Mál nr. 132/2017
- Kærumál
- Gjaldþrotaskipti
Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu db. H um að bú B yrði tekið til gjaldþrotaskipta. Hafði B með dómi héraðsdóms verið gert að greiða H skaðabætur samkvæmt einkaréttarkröfu H í sakamáli sem höfðað var á hendur B. Á grundvelli héraðsdómsins var gert árangurslaust fjárnám hjá B og í framhaldi af því þess krafist að bú hans yrði tekið til gjaldþrotaskipta. Í dómi Hæstaréttar kom fram að db. H teldi sig með fyrrgreindum dómi héraðsdóms, sem ekki hafði verið hnekkt, eiga kröfu á hendur B. Samkvæmt því og þar sem fullnægt væri skilyrðum 1. töluliðar 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. yrði bú B tekið gjaldþrotaskipta. Breytti þar engu þótt héraðsdóminum hefði verið áfrýjað að því er varðaði einkaréttarkröfuna.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma Helgi I. Jónsson hæstaréttardómari og Ingveldur Einarsdóttir og Þorgeir Ingi Njálsson settir hæstaréttardómarar.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 21. febrúar 2017, en kærumálsgögn bárust réttinum 7. mars sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 8. febrúar 2017, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að bú varnaraðila yrði tekið til gjaldþrotaskipta. Kæruheimild er í 1. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Sóknaraðili krefst þess að framangreind krafa verði tekin til greina. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Með héraðsdómi 7. júlí 2016 var varnaraðila gert að greiða Hálfdáni Björnssyni 42.000.000 krónur í skaðabætur með nánar tilgreindum vöxtum samkvæmt einkaréttarkröfu hins síðarnefnda í sakamáli sem höfðað var á hendur varnaraðila. Samkvæmt yfirlýsingu varnaraðila um áfrýjun dómsins 4. nóvember 2016 var áfrýjunarstefna gefin út 10. nóvember sama ár, þar sem meðal annars kemur fram að varnaraðili krefjist þess að „einkaréttarkröfu verði hafnað.“
Á grundvelli héraðsdómsins var 4. október 2016 gert árangurslaust fjárnám hjá varnaraðila að kröfu Hálfdánar. Í framhaldi af því var þess krafist 25. sama mánaðar að bú varnaraðila yrði tekið til gjaldþrotaskipta á grundvelli 1. töluliðar 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991. Varnaraðili leitaði 7. janúar 2017 eftir endurupptöku fjárnámsins, sbr. 1. mgr. 67. gr. laga nr. 90/1989 um aðför, en beiðninni var synjað 9. febrúar sama ár.
Hálfdán Björnsson lést 10. febrúar 2017 og hefur dánarbú hans tekið við aðild málsins, sbr. 2. mgr. 22. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Sóknaraðili telur sig með fyrrgreindum héraðsdómi, sem ekki hefur verið hnekkt, eiga kröfu á hendur varnaraðila. Samkvæmt því og þar sem fullnægt er skilyrðum 1. töluliðar 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991 verður bú varnaraðila tekið til gjaldþrotaskipta. Breytir þar engu þótt héraðsdóminum hafi verið áfrýjað að því er varðar framangreinda einkaréttarkröfu, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 20. september 1926 í máli nr. 45/1926, sem birtur er í dómasafni réttarins það ár á blaðsíðu 387.
Varnaraðila verður gert að greiða sóknaraðila málskostnað í héraði og kærumálskostnað, sem ákveðinn verður í einu lagi eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Bú varnaraðila, Bergs Axelssonar, er tekið til gjaldþrotaskipta.
Varnaraðili greiði sóknaraðila, dánarbúi Hálfdánar Björnssonar, samtals 500.000 krónur í málskostnað í héraði og kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 8. febrúar 2017.
Með beiðni, dagsettri 25. október 2016, sem upphaflega barst Héraðsdómi Reykjavíkur 26. sama mánaðar, en barst dómi þessum 28. nóvember 2016, krafðist sóknaraðili, Hálfdán Björnsson, kt. [...], til heimilis að Kvískerjum, Sveitarfélaginu Hornafirði, þess að bú varnaraðila, Bergs Axelssonar, kt. [...], með lögheimili að Hrafnhólum 19, Selfossi, yrði tekið til gjaldþrotaskipta. Við fyrirtöku beiðninnar mótmælti varnaraðili beiðninni og var þá í kjölfarið ágreiningsmál þetta þingfest. Málið var tekið til úrskurðar að loknum munnlegum málflutningi þann 23. janúar sl.
I.
Samkvæmt gögnum málsins eru málavextir þeir að með dómi Héraðsdóms Austurlands í málinu nr. S-1/2016, uppkveðnum 7. júlí 2016, var varnaraðili dæmdur til að greiða sóknaraðila 42.000.000 krónur í skaðabætur auk vaxta, dráttarvaxta og 275.000 krónur í málskostnað. Þá kemur fram í gögnum málsins að dómurinn hafi verið birtur varnaraðila þann 25. október 2016. Þann 4. október 2016 var gert árangurslaust fjárnám hjá varnaraðila að kröfu sóknaraðila. Í endurriti úr gerðarbók sýslumanns kemur fram að gerðarþoli, varnaraðili þessa máls, hafi ekki mætt við gerðina, en skilyrðum 1. mgr. 24. gr. laga nr. 90/1989 hafi verið fullnægt til að gerðin færi fram þótt ekki hafi verið mætt fyrir gerðarþola. Þá liggur fyrir að með bréfi dagsettu 7. janúar sl., óskaði varnaraðili eftir endurupptöku fjárnámsgerðarinnar. Einnig liggur fyrir að varnaraðili áfrýjaði áðurnefndum dómi Héraðsdóms Austurlands til Hæstaréttar Íslands og var áfrýjunarstefna gefin út 10. nóvember 2016.
II.
Sóknaraðili krefst þess að bú varnaraðila verði tekið til gjaldþrotaskipta. Þá er krafist málskostnaðar úr hendi varnaraðila að skaðlausu samkvæmt mati dómsins eða málskostnaðarreikningi. Sóknaraðili styður kröfu sína við 1. tölulið 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., og vísar í því sambandi til áðurgreinds fjárnáms sem gert var hjá varnaraðila þann 4. október 2016.
Varnaraðili krefst þess að kröfu sóknaraðila um gjaldþrotaskipti á búi varnaraðila verði hafnað. Þá er krafist málskostnaðar úr hendi sóknaraðila.
III.
Í máli þessu krefst sóknaraðili gjaldþrotaskipta á búi varnaraðila á grundvelli árangurslausar aðfaragerðar, sbr. 1. tölulið 2. mgr. laga nr. 21/1991. Samkvæmt ákvæðinu getur lánardrottinn krafist þess að bú skuldara verði tekið til gjaldþrotaskipta, hafi fjárnám verið gert hjá skuldaranum án árangurs að einhverju leyti eða öllu á síðustu þremur mánuðum fyrir frestdag, enda sýni skuldarinn ekki fram á að hann sé allt að einu fær um að standa full skil á skuldbindingum sínum þegar þær koma í gjalddaga eða verði það innan skamms tíma. Sóknaraðili hefur krafist gjaldþrotaskipta innan þess tíma sem lög nr. 21/1991 áskilja. Í máli þessu lýtur ágreiningur aðila um það hvort skilyrði gjaldþrotaskipta séu fyrir hendi.
Sóknaraðili vísar til þess að hann eigi kröfu á hendur varnaraðila samkvæmt áðurefndum dómi Héraðsdóms Austurlands þar sem varnaraðili hafi verið dæmdur til að greiða sóknaraðila máls þessa 42.000.000 krónur í skaðabætur auk vaxta og dráttarvaxta. Vísar sóknaraðili til þess að varnaraðili hafi hvorki greitt kröfuna né sýnt vilja til þess. Hafi aðfarargerðin, sem lokið hafi án árangurs, farið fram 4. október 2016 og sé það á grundvelli framangreindrar aðfarargerðar sem krafa um gjaldþrotaskipti á búi varnaraðila sé byggð.
Þessu hafnar varnaraðili og vísar fyrst og fremst til þess að ágreiningur um tilvist kröfunnar hafi ekki enn verið leiddur til lykta þar sem dómi Héraðsdóms Austurlands hafi verið áfrýjað til Hæstaréttar. Því sé ljóst að fyrir dómstólum sé deilt um tilvist þeirrar kröfu sem gjaldþrotaskiptakrafan byggir á. Þá vísar varnaraðili til þess að áfrýjunarfrestur í heimildarskjali aðfararinnar hafi ekki verið liðinn þegar fjárnámið var gert.
Fyrir liggur að dómi Héraðsdóms Austurlands í málinu nr. S-1/2016 hefur verið áfrýjað til Hæstaréttar Íslands. Í 4. mgr. 185. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála segir að ekki megi fullnægja ákvæði í dómi um refsingu og önnur viðurlög fyrr en afráðið er hvort honum verði áfrýjað, sbr. þó 5. mgr. 183. gr. Með sama skilorði frestar áfrýjun fullnustu dóms um refsingu og önnur viðurlög. Ætla verður að sömu reglur gildi um ákvæði dóms um skaðabætur, ef bótaþætti er á annað borð áfrýjað. Í tilkynningu skipaðs verjanda varnaraðila fyrir Hæstarétti um áfrýjun til ríkissaksóknara, móttekinni 4. nóvember 2016, kemur fram að fyrir Hæstarétti krefjist varnaraðili í máli þessu sýknu og að einkaréttarkröfu sóknaraðila, sem er tilefni þessa máls, verði hafnað. Einnig er gerð krafa um að varnaraðili verði sýknaður af kröfu um málskostnað vegna bótakröfu.
Í máli þessu verður ekki kveðið á um gildi hinnar árangurslausu aðfarargerðar sem sóknaraðili vísar til sem sönnunargagns um ógjaldfærni varnaraðila. Hins vegar er til þess að líta að það er frumskilyrði samkvæmt 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991, að sá sem krefst gjaldþrotaskipta eigi lögvarða kröfu á hendur skuldara. Niðurstaða dóms Héraðsdóms Austurlands frá 7. júlí 2016 sætir endurskoðun æðra dómsstigs bæði hvað varðar refsiþátt málsins sem og einkaréttarkröfu þá sem sóknaraðili telur sig eiga á hendur varnaraðila. Er því fallist á það með varnaraðila að ágreiningur sé um tilvist kröfu sóknaraðila í máli þessu. Þegar af þeirri ástæðu þykir sóknaraðili ekki hafa sýnt fram á hann eigi, að svo komnu máli, lögvarða kröfu á hendur varnaraðila.
Með vísan til þessa og 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 2. mgr. 178. gr. laga nr. 21/1991, er sóknaraðila gert að greiða varnaraðila málskostnað sem þykir hæfilega ákveðin 350.000 krónur.
Ragnheiður Thorlacius héraðsdómari kveður upp þennan úrskurð.
Ú r s k u r ð a r o r ð :
Hafnað er kröfu sóknaraðila, Hálfdáns Björnssonar, um að bú varnaraðila, Bergs Axelssonar, verði tekið tekið til gjaldþrotaskipta.
Sóknaraðili greiði varnaraðila 350.000 krónur í málskostnað.