- Kærumál
- Kröfugerð
- Frávísun frá héraðsdómi
|
Þriðjudaginn 3 nóvember 2009. |
Nr. 623/2009. |
Lögreglustjórinn á Suðurnesjum(Alda Hrönn Jóhannsdóttir fulltrúi) gegn X (enginn) |
Kærumál. Kröfugerð. Frávísun máls frá héraðsdómi.
Hæstiréttur vísaði málinu frá héraðsdómi þar sem krafa L í héraði uppfyllti ekki formkröfur 1. mgr. 104. gr. laga nr. 88/2008.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Jón Steinar Gunnlaugsson og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 29. október 2009, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 26. október 2009, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að nánar tilgreindum fjármálastofnunum yrði með úrskurði gert skylt að láta sóknaraðila í té allar upplýsingar um bankareikninga sem skráðir væru á fyrirtæki varnaraðila, Y ehf., þar með taldar upplýsingar um innlagnir og úttektir, gjaldeyrisviðskipti og öll skjöl tengd þeim færslum, á tímabilinu frá 1. október 2007 til uppkvaðningar úrskurðarins. Þá var þess jafnframt krafist að fjármálastofnunum þessum yrði gert skylt að upplýsa sóknaraðila hvort varnaraðili færi með prókúru fyrir önnur fyrirtæki en það sem að framan greinir.
Kæruheimild er í g. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.
Í 103. gr. laga nr. 88/2008 segir að lögreglustjóri eða ákærandi skuli, þegar hann telji þörf á atbeina dómara til rannsóknaraðgerðar samkvæmt 1. mgr. 102. gr., leggja skriflega og rökstudda kröfu um hana fyrir héraðsdóm. Þar skuli þess meðal annars getið hvort sá sem hana geri krefjist þess að hún sæti meðferð fyrir dómi án þess að sakborningur eða annar sá sem hún beinist að verði kvaddur á dómþing, sbr. 1. mgr. 104. gr. Í síðastnefndu ákvæði kemur fram að sé þess beiðst, að krafa um rannsóknaraðgerð hljóti meðferð fyrir dómi án þess að sakborningur eða annar sá sem hún beinist að verði kvaddur á dómþing, skuli að jafnaði ekki verða við þeirri beiðni nema dómari telji það nægilega rökstutt að vitneskja um aðgerðina fyrir fram hjá sakborningi eða þeim sem hún á að beinast að geti spillt fyrir rannsókn.
Í erindi sóknaraðila til héraðsdóms var þess beiðst að krafan yrði tekin til meðferðar án þess að sakborningur eða annar sá sem hún beinist að yrði kvaddur á dómþing. Þar var ekki að finna rökstuðning fyrir þeirri ósk svo sem áskilið er 1. mgr. 104. gr. laga nr. 88/2008. Skorti þannig á að erindið uppfyllti skilyrði laga að þessu leyti. Verður málinu því vísað frá héraðsdómi.
Dómsorð:
Máli þessu er vísað frá héraðsdómi.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 26. október 2009.
Lögreglustjórinn á Suðurnesjum hefur í dag krafist þess að Héraðsdómur Reykjaness úrskurði að BYR-sparisjóði, kt. 610269-2229, Borgartúni 18, Reykjavík, Nýja Glitni hf., 491008-0160, Kirkjusandi, Reykjavík, NBI hf., kt. 471008-0280, Austurstræti 11, Reykjavík, MP fjárfestingabanka, kt.540599-2469, Skipholti 50d, Reykjavík, Nýja Kaupþing banka hf., kt. 581008-0150, Borgartúni 19, Reykjavík og Sparisjóðabanka Íslands hf., 681086-1379, Rauðarárstíg 27, Reykjavík, verði með úrskurði gert skylt að láta lögreglustjóranum á Suðurnesjum í té allar upplýsingar um bankareikninga sem skráðir eru á fyrirtæki það sem X, kt. [...], er skráður fyrir, Y ehf., kt. [...], þar með talið upplýsingar um innlagnir og úttektir, gjaldeyrisviðskipti og öll skjöl tengd þeim færslum, á tímabili frá 1. október 2007 til uppkvaðningar úrskurðarins. Þá er þess jafnframt krafist að framangreindum bönkum verði gert skylt að upplýsa lögreglustjóra hvort X sé með prókúru á önnur fyrirtæki en að ofan greinir.
Í greinargerð lögreglustjórans á Suðurnesjum segir að skömmu fyrir miðnætti 10. október sl. hafi verið óskað eftir aðstoð lögreglu um borð í flugvél Iceland Express sem hafi verið að koma frá Varsjá, Póllandi, vegna farþega sem hefði verið mjög æstur og ógnandi um borð í vélinni. Umræddur farþegi hafi reynst vera litháísk kona, sem kvaðst heita Ieva Grisiúte og hafi hún framvísað „breytifölsuðu“ nafnskírteini því til staðfestingar. Hafi hún verið yfirbuguð af flugliðum og eftir lendingu verið flutt á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja. Athygli lögreglu hafi vakið að þrír Litháar hafi verið í Flugstöð Leifs Eiríkssonar til að taka á móti konunni, en jafnframt hafi þeir spurst fyrir um hana á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja svo og á lögreglustöðinni á Hringbraut, Keflavík. Eftir að konan hafi verið flutt á lögreglustöðina á Hverfisgötu, Reykjavík 11. október sl. hafi mennirnir verið þar fyrir utan og verið að grennslast fyrir um hana, en hún hafi virst vera mjög óttaslegin við mennina. Hafi hún því fengið að gista í fangahúsi lögreglu að eigin ósk þar til unnt væri að fá far fyrir hana úr landi, en hún hafi eigi haft fjármuni meðferðis.
Þann 12. október hafi verið rætt við konuna með milligöngu fagaðila en lögregla hafði þá rökstuddan grun til að ætla að hún kynni að vera ætlað fórnarlamb mansals. Konan hafi virst vera mjög illa áttuð og hafi ekki vitað hvar í heiminum Ísland væri. Hún hafi borið um það að hafa komið hingað til lands til að stunda vinnu sem henni hafi verið úthlutað. Að kvöldi þess 12. október sl. hafi konan yfirgefið þann stað sem lögreglan hafði úthlutað henni og hafi ekkert spurst til hennar fyrr en fimmtudagskvöldið 15. október sl. en þann dag hafi hún verið skráð inn á hótel sem annar maður hafi greitt fyrir hana. Þann 20. október sl. hafi kærði verið handtekinn ásamt tveimur öðrum mönnum, grunaður um aðild að ætluðu mansali auk annarrar skipulagðrar glæpastarfsemi. Kærði hafi verið úrskurðaður í gæsluvarðhald þann 21. október sl. en látinn laus daginn eftir, þann 22. október sl. Þá hafi lögreglan m.a. rökstuddan grun til að ætla að kærði kunni að standa að sölu kvenna í vændi hér á Íslandi og taki greiðslu fyrir. Þá telji lögreglustjóri rökstuddan grun til að ætla að kærði kunni að hafa tengst peningaþvætti í sambandi við hina ætluðu skipulögðu glæpastarfsemi sem nú sé til rannsóknar í gegnum fyrirtæki sín.
Rannsókn máls þessa sé í fullum gangi. Málið hafi orðið sífellt umfangsmeira og virst teygja anga sína víða og telji lögreglan að rökstuddur grunur sé á að um sé að ræða verulega umfangsmikla skipulagða glæpastarfsemi. Enn sé verið að rannsaka aðdraganda að ferð konunnar hingað til lands, bakgrunn og forsögu hennar og tengsl hennar við hugsanlega aðila sem stunda mansal á Íslandi og eða erlendis auk annarra atriða. Þá telur lögregla rökstuddan grun til að ætla að hið ætlaða mansal sé hluti af mun stærri og umfangsmeiri glæpastarfsemi sem sé skipulögð. Sú háttsemi sem kærða hafi verið gefið að sök telur lögreglustjóri að kunni einkum að varða við ákvæði 227. gr. a, 244. gr. og 248. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/ 1940 en ætlað brot gegn því ákvæði geti varðað fangelsisrefsingu, allt að 8 árum. Miklu skipti fyrir áframhaldandi rannsókn málsins að fengin sé heimild til rannsóknaraðgerðar í samræmi við kröfu svo unnt sé að upplýsa málið og finna út hvort og hvernig kærði tengist hinni ætluðu skipulögðu glæpastarfsemi eins og rökstuddur grunur er til að ætla og þá við hverja kærði hafi verið í tengslum við vegna þess. Þá telur lögreglustjóri jafnframt að ríkir almanna- og einkahagsmunir krefjist þess að mál þetta upplýsist.
Með vísan til framangreinds, framlagðra gagna og 58. gr. laga um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002 sé þess krafist að krafan nái fram að ganga.
Eins og fram kemur í greinargerð lögreglustjóra var kærði úrskurðaður í gæsluvarðhald hinn 21. október sl. í héraðsdómi vegna gruns um aðild að ætluðu mansali auk annarrar skipulagðrar glæpastarfsemi. Þessi úrskurður var felldur úr gildi með dómi Hæstaréttar hinn 23. október sl., samanber hæstaréttarmál nr. 607/2009, en samkvæmt dómi Hæstaréttar þótti lögreglustjórinn á Suðurnesjum ekki hafa sýnt fram á með fullnægjandi hætti að rökstuddur grunur beindist að varnaraðila um brot gegn þeim ákvæðum almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sem að ofan greinir. Þá yrði ekki heldur ráðið af gögnum málsins að næg stoð væri fyrir slíkum grun.
Engin ný gögn hafa verið lögð fram í málinu eftir að framangreindur dómur Hæstaréttar gekk. Með vísan til framangreinds hefur ekki verið sýnt fram á að rökstuddur grunur beinist að kærða um brot gegn þeim ákvæðum almennra hegningarlaga nr. 19/1940 sem að framan greinir. Eru því ekki skilyrði til að taka kröfu lögreglustjóra til greina og er henni því hafnað.
Úrskurð þennan kveður upp Ragnheiður Bragadóttir héraðsdómari.
Úrskurðarorð:
Framangreindri kröfu lögreglustjórans á Suðurnesjum er hafnað.