Print

Mál nr. 44/2023

Guðrún Lilja Arnórsdóttir (Eiríkur Gunnsteinsson lögmaður)
gegn
Þráni Nóasyni (Sigurður Kári Kristjánsson lögmaður) og Kjartani Nóasyni (enginn)
Lykilorð
  • Landamerki
  • Samaðild
  • Samlagsaðild
  • Kröfugerð
  • Frávísun frá héraðsdómi
Reifun

G höfðaði mál til viðurkenningar á nánar tilgreindum mörkum jarðarinnar E gagnvart jörðunum S og V. Þ og K áttu jörðina S í óskiptri sameign en Þ einn jörðina V. Héraðsdómur féllst á kröfu G um nánar tiltekin merki jarðanna. Landsréttur komst hins vegar að þeirri niðurstöðu að G hefði ekki tekist sönnun þess að merki jarðanna væru með þeim hætti sem lýst væri í kröfugerð hennar. Hæstiréttur leit til þess að aðal- og varakrafa G fól í sér tvö sjálfstæð sakarefni um landamerki jarðar hennar og tveggja grannjarða sem ekki voru sömu eigendur að. G hefði borið við höfðun málsins í upphafi að marka kröfur sínar þannig að eftir atvikum hefði verið unnt að dæma aðgreint um þær hvora um sig. Eins og á stóð í málinu var vegna þessa annmarka á kröfugerð um merki milli jarðanna málinu því vísað frá héraðsdómi án kröfu. Þ. Í dómi Hæstaréttar kom einnig fram að sá málatilbúnaður Þ, sem var áfrýjandi fyrir Landsrétti, að krefjast ekki þar fyrir dómi að sameiganda sínum að S yrði gert að þola dóm í málinu, hefði átt að leiða til frávísunar málsins frá réttinum að hluta eða öllu leyti hefði ekki framangreindur annmarki verið á kröfugerð G um merki milli jarðanna.

Dómur Hæstaréttar

1. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Björg Thorarensen, Karl Axelsson, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Sigurður Tómas Magnússon.

2. Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 18. september 2023. Hún krefst þess að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur og málinu vísað frá Landsrétti. Þá krefst hún málskostnaðar á öllum dómstigum.

3. Stefndi Þráinn Nóason krefst þess að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur. Þá krefst hann málskostnaðar fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar sem honum hefur verið veitt.

4. Stefndi Kjartan Nóason hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.

Ágreiningsefni og málsmeðferð

5. Áfrýjandi höfðaði mál þetta í héraði á hendur stefndu til viðurkenningar á nánar tilgreindum mörkum jarðanna Eiðis og Vindáss annars vegar og Eiðis og Setbergs hins vegar í Grundarfjarðarbæ. Áfrýjandi er þinglýstur eigandi jarðarinnar Eiðis, stefndi Þráinn er einn þinglýstur eigandi jarðarinnar Vindáss en stefndu eru sameiginlega þinglýstir eigendur jarðarinnar Setbergs að helmingi hvor í óskiptri sameign. Efnisatriðum málsins er lýst í héraðsdómi og hinum áfrýjaða dómi.

6. Með héraðsdómi var fallist á aðalkröfu áfrýjanda um merki milli jarðanna.

7. Stefndu tóku sameiginlega til varna í héraði. Stefndi Þráinn áfrýjaði hins vegar einn málinu til Landsréttar. Eins og í héraði krafðist hann aðallega frávísunar málsins sökum vanreifunar í málatilbúnaði áfrýjanda meðal annars vegna óljósra kröfulína en til vara sýknu af kröfum áfrýjanda. Hann áfrýjaði málinu einnig gagnvart bróður sínum, stefnda Kjartani, án þess þó að gera kröfu á hendur honum. Stefndi Kjartan lét málið ekki til sín taka fyrir Landsrétti. Áfrýjandi gerði aðallega þá kröfu fyrir Landsrétti að málinu yrði vísað þaðan frá dómi en til vara um staðfestingu héraðsdóms.

8. Í dómi Landsréttar var kröfu stefnda Þráins um frávísun málsins frá héraði hafnað. Jafnframt var hafnað kröfu áfrýjanda um frávísun málsins frá Landsrétti. Um það var vísað til þess að stefndi Kjartan hefði átt þess kost að gæta hagsmuna sinna vegna þeirra óskiptu réttinda sem hann ætti með stefnda Þráni en það hefði hann ekki gert. Af þeim sökum stæðu ákvæði 18. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála því ekki í vegi að efnisdómur yrði felldur á kröfu stefnda Þráins. Landsréttur komst að þeirri niðurstöðu að áfrýjanda hefði ekki tekist sönnun þess að merki jarðanna væru með þeim hætti sem hún lýsti í aðal- eða varakröfu sinni. Stefndi Þráinn var því sýknaður af kröfum áfrýjanda en dómsorð Landsréttar tók ekki til stefnda Kjartans.

9. Fyrir Hæstarétti takmarkast ágreiningur aðila við það hvort vísa hefði átt málinu frá Landsrétti af þeirri ástæðu að stefndi Þráinn hefði hvorki í áfrýjunarstefnu né greinargerð sinni til Landsréttar krafist þess að stefnda Kjartani yrði gert að þola dóm í málinu.

10. Áfrýjunarleyfi var veitt 18. september 2023, með ákvörðun réttarins nr. 2023-90, þar sem talið var að dómur í málinu hefði fordæmisgildi um skilyrði samaðildar og tilhögun kröfugerðar samkvæmt lögum nr. 91/1991.

Málsástæður

Helstu málsástæður áfrýjanda

11. Áfrýjandi vísar til þess hún hafi höfðað málið í héraði á grundvelli samaðildar stefndu þar sem um óskipt réttindi þeirra sé að ræða hvað varði jörðina Setberg. Þar sem stefndi Kjartan hafi unað héraðsdómi hafi stefnda Þráni borið að stefna Kjartani fyrir Landsrétt með sérstakri kröfu um að honum yrði gert að þola dóm í málinu, sbr. dóma Hæstaréttar 24. mars 2011 í máli nr. 406/2010, 29. ágúst 2012 í máli nr. 510/2012 og 10. mars 2016 í máli nr. 392/2015. Hins vegar sé hvorki í áfrýjunarstefnu né greinargerð stefnda Þráins fyrir Landsrétti að finna kröfu í þá veru og megi af því álykta að aðild Kjartans hafi einungis átt að vera til réttargæslu. Sú framsetning kröfugerðar sé í andstöðu við framangreinda undantekningarreglu frá skilyrðum 18. gr. laga nr. 91/1991 um samaðild til sóknar sem mótast hafi í réttarframkvæmd en hún eigi bæði við um rekstur máls í héraði og fyrir Landsrétti, sbr. fyrrgreindan dóm Hæstaréttar í máli nr. 392/2015.

12. Í dómi Landsréttar sé hvergi fjallað um skyldur eða réttindi stefnda Kjartans enda engar dómkröfur gerðar á hendur honum þar fyrir dómi. Þá kveði dómsorð Landsréttar einungis á um sýknu stefnda Þráins en stefnda Kjartans sé þar í engu getið. Því standi enn niðurstaða héraðsdóms hvað hann varðar. Sökum þessa sé uppi ólík réttarstaða á meðal sameigenda Setbergs um landamerki gagnvart jörðinni Eiði því að dómur Landsréttar geti ekki leitt til breytts réttarástands milli áfrýjanda og Kjartans án skýrrar lagaheimildar þar um. Engu skipti þótt stefndi Kjartan hafi átt þess kost að gæta hagsmuna sinna í málinu eins og rakið sé í hinum áfrýjaða dómi. Niðurstaða Landsréttar hafi engin áhrif á réttarstöðu hans enda engar kröfur um það gerðar. Stefnda Þráni hafi á hinn bóginn verið í lófa lagið að krefjast þess að stefnda Kjartani yrði gert að þola dóm í málinu. Það hafi hann ekki gert og því beri að vísa málinu frá Landsrétti.

Helstu málsástæður stefnda Þráins Nóasonar

13. Af hálfu stefnda Þráins er á því byggt að stefndu hafi báðir átt aðild til varnar í héraði á grundvelli 18. gr. laga nr. 91/1991 sem eigendur jarðarinnar Setbergs. Stefndi Þráinn hafi einn áfrýjað niðurstöðu héraðsdóms til Landsréttar sökum þess að meðstefndi hafi af heilsufarsástæðum ekki treyst sér til að standa að áfrýjun með honum. Stefnda Þráni hafi því verið nauðugur sá kostur að stefna Kjartani til varnar fyrir Landsrétti svo að sá síðarnefndi ætti aðild að málinu, í samræmi við 18. gr. laga nr. 91/1991, sbr. fyrrgreindan dóm Hæstaréttar í máli nr. 392/2015. Af því leiði að stefndi Kjartan hafi átt kost á að því að gæta hagsmuna sinna fyrir Landsrétti.

14. Stefndi hafnar því að í kjölfar dóms Landsréttar sé upp komin mismunandi réttarstaða sameigenda Setbergs vegna landamerkja jarðarinnar gagnvart Eiði. Vísar hann um það til grunnraka 3. mgr. 18. gr. laga nr. 91/1991 og dóma Hæstaréttar 29. september 2011 í málum nr. 40/2011 og 75/2011. Sæki þeir sem eiga óskipta aðild ekki allir þing teljist þeir sem það gera hafa heimild til að skuldbinda hina. Stefndi hafi því haft lögákveðið umboð til að halda uppi réttindum beggja eigenda Setbergs og heimild til að skuldbinda þá báða. Þannig segi meðal annars í áfrýjunarstefnu fyrir Landsrétti að sæki stefndi Kjartan ekki þing við þingfestingu málsins verði litið svo á, með vísan til 3. mgr. 18. gr. laga nr. 91/1991, að stefndi Þráinn hafi „heimild til að ráðstafa hagsmunum jarðarinnar Setbergs og skuldbinda stefnda Kjartan með áfrýjuninni“. Lyktir málsins í Landsrétti séu því skuldbindandi fyrir báða stefndu.

15. Stefndi byggir á því að hvergi í 18. gr. laga nr. 91/1991 eða öðrum ákvæðum réttarfarslaga komi fram að í dómsmáli þurfi að gera þá kröfu á hendur sameigenda að réttindum í óskiptri sameign að þeir þoli dóm um þau réttindi. Þaðan af síður sé til staðar dómvenja um slíkt þótt dæmi séu í réttarframkvæmd um að aðilar hafi kosið að haga dómkröfu með þeim hætti. Þvert á móti sé nægilegt að sameigendum að réttindum sé gefið færi á að gæta hagsmuna sinna fyrir dómi með aðild að viðkomandi dómsmálum. Því til stuðnings vísar stefndi til fyrrgreindra dóma Hæstaréttar í málum nr. 40/2011 og 75/2011. Þannig hafi enga nauðsyn borið til að hafa uppi þá kröfu fyrir Landsrétti að stefnda Kjartani yrði gert „að þola“ að hann yrði sýknaður af kröfum áfrýjanda.

16. Þá vísar stefndi til þess að áfrýjandi hafi krafist fyrir Landsrétti að niðurstaða héraðsdóms yrði staðfest. Í þeirri kröfugerð hafi falist dómkrafa á hendur stefnda Kjartani um að landamerki jarðanna yrðu dæmd samkvæmt þeirri kröfu sem áfrýjandi hafði uppi í héraði og fallist var á í héraðsdómi. Í hinum áfrýjaða dómi hafi Landsréttur tekið afstöðu til þeirrar dómkröfu áfrýjanda með því að fallast ekki á hana. Því sé rangt að engar kröfur hafi verið gerðar í Landsrétti á hendur stefnda Kjartani.

Niðurstaða

17. Aðili máls er sá sem gerir kröfu eða krafa beinist að. Þegar dómsmál er rekið á grundvelli samaðildar til varnar samkvæmt 18. gr. laga nr. 91/1991 gerir sóknaraðili sömu kröfu á hendur fleiri en einum varnaraðila þannig að um eitt sakarefni sé að ræða. Megineinkenni samlagsaðildar samkvæmt 1. mgr. 19. gr. sömu laga og það sem skilur hana frá samaðild er að í skjóli hennar er fleiri en einum heimilt að sækja mál í félagi um kröfur á hendur einum eða fleiri varnaraðilum þar sem hver sóknaraðili gæti allt eins höfðað sjálfstætt mál um kröfu sína á hendur hverjum varnaraðila. Samkvæmt dómum Hæstaréttar er það ófrávíkjanlegt skilyrði þess að unnt sé að nýta sér réttarfarshagræði 1. mgr. 19. gr. laganna að hver sóknaraðila geri sjálfstæða aðgreinda kröfu. Varðar það frávísun máls af sjálfsdáðum sé þetta ekki gert, sbr. dóma réttarins 6. september 2005 í máli nr. 294/2005 og 21. október sama ár í máli nr. 439/2005. Það sama á við að breyttu breytanda þegar samlagsaðild er beitt varnarmegin en þá þarf sóknaraðili að gera sjálfstæða kröfu á hendur hverjum varnaðaraðila. Um þetta vísast til dóms Hæstaréttar 22. september 2022 í máli nr. 39/2022 en þar var málatilbúnaður sóknaraðila þó ólíkur því sem um ræðir í þessu máli að því leyti að dómkröfur á hendur varnaraðilum voru raktar til sama löggernings og samhljóða á hendur hverjum þeirra um sig. Því var talið ástæðulaust að tiltaka sérstaklega hvers krafist væri af hendi sóknaraðila með endurtekningu sömu orða fyrir hvern varnaraðila um sig. Nægði í þeim efnum að þetta væri gert í eitt skipti fyrir alla varnaraðila.

18. Í þessu máli háttar svo til að jörð áfrýjanda Eiði á land annars vegar að Vindási, jörð stefnda Þráins, og hins vegar að jörðinni Setbergi sem er í óskiptri sameign beggja stefndu. Er þannig ekki um sama eignarhald að ræða á þessum tveimur grannjörðum Eiðis.

19. Í stefnu áfrýjanda til héraðsdóms krafðist hún þess aðallega að viðurkennt yrði með dómi að landamerki jarðanna Eiðis og Vindáss annars vegar og Eiðis og Setbergs hins vegar á hinu umdeilda svæði væru eftir línu sem dregin væri um 15 nánar tilgreinda hnitpunkta. Ekki var hins vegar tilgreint hvaða hlutar kröfulínunnar væru dregnir milli jarðanna Eiðis og Vindáss og hvaða hlutar milli Eiðis og Setbergs. Á korti sem er meðal gagna málsins má sjá að mörk Vindáss og Setbergs eru dregin með punktalínu sem endar í hnitpunkti 3 í kröfulínu áfrýjanda. Af hálfu stefnda Þráins var fullyrt í málflutningi fyrir Hæstarétti að merkin milli Vindáss og Setbergs væru óumdeild. Af hálfu áfrýjanda var því hins vegar haldið fram við sama tækifæri að merki milli jarðanna væru óviss og því nauðsynlegt að stefndi Kjartan ætti einnig aðild að málinu hvað landamerki Vindáss varðaði. Af þeim upplýsingum sem liggja fyrir um landamerki Vindáss og Setbergs, fyrrgreindri yfirlýsingu af hálfu stefnda Þráins og staðsetningu hnitpunkts í kröfugerð áfrýjanda verður ekki ráðið að slík óvissa hafi verið um merki þessara tveggja jarða að nauðsynlegt hefði verið að stefndi Kjartan væri aðili að ágreiningi um merki Eiðis og Vindáss. Samaðild var því ekki nauðsynleg um þann hluta kröfunnar.

20. Eins og að framan greinir lagði áfrýjandi fyrir héraðsdóm með aðalkröfu sinni tvö sjálfstæð sakarefni um landamerki jarðar sinnar og tveggja grannjarða sem ekki voru sömu eigendur að. Stefndi Þráinn átti samkvæmt framansögðu einn aðild varnarmegin að sakarefninu hvað varðar Vindás en hann og stefndi Kjartan áttu samaðild hvað varðar Setberg. Eins og hér stóð á bar að gera sérstaka dómkröfu gagnvart hvorri jörðinni um sig, Vindási og Setbergi. Þrátt fyrir það var ekki tilgreint í kröfugerð áfrýjanda hvaða hnitpunktar afmörkuðu kröfulínu annars vegar milli Eiðis og Vindáss og hins vegar Eiðis og Setbergs og því ekki gerð sjálfstæð krafa um viðurkenningu á merkjum milli Eiðis og hvorrar hinna tveggja jarðanna um sig eins og rétt hefði verið að gera.

21. Varakrafa áfrýjanda var orðuð með sama hætti og aðalkrafa en vísað til annarra hnitpunkta en í aðalkröfu. Á því sama við um hana og aðalkröfuna.

22. Þótt finna megi dæmi um að sambærileg framsetning krafna hafi verið látin óátalin, sbr. til hliðsjónar dóma Hæstaréttar 12. júní 2014 í máli nr. 609/2013 og 5. október 2017 í máli nr. 78/2017, bar áfrýjanda þegar í upphafi máls þessa að marka kröfur sínar skýrar þannig að eftir atvikum hefði verið unnt að dæma aðgreint um þær hvora um sig, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 26. maí 2011 í máli nr. 700/2009.

23. Ekki verður séð að ákvæðum 3. mgr. 101. gr. laga nr. 91/1991 hafi verið beitt við meðferð málsins í héraði í því skyni að finna nákvæmlega út hvaða hluti kröfulínu laut að landamerkjum Vindáss og Eiðis og hver að Setbergi og Eiði. Með því hefði áfrýjanda gefist kostur á að bæta úr framangreindum ágalla á kröfugerð sinni, sbr. dóm Hæstaréttar 17. janúar 2006 í máli nr. 538/2005. Eins og málið var lagt fyrir Hæstarétt verður ekki úr þessum annmarka bætt hér fyrir dómi.

24. Það athugast að stefndi Þráinn lét hjá líða að hafa uppi sérstaka dómkröfu fyrir Landsrétti á hendur stefnda Kjartani þess efnis að honum yrði gert að þola dóm um réttindi sín eins og honum hefði verið rétt að gera. Dómsorð Landsréttar er markað af þeirri kröfugerð stefnda Þráins. Þessi málatilbúnaður hans fyrir Landsrétti hefði átt að leiða til frávísunar málsins frá réttinum að hluta eða öllu leyti með tilheyrandi heimild til handa stefnda Þráni til að áfrýja þangað málinu að nýju eftir ákvæðum 4. mgr. 153. gr. laga nr. 91/1991. Vegna þeirra annmarka sem samkvæmt framansögðu eru á kröfugerð um merki milli jarðanna kemur þó ekki til þess heldur ber að vísa málinu frá héraðsdómi án kröfu.

25. Rétt er að málskostnaður á öllum dómstigum falli niður en um gjafsóknarkostnað fer eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Málinu er vísað frá héraðsdómi.

Málskostnaður fellur niður á öllum dómstigum.

Ákvæði hins áfrýjaða dóms um gjafsóknarkostnað fyrir héraðsdómi og Landsrétti skulu vera óröskuð.

Gjafsóknarkostnaður stefnda, Þráins Nóasonar, fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hans 700.000 krónur.