Mál nr. 735/2015
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Greta Baldursdóttir og Benedikt Bogason og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 27. október 2015 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 29. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 27. október 2015 þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til þriðjudagsins 10. nóvember 2015 klukkan 16 og einangrun meðan á því stendur. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 27. október 2015.
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur í dag krafist þess að kærði, X, kt. [...], verði áfram gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til þriðjudagsins 10. nóvember nk., kl. 16.00. Þá er þess krafist að kærða verði gert að sæta einangrun meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.
Í greinargerð lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu segir að lögreglan hafi nú til rannsóknar stórfellt fíkniefnalagabrot er varði innflutning á sterkum fíkniefnum hingað til lands.
Hinn 22. september sl. hafi meðkærði Y komið til landsins ásamt erlendri konu með ferjunni [...] og á bifreiðinni [...]. Lögreglan hafi haft eftirlit með bifreiðinni þar sem henni hafi verið ekið til Reykjavíkur og þaðan til Keflavíkur á tímabilinu 22.-25. september. Föstudaginn 25. september hafi meðkærði Y farið með flugi frá Íslandi, en skilið bifreiðina eftir á bifreiðastæði við Keflavíkurflugvöll. Meðkærði Y hafi komið aftur til landsins 28. september og sótt bifreiðina. Kærði X hafi einnig komið með flugi til landsins þann sama dag og hafi þeir ekið hvor á sinni bifreið sem leið liggur að gistiheimili við [...] í [...]. Þar hafi kærði hitt meðkærða Y og hafi þeir báðir verið handteknir af lögreglu skömmu eftir komu þeirra á gistiheimilið. Bifreiðin sem meðkærði Y ók hafi verið haldlögð af lögreglu og við leit í henni hafi fundist mikið magn af sterkum fíkniefnum, en efnin hafi verið vel falin í bifreiðinni.
Alls hafi fjórir einstaklingar verið handteknir vegna málsins og sæti þeir allir gæsluvarðhaldi í þágu rannsóknar þess. Kærði X hafi í fyrstu neitað sök við skýrslutökur hjá lögreglu, en hafi nú játað að hafa tekið þátt í að flytja inn áðurgreinda bifreið, en án þess að vita að í henni væru falin fíkniefni. Kærði X hafi lýst fyrir lögreglu hvernig staðið hafi verið að skipulagningu innflutnings bifreiðarinnar og að tveir [...] hafi komið að þeirri skipulagningu. Þá hafi hann greint frá því að hann hefði áður tekið þátt í sambærilegum innflutningi.
Kærði X hafi sætt gæsluvarðhaldi í þágu rannsóknar málsins frá 29. september sl., sbr. úrskurði Héraðsdóms Reykjaness málum nr. R-[...]/2015, R-[...]/2015, sem staðfestur hafi verið með dómi Hæstaréttar í máli nr. [...]/2015 og R-[...]2015, sem einnig hafi verið með dómi Hæstaréttar í máli nr. [...]/2015.
Lögreglan vinni nú að málinu í samstarfi við [...] yfirvöld og leiti lögreglan nú að ætluðum samverkamönnum kærða í [...]. Þá sé einnig unnið að því að afla gagna erlendis frá. Nauðsynlegt sé á þessu stigi máls að kærði sæti áfram gæsluvarðhaldi svo hægt sé að koma í veg fyrir að kærði geti sett sig í samband við ætlaða samverkamenn sína eða þeir setji sig í samband við hann. Þá geti kærði einnig komið undan sönnunargögnum sem lögreglan hafi ekki lagt hald á nú þegar. Þyki þannig brýnt að vernda rannsóknarhagmuni á þessu stigi málsins.
Með vísan til framangreinds, framlagðra gagna og a-liðar 1. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 og b-liðar 1. mgr. 99. gr., sbr. 2. mgr. 98. gr. sömu laga, sé þess krafist að krafan nái fram að ganga eins og hún sé sett fram.
Af gögnum málsins verður ráðið að kærði sé undir rökstuddum grun um aðild að innflutningi á miklu magni af hættulegum fíkniefnum hingað til lands og þar með gerst brotlegur við 2. mgr. 173. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Slíkt brot getur varðað allt að 12 ára fangelsi. Rannsókn málsins er vel á veg komin, en eftir er þó að rannsaka frekar þátt ætlaðra samverkamanna kærða í brotinu, en upplýsingar um þá hafa komið fram á síðari stigum rannsóknarinnar. Er uppi rökstuddur grunur um aðild þeirra að brotinu. Um er að ræða [...] ríkisborgara og vinnur lögregla að rannsókn á þætti þeirra í samstarfi við [...] yfirvöld. Með bréfum dagsettum 2., 15. og 21. október sl. óskaði lögregla eftir aðstoð [...] yfirvalda við öflun sönnunargagna þar í landi, sem og handtöku fjögurra nafngreindra einstaklinga, tveggja sakborninga og tveggja vitna, í því skyni að færa þá til yfirheyrslu og gera húsleit á heimili sakborninganna. Hinn 22. október sl. barst svar frá [...] yfirvöldum við fyrsta bréfinu þar sem tilkynnt er að beiðnin hafi verið tekin til afgreiðslu.
Hætta þykir á að kærði muni torvelda rannsókn málsins með því að hafa áhrif á ætlaða samverkamenn sína og vitni í [...] fari hann frjáls ferða sinna. Er því fullnægt skilyrðum a-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 til að fallast megi á kröfu sóknaraðila um að kærða verði gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi.
Kærði hefur sætt einangrun í gæsluvarðhaldinu frá 29. september sl. eða í fjórar vikur. Til verndar rannsóknarhagsmunum þykir brýnt að skýrslur verði teknar af ætluðum samverkamönnum og vitnum í [...] áður en einangrun kærða verður aflétt. Með heimild í 2. mgr. 98. gr. laga nr. 88/2008 er því fallist á að kærði sæti enn um sinn einangrun í gæsluvarðhaldinu, en eins og áður greinir getur brot það sem kærði er sakaður um varðað meira en 10 ára fangelsi.
Með vísan til framangreinds er fallist á kröfu sóknaraðila um að kærða verði gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi og einangrun eins og krafist er og nánar greinir í úrskurðarorði.
Úrskurð þennan kveður upp Ragnheiður Bragadóttir héraðsdómari.
Úrskurðarorð:
Kærði, X, skal sæta gæsluvarðhaldi allt til þriðjudagsins 10. nóvember 2015, kl. 16.00.
Kærði sæti einangrun meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.