Mál nr. 598/2017
- Líkamstjón
- Endurupptaka bótaákvörðunar
- Miski
- Uppgjör
A varð fyrir líkamstjóni í umferðarslysi á árinu 2005. Í desember 2006 greiddi S hf. honum bætur á grundvelli álitsgerðar læknis og lögmanns sem þá lá fyrir. Síðar taldi A að ófyrirsjáanlegar breytingar hefðu orðið á heilsu sinni vegna slyssins og höfðaði mál gegn S hf. til heimtu frekari bóta. Byggði A kröfu sína á matsgerð dómkvaddra manna sem hann hafði aflað af því tilefni. Deildu aðilar um hvort skilyrði endurupptöku samkvæmt 11. gr. skaðabótalaga væru fyrir hendi og hvort krafa A væri fyrnd. Þá deildu aðilar jafnframt um hvort, og þá að hvaða leyti, bætur til A skyldu sæta frádrætti vegna greiðslna frá almannatryggingum. Héraðsdómur komst að þeirri niðurstöðu að skilyrði endurupptöku væru til staðar og að krafa A væri ófyrnd. Þá taldi dómurinn að draga bæri bæði frá miskabótum og bótum fyrir varanlega örorku þær greiðslur sem A kynni að eiga rétt á frá almannatryggingum. Með því að enn lægi ekki fyrir hvort og þá hve háar greiðslur A ætti rétt á í þeim efnum, var S hf. sýknað að svo stöddu af kröfum hans með vísan til 2. mgr. 26. gr. laga um meðferð einkamála. Hæstiréttur staðfesti niðurstöðu héraðsdóms um að skilyrði endurupptöku væru fyrir hendi og að krafa A væri ófyrnd. Þá taldi rétturinn sömuleiðis að bæði miskabætur A og bætur hans vegna varanlegrar örorku skyldu sæta frádrætti vegna greiðslna frá almannatryggingum. Komst Hæstiréttur að þeirri niðurstöðu, meðal annars með vísan til nýrra gagna sem lögð höfðu verið fyrir réttinn, að þær greiðslur sem A ætti rétt á frá almannatryggingum væru hærri en þær bætur sem hann ætti rétt á frá S hf. Var félagið því sýknað af kröfum hans.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Viðar Már Matthíasson og Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor.
Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 21. september 2017. Hann krefst þess að gagnáfrýjanda verði gert að greiða sér aðallega 12.981.923 krónur, til vara 11.973.873 krónur, að því frágengnu 1.512.075 krónur, en að öðrum kosti 504.025 krónur, í öllum tilvikum með 4,5% ársvöxtum af nánar tilgreindum fjárhæðum frá 17. júní 2005 til 25. mars 2014, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar sem honum hefur verið veitt.
Gagnáfrýjandi áfrýjaði héraðsdómi fyrir sitt leyti 20. desember 2017. Hann krefst sýknu af kröfum aðaláfrýjanda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
I
Aðaláfrýjandi slasaðist í umferðaróhappi 17. júní 2005, en hann var þá farþegi í framsæti bifreiðar sem ekið var á mikilli ferð út af þjóðvegi í Öxnadal. Bifreiðin mun hafa farið margar veltur og gereyðilagst. Auk aðaláfrýjanda voru þrír aðrir í bifreiðinni og létu tveir þeirra lífið af völdum áverka, sem þeir hlutu í slysinu. Aðaláfrýjandi var fluttur á sjúkrahús til aðhlynningar, en hann reyndist viðbeinsbrotinn, með mar á brjóstkassa og hægra lunga, auk þess sem hann var með sár í andliti. Hann dvaldi í tvo sólarhringa á sjúkrahúsi en fékk að því búnu að fara til síns heima. Gagnáfrýjandi, sem veitt hafði lögboðna ábyrgðartryggingu vegna bifreiðarinnar, og aðaláfrýjandi óskuðu sameiginlega skriflegs álits tveggja sérfræðinga, læknis og lögmanns, á afleiðingum umferðarslyssins. Álit þeirra lá fyrir 9. desember 2006 og var niðurstaðan sú að aðaláfrýjandi hefði verið óvinnufær frá slysdegi til batahvarfa, sem verið hafi 17. mars 2006, tímabil þjáningabóta hefði verið frá slysdegi til sama dags. Varanlegur miski var talinn 40 stig og var það vegna eftirstöðva áverka á hægra axlarsvæði, eftirstöðva háls- og baktognunar, tognunar í hné og eftirstöðva heilahristings. Auk þess byggi aðaláfrýjandi við nokkra sjónsviðsskerðingu sem rekja mætti til slyssins, hann bæri merki eftirstöðva áverka á tönnum og hefði ör í andliti og á hálsi. Jafnframt byggi hann við taugasálfræðilega veikleika sem raktir yrðu til umferðarslyssins og loks var talið að líkamstjónið hefði haft í för með sér sérstaka erfiðleika í lífi hans í skilningi 4. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 umfram það sem fælist í því mati sem fram hafi farið á grundvelli læknisfræðilegra sjónarmiða. Varanleg örorka aðaláfrýjanda var talin 35% og var það einkum rakið til líkamlegra og taugasálfræðilegra afleiðinga af slysinu. Þá sagði að afleiðingar þeirra heilaáverka, sem aðaláfrýjandi hlaut í slysinu, myndu geta háð honum við flest störf.
Í kjölfar þeirrar niðurstöðu um afleiðingar umferðarslyssins fyrir aðaláfrýjanda, sem getur að framan, fór fram uppgjör á skaðabótum til hans 19. desember 2006 og nam útreiknuð fjárhæð bóta ásamt vöxtum 16.000.768 krónum.
Af læknisfræðilegum gögnum í málinu má sjá að aðaláfrýjandi leitaði læknisaðstoðar af ýmsum ástæðum á árunum 2006 til 2012. Hann leitaði meðal annars aðstoðar geðlækna vegna þunglyndis. Hann sendi 21. febrúar 2012 umsókn um örorkubætur til Tryggingastofnunar ríkisins en þeirri umsókn var hafnað þar sem endurhæfing hefði ekki verið reynd. Á árinu 2012 leitaði aðaláfrýjandi bæði til bæklunarskurðlækna og sálfræðings, sem gerði á honum taugasálfræðilegt mat.
Aðaláfrýjandi beiddist dómkvaðningar matsmanna 15. apríl 2013 til þess að reisa á kröfu sína um endurupptöku bótaákvörðunarinnar, sem áður greinir, en hann taldi að skilyrðum 11. gr. skaðabótalaga fyrir endurupptöku væri fullnægt. Aðaláfrýjandi óskaði svara matsmanna við þremur spurningum. Í fyrsta lagi hver væri varanlegur miski vegna slyssins, sbr. 4. gr. skaðabótalaga, í öðru lagi hver væri varanleg örorka, sbr. 5. gr. sömu laga, og í þriðja lagi, ef breyting hefði orðið á heilsu aðaláfrýjanda frá því sem lagt var til grundvallar bótauppgjöri, sem rekja mætti til umferðarslyssins, hvort þær breytingar hefðu verið ófyrirsjáanlegar í skilningi 11. gr. laganna.
Í matsgerð dómkvaddra manna 17. febrúar 2014 var komist að þeirri niðurstöðu að varanlegur miski aðaláfrýjanda vegna slyssins væri 45 stig. Sú niðurstaða var á því reist að afleiðingar slyssins fælust í vitrænni skerðingu eftir heilaskaða, vægri sjónsviðsskerðingu til beggja hliða, áfallastreituröskun, talsvert áberandi öri hægra megin á hálsi og öðru við hægra eyra, eftirstöðvum eftir viðbeinsbrot og axlaráverka og vægum einkennum eftir tognun í hægra hné og hægri ökkla. Matsmenn tóku fram að í álitsgerðinni 9. desember 2006 hefði verið gengið út frá því að aðaláfrýjandi hefði hlotið tognun í hálsi og baki í slysinu, en þeir væru því ósammála og teldu slík einkenni ekki verða rakin til slyssins 17. júní 2005. Þá töldu þeir heldur ekki rök til þess að hækka varanlegan miska umfram það sem leiddi af læknisfræðilegu mati, eins og gert var í álitsgerðinni frá 2006, en þá hækkun töldu þeir hafa verið um 5 stig. Í matsgerðinni kom fram að matsmenn teldu varanlegan miska hafa verið ofmetinn um minnst 10 stig í álitsgerðinni vegna tognunaráverkanna. Þar sem þeirra niðurstaða, þegar litið væri framhjá framangreindum tveimur atriðum, væri að varanlegur miski vegna slyssins væri 45 stig þá fæli það í sér aukningu um 15 stig. Þessa aukningu röktu matsmenn til meiri einkenna frá heilaskaða en áður var talið og töldu þeir jafnframt að þessi aukning hefði verið ófyrirsjáanleg við gerð álitsgerðarinnar í desember 2006. Matsmenn töldu varanlega örorku vera 70%, sem fæli í sér tvöföldun frá fyrra mati, en ástæða þess væri að afleiðingar heilaskaða væru mun meiri en áður var talið. Munurinn væri þó enn meiri ef tekið væri tillit til þess að áður var mat á varanlegri örorku einnig byggt á tognunareinkennum frá hálsi og baki. Matsmenn létu þessar ástæður þó ekki leiða til hækkunar á mati sínu á varanlegri örorku frá því sem fram kom í álitsgerðinni.
Að fengnum þessum niðurstöðum krafðist aðaláfrýjandi endurupptöku á bótaákvörðuninni sem uppgjörið 19. desember 2006 var reist á. Beindi hann á þessum grundvelli kröfu á hendur gagnáfrýjanda, sem hann leitar dóms um í þessu máli, 1.512.075 krónur fyrir 15 stiga varanlegan miska og 11.469.848 krónur vegna 35% varanlegrar örorku eða samtals 12.981.923 krónur auk vaxta. Útreikningurinn miðar við batahvörf 17. mars 2006. Aðaláfrýjandi höfðaði málið 16. júní 2015, degi áður en 10 ár voru liðin frá slysdegi. Í hinum áfrýjaða dómi er gerð grein fyrir ágreiningi málsaðila um það hvort áfrýjandi fullnægi skilyrðum til þess að eiga rétt til örorkulífeyris frá Tryggingastofnun ríkisins vegna afleiðinga umferðarslyssins. Fyrir Hæstarétt hefur verið lagt bréf stofnunarinnar 4. október 2017 þar sem fram kom að aðaláfrýjandi uppfylli læknisfræðileg skilyrði um hæsta örorkustig. Gildistími örorkumats var sagður frá 1. febrúar 2017 til 31. janúar 2020, en í þeim mánuði ætti endurmat að fara fram. Gagnáfrýjandi hefur aflað útreiknings tryggingastærðfræðings 6. nóvember 2017 á eingreiðsluverðmæti þess örorkulífeyris miðað við batahvörf sem áfrýjandi hefur fengið greiddan og getur vænst þess að fá greiddan frá Tryggingastofnun ríkisins til 67 ára aldurs. Niðurstaðan er sú að eingreiðsluverðmætið að teknu tilliti til frádráttar vegna ætlaðs tekjuskatts nemi 14.605.767 krónum. Ekki er tölulegur ágreiningur um þennan útreikning.
II
Gagnáfrýjandi reisir vörn sína í fyrsta lagi á því að aðaláfrýjandi hafi ekki sannað að skilyrði endurupptöku samkvæmt 11. gr. skaðabótalaga séu fyrir hendi. Auk þess sem fullnaðaruppgjör hafi farið fram, án fyrirvara af hálfu aðaláfrýjanda. Í öðru lagi, ef aðaláfrýjandi teljist hafa átt kröfu um frekari bætur, sé sú krafa fyrnd samkvæmt 99. gr. umferðarlaga nr. 50/1987. Í þriðja lagi telur gagnáfrýjandi að aðaláfrýjandi hafi ekki gætt þeirrar skyldu að takmarka tjón sitt. Hann hafi lengi fullnægt, samkvæmt áliti sérfræðilæknis, skilyrðum þess að njóta réttar til örorkulífeyris frá Tryggingastofnun ríkisins vegna afleiðinga slyssins, 17. júní 2005, óháð því hvort fleiri sjúkdómar eða heilsuvandamál hrjái hann. Eins og að framan greinir hafi hann nú öðlast rétt til örorkulífeyris og sé eingreiðsluverðmæti hans miðað við 17. mars 2006, að frádregnum ætluðum tekjuskatti, 14.605.767 krónur, sem sé hærri fjárhæð en krafa aðaláfrýjanda í málinu. Í þessu sambandi deila málsaðilar um það hvort einungis sé heimilt, sbr. 4. mgr. 4. gr. og 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga, að draga greiðslur vegna örorkulífeyris frá Tryggingastofnun ríkisins frá kröfu um bætur fyrir varanlega örorku, eða hvort einnig megi draga þær frá kröfu um bætur fyrir varanlegan miska. Þá teflir gagnáfrýjandi fram þeirri málsvörn að hvað sem öðru líði séu vextir, sem aðaláfrýjandi geri kröfu um frá 17. júní 2005 til greiðsludags, fyrndir að því leyti sem þeir hafa fallið til meira en fjórum árum áður en málið var höfðað.
III
Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður staðfest sú niðurstaða hans að skilyrði 11. gr. skaðabótalaga fyrir endurupptöku bótaákvörðunar 19. desember 2006 hafi verið fyrir hendi.
Krafa aðaláfrýjanda, sem hann reisir á ófyrirséðum og verulega auknum afleiðingum líkamstjónsins, sætir fyrningu samkvæmt 99. gr. umferðarlaga. Staðfest verður sú niðurstaða héraðsdóms að aðaláfrýjanda hafi fyrst mátt vera ljóst að hann ætti viðbótarkröfu um skaðabætur þegar matsgerð dómkvaddra manna lá fyrir 17. febrúar 2014. Eins og greinir í dóminum var málið höfðað 16. júní 2015 og var það áður en 10 ára fyrningarfresti 99. gr. lauk. Verður sú niðurstaða dómsins staðfest að krafa aðaláfrýjanda, sem hann hefur uppi í máli þessu, hafi ekki verið fyrnd er það var höfðað.
Fyrir Hæstarétt hafa, eins og fram er komið, verið lögð gögn um rétt aðaláfrýjanda til fulls örorkulífeyris frá Tryggingastofnun ríkisins og útreikningur tryggingastærðfræðings á eingreiðsluverðmæti hans miðað við batahvörf að frádregnum ætluðum tekjuskatti. Málið liggur að þessu leyti öðruvísi fyrir Hæstarétti en héraðsdómi, sem sýknaði gagnáfrýjanda að svo stöddu með vísan til 2. mgr. 26. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Krafa aðaláfrýjanda, 11.469.848 krónur, um bætur fyrir varanlega örorku, auk vaxta sætir samkvæmt 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga, eins og þau voru á slysdegi 17. júní 2005, frádrætti vegna greiðslna sem hann fær ,,frá almannatryggingum“. Lagt verður til grundvallar samkvæmt framansögðu að aðaláfrýjandi eigi rétt til greiðslna ,,frá almannatryggingum“ sem nemi 14.605.767 krónum. Sú fjárhæð er á því reist að hann njóti til frambúðar og allt til 67 ára aldurs örorkulífeyris frá Tryggingastofnun ríkisins, en ekki aðeins til 31. janúar 2020 eins og stofnunin hefur lýst yfir í bréfi sínu. Með vísan til dóma Hæstaréttar 20. október 2005 í máli nr. 119/2005 og 13. júní 2013 í máli nr. 20/2013 verður miðað við að þótt réttur aðaláfrýjanda til greiðslna úr almannatryggingum geti verið háður óvissu, að því leyti að endurmeta eigi örorku hans í janúar 2020, verður lagt hér til grundvallar að þetta mat muni ekki breytast í þeim mæli í framtíðinni að ekki sé unnt að draga reiknaðar örorkubætur, sem áður eru tilgreindar, frá metnum skaðabótum vegna varanlegrar örorku. Verður gagnáfrýjandi því sýknaður af kröfu aðaláfrýjanda um skaðabætur fyrir varanlega örorku.
Gagnáfrýjandi krefst þess að sú fjárhæð sem eftir stendur, 3.135.919 krónur, þegar metnar skaðabætur vegna varanlegrar örorku hafa verið dregnar frá eingreiðsluverðmæti þess örorkulífeyris sem lagt er til grundvallar að aðaláfrýjandi njóti og muni njóta frá Tryggingastofnun ríkisins, verði dregin frá kröfu um bætur fyrir varanlegan miska 1.512.075 krónur. Aðaláfrýjandi telur á hinn bóginn að örorkulífeyrir sem sé í raun greiðsla bóta fyrir fjárhagslegt tjón geti aðeins komið til frádráttar kröfu um skaðabætur vegna fjárhagslegs tjóns, hér kröfu um bætur fyrir varanlega örorku. Krafa um miskabætur samkvæmt 4. gr. skaðabótalaga sé krafa um bætur fyrir ófjárhagslegt tjón og frá henni verði ekki dreginn örorkulífeyrir frá Tryggingastofnun ríkisins.
Reglum 4. mgr. 4. gr. skaðabótalaga, sbr. 4. mgr. 5. gr. laganna, var breytt með lögum nr. 37/1999, sem tóku gildi 1. maí 1999. Þeim var aftur breytt með lögum nr. 53/2009, sem tóku gildi 1. maí 2009. Hæstiréttur hefur í dómum sínum er varða skaðabætur, vegna slysa sem urðu á síðastgreindu tímabili, fjallað um ágreiningsefni sambærilegt því, sem hér er til úrlausnar. Í dómi réttarins 14. febrúar 2008 í máli nr. 252/2007 var niðurstaðan sú að bætur úr slysatryggingu launþega og örorkulífeyrir frá Tryggingastofnun ríkisins skyldu meðal annars dragast frá kröfu tjónþola um bætur fyrir varanlegan miska. Í dómi réttarins 15. nóvember 2012 í máli nr. 192/2012 var einnig talið að meðal annars skyldi draga bætur úr slysatryggingu launþega frá bótum fyrir varanlegan miska. Verður því fallist á með gagnáfrýjanda að aðaláfrýjandi skuli sæta því að örorkulífeyrir frá Tryggingastofnun ríkisins komi til frádráttar kröfu hans um bætur fyrir varanlegan miska, 1.512.075 krónur.
Með vísan til alls framangreinds verður gagnáfrýjandi sýknaður af kröfu aðaláfrýjanda.
Ákvæði héraðsdóms um málskostnað og gjafsóknarkostnað verður staðfest.
Rétt er að málskostnaður fyrir Hæstarétti falli niður.
Gjafsóknarkostnaður aðaláfrýjanda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hans, sem ákveðst eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Gagnáfrýjandi, Sjóvá-Almennar tryggingar hf., er sýkn af kröfum aðaláfrýjanda, A.
Ákvæði héraðsdóms um málskostnað og gjafsóknarkostnað skulu vera óröskuð.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.
Allur gjafsóknarkostnaður aðaláfrýjanda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði þar með talin þóknun lögmanns hans, 1.000.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 26. júní 2017.
Þetta mál, sem var endurflutt og dómtekið 20. júní 2017, höfðar A, kt. [...],[...], Reykjavík, með stefnu, birtri 16. júní 2015, á hendur Sjóvá-Almennum tryggingum hf., kt. [...], Kringlunni 5, Reykjavík, til heimtu skaða- og miskabóta, auk vaxta, dráttarvaxta og málskostnaðar.
Stefnandi krefst þess aðallega að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 12.981.923 kr. ásamt 4,5% vöxtum, samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga, nr. 50/1993, af 1.512.075 kr. frá 17. júní 2005 til 17. mars 2006 og af 12.981.923 kr. frá þeim degi til 25. mars 2014, en með dráttarvöxtum, samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá þeim degi til greiðsludags.
Stefnandi krefst þess til vara að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 11.973.873 kr. ásamt 4,5% vöxtum, samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga, nr. 50/1993, af 504.025 kr. frá 17. júní 2005 til 17. mars 2006 og af 11.973.873 kr. frá þeim degi til 25. mars 2014, en með dráttarvöxtum, samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá þeim degi til greiðsludags.
Stefnandi krefst þess til þrautavara að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 1.512.075 kr. ásamt 4,5% vöxtum, samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga, nr. 50/1993, frá 17. júní 2005 til 25. mars 2014, en með dráttarvöxtum, samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá þeim degi til greiðsludags.
Stefnandi krefst þess til þrautaþrautavara að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 504.025 kr. ásamt 4,5% vöxtum, samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga, nr. 50/1993, frá 17. júní 2005 til 25. mars 2014, en með dráttarvöxtum, samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá þeim degi til greiðsludags.
Stefnandi krefst í öllum tilvikum málskostnaðar úr hendi stefnda samkvæmt fram lögðum málskostnaðarreikningi eða mati réttarins, eins og málið væri eigi gjafsóknarmál. Þá er þess krafist að tekið verði tillit til skyldu stefnanda til að greiða virðisaukaskatt af málflutningsþóknun, þar sem stefnandi er ekki virðisaukaskattsskyldur aðili.
Stefndi krefst aðallega sýknu af öllum kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmdur til að greiða stefnda málskostnað.
Til vara krefst stefndi þess að kröfur stefnanda verði stórlega lækkaðar og málskostnaður milli aðila falli niður.
Málavextir
Þetta mál varðar bætur stefnanda fyrir varanlegar afleiðingar hans af umferðarslysi. Ágreiningurinn varðar einungis lagaatriði og réttaráhrif matsgerða en hvorki atvikið sjálft né afleiðingar þess fyrir stefnanda.
Stefnandi lenti í alvarlegu umferðarslysi fyrir 12 árum, 17. júní 2005, í Öxnadal. Hann var farþegi í framsæti bifreiðar, sem fór út af veginum, fór margar veltur og gjöreyðilagðist. Tveir aðrir farþegar voru í bílnum, auk ökumanns. Tveir voru úrskurðaðir látnir á slysstað. Beita þurfti klippum til þess að ná stefnanda úr bifreiðinni. Hann var fluttur á slysadeild Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri strax í kjölfar slyssins. Hann hlaut fjöláverka í slysinu. Auk þess hefur hann glímt við verulegar andlegar afleiðingar slyssins.
Málsaðilar, stefnandi og tryggingafélag sem tryggði bifreiðina, öfluðu sameiginlega matsgerðar um afleiðingar slyssins fyrir stefnanda (fyrri matsgerð). B læknir og C hrl., luku mati sínu 9. desember 2006. Það var niðurstaða þeirra að tímabundið atvinnutjón stefnanda væri 100% frá 17. júní 2005 til 17. mars 2006, tímabil þjáningabóta væri níu mánuðir, þar af tveir dagar rúmliggjandi, varanlegur miski stefnanda væri 40 stig og varanleg örorka hans næmi 35%. Það var jafnframt niðurstaða matsmanna að stefnandi hefði ekki getað vænst frekari bata eftir 17. mars 2006.
Að fenginni matsgerðinni sendi lögmaður stefnanda stefnda kröfubréf 12. desember. Tjónið var gert upp viku síðar, 20. desember 2006, á grundvelli matsgerðarinnar. Stefndi tekur fram að lögmaður stefnanda hafi ritað undir uppgjörið án þess að setja nokkurn fyrirvara við það.
Síðar fór að koma í ljós, að taugasálfræðileg og geðræn einkenni sem stefnandi hlaut vegna höfuðhöggsins í slysinu, voru ekki komin fyllilega í ljós þegar fyrrgreint mat fór fram. Því lágu fullnægjandi gögn um þær afleiðingar ekki fyrir þegar matið var unnið. Stoðkerfiseinkenni stefnanda versnuðu sömuleiðis eftir að matið var unnið.
Af þeim sökum óskaði stefnandi, með vísan til IX. og XII. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, sbr. einnig 11. gr. skaðabótalaga, nr. 50/1993, eftir endurmati dómkvaddra matsmanna, með beiðni dagsettri 15. apríl 2013.
Dómkvaddir voru D, sérfræðingur í heila- og taugasjúkdómum og mati á líkamstjóni, og E hdl., sem afhentu matsgerð dagsetta 17. febrúar 2014 (seinni matsgerð).
Í mati sínu lögðu matsmenn til grundvallar að varanlegar heilsufarslegar afleiðingar slyssins fyrir stefnanda væru vitræn skerðing eftir heilaskaða, væg sjónsviðsskerðing til beggja hliða, áfallastreituröskun, talsvert áberandi ör hægra megin á hálsi með kláða og skertu húðskyni og annað minna áberandi ör við hægra eyra, eftirstöðvar eftir viðbeinsbrot og áverkar á öxl hægra megin og væg einkenni eftir tognun í hægra hné og hægri ökkla.
Þeir fundu því ekki stað í frumgögnum málsins að stefnandi hefði tognað í hálsi og baki í slysinu og álitu einkenni hans frá hálsi og baki ekki verða rakin til þess, ólíkt þeim sem unnu fyrri matsgerðina. Að auki töldu þeir tjón í þessu slysi ekki þess eðlis að það valdi sérstökum erfiðleikum í lífi stefnanda sem ástæða væri til að meta til miska umfram miska sem metinn er samkvæmt miskatöflu. Varanlegan miska vegna þessara þátta töldu þeir því ofmetinn í fyrri matsgerðinni.
Dómkvaddir matsmenn komust að þeirri niðurstöðu að munurinn á miskamati þeirra og í fyrra mati lægi í mati á einkennum vitrænnar skerðingar vegna heilaskaða og áfallastreituröskunar. Þeir töldu líklegt, miðað við þróun einkenna vegna heilaskaðans, að í fyrra mati hefði miskamatið miðað við lýsingu miskataflna um heilkenni eftir höfuðáverka (IE) eða „let posttraumatisk belastningreaktion (J.1.1.)“. Niðurstaða þeirra var að þessi einkenni hefðu versnað og vísuðu til samanburðar til taugasálfræðilegra mata sem höfðu verið gerð á stefnanda. Að mati dómkvaddra matsmanna var líklegt að einkennin vegna heilaskaða hefðu í fyrra mati verið metin 10 stig en þeir mátu einkennin í febrúar 2014 25 stig. Þeir töldu að matsmenn sem unnu fyrra matið hefðu ekki getað séð þessa 15 stiga breytingu fyrir og hefðu því ekki gert ráð fyrir henni. Því hefðu orðið ófyrirsjáanlegar breytingar á heilsu stefnanda frá fyrra mati. Þar eð miski vegna tognunar á hálsi og baki og sérstaks miska var talinn með í fyrri matsgerðinni hækkaði miskamatið í heild þó einungis úr 40 stigum í 45 stig.
Dómkvaddir matsmenn töldu mun á varanlegri örorku á milli mata liggja í því að afleiðingar heilaskaða væru miklu meiri en gert hafi verið ráð fyrir í eldra mati og varanleg örorka stefnanda því helmingi hærri, það er 70% í stað 35%. Munurinn væri enn meiri væri tekið tillit til þess að mat á örorku í eldra mati byggði einnig á varanlegum einkennum frá hálsi og baki.
Lögmaður stefnanda sendi stefnda matsgerð dómkvaddra matsmanna ásamt kröfu 25. febrúar 2014. Stefndi bendir á að lögmaðurinn hafi í kröfubréfinu einungis krafist bóta vegna þess 5 stiga miska sem bættist við heildarmiskamatið með seinni matsgerðinni.
Á þessum tíma hafði stefnandi ekki fengið neinar greiðslur frá Tryggingastofnun þar eð beiðnum hans um örorkulífeyri og endurhæfingarlífeyri hafði verið vísað frá eða hafnað.
Aflað var álits B læknis á því hvort stefnandi ætti rétt til greiðslna úr almannatryggingum sem draga mætti frá bótum frá stefnda, skv. 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga eins og hún var orðuð á slysdegi. Læknirinn kynnti sér viðkomandi gögn, hitti stefnanda, ræddi við hann, og skoðaði og mat á sama hátt og gert er fyrir umsókn um örorkulífeyri hjá TR. Í greinargerð sinni dags. 4. júní 2014 komst læknirinn að þeirri niðurstöðu að stefnandi fengi 12 stig á fyrri hluta staðals Tryggingastofnunar og 10 stig á seinni hluta hans. Þar með uppfylli stefnandi skilyrði almannatrygginga um örorkulífeyri því honum nægi að fá sex stig á hvorum hluta staðalsins um sig.
Að fengnu mati læknisins var óskað eftir útreikningi F tryggingarstærðfræðings á eingreiðsluverðmæti örorkulífeyris sem stefnandi ætti rétt á ætti hann rétt til bótagreiðslna frá Tryggingastofnun, miðað við niðurstöðu B og núgildandi reglur. Þar eð stefnandi hafði þá ekki notið slíkra greiðslna var miðað við að hann myndi fyrst sækja bætur frá 1. júní 2014.
Með tölvuskeyti 30. júní 2014 tilkynnti stefndi að eingreiðsluverðmæti ætlaðs bótaréttar stefnanda til framtíðar hjá TR og þar með frádrátturinn, næmi að teknu tilliti til skattgreiðslna samtals 12.813.952 kr. sem væri hærri fjárhæð en útreiknaðar bætur vegna miska og örorku samkvæmt ofangreindri kröfu. Með vísan til þessa féllst stefndi ekki á frekari greiðslur vegna slyssins þrátt fyrir niðurstöðu örorkumatsins í febrúar 2014.
Stefnandi sótti fyrst um örorkubætur hjá Tryggingastofnun 21. febrúar 2012, tæpum sjö árum eftir slysið. Umsókninni fylgdi læknisvottorð G, dagsett 8. febrúar 2012. Í svarbréfi tryggingalæknis, 15. mars 2012, segi að ekki virðist tímabært að taka afstöðu til örorku þar eð endurhæfing hafi að hans mati ekki verið reynd. Örorkumati var því vísað frá.
Stefnandi sótti um endurhæfingarlífeyri hjá Tryggingastofnun rúmu ári síðar, 24. júní 2013. Umsókninni fylgdi, eins og áður, læknisvottorð G, dags. 19. apríl 2013, og endurhæfingaráætlun læknis. Í bréfi stofnunarinnar, dagsettu 15. júlí 2013, segir að endurhæfingarhópur TR telji endurhæfingaráætlun læknisins hvorki nógu skýra né markvissa til að byggja umsækjanda upp fyrir þátttöku á atvinnumarkaði og réttlæti hún því ekki veitingu endurhæfingarlífeyris. Því var beiðni stefnanda synjað.
Stefnandi sótti um örorkulífeyri árið 2014. Í svari dagsettu 27. október 2014 segir að ekki sé tímabært að taka afstöðu til örorku stefnanda þar eð endurhæfing hafi ekki verið fullreynd. Í bréfinu var óskað eftir því að endurhæfingaráætlun yrði lögð fram innan fjögurra vikna. Af fram lögðum gögnum verður ekki séð að stefnandi hafi orðið við þeirri beiðni.
Stefnandi sótti um örorkulífeyri 11. júní 2015 og höfðaði jafnframt þetta mál með því að birta stefnu 16. júní 2015.
Stefnandi fór í endurhæfingu á Reykjalundi í desember 2015 og sótti um endurhæfingarlífeyri í febrúar 2016. Tryggingastofnun samþykkti 12. febrúar 2016 að stefnandi fengi endurhæfingarlífeyri í þrjá mánuði frá 1. janúar til 31. mars 2016 með það markmið að hann næði betri líðan og kæmist í vinnu, hugsanlega hlutastarf. Stofnunin samþykkti 29. mars að hann fengi endurhæfingarlífeyri til 30. júní 2016 í sama skyni og áður.
Stefnandi var í endurhæfingu á Reykjalundi til 7. apríl 2016. Þegar hann útskrifaðist þaðan var lagt til að hann færi í sjálfboðavinnu við garðyrkju sem honum bauðst um sumarið til þess að hann gæti náð reglubundnum takti í líf sitt og einnig til þess að tækifæri gæfist til að meta vinnufærni hans.
Sumarið 2016 starfaði stefnandi við garðyrkju og fékk greitt fyrir það starf en fékk einnig endurhæfingarlífeyri frá Tryggingastofnun. Í nóvember og desember 2016 starfaði hann í hlutastarfi hjá byggingarverktaka og fékk einnig greitt fyrir það starf.
Tryggingastofnun samþykkti endurhæfingarlífeyri fyrir stefnanda frá 1. október 2016 til 31. janúar 2017. Í endurhæfingaráætlun sem lá til grundvallar þeirri ákvörðun er tekið fram að stefnandi hafi verið í eftirfylgd á Reykjalundi og hafi smám saman tekið framförum. Áhersla hafi verið á að hann fylgi föstum venjum og hreyfi sig reglubundið. Hann sé ekki orðinn vinnufær nema að litlu leyti en talið sé réttara að láta reyna á frekari endurhæfingu en að sækja um örorku. Síðan segir að stefnandi sé í vinnuþjálfun og markmiðið sé að hann verði kominn í 70-80% starf sumarið 2017.
Vegna afstöðu stefnda til greiðslu bóta á grundvelli matsgerðar dómkvaddra matsmanna telur stefnandi ekki hjá því komist að höfða mál til heimtu kröfu sinnar. Hann telur stefnda óheimilt að draga frá áætlaðar greiðslur á meintum bótarétti stefnanda hjá Tryggingastofnun því óvissa sé um þær. Þá telur stefnandi enn fremur, hvað sem öllu öðru líður, að óheimilt sé að draga meintar örorkulífeyrissgreiðslur TR frá varanlegum miska stefnanda.
Málsástæður og lagarök stefnanda
Almennt um grundvöll bótaábyrgðar og aðild málsins
Stefnandi byggir á því að stefnda, Sjóvá Almennum tryggingum ehf., beri að greiða honum fullar skaðabætur vegna tjóns sem hann hlaut í umferðarslysi 17. júní 2005. Í 1. mgr. 88. gr. umferðarlaga, nr. 50/1987, segi að sá sem beri ábyrgð á skráningarskyldu vélknúnu ökutæki skuli bæta það tjón sem hlýst af notkun þess enda þótt tjónið verði ekki rakið til bilunar eða galla á tækinu eða ógætni ökumanns. Í 1. mgr. 90. gr. laganna segi að skráður eða skráningarskyldur eigandi vélknúins ökutækis beri ábyrgð á því og sé fébótaskyldur samkvæmt 88. gr. og 89. gr. laganna.
Bótaskylda sé skýr og hið stefnda vátryggingafélag sé greiðsluskylt, skv. 1. mgr. 91. gr., sbr. 1. mgr. 95. gr. umferðarlaga, nr. 50/1987. Ágreiningur málsins lúti að fjárhæð bóta og bótauppgjöri í kjölfar endurupptöku skaðabótamáls á grundvelli 11. gr. skaðabótalaga, nr. 50/1993.
Málið sé höfðað á hendur Sjóvá-Almennum tryggingum hf. sem vátryggði ökutækið sem stefnandi var farþegi í á slysdegi, sbr. 1. mgr. 97. gr. umferðarlaga. Þar eð skráður eigandi bifreiðarinnar lést í umferðarslysinu 17. júní 2005 sé tryggingafélaginu einu stefnt til varnar kröfum stefnanda með vísan til 44. gr. og 1. mgr. 45. gr. laga nr. 30/2004, um vátryggingasamninga, og niðurstöðu Hæstaréttar, 30. september 2009, í máli nr. 683/2009.
Öll skilyrði fyrir endurupptöku skv. 11. gr. skaðabótalaga uppfyllt
Stefnandi byggir kröfur sínar á 11. gr. skaðabótalaga, nr. 50/1993, og byggir á því að skilyrði til að taka fyrri bótaákvörðun upp að nýju á grundvelli lagagreinarinnar séu uppfyllt.
Samkvæmt 11. gr. sé það skilyrði þeirrar kröfu tjónþola að tekin verði upp að nýju ákvörðun um bætur fyrir varanlegan miska eða örorkubætur, að ófyrirsjáanlegar breytingar hafi orðið á heilsu tjónþola þannig að ætla megi að miskastig eða örorkustig sé verulega hærra en áður var talið.
Stefnandi byggir á því að dómkvaddir matsmenn, D, sérfræðingur í heila- og taugasjúkdómum og mati á líkamstjóni, og E hdl., hafi komist að þeirri niðurstöðu að ófyrirsjáanlegar breytingar hafi orðið á heilsu hans frá því að fyrra matið var gert 9. desember 2006.
Jafnframt hafi dómkvaddir matsmenn metið þær ófyrirsjáanlegu breytingar sem hafi orðið á heilsufari og starfsorku hans, frá því að fyrra mat var gert, þannig að varanlegur miski hafi hækkað um 15 stig, úr 10 í 25, og varanleg örorka hafi hækkað um 35%. Stefnandi telur því ljóst að bæði miskastig og örorkustig sé verulega hærra en áður var talið.
Það sé niðurstaða dómkvaddra matsmanna að munurinn á miskamati þeirra (síðari matsgerð) og fyrra mati (dags. 9. desember 2006) liggi í mati á einkennum vitrænnar skerðingar vegna heilaskaða og áfallastreituröskunar og að þessi einkenni hafi versnað frá því að fyrra matið var gert.
Matsmennirnir hafi jafnframt talið varanlega örorku tvisvar sinnum hærri en í fyrra mati og hafi rakið þá aukningu til þess að afleiðingar heilaskaða væru miklu meiri en gert hafi verið ráð fyrir í fyrra mati.
Stefnandi telur sig eiga rétt til bóta sem nemi þeirri ófyrirsjáanlegu breytingu sem hafi orðið á heilsufari hans og starfsorku frá fyrra mati að mati dómkvaddra matsmanna, þ.e. 15 stig vegna varanlegs miska og 35% vegna varanlegrar örorku.
Hann byggir á því að leggja eigi til grundvallar þá ófyrirsjáanlegu breytingu sem dómkvaddir matsmenn telji að hafi orðið á varanlegum miska og varanlegri örorku frá fyrra mati en ekki til heildarmats dómkvaddra matsmanna. Heildarmat dómkvaddra matsmanna hafi hækkað varanlegan miska um 5 stig frá fyrra mati þrátt fyrir að þeir hafi komist að þeirri niðurstöðu að ófyrirsjáanlegar breytingar á varanlegum miska stefnanda séu 15 stigum hærri en talið var í fyrra mati. Það að heildarmat dómkvaddra matsmanna hækki fyrra mat á varanlegum miska einungis um 5 stig en ekki um 15 stig, skýrist af því að dómkvaddir matsmenn hafi endurmetið í heild þær varanlegu afleiðingar sem stefnandi hlaut af slysinu. Þeir hafi meðal annars verið ósammála matsmönnum fyrra matsins um orsakatengsl milli eftirstöðva háls- og baktognunar og slyssins.
Stefnandi byggir á því að málsaðilar séu bundnir af bótauppgjörinu sem fór fram 20. desember 2006. Til grundvallar því bótauppgjöri hafi verið forsendur og niðurstöður matsgerðar B læknis og C hrl., dags. 9. desember 2006. Í þeirri matsgerð hafi meðal annars verið lögð til grundvallar, við mat á varanlegum miska, einkenni vegna háls- og baktognunar. Þótt dómkvaddir matsmenn tengi þau einkenni ekki við slysið 17. júní 2005, þar eð þeir hafi ekki fundið því stað í frumgögnum málsins, breyti það ekki þeirri niðurstöðu, að mati stefnanda, að aðilar málsins hafi verið sammála um að leggja þá niðurstöðu til grundvallar bótauppgjöri árið 2006. Þá hafi öll frumgögn málsins legið fyrir. Stefnandi telji því ótækt að horfa á heildarmat hinna dómkvöddu matsmanna sem leiði eingöngu til 5 stiga hækkunar á varanlegum miska. Þess í stað beri að líta til þeirra ófyrirsjáanlegu breytinga sem hafi orðið á heilsufari hans frá fyrra mati, þ.e. breytinga sem nemi 15 stigum fyrir varanlegan miska og 35% vegna varanlegrar örorku.
Máli sínu til stuðnings vísar stefnandi til þess að Hæstiréttur hafi túlkað 11. gr. skaðabótalaga þannig að mat á varanlegum miska eða varanlegri örorku samkvæmt ákvæðinu eigi að réttu lagi eingöngu að lúta að því að metnar séu þær breytingar sem orðið hafa á heilsufari tjónþola eða starfsorku hans frá því að fyrra mat var unnið. Með sama hætti eigi nýtt mat réttilega að lúta að þessum breytingum en almennt ekki að fela í sér nýtt heildarmat á þeim varanlegu afleiðingum sem tjónþoli hafi hlotið af slysi, sbr. rökstuðning Hæstaréttar í máli nr. 286/2013 frá 14. nóvember 2013.
Stefnandi á ekki bótarétt hjá Tryggingastofnun ríkisins sem kemur til frádráttar
Stefnandi áréttar að stefndi byggi á því að stefnandi eigi að öllum líkindum rétt á lífeyrisgreiðslum frá Tryggingastofnun, sem eigi að koma til frádráttar bótakröfu hans samkvæmt 4. gr. og 5. gr. skaðabótalaga, nr. 50/1993, eins og þær voru orðaðar þegar atvik málsins gerðust. Máli sínu til stuðnings hafi stefndi annars vegar lagt fram greinargerð B læknis, sem telji stefnanda uppfylla skilyrði almannatrygginga um örorkulífeyri, og hins vegar útreikning tryggingarstærðfræðings stefnda um eingreiðsluverðmæti meints og ætlaðs bótaréttar stefnanda til framtíðar hjá TR. Með hliðsjón af þessum gögnum telji stefndi að frádrátturinn þurrki út bótakröfu stefnanda og hafi hafnað að greiða stefnanda frekari bætur þrátt fyrir þær ófyrirsjáanlegu breytingar sem hafi orðið á heilsufari hans frá fyrra mati.
Stefnandi hafnar því alfarið að stefnda sé heimilt að draga frá áætlaðar greiðslur á meintum bótarétti stefnanda hjá Tryggingastofnun. Það sé bæði rangt og ósannað að hann eigi bótarétt hjá stofnuninni sem geti komið til frádráttar.
Stefnandi vísar aðallega til þess að hann hafi þegar málið var höfðað ekki fengið krónu frá Tryggingastofnun sem gæti komið til frádráttar bótagreiðslu samkvæmt skaðabótalögum, eins og þau voru þá orðuð, þrátt fyrir ítrekaðar umsóknir stefnanda um örorkubætur frá stofnuninni. Tryggingastofnun telji greinilega að endurhæfing geti skilað stefnanda þeim árangri að örorkubætur frá stofnuninni þurfi ekki að koma til.
Með hliðsjón af því að Tryggingastofnun hafi í þrígang hafnað umsókn stefnanda um örorkubætur byggi stefnandi á því að hann eigi ekki rétt til örorkubóta hjá henni. Það sé í besta falli talsverðum vafa undirorpið hvort hann eigi yfirhöfuð nokkurn rétt á bótum hjá TR sem geti komið til frádráttar skaðabótum hans samkvæmt 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga, eins og hún var orðuð á slysdegi. Þá sýni afgreiðsla TR einnig að fyrirliggjandi greinargerð B hafi ekkert gildi varðandi rétt hans hjá stofnuninni enda hefði TR átt að samþykkja umsókn stefnanda um örorku án nokkurs fyrirvara tæki TR mark á niðurstöðum í greinargerð B.
Stefnandi leggur áherslu á að á stefnda hvíli sönnunarbyrðin fyrir réttmæti frádráttar frá bótum, sem hann er réttilega krafinn um, sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr. 471/2005 frá 6. apríl 2006.
Þá bendir stefnandi á að með 1. gr. laga nr. 53/2009 hafi 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga verið breytt þannig að til frádráttar skaðabótum komi aðeins eingreiddar örorkubætur úr almannatryggingum. Eftir gildistöku þeirrar breytingar, 1. maí 2009, taki regla 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga ekki lengur til lífeyrisgreiðslna úr almannatryggingum. Samkvæmt lögskýringargögnum með því frumvarpi sem varð að lögum nr. 53/2009 sé ljóst að löggjafarvaldið hafi talið lagabreytinguna mikið réttlætismál og mikla réttarbót fyrir þá sem höfðu misst heilsu sína og vinnugetu í slysum. Meðal annars sé vísað til sanngirnissjónarmiða í athugasemdum við frumvarpið sjálft. Alþingismenn, sem tjáðu sig um lagabreytinguna við afgreiðslu þess á þinginu, hafi getið þess að skaðabótalögin frá 1999 hefðu reynst „gölluð að ýmsu leyti“, að með frumvarpinu væru „leiðrétt þau mistök sem voru gerð á sínum tíma við setningu skaðabótalaga 1999 […]“ og að með samþykkt frumvarpsins „heyrir þessi ósanngirni sögunni til gagnvart fólki sem verður fyrir tjóni og á um afskaplega sárt að binda“. Í ljósi þess að löggjafarvaldið hafi nú afnumið þá reglu sem stefndi byggir höfnun sína á, meðal annars með vísan til þess að reglan hafi á sínum tíma verið ósanngjörn og beinlínis mistök, telur stefnandi að túlka beri regluna þröngt og að eingöngu beri að beita henni í undantekningartilvikum.
Stefnandi byggir á því að í fyrirliggjandi útreikningi stefnda á frádrætti hafi tryggingarstærðfræðingur stefnda ekki tekið tillit til áhrifa fjármagnstekna af ávöxtun slysabóta stefnanda til skerðingar á meintum áætluðum tekjutengdum bótum frá TR. Dómafordæmi Hæstaréttar sýni að við útreikning á frádrætti á bótum úr almannatryggingum samkvæmt þágildandi 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga beri að taka tillit til þess að tekjutengdar bætur frá TR skerðist vegna fjármagnstekna stefnanda af þeim bótum sem hann hafi fengið og muni fá frá stefnda.
Fari svo að dómurinn leggi til grundvallar að stefnandi yrði metinn til örorku hjá TR byggir hann einnig sérstaklega á því að hann eigi ekki rétt til heimilisuppbóta hjá TR. Af þessu sé ljóst að ótækt sé að leggja útreikning tryggingarstærðfræðings stefnda til grundvallar frádrætti í máli þessu.
Fallist dómurinn á þá málsástæðu stefnda að stefnandi eigi rétt til bóta hjá TR, sem komi til frádráttarkröfu stefnanda um varanlega örorku, byggir stefnandi einnig á því að slíkur réttur sé háður óvissu svo og að ekki liggi fyrir hvaða rétt stefnandi kynni að hafa öðlast til greiðslna úr almannatryggingum vegna afleiðinga slyssins 17. júní 2005 einu út af fyrir sig. Fyrirliggjandi gögn sýni að fyrra heilsufar stefnanda myndi hugsanlega hafa áhrif á niðurstöðu örorkumats hjá TR, eins og það hefur haft áhrif á niðurstöður fyrirliggjandi matsgerðar um varanlegar afleiðingar slyssins.
Allt framangreint sýni að slíkur vafi leiki á því hvort stefnandi eigi yfirhöfuð rétt til bóta úr almannatryggingum, og þá hvaða rétt, í hve langan tíma og að hve miklu leyti slíkur réttur tengist beinlínis slysinu, að ekki sé annað hægt en að hafna frádrætti stefnda. Til þess að slíkur frádráttur sé heimill þurfi réttur stefnanda til greiðslna frá TR að vera skýr og hafinn yfir allan vafa.
Nánar um aðalkröfu stefnanda
Aðaldómkrafa stefnanda byggist á því að skilyrði endurupptöku skv. 11. gr. skaðabótalaga séu uppfyllt og að stefnda beri að greiða stefnanda fullar skaðabætur vegna líkamstjóns hans. Skaðabætur skuli taka mið af matsgerð dómkvaddra matsmanna, D læknis og E hdl. (fyrri matsgerð), þar sem fram komi að ófyrirsjáanlegar breytingar hafi orðið á heilsu stefnanda frá fyrra mati. Að mati dómkvaddra matsmanna hafi munurinn á breytingu frá fyrra mati verið 15 stig í miska og 35% í varanlegri örorku. Aðaldómkrafa stefnanda um fullar bætur miðast við þá niðurstöðu og sundurliðast svo:
Varanlegur miski skv. 4. gr. skbl. (15 stig) 15% af 10.080.500 kr. (4.000.000 x 8.271/3.282) |
1.512.075 kr.- |
Varanleg örorka skv. 5. gr. skbl. (35%) Árslaun 1.801.000 kr.*18,196*35% |
11.469.848 kr. |
Heildarbætur: |
12.981.923 kr. |
Bætur fyrir varanlegan miska eru reiknaðar á grundvelli 4. gr. skaðabótalaga, sbr. 15. gr. laganna. Bætur fyrir varanlega örorku eru reiknaðar á grundvelli lágmarkslauna skv. 3. mgr. 7. gr. skaðabótalaga (1.200.000 kr. * 4.926/3.282 = 1.801.000). Útreikningur kröfu vegna varanlegrar örorku tekur mið af margföldunarstuðli 6. gr. skaðabótalaga.
Stefnandi krefst 4,5% vaxta, samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga, vegna varanlegs miska frá tjónsdegi 17. júní 2005 til 17. mars 2006 þegar batahvörfum (stöðugleikapunkti) var náð og einnig vegna varanlegrar örorku frá batahvörfum til 25. mars 2014, þegar mánuður var liðinn frá því að krafa stefnanda var send stefnda ásamt matsgerð dómkvaddra matsmanna. Þá er krafist dráttarvaxta skv. 9. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga, vegna allra bótaliða frá 25. mars 2014, þegar mánuður var liðinn frá þeim degi er krafa stefnanda var send stefnda ásamt matsgerð dómkvaddra matsmanna, og til greiðsludags.
Nánar um varakröfu stefnanda
Varakrafa stefnanda byggist á því að skilyrði endurupptöku skv. 11. gr. skaðabótalaga séu uppfyllt og að stefnda beri að greiða stefnanda fullar skaðabætur vegna líkamstjóns hans. Skaðabætur skuli taka mið af matsgerð dómkvaddra matsmanna, D læknis og E hdl. Í henni komi fram að varanleg örorka stefnanda vegna slyssins sé 70% og varanlegur miski 45 stig og að ófyrirsjáanlegar breytingar hafi orðið á heilsu stefnanda frá fyrra mati, sbr. fyrri umfjöllun. Stefndi hafði áður greitt stefnanda bætur vegna afleiðinga slyssins á grundvelli matsgerðar B læknis og C hrl., (dags. 9. desember 2006), sem mátu varanlegan miska 40 stig og varanlega örorku 35%. Í matsgerð dómkvaddra matsmanna felist hækkun á miska um 5 stig og örorku um 35% frá fyrra mati, sé miðað við heildarmat matsmanna í stað þess að miða eingöngu við hvaða ófyrirsjáanlegar breytingar höfðu orðið á heilsufari stefnanda frá fyrra mati og hvað dómkvaddir matsmenn mátu þær breytingar til miska og örorku, eins og gert er í aðalkröfu. Stefnandi krefst því bóta vegna hækkunar á framangreindum liðum. Varadómkrafa stefnanda sundurliðast svo:
Varanlegur miski skv. 4. gr. skbl. (5 stig) 5% af 10.080.500 kr. (4.000.000 x 8.271/3.282) |
504.025 kr. |
Varanleg örorka skv. 5. gr. skbl. (35%) Árslaun 1.801.000 kr.*18,196*35% |
11.469.848 kr. |
Heildarbætur: |
11.973.873 kr. |
Bætur fyrir varanlegan miska eru reiknaðar á grundvelli 4. gr. skaðabótalaga, sbr. 15. gr. laganna. Bætur fyrir varanlega örorku eru reiknaðar á grundvelli lágmarkslauna skv. 3. mgr. 7. gr. skaðabótalaga (1.200.000 * 4.926/3.282 = 1.801.000). Útreikningur kröfu vegna varanlegrar örorku taki mið af margföldunarstuðli 6. gr. skaðabótalaga.
Stefnandi krefst 4,5% vaxta, samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga, vegna varanlegs miska frá tjónsdegi 17. júní 2005 til 17. mars 2006 þegar batahvörfum (stöðugleikapunkti) var náð og einnig vegna varanlegrar örorku frá batahvörfum (stöðugleikapunkti) til 25. mars 2014, þegar mánuður var liðinn frá því að krafa stefnanda var send stefnda ásamt matsgerð dómkvaddra matsmanna. Þá er krafist dráttarvaxta skv. 9. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga, vegna allra bótaliða frá 25. mars 2014, þegar mánuður var liðinn frá þeim degi er krafa stefnanda var send stefnda, og til greiðsludags.
Nánar um þrautavarakröfu stefnanda
Komist dómurinn að þeirri niðurstöðu að áætlað eingreiðsluverðmæti meints bótaréttar stefnanda hjá Tryggingastofnun eigi að koma til frádráttar bótakröfu stefnanda á hendur stefnda byggir stefnandi á því, til þrautavara, að frádrátturinn geti eingöngu komið til frádráttar fjárhagslegu tjóni stefnanda, það er varanlegri örorku hans, en ekki ófjárhagslegu tjóni hans, það er varanlegum miska.
Stefnandi byggir á því að greiðslur frá almannatryggingum geti eingöngu komið til frádráttar varanlegum miska, skv. þágildandi 4. mgr. 4. gr. skaðabótalaga, að því leyti sem þær greiðslur séu miskabætur. Þær áætlaðar greiðslur frá stofnuninni sem stefndi telur að koma eigi til frádráttar teljast hins vegar ekki miskabætur heldur séu það greiðslur vegna fjárhagslegs tjóns, varanlegrar örorku.
Máli sínu til stuðnings vísar stefnandi til þess að í almennum athugasemdum við það lagafrumvarp sem varð að lögum nr. 37/1999 og breytti 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga og heimilaði frádrátt vegna lífeyrisgreiðslna frá almannatryggingum, segi orðrétt:
Samkvæmt frumvarpinu eru helstu breytingar frá gildandi lögum þessar:
[...]
4. Reglum um frádrátt frá skaðabótakröfu vegna varanlegrar örorku er breytt þannig að auk þeirra greiðslna sem nú dragast frá koma greiðslur frá almannatryggingum til frádráttar og hluti örorkulífeyris frá lífeyrissjóði.
Í athugasemdum við 4. gr. frumvarpsins, sem varð að lögum nr. 37/1999 og breytti 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga, sé sérstaklega tekið fram að samkvæmt þeim lögum sem giltu fyrir lagabreytinguna hafi verið óheimilt að draga bætur frá almannatryggingum frá bótum fyrir varanlega örorku. Af lögskýringargögnum sé ljóst að tilgangur lagabreytingarinnar hafi verið að breyta því réttarástandi og heimila tjónvaldi að draga bætur frá almannatryggingum frá bótum vegna varanlegrar örorku, en ekki frá bótum vegna varanlegs miska.
Í fræðiritum sé tekið fram að vegna varanlegs miska, komi ekki til álita miklar greiðslur frá þriðja aðilja. Greiðslur frá almannatryggingum geti komið til frádráttar, að því leyti sem þær séu miskabætur, en fátítt yrði þó, að greiðslur frá almannatryggingum hefðu áhrif á rétt tjónþola til miskabóta, sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr. 340/1998.
Með hliðsjón af framansögðu byggist þrautavarakrafa stefnanda á því að skilyrði endurupptöku samkvæmt 11. gr. skaðabótalaga séu uppfyllt og að meint réttindi stefnanda til örorkulífeyris hjá TR geti ekki komið til frádráttar varanlegum miska stefnanda skv. 4 .gr. skaðabótalaga. Stefnandi krefst því fullra bóta fyrir varanlegan miska.
Stefnandi krefjist til þrautavara bóta vegna breytingar á varanlegum miska frá fyrra mati, þ.e. sama miskabótakrafa og í aðalkröfu sem sundurliðist svo:
Varanlegur miski skv. 4. gr. skbl. (15 stig) 15% af kr. 10.080.500 (4.000.000 x 8.271/3.282) |
1.512.075 kr. |
Heildarbætur: |
1.512.075 kr. |
Bætur fyrir varanlegan miska eru reiknaðar á grundvelli 4. gr. skaðabótalaga, sbr. 15. gr. laganna. Stefnandi krefjist 4,5% vaxta, samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga, vegna varanlegs miska frá tjónsdegi 17. júní 2005 til 25. mars 2014, þegar mánuður var liðinn frá því að krafa stefnanda var send stefnda ásamt matsgerð dómkvaddra matsmanna. Hann krefst einnig dráttarvaxta, samkvæmt 9. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga, frá 25. mars 2014, þegar mánuður var liðinn frá þeim degi er krafa stefnanda var send stefnda, og til greiðsludags.
Þrautaþrautavarakrafa
Þrautaþrautavarakrafa stefnanda byggist á því að skilyrði endurupptöku samkvæmt 11. gr. skaðabótalaga séu uppfyllt og að meint réttindi stefnanda til örorkulífeyris hjá TR geti ekki komið til frádráttar varanlegum miska stefnanda skv. 4. gr. skaðabótalaga, eins og í þrautavarakröfu stefnanda. Stefnandi krefst því bóta fyrir varanlegan miska.
Stefnandi krefst til þrautaþrautavara bóta vegna hækkunar á varanlegum miska frá fyrra mati og er miðað við heildarmat dómkvaddra matsmanna sem hækkuðu matið um 5 stig, úr 40 stig í 45 stig, þ.e. sama miskabótakrafa og í varakröfu stefnanda sem sundurliðast svo:
Varanlegur miski skv. 4. gr. skbl. (5 stig) 5% af 10.080.500 kr. (4.000.000 x 8.271/3.282) |
504.025 kr. |
Heildarbætur: |
504.025 kr. |
Bætur fyrir varanlegan miska séu reiknaðar á grundvelli 4. gr. skaðabótalaga, sbr. 15. gr. laganna. Stefnandi krefst 4,5% vaxta samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga, vegna varanlegs miska frá tjónsdegi, 17. júní 2005, til 25. mars 2014, þegar mánuður var liðinn frá því að krafa stefnanda var send stefnda ásamt matsgerð dómkvaddra matsmanna. Stefnandi krefst enn fremur dráttarvaxta skv. 9. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga, frá 25. mars 2014, þegar mánuður var liðinn frá þeim degi er krafa stefnanda var send stefnda, og til greiðsludags.
Málskostnaður
Stefnandi krefst málskostnaðar úr hendi stefnda í öllum tilvikum eins og málið væri eigi gjafsóknarmál. Stefnandi sé ekki virðisaukaskattsskyldur aðili. Hins vegar sé lögmönnum gert að innheimta virðisaukaskatt af þjónustu sinni og því sé stefnanda nauðsynlegt að fá dóm fyrir þessum skatti úr hendi stefnda.
Um bótaábyrgð er vísað til ákvæða skaðabótalaga nr. 50/1993, einkum 11. gr. laganna um endurupptöku, og almennra reglna skaðabótaréttar. Stefnandi vísar einnig til þágildandi 4. mgr. 4. gr. og 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga sem var síðar breytt með lögum nr. 53/2009. Hann vísar til umferðarlaga, nr. 50/1987, einkum 88. gr. þeirra og XIII. kafla. Krafa hans um vexti byggist á 16. gr. skaðabótalaga, nr. 50/1993, og krafa um dráttarvexti byggist á lögum nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu.
Aðild stefnda styður stefnandi við 44. gr. og 1. mgr. 45. gr. laga nr. 30/2004, um vátryggingasamninga, III. kafla laga um meðferð einkamála, nr. 91/1991 og 1. mgr. 97. gr. umferðarlaga, nr. 50/1987. Um varnarþing vísast til ákvæða V. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Kröfu um málskostnað styður stefnandi við 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Krafa um virðisaukaskatt á málskostnað byggir á ákvæðum laga nr. 50/1988.
Málsástæður og lagarök stefnda
Aðalkrafa um sýknu
Stefndi byggir kröfu sína um sýknu í fyrsta lagi á því að krafa stefnanda sé fyrnd, í öðru lagi á því að skilyrði 11. gr. skaðabótalaga til endurupptöku séu ekki uppfyllt og stefnandi hafi þegar fengið að fullu greiddar þær bætur, sem hann á rétt á samkvæmt lögum. Stefndi mótmælir öllum málsástæðum stefnanda.
Sönnunarbyrði um rétt stefnanda til frekari skaðabóta úr hendi stefnda hvíli á stefnanda. Honum hafi ekki tekist að sanna að fyrir hendi séu atvik sem eigi að leiða til frekari bótaskyldu stefnda og því beri að sýkna.
I. Fyrning
Stefndi áréttar að á stefnanda hvíli sönnunarbyrðin fyrir því að krafa hans sé ófyrnd. Stefndi krefst sýknu á grundvelli þess að viðbótarbótakrafa stefnanda vegna líkamstjóns, sem má rekja til umferðarslyss 17. júní 2005, hafi verið fyrnd þegar mál um hana var höfðað með birtingu stefnu 16. júní 2015. Bótakrafan sé reist á ákvæðum XIII. kafla umferðarlaga, nr. 50/1987, en um fyrningu slíkra krafna gildir sérákvæði 99. gr. laganna. Samkvæmt ákvæðinu fyrnist bótakröfur samkvæmt XIII. kafla laganna gagnvart þeim sem ábyrgð ber, og vátryggingafélagi, á fjórum árum frá lokum þess almanaksárs, sem kröfuhafi fékk vitneskju um kröfu sína og átti þess fyrst kost að leita fullnustu hennar.
Í matsgerð D og E, dags. 17. febrúar 2014, sé ekki tekin afstaða til þess hvenær heilsufar stefnanda hafi verið orðið stöðugt þannig að stefnandi hefði átt þess kost að leita fullnustu. Í útreikningum sínum í stefnu og málatilbúnaði öllum hafi stefnandi miðað við 17. mars 2006, það er batahvörf (stöðugleikapunkt) samkvæmt matsgerð B og C. Byggt á málatilbúnaði stefnanda sjálfs hafi fyrningarfresturinn hafist 1. janúar 2007 og krafa stefnanda hafi því verið fyrnd 1. janúar 2011. Það sé stefnanda að sýna fram á að hann hafi á síðara tímamarki fengið vitneskju sem rétt sé að miða upphaf fyrningarfrests við.
II. Fullnaðaruppgjör hefur farið fram
Stefndi reisir kröfu sína um sýknu einnig á því að fram hafi farið fullnaðaruppgjör milli stefnanda og stefnda, 20. desember 2006. Enginn fyrirvari hafi verið gerður við uppgjörið. Á skaðabótakvittuninni sé tekið fram að bótafjárhæðin sé fullnaðar- og lokagreiðsla vegna slyssins og að með greiðslunni sé lokið öllum kröfum á hendur félaginu vegna slyssins. Stefndi telur að ekki sé unnt að taka upp bótauppgjör stefnanda vegna umrædds umferðarslyss nema endurupptaka sé heimil samkvæmt skaðabótalögum. Á stefnanda hvíli sönnunarbyrðin fyrir því að þröng skilyrði endurupptöku séu uppfyllt, sbr. 11. gr. skaðabótalaga, nr. 50/1993.
III. Skilyrði 11. gr. laga nr. 50/1993 fyrir endurupptöku ekki uppfyllt
Þá byggir stefndi á því að stefnandi hafi ekki sannað að skilyrði 11. gr. skaðabótalaga, nr. 50/1993, um endurupptöku séu uppfyllt.
Ákvæði 2. málsliðar 11. gr. hljóði svo:
Skilyrði endurupptöku er að ófyrirsjáanlegar breytingar hafi orðið á heilsu tjónþola þannig að ætla megi að miskastig eða örorkustig sé verulega hærra en áður var talið.
Stefnanda nægi ekki, til að axla sönnunarbyrðina fyrir því að skilyrði ákvæðisins séu uppfyllt, að afla matsgerðar um hærra örorku- og miskastig en áður, heldur þurfi að afla sönnunar fyrir því að ófyrirsjáanlegar breytingar hafi orðið frá fyrra mati og að þær breytingar leiði til verulega hærra miska- og örorkustigs.
Stefndi telji skilyrðið um ófyrirsjáanlegar breytingar ekki hafa verið uppfyllt. Fyrir liggi í taugasálfræðilegri athugun H sálfræðings, sem sé grundvallargagn í seinni matsgerðinni og raunar það gagn sem sé grundvöllur niðurstöðu matsmannanna, að ætla megi að uppgjöf og vanlíðan eigi sinn þátt í slakri útkomu nú til viðbótar við afleiðingar heilaáverka og heilaskaða. Þá mæli H með því í skýrslu sinni að leitað verði eftir sérhæfðu læknisfræðilegu áliti á því hvort líffræðilegar ástæður geti skýrt slakari útkomu nú að meira eða minna leyti. Stefnandi hafi ekki aflað slíks læknisfræðilegs álits og því sé alfarið ósannað að ástæða slakari útkomu úr taugasálfræðiathuguninni tengist slysinu.
Í seinni matsgerðinni, þ.e. í matsgerð D og E, komist matsmennirnir að þeirri niðurstöðu að einkenni frá hálsi og baki hafi verið ofmetin í fyrri matsgerðinni, þ.e. matsgerð B og C, dags. 9. desember 2006. Í fyrri matsgerðinni hafi verið komist að þeirri niðurstöðu að slysið hafi valdið stefnanda sérstökum erfiðleikum í skilningi 4. gr. skaðabótalaga. Í fyrra mati sé varanlegur miski stefnanda talinn 40 stig en sé ekki sundurgreindur. Engu að síður gefi D og E sér í seinna matinu hversu mörg miskastig fyrri matsmenn gáfu tilteknum einkennum en það sé byggt á getgátum einum. Á grundvelli þessara vangaveltna telji matsmennirnir sig geta slegið því fram að líklega hafi einkenni vegna heilaskaðans í fyrra matinu verið metin sem 10 stig en séu í síðara matinu metin sem 25 stig. Stefndi mótmælir sérstaklega þessari nálgun í matsgerð D og E og telur að það sé engan veginn á færi þeirra að giska á hvernig sundurgreina megi miskann í matsgerð B og C. Það eina sem liggi fyrir sé að miskinn samkvæmt fyrra mati hafi veri 40 stig ósundurgreint og samkvæmt því síðara sé miskinn 45 stig. Stefndi mótmælir því sérstaklega að varanlegur miski hafi breyst um 15 stig, þ.e. að miski vegna heilaskaða samkvæmt eldra mati hafi verið 10 stig en sé samkvæmt nýrra mati 25 stig. Það sé algjörlega ósannað og getgátur einar hver miskinn fyrir heilaskaða var í fyrra mati. Þetta komi raunar skýrt fram í matsgerð D og E þar sem segi: Í eldra mati er miskinn ekki sundurgreindur og því ekki hægt að segja með fullri vissu hvað framangreind einkenni frá baki og hálsi auk sérstaks miska voru metin hátt. og [l]íklegt er að einkennin vegna heilaskaða hafi í eldra mati verið metin 10 stig.
Kjarni málsins sé að samkvæmt seinni matsgerðinni hafi miski stefnanda verið metinn 5 stigum hærri en samkvæmt fyrri matsgerð. Stefnandi hafi, óháð einkennum, þegar fengið bætur fyrir 40 stiga miska og yrði fallist á aðalkröfu stefnanda fengi hann bætur vegna 55 stiga miska og þar með bætur umfram tjón. Meginreglur skaðabótaréttar og sanngirnisrök standi ekki til þess að stefnandi fái bætur umfram það tjón sem hann hlaut. Stefndi telur að líta beri til heildarmiskans sem bótauppgjör var reist á annars vegar og hins vegar þess heildarmiska sem slysið var síðar talið hafa leitt til og að ekki skipti mála hvernig einstakir þættir í matinu kunni að hafa breyst eða séu taldir mismunandi. Stefnandi hafi þegar fengið bætur vegna 40 stiga miska og 5 stiga breyting sé óveruleg. Þessu til stuðnings vísar stefndi einnig til kröfubréfs stefnanda dags. 25. febrúar 2014, sem var sent stefnda eftir að síðari matsgerðin lá fyrir. Í bréfinu krefjist stefnandi einungis bóta vegna 5 miskastiga enda sé það eina mögulega krafan sem stefnandi hafi ekki þegar fengið bætta.
Hækkun miska á milli fyrri matsgerðar og seinni sé 5 stig og samkvæmt matsgerð D og E hafi breytingin verið ófyrirsjáanleg. Samkvæmt skýrum fordæmum Hæstaréttar sé ljóst að 5 stiga hækkun miska telst ekki vera verulega hærra en áður var talið og skilyrði 11. gr. skaðabótalaga því ekki uppfyllt.
IV. Mat á varanlegri örorku of hátt
Stefndi telur mat D og E á varanlegri örorku hafi verið of hátt. Hann mótmælir því sérstaklega að misnotkun stefnanda á áfengi og vímuefnum verði rakin til slyssins.
Varakrafa stefnda um verulega lækkun krafna stefnanda
Verði ekki fallist á aðalkröfu stefndu um sýknu og komist dómstóllinn að þeirri niðurstöðu að krafa stefnanda sé ekki fyrnd og skilyrði 11. gr. skaðabótalaga séu uppfyllt krefst stefndi þess að kröfur stefnanda verði lækkaðar verulega og raunar svo mikið að stefnda beri ekki að greiða stefnanda neitt.
Stefndi telur, með vísan til þess sem að framan greinir, að hvorki sé unnt að fallast á þá kröfu stefnanda að hann fái bætur fyrir 15 stiga miska, né þá kröfu að hann fái bætur fyrir 5 stiga miska. Stefnandi hafi þegar fengið greiddar fullar bætur fyrir 40 stiga miska. Hækkun til viðbótar um 5 stig sé ekki verulega hærri miski í skilningi 11. gr. skaðabótalaga og uppfyllir því ekki þröng skilyrði 11. gr. skaðabótalaga um endurupptöku eftir fullnaðaruppgjör aðila.
Stefndi mótmælir því enn fremur harðlega að frádráttur vegna bótaréttar frá þriðja aðila eigi einungis að koma til frádráttar á bótum vegna varanlegrar örorku en ekki bótum vegna varanlegs miska. Fjallað sé um frádrátt frá miskabótum í 4. mgr. 4. gr. skaðabótalaga. Þar segi einfaldlega: Um greiðslur frá þriðja manni fer eftir 4. mgr. 5. gr. Þessi grein hafi komið inn í skaðabótalögin með breytingalögum nr. 37/1999, þ.e. fyrir slysið sem varð árið 2005. Stefndi vísar til skýrra dóma Hæstaréttar um það að samkvæmt 4. mgr. 5. gr., sbr. 2. mgr. 3. gr. og 4. mgr. 4. gr. skaðabótalaga, eins og þeim var breytt með lögum nr. 37/1999 og þau hljóðuðu á slysdegi, beri að draga frá skaðabótakröfu vegna líkamstjóns verðmæti greiðslna til stefnanda frá almannatryggingum og lífeyrissjóðum sem séu beinlínis greiddar vegna sama slyss og skaðabæturnar voru greiddar fyrir.
Stefndi mótmælir tilvísunum stefnanda til breytingalaga nr. 53/2009 sem breyttu þágildandi 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga. Stefnandi hafi lent í slysinu árið 2005, löngu áður en lög nr. 53/2009 tóku gildi. Ótvírætt verði að haga ákvörðun skaðabóta eftir þeim lögum sem voru í gildi á slysdegi. Í lögum nr. 53/2009 sé hvorki stoð fyrir því að lögin taki til uppgjörs skaðabótakröfu sem hafi stofnast fyrir gildistöku þeirra, né verði slík niðurstaða leidd af öðrum réttarreglum og óhjákvæmilega væri þörf á skýrri lagaheimild til að ljá lagareglu afturvirk áhrif.
Stefnandi hafi samkvæmt fyrirliggjandi gögnum ekki, þegar málið var höfðað, fengið greiðslur frá Tryggingastofnun. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum virðist hann fyrst hafa sótt um örorkubætur frá stofnuninni í febrúar 2012. Í gögnum málsins sé læknisvottorð vegna umsóknar um örorkubætur frá G, lækni á heilsugæslunni í Efra Breiðholti. Hins vegar séu ekki lögð fram svör stefnanda við spurningalista vegna færnisskerðingar né sjálf umsókn stefnanda um örorkubætur. Með bréfi I tryggingalæknis, 15. mars 2012, hafi örorkumati á stefnanda verið vísað frá þar sem [e]kki virðist tímabært að taka afstöðu til örorku þar sem endurhæfing hefur ekki verið reynd.
Stefnandi virðist hafa sótt um endurhæfingarlífeyri frá Tryggingastofnun 24. júní 2013 þótt umsóknin sé ekki meðal gagna málsins. Umsókninni fylgdi vottorð frá fyrrgreindri G lækni og endurhæfingaráætlun sem ekki liggur fyrir í málinu. Með bréfi, dags. 15. júlí 2013, hafi beiðni stefnanda um endurhæfingarlífeyri verið hafnað á þeim grundvelli að núverandi [endurhæfingar]áætlun þykir ekki nógu skýr eða markviss til að byggja umsækjanda undir þátttöku á atvinnumarkaði og réttlætir því ekki veitingu endurhæfingarlífeyris.
Á árinu 2014 virðist stefnandi aftur hafa sótt um örorkulífeyri þótt umsóknin og fylgigögn með henni séu ekki lögð fram. Í bréfi frá TR, dags. 27. október 2014, segir: Til að unnt sé að afgreiða umsókn þína er nauðsynlegt að lögð séu fram frekari upplýsingar og gögn. Þá er í bréfinu sérstaklega óskað eftir því að lögð verði fram endurhæfingaráætlun.
Þetta sýni að stefnandi hafi fengið að vita í júlí 2013 að endurhæfingaráætlun hans fullnægði ekki þeim kröfum Tryggingastofnunar. Stefnandi hafi aftur sótt um örorkulífeyri 2014 og hafi þá ekkert gert til að bæta úr fyrri endurhæfingaráætluninni heldur sækir um aftur og láti endurhæfingaráætlun ekki einu sinni fylgja með. Tryggingastofnun hafi óskað eftir slíkri áætlun í október 2014. Ekki liggi fyrir í gögnum málsins hvort stefnandi hafi orðið við þeirri beiðni.
Af fyrirliggjandi gögnum að dæma virðist stefnandi því ekki hafa fengið neinar greiðslur frá Tryggingastofnun þegar málið var höfðað. Stefndi telur það ekki vera vegna þess að hann eigi ekki þau réttindi heldur vegna þess að stefnandi hafi ekki sinnt því að afhenda TR umbeðin gögn og mögulega ekki sinnt endurhæfingu sinni á fullnægjandi hátt. Á stefnanda hvíli rík skylda til að takmarka tjón sitt. Í því felist meðal annars að sinna eðlilegri endurhæfingu og sækja þann bótarétt sem hann eigi hjá þriðja aðila, þar á meðal TR. Stefndi telur að á meðan stefnandi hafi ekki sinnt nægjanlega endurhæfingu að mati Tryggingastofnunar og þannig ekki uppfyllt þau skilyrði sem hún setur fyrir því að örorkumat geti farið fram, hafi stefnandi ekki sinnt tjónstakmörkunarskyldu sinni á viðhlítandi hátt. Ríflega 10 ár séu liðin frá slysinu og á þeim tíma hefði stefnandi hæglega átt að geta fullreynt endurhæfingu í samráði við lækna og aðra meðferðaraðila og í kjölfarið sótt bótarétt sinn hjá TR. Stefnandi verði sjálfur að bera hallann af því að vanrækja skyldur sínar svo verulega. Stefnandi hafi hvorki fengið endanlega höfnun á endurhæfingarlífeyri né örorkulífeyri. Einungis hafi verið óskað eftir fyllri upplýsingum og gögnum sem stefnandi hafi ekki sinnt að veita. Stefndi hafi aflað álitsgerðar B læknis. Það sé álit hans að stefnandi uppfylli skilyrði örorkustaðals TR þótt eingöngu sé litið til afleiðinga slyssins. Sinnuleysi og skortur á vilja stefnanda til endurhæfingar virðist því vera það eina sem standi í vegi bótaréttar hans frá TR.
Í fyrrgreindri álitsgerð B komi skýrt fram að stefnandi uppfylli skilyrði almannatrygginga um örorkulífeyri vegna afleiðinga slyssins eingöngu. Samkvæmt álitsgerðinni fengi stefnandi 12 stig á fyrri hluta staðalsins og 10 stig á þeim seinni. Samkvæmt skilyrðum almannatrygginga þurfi að fá a.m.k. 6 stig á hvorum hluta staðalsins til að uppfylla skilyrði almannatrygginga um örorkulífeyri. Í álitsgerðinni sé tekið fram að sé tekið tillit til þess að dómkvaddir matsmenn töldu afleiðingar slyssins ekki vera einkenni frá baki dragist 3 stig frá fyrra hluta og stefnandi fengi því 9 stig. Eins mætti færa rök fyrir að draga ætti 2 stig af síðari hlutanum þar sem stefnandi hafi fyrri sögu um einbeitingartruflun. Þannig fengi stefnandi 8 stig á síðari hlutanum. Jafnvel þótt tekið yrði tillit til ofangreindra þátta liggi fyrir að afleiðingar slyssins eingöngu nægi til að stefnandi uppfylli skilyrði almannatrygginga um örorkulífeyri. Það sé rangt sem stefnandi haldi fram að ekki liggi fyrir hvaða rétt hann hafi öðlast til greiðslna úr almannatryggingum vegna afleiðinga slyssins einu út af fyrir sig. Þetta komi skýrt fram í álitsgerð B og það er stefnanda að reyna að hnekkja því mati kjósi hann það.
Með vísan til álitsgerðar B telur stefndi að allur réttur stefnanda til bóta frá Tryggingastofnun skuli koma til frádráttar bótum hans frá stefnda þar eð afleiðingar slyssins einar og sér nægi til að uppfylla skilyrði TR. Komist dómurinn að þeirri niðurstöðu að rekja megi hluta af rétti stefnanda til greiðslna til einkenna sem ekki tengjast slysinu krefjist stefndi þess að bætur verði lækkaðar að því leyti sem greiðslur séu taldar eiga rót að rekja til slyssins.
Stefndi hafi einnig aflað útreiknings F tryggingastærðfræðings á eingreiðsluverðmæti örorkulífeyris stefnanda. Í útreikningum hafi verið reiknað með greiðslum til stefnanda frá 1. júní 2014 og til 67 ára aldurs stefnanda. Frá júní 2014 sé reiknað með atvinnutekjum sem nemi 30% af viðmiðunarlaunum stefnanda í samræmi við metna varanlega örorku. Samkvæmt útreikningum F sé eingreiðsluverðmæti við batahvörf (stöðugleikapunkt) að teknu tilliti til skatta 12.813.952 kr. Sú fjárhæð ætti að koma til frádráttar bótum til handa stefnanda. Stefndi hafi ekki bent á sérstaka annmarka á útreikningi F.
Frádráttur vegna greiðslna frá þriðja aðila byggist alltaf á áætluðum bótarétti til framtíðar, þ.e. þeim bótum sem stefnandi eigi rétt á að gefnum ákveðnum forsendum og lífsaldri. Þar eð stefnandi hafi ekki sinnt því að afhenda Tryggingastofnun gögn liggi ekki fyrir nákvæmlega hver bótaréttur hans hjá stofnuninni sé nú og því þurfi að áætla hann. Það sé ljóst að stefnda sé rétt að krefjast frádráttar á þeim bótarétti hjá þriðja aðila sem stefnandi eigi rétt á óháð því hvort hann hafi sinnt því að sækja þann rétt, hvort mögulega einhver hluti réttarins sé fyrndur eða jafnvel þótt stefnandi hefði afsalað sér réttinum. Stefnandi geti ekki vanrækt að sækja bótarétt sinn til TR og í stað þess krafið stefnda um alla fjárhæðina. Allur vafi um nákvæmlega hver réttur stefnanda sé hjá Tryggingastofnun sé á ábyrgð stefnanda þar sem hann hafi ekki sinnt tjónstakmörkunarskyldu sinni nægjanlega.
Stefnandi krefjist vaxta frá slysdegi, þ.e. 17. júní 2005, en ljóst sé að bróðurhluti vaxtakröfunnar sé fyrndur. Stefndi mótmælir sem fyrndum vöxtum, sem hafi fallið til meira en fjórum árum frá því að greiðslu var krafist. Þá er því sérstaklega mótmælt að bætur fyrir 15 stiga miska beri dráttarvexti frá 25. mars 2014 enda hafi einungis verið krafist 5 stiga miska í kröfubréfinu frá 25. febrúar sem vaxtakrafan miðast við. Stefndi mótmælir vaxtakröfu og dráttarvaxtakröfu stefnanda frá fyrri tíma en dómsuppsögudegi.
Kröfum sínum til stuðnings vísar stefndi einkum til umferðarlaga, nr. 50/1987, skaðabótalaga, nr. 50/1993, með síðari breytingum, meðal annars þeim sem urðu með lögum nr. 37/1999, og meginreglna skaðabótaréttar um sönnun tjóns, sönnunarbyrði og skyldu tjónþola til að takmarka tjón sitt. Þá vísar stefndi sérstaklega til 99. gr. umferðarlaga, nr. 50/1987, vegna fyrningar kröfunnar og til 4. mgr. 4. gr. og 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, sbr. lög nr. 37/1999, vegna frádráttar frá dæmdum skaðabótum. Um málskostnað er vísað til XXI. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.
Niðurstaða
Stefnandi slasaðist alvarlega í bílslysi 17. júní 2005. Matsmenn sem unnu mat á afleiðingum slyssins fyrir hann árið 2006 töldu varanlegan miska hans af slysinu vera 40 stig og varanlega örorku 35%. Á grundvelli þess mats greiddi stefndi, tryggingafélag ökumanns bifreiðarinnar, stefnanda bætur í lok árs 2006.
Að nokkrum árum liðnum varð ljóst að afleiðingar slyssins fyrir stefnanda voru meiri en þær sem voru komnar fram þegar matið var unnið árið 2006. Af þeim sökum voru dómkvaddir tveir matsmenn sem unnu nýtt mat, árið 2014, á ófyrirséðum afleiðingum slyssins fyrir stefnanda. Að þeirra mati nam miski stefnanda vegna heilaskaða 25 stigum en hafði áður numið 10 stigum. Heildarmiskamatið hækkaði þó einungis úr 40 stigum í 45 stig þar eð dómkvaddir matsmenn töldu að í fyrra mati hefði verið tekið tillit til einkenna stefnanda sem yrðu ekki rakin til bílslyssins. Enn fremur töldu þeir hann ekki búa við sérstakan miska vegna slyssins eins og talið var í fyrra mati. Varanlega örorku stefnanda, sem hafði áður verið talin 35%, mátu þeir 70%.
Það er óumdeilt að ábyrgð á greiðslu bóta vegna afleiðinga slyssins hvílir á stefnda þar eð félagið tryggði bifreiðina sem stefnandi var farþegi í á slysdegi. Gegn fjárkröfu stefnanda færir stefndi fyrst þau rök að krafan sé fyrnd. Því til stuðnings vísar hann til þess að í mati dómkvaddra matsmanna í febrúar 2014 hafi batahvörf ekki verið endurmetin og því beri að miða við 17. mars 2006 eins og í sameiginlega matinu í desember 2006. Fjögurra ára fyrningarfrestur kröfunnar hafi því hafist í lok þess árs. Hún hafi því verið fyrnd 1. janúar 2011.
Þegar afstaða er tekin til fyrningar kröfu sem byggist á umferðarlögum þarf að greina að tvö atriði: annars vegar slysið og hins vegar afleiðingar þess. Hið fyrra stofnar rétt til bóta en hið síðara ræður fjárhæð bótanna.
Tjónþoli eignast rétt til bóta úr hendi tjónvalds eða tryggingafélags hans á slysdegi. Hafi ekkert tjón hlotist af slysinu reynir ekkert á þennan bótarétt. Reynist tjón hafa hlotist af slysinu getur tjónþoli krafist fjár úr hendi tjónvalds á grundvelli þessa bótaréttar í samræmi við umfang tjóns síns. Hversu mikið líkamstjónið verður er sjaldnast vitað á slysdegi, heldur síðar þegar heilsufar tjónþola er orðið stöðugt og ekki er að vænta frekari bata, það er við batahvörf. Þá fyrst verða varanlegar afleiðingar metnar og lagður grundvöllur að fjárkröfu á hendur tjónvaldi. Oftast nær greiðir tjónvaldur eða tryggingafélag hans tjónþola skaðabætur skömmu eftir að umfang tjónsins hefur verið staðreynt.
Í 11. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 er gert ráð fyrir þeim tilvikum að við batahvörf hafi ekki komið fram allar afleiðingar slyss heldur kunni mun meiri ófyrirséðar afleiðingar að koma í ljós síðar. Samkvæmt lagaákvæðinu veita þessar aðstæður tjónþola heimild til þess að fá fyrri bótaákvörðun tekna upp og bætur reiknaðar út frá þeim varanlegu afleiðingum slyssins sem þá eru komnar fram í heild sinni.
Fjárkrafa stefnanda grundvallast á því að verulegar og ófyrirsjáanlegar breytingar á heilsu hans hafi komið í ljós eftir að honum voru greiddar bætur 2006. Stefndi hefur fallist á það sjónarmið vegna varanlegrar örorku stefnanda. Af þessum sökum verður að hafna því að fyrningarfrestur fjárkröfu stefnanda vegna aukinna afleiðinga slyssins hefjist við batahvörf.
Þegar umfang tjónsins reynist verulega meira en hægt var að sjá fyrir við batahvörf veitir 11. gr. skaðabótalaga tjónþola með öðrum orðum rétt til þess að hækka fjárkröfu sína á hendur tjónvaldi og fá bætur frá honum sem samrýmast þeim varanlegu afleiðingum sem þá eru komnar fram.
Dómurinn telur að líta verði svo á að rétturinn sem tjónþoli á til bóta hafi afmarkaðan líftíma, sjálfstæðan fyrningarfrest, í þessu tilviki tíu ár frá slysdegi samkvæmt 99. gr. umferðarlaga, nr. 50/1987. Fjárkrafan sem byggist á þessum rétti, en ræðst þó af því hversu alvarlegar varanlegar afleiðingar tjónþoli hlýtur af slysinu, hefur annan og skemmri fyrningarfrest. Í þessu tilviki fjögur ár frá lokum þess almanaksárs sem tjónþoli fékk vitneskju um kröfu sína og átti þess fyrst kost að leita fullnustu hennar, samkvæmt 99. gr. umferðarlaga.
Fyrningarfrestur er ekki annað en það lögboðna, tímabundna svigrúm sem rétthafi, hér tjónþoli, hefur til athafna. Annars vegar lifir réttur hans til bóta úr hendi tjónvalds einvörðungu í tíu ár frá slysdegi og hins vegar hefur hann fjögur ár til að krefjast fullnustu fjárkröfu á grundvelli þess réttar þegar honum er ljóst umfang hennar og hún telst gjaldkræf.
Þegar ljóst er að réttilega metnar bætur eiga að vera mun hærri en þær sem áður höfðu verið greiddar er eðlilegt að tjónþoli hafi sambærilegt ráðrúm til þess að krefjast fullnustu viðbótarfjárhæðarinnar, enda er ráðrúmið sem hann hafði til að heimta fyrri hluta bótanna, fyrningarfresturinn, löngu liðið.
Stefnandi fékk ekki staðfestingu þess að varanlegar afleiðingar slyssins fyrir hann væru meiri en áður var talið fyrr en hann fékk matsgerð dómkvaddra matsmanna dagsetta 17. febrúar 2014. Frá lokum þess almanaksárs hafði hann fjögur ár til að krefjast bóta. Hann höfðaði málið með birtingu stefnu 16. júní 2015, áður en liðin voru 10 ár frá því að réttur hans til bóta úr hendi tjónvalds eða tryggingarfélags hans stofnaðist. Það var jafnframt langt innan sjálfstæðs fyrningarfrests viðbótarfjárkröfunnar. Fjárkrafa hans á hendur stefnda vegna aukinna afleiðinga slyssins fyrir hann var því ekki fyrnd þegar málið var höfðað.
Gegn fjárkröfu stefnanda færir stefndi næst fram þau rök að skilyrði 11. gr. laga nr. 50/1993 séu ekki uppfyllt vegna varanlegs miska stefnanda. Fullnaðaruppgjör hafi því farið fram þegar bætur voru greiddar á grundvelli matsgerðar í desember 2006.
Hæstiréttur hnykkti á því, í dómi í máli nr. 286/2013, að mat, sem er unnið í því skyni að taka megi afstöðu til þess hvort uppfyllt sé það skilyrði 11. gr. að verulegar breytingar hafi orðið á heilsu tjónþola frá fyrra mati, á að snúast um þær breytingar en í því á ekki að felast nýtt heildarmat á varanlegum afleiðingum tjónþola af slysinu.
Ákvæði 11. gr. tryggir eingöngu tjónþola rétt til endurupptöku en ekki hinum bótaskylda. Stefndi áréttar þá meginreglu að bætur eigi að samsvara tjóni en það eigi hvorki að vera van- né ofbætt. Engu að síður gerir ákvæðið, með því að útiloka endurupptöku bótagreiðanda, ráð fyrir því að tjónþoli geti fengið hærri bætur en sem nema tjóni hans, reynist það síðar minna en talið var þegar bætur voru greiddar. Hafi stefndi sætt sig við það mat B og C, sem unnu fyrra matið, að hluti af miska stefnanda yrði rakinn til einkenna vegna tognunar í hálsi og baki verður við það að sitja. Stefndi getur ekki fengið það mat þeirra endurupptekið þótt dómkvaddir matsmenn telji þann miska ekki verða rakinn til slyssins. Sama gildir um sérstakan miska sem slysið var talið hafa valdið stefnanda samkvæmt fyrra mati en ekki í mati dómkvaddra matsmanna.
Til þess að geta séð hversu miklar breytingar höfðu orðið á tilteknum afleiðingum slyssins fyrir stefnanda frá árinu 2006 urðu matsmenn, sem voru dómkvaddir til að vinna síðari matsgerðina, að greina hversu mörg miskastig tilteknir þættir höfðu fengið í fyrra matinu. Út frá þeirri greiningu komust þeir að því að einkenni stefnanda vegna heilaskaða hafi í fyrra mati verið metin til 10 stiga. Þau einkenni hafi aukist svo mikið frá fyrra mati að þau hafi borið, þegar síðara matið var unnið, að telja til 25 stiga.
Telji stefndi hina dómkvöddu matsmenn ekki hafa greint réttilega hversu mörg miskastig þeir sem unnu fyrra matið gáfu einkennum stefnanda vegna tiltekinna afleiðinga slyssins fyrir hann, verður stefndi að fá því mati hnekkt með yfirmati. Hann hefði í það minnsta getað leitt þá sem unnu fyrra matið fyrir dóm og innt þá eftir því hversu mörgum miskastigum þeir töldu tiltekna áverka og önnur einkenni stefnanda samsvara, þegar þeir unnu matið. Til þess að hrekja greiningu dómkvaddra matsmanna á sundurliðun miska í fyrra mati nægir stefnda ekki að segja að sundurliðunin sé hrein ágiskun. Dómkvaddir matsmenn kváðust hafa lagt til grundvallar greiningu sinni á miskastigi hvers þáttar, huglæg og hlutlæg einkenni sem var lýst í fyrra mati. Þeir höfðu jafnframt undir höndum öll þau læknisfræðilegu gögn sem þeir sem unnu fyrra matið byggðu á. Að mati dómsins hefur stefndi því ekki hnekkt því mati dómkvaddra matsmanna að miski stefnanda vegna heilaskaða hafi verið metinn 10 stig árið 2006 en hafi verið orðinn 25 stig í febrúar 2014.
Þessa breytingu á einkennum stefnanda vegna heilaskaða töldu dómkvaddir matsmenn að þeir sem unnu sameiginlega matið hefðu ekki getað séð fyrir og því ekki gert ráð fyrir að hún yrði. Breyting á einkennum stefnanda vegna heilaskaða sé því ófyrirsjáanleg.
Þeir sem unnu fyrra matið töldu varanlega örorku stefnanda nema 35%. Dómkvaddir matsmenn mátu varanlega örorku hans tvöfalt hærri eða 70%. Það viðbótartjón skýrist af því að afleiðingar heilaskaðans reyndust miklu meiri en komið var fram þegar fyrra matið var unnið. Eins og áður segir töldu þeir að fyrri matsmenn hefðu ekki getað séð þá breytingu fyrir.
Að mati dómsins er því ótvírætt að ófyrirsjáanlegar breytingar hafi orðið á heilsu stefnanda frá því að fyrra matið var unnið. Það er jafnframt veruleg breyting þegar miski vegna tiltekins þáttar hækkar úr 10 stigum í 25 stig, svo og þegar varanleg örorka tvöfaldast og hækkar úr 35% í 70%. Að mati dómsins eru því bæði skilyrði 11. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 uppfyllt og upptaka bótaákvörðunar þar með heimil.
Dómurinn telur því að fullnaðaruppgjör hafi ekki farið fram þegar stefndi greiddi stefnanda bætur á grundvelli þess mats sem var unnið árið 2006.
Gegn fjárkröfu stefnanda færir stefndi loks fram þau rök að stefnandi eigi rétt til bóta frá Tryggingastofnun sem megi draga frá þeim bótum sem stefnandi á rétt á úr hendi stefnda, á grundvelli síðari matsgerðarinnar, sbr. 4. mgr. 4. gr. og 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga.
Á tjónvaldi, eða þeim sem er sóttur til að greiða bætur vegna tjóns sem hann hefur valdið, hvílir sönnunarbyrði fyrir réttmæti þess frádráttar sem hann heldur fram. Tjónþola er hins vegar skylt að leita eftir slíkum greiðslum og upplýsa um þær.
Stefndi telur sig hafa axlað sönnunarbyrði sína með áliti B læknis, dags. 4. júní 2014, sem hafi komist að þeirri niðurstöðu að stefnandi uppfylli skilyrði staðals Tryggingastofnunar fyrir því að fá örorkulífeyri frá stofnuninni.
Stefnandi höfðaði þetta mál 16. júní 2015 til þess að rjúfa 10 ára fyrningarfrest 2. málsliðar 99. gr. umferðarlaga, nr. 50/1987.
Á stefnanda hvílir tjónstakmörkunarskylda. Hann reyndi í þrígang að fá bætur frá Tryggingastofnun; fyrst í febrúar 2012, næst í júní 2013 og svo hausið 2014. Beiðni hans var fyrst vísað frá, þar eð endurhæfing hafði ekki verið reynd. Næst var henni hafnað, þar eð endurhæfingaráætlun var ekki fullnægjandi og í þriðja skiptið var ekki talið tímabært að taka afstöðu til örorku fyrr en stefnandi legði fram fullnægjandi gögn.
Eftir að málið var höfðað afhenti hann stofnuninni loks vottorð og endurhæfingaráætlun sem hún taldi viðunandi. Samkvæmt fram lögðum gögnum hefur stefnandi fengið, frá því að hann lagði fram fullnægjandi endurhæfingaráætlun, greiddan endurhæfingarlífeyri frá 1. janúar 2016 til og með 31. janúar 2017. Hvorki er vitað hvort hann hafi fengið frekari endurhæfingarlífeyri né hvaða árangri hann náði í endurhæfingunni.
Reglugerð nr. 379/1999, um örorkumat, var sett með stoð í lögum nr. 117/1993, um almannatryggingar. Þau lög voru endurútgefin og fengu þá númerið 100/2006 en veittu reglugerðinni áfram lagastoð. Í 1. gr. hennar segir að þeir sem eru metnir til a.m.k. 75% örorku til langframa [...] eigi rétt á örorkulífeyri að öðrum skilyrðum uppfylltum. Samkvæmt ákvæðinu er einnig heimilt að greiða þeim, sem eru metnir til 50-74% örorku, örorkustyrk, að öðrum skilyrðum uppfylltum. Samkvæmt 2. gr. er það tryggingayfirlæknir sem metur örorku þeirra sem sækja um örorkubætur frá Tryggingastofnun út frá staðli sem er byggður á læknisfræðilega viðurkenndum sjúkdómum og fötlun. Í 2. gr. segir enn fremur að tryggingayfirlækni sé heimilt að setja það skilyrði að umsækjandi gangist undir sérhæft mat á möguleikum til endurhæfingar og viðeigandi endurhæfingu, áður en til örorkumats kemur, sbr. nú 2. mgr. 18. gr. laga nr. 100/2006.
Eins og komið er fram var stefnandi þar til fyrir skemmstu, og er hugsanlega enn, í endurhæfingu. Samhliða henni vann hann hlutastarf í garðyrkju og síðar hlutastarf í byggingarvinnu. Hann bar að hann og félagsráðgjafi hans ynnu að því að koma honum í virka atvinnuleit. Markmiðið samkvæmt nýjustu endurhæfingaráætluninni var að stefnandi yrði kominn í 70-80% starf sumarið 2017.
Þegar endurhæfing er hafin og jafnframt virk atvinnuleit tjónþola hlýtur það að lokum að vera tryggingayfirlæknir sem metur það hvort tjónþoli á rétt til bóta svo og til hversu mikilla bóta, þrátt fyrir álit sjálfstætt starfandi endurhæfingarlæknis á rétti hans til örorkulífeyris frá stofnuninni. Hvorki eru upplýsingar um starfsgetu stefnanda eftir endurhæfingu né endanleg afstaða stofnunarinnar. Það liggur því ekki fyrir hvort og þá hvaða rétt stefnandi kann að eiga til bóta frá almannatryggingum sem ber að draga frá þeim bótum sem hann á rétt til úr hendi stefnda, sbr. 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga, nr. 50/1993, sbr. lög nr. 37/1999.
Stefnda verður ekki heimilað að draga frá þeim bótum, sem honum ber að greiða stefnanda, fjárhæð sem ekki er víst að stefnandi fái frá þriðja manni. Sá frádráttur er honum ekki heimill fyrr en fyrir liggur hvort stefnandi fái greiðslur frá þriðja manni svo og hversu háa fjárhæð.
Enn sem komið er liggur því ekki fyrir hvort stefnda beri að efna þá skyldu sem á honum hvílir að lögum eða hvort greiðslur frá almannatryggingum leysi hann undan henni að öllu leyti eða að hluta, sbr. 2. mgr. 26. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.
Vara- og þrautavarakrafa stefnanda byggjast á því að bætur frá þriðja manni verði ekki dregnar frá skaðabótum fyrir varanlegan miska.
Skaðabótum er ætlað að gera tjónþola eins settan fjárhagslega og hefði tjónið ekki orðið. Þótt miski sé nefndur ófjárhagslegt tjón er hann engu að síður metinn til fjár. Ætla verður að skaðabótakrafa vegna líkamstjóns, sem getið er í 4. mgr. 5. gr. laga nr. 50/1993, vísi bæði til fjárkröfu vegna miska og fjárkröfu vegna varanlegrar örorku sem líkamstjón hefur valdið. Þegar litið er til þeirra heildarbreytinga sem voru gerðar, með lögum nr. 37/1999, á útreikningi bóta samkvæmt skaðabótalögum nr. 50/1993 verður að telja að draga megi greiðslur, sem tjónþoli fær frá þriðja manni, frá skaðabótum fyrir varanlegan miska nemi þær hærri fjárhæð en skaðabætur fyrir varanlega örorku.
Það er því niðurstaða dómsins að fjárkrafa stefnanda á hendur stefnda, sem stofnaðist [...], hafi ekki verið fyrnd þegar hann höfðaði þetta mál til greiðslu frekari bóta 16. júní 2015. Dómurinn telur jafnframt uppfyllt þau skilyrði 11. gr. laga nr. 50/1993, að breytingar sem urðu á heilsu stefnanda frá því að mat var unnið á afleiðingum slyssins fyrir hann 2006 þar til unnið var nýtt mat á þeim afleiðingum 2014, hafi verið verulegar og ófyrirsjáanlegar þegar fyrra matið var unnið.
Þar eð krafan sé ekki fyrnd og skilyrði 11. gr. uppfyllt beri stefnda að greiða stefnanda skaðabætur í samræmi við aukið fjártjón hans.
Dómurinn telur jafnframt að draga beri frá bæði miskabótum og bótum fyrir varanlega örorku það fé sem stefnandi kann að eiga rétt á frá almannatryggingum. Þótt stefnandi hafi farið í endurhæfingu og fengið endurhæfingarlífeyri í rúmt ár liggur ekki enn fyrir hvaða rétt tryggingayfirlæknir telur hann eiga á grundvelli laga um almannatryggingar. Af þeim sökum er enn óljóst hvort stefnandi fái greiðslur frá Tryggingastofnun sem komi til frádráttar þeirri skaðabótakröfu sem hann á á hendur stefnda, svo og hversu háar þær kunna að verða. Því liggur ekki fyrir hvort stefnandi geti krafið stefnda um greiðslu skaðabótanna. Af þeim sökum, og með vísan til 2. mgr. 26. gr. laga nr. 91/1991, verður stefndi sýknaður af fjárkröfu stefnanda að svo stöddu.
Rétt þykir að málskostnaður milli málsaðila falli niður.
Stefnanda var, með bréfi innanríkisráðuneytisins 25. mars 2013, veitt gjafsókn til þess að reka þetta mál fyrir héraðsdómi. Gjafsóknarkostnaður hans, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, Erlings Daða Emilssonar hdl., sem þykir að teknu tilliti til virðisaukaskatts hæfilega ákveðin 1.365.000 kr., greiðist úr ríkissjóði.
Ingiríður Lúðvíksdóttir, settur héraðsdómari, kveður upp þennan dóm.
DÓMSORÐ:
Stefndi, Sjóvá-Almennar tryggingar hf., er að svo stöddu sýkn af kröfum stefnanda, A.
Málskostnaður milli aðila fellur niður.
Gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þ.m.t. þóknun lögmanns hans, Erlings Daða Emilssonar hdl., 1.365.000 krónur.