tilgreindur. Sá maður sé ófundinn þrátt fyrir víðtæka leit lögreglu en fram sé komið í málinu að nefndur maður hafi átt samskipti við staðarhaldara orlofshússins mánudaginn 24. október sl., þ.e. við upphaf leigutímans.

Við yfirheyrslu hjá lögreglu hafi kærði ekki kannast við áðurnefnd fíkniefni og ekki gefið trúverðugar skýringar á veru sinni í orlofshúsinu að mati lögreglu. Þá hafi jafnframt verið teknar skýrslur af ætluðum samverkamönnum hans og enginn þeirra hafi kannast við þátt sinn í málinu þótt tveir þeirra hafi verið í hinu umrædda orlofshúsi.

 Lögreglan á Selfossi fari með rannsókn málsins sem sé umfangsmikil og á frumstigi. Ætluð brot kærða séu talin varða við 2. , sbr. 4. gr.  og 5. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1997 og 2. mgr. 173. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Með vísan til þess og í ljósi þess magns fíkniefna sem fundust við húsleit í orlofshúsinu sé nauðsynlegt að rannsaka ýmis atriði sem varða mál þetta þar á meðal styrkleika efnanna, tengsl mannanna innbyrðis og að taka frekari skýrslur af þeim. Þá leiti lögregla mannsins sem tekið hafi orlofshúsið á leigu en ljóst sé að hann tengist málinu ótvírætt.

Það er mat lögreglustjóra að rannsóknarhagsmunir málsins krefjist þess að kærði sæti gæsluvarðhaldi og vísar lögreglustjóri í því sambandi til a liðar 1. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008. Þá sé jafnframt talin veruleg hætta á að kærði yfirgefi landið gangi hann laus, sbr. b. lið 1. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008. Þá er þess krafist að kærða verði gert að sæta einangrun á gæsluvarðhaldstímanum á grundvelli b. liðar 1. mgr. 99. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008, þar sem rannsókn málsins sé skammt á veg komin og hætta sé á að kærði muni geta torveldað hana ef hann sæti ekki einangrun. 

Við fyrirtöku gæsluvarðhaldskröfunnar fyrir dómi að kvöldi fimmtudagsins 27. október sl., samþykkti kærði, X, kröfu lögreglustjóra en krafðist þess að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími en lögreglustjóri gerir kröfu um. Kærði tjáði sig um ætlaðar sakargiftir og kvaðst einn eiga hið ætlaða kókaín sem og hið hvíta duftkennda efni af óþekktum toga og hylki með óþekktu innihaldi sem lögregla lagði hald á í umræddu orlofshúsi. Í skýrslutöku lögreglu yfir kærða kom fram að kærði, sem er [...] ríkisborgari, hafi komið til landsins fyrir um tveimur vikum síðan og dvalið á hóteli í [...].

      Samkvæmt málatilbúnaði lögreglustjóra beinist rannsókn lögreglu að ætlaðri hlutdeild   samverkamanna kærða að fíkniefnamisferli. Rannsaka þurfi styrkleika efna sem fundust í húsleit í orlofshúsinu, tengsl kærðu innbyrðis, taka þurfi frekari skýrslur af þeim og finna þurfi mann þann sem leigði orlofshúsið en ljóst sé að hann tengist ótvírætt málinu. 

Kærði var handtekinn ásamt tveimur öðrum mönnum í orlofshúsi í [...] aðfaranótt fimmtudagsins 27. október sl. Þá er í haldi lögreglu eigandi bifreiðar þeirrar sem áðurnefndir menn höfðu til umráða og leit stendur yfir að manni þeim sem tók orlofshúsið á leigu og átti samskipti við umsjónarmann orlofshúsabyggðarinnar við upphaf leigutímans. Kærði tjáði sig ekki um sakargiftir í skýrslutöku hjá lögreglu en játaði að eiga hin haldlögðu efni eins og áður er rakið þegar gæsluvarðhaldskrafan var tekin fyrir. Rannsóknargögn málsins, þ. á m. myndir af vettvangi, sýna ætlað kókaín víðsvegar um orlofshúsið, m.a. á matardiskum og skálum á borði í eldhúsi, í skaftpotti á gólfi í svefnherbergi og í glerkrukkum á gólfi í svefnherbergi. Auk þess hafi fundist óþekkt efni í plastdunk, merktum Creatine, í tösku í svefnherbergi og óþekkt efni á skál í eldhúsi. Þá hafi fundist gluggaskafa og skeiðar með hvítum efnisleifum á diski á stofuborði. Gat því engum sem í orlofshúsinu var dulist að um fíkniefni var að ræða.  

Lögregla hefur til rannsóknar nokkuð umfangsmikið brot á fíkniefnalöggjöfinni sem varðað getur fangelsisrefsingu ef sök sannast. Rannsókn málsins er á frumstigi og beinist meðal annars að þætti hvers og eins þeirra fjögurra manna sem handteknir voru í tengslum við rannsókn að málinu og þá leitar lögregla fimmta mannsins sem rannsóknargögn málsins benda til að tengist málinu. Með vísan til þess sem fram kemur í greinargerð lögreglustjóra og þess sem rannsóknargögn bera með sér, er fallist á það með lögreglustjóra að kærði sé undir rökstuddum grun um að hafa framið brot sem geti varðað fangelsisrefsingu og að rannsóknarhagsmunir krefjist þess að hann sæti gæsluvarðhaldi ella megi ætla að hann muni torvelda rannsókn málsins, svo sem með því að afmá merki eftir brot, skjóta undan munum ellegar hafa áhrif á samseka eða vitni. Kærði er erlendur ríkisborgari sem kom til landsins fyrir um hálfum mánuði. Fallist er á það með lögreglustjóra að ætla megi að hann muni reyna að komast úr landi eða leynast ellegar koma sér með öðrum hætti undan málsókn eða fullnustu refsingar.

Samkvæmt framansögðu er fallist á kröfu lögreglustjórans á Selfossi með vísan til a. og b. liðar 1. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008. Hins vegar er ekki fallist á sjónarmið sem tengjast úrvinnslu gagna sem lögreglustjóri hefur aflað enda eru gögn þessi í vörslum hans. Gæsluvarðhaldstími þykir hæfilegur eins og nánar greinir í úrskurðarorði. Þá verður fallist á kröfu lögreglustjóra á grundvelli b. liðar 1. mgr. 99. gr. laga nr. 88/2008,  allt eins og nánar greinir í úrskurðarorði.

Ragnheiður Thorlacius héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

Kærði, X, fæddur [...], skal sæta gæsluvarðhaldi til föstudagsins 4. nóvember 2011, klukkan 16.00. Kærði sæti einangrun á meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.