Print

Mál nr. 682/2009

Lykilorð
  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008

Þriðjudaginn 1

 

Þriðjudaginn 1. desember 2009.

Nr. 682/2009.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu

(Jón H. B. Snorrason saksóknari)

gegn

X

(Jón Þór Ólason hdl.)

 

Kærumál. Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.

Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi gert að sæta gæsluvarðhaldi, á grundvelli c. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, var staðfestur.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Jón Steinar Gunnlaugsson og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.  

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 28. nóvember 2009, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 30. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 28. nóvember 2009, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 18. desember 2009 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.  Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Við fyrirtöku málsins í héraði kvaðst varnaraðili vera atvinnulaus og í neyslu fíkniefna, sem hann fjármagni með afbrotum. Fallist er á með héraðsdómi að ætla megi að varnaraðili muni halda áfram afbrotum á meðan máli hans er ekki lokið. Eru því uppfyllt skilyrði c. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 fyrir því að varnaraðili sæti áfram gæsluvarðhaldi. Verður hinn kærði úrskurður staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 28. nóvember 2009.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess í dag fyrir Héraðsdómi Reykjaness að X, kt. [...], verði með úrskurði gert að sæta gæsluvarðhaldi uns dómur gengur í máli hans, þó eigi lengur en til föstudagsins 18. desember nk. kl. 16:00.

Í þinghaldi í dag mótmælti ákærði gæsluvarhaldskröfunni og til vara að yrði á hana fallist þá verði gæsluvarðhaldinu markaður skemmri tími.

Í greinargerð lögreglustjóra segir að í morgun um kl. 11:22 hafi lögreglunni á Suðurnesjum borist tilkynning um innbrot í vinnuskúr við Víðidal í Njarðvík.  Hafi tilkynnandinn skýrt frá því að brotist hafi verið inn í skúrinn á tímabilinu frá kl. 20:30 í gærkvöld til kl. 11:00 í morgun er hann mætti til vinnu.  Úr skúrnum hafi verið stolið miklu magni af verkfærum og vinnufatnaði merktum IB rafverkstæði (mál nr. 008-2009-13030). Í nótt um kl. 04:42 var kærði handtekinn, þar sem hann ók bifreið sinni [...] norður Sólvallagötu í Keflavík, grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna.  Var bifreiðin flutt á lögreglustöð, þar sem lögreglumenn urðu þess áskynja að í bifreiðinni voru kuldagallar merktir IB rafverkstæði (mál nr. 008-2009-13019). Í yfirheyrslu hjá lögreglu játaði kærði innbrotið í vinnuskúrinn, jafnframt sem hann vísaði lögreglu á þýfið, þar sem það var geymt heima hjá honum að [...]. Þá barst lögreglu tilkynning í dag um innbrot í bifreiðina [...], síðastliðna nótt,  þar sem hún stóð við Reynidal í Njarðvík.  Úr bifreiðinni var stolið ýmsum munum.  Þýfi úr þessu innbroti fannst í bifreið kærða nú fyrr í dag. 

Um síðastliðna helgi viðurkenndi kærði í yfirheyrslum hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu að hafa aðfaranótt sunnudagsins 22. nóvember brotist í auðgunarskyni inn í bifreiðaverkstæði við Vesturvör 24 í Kópavogi og tekið þaðan fartölvu og veggklukku og jafnframt tekið í heimildarleysi til eigin nota bifreiðina [...], sem stóð fyrir utan verkstæðið og ekið henni að Bogahlíð 10 í Reykjavík (mál nr. 007-2009-73516). Þá kvaðst kærði jafnframt hafa sömu nótt brotist í auðgunarskyni inn í Raftækjavinnustofu Einars Stefánssonar að Kársnesbraut 106 í Reykjavík, þar sem stolið var tveimur hrærivélum, brauðvél, kaffikönnum verkfæratösku, dekkjafelgum og bíllyklum (mál nr. 007-2009-73514).

Að kvöldi mánudagsins 9. nóvember 2009, hafi lögregla haft afskipti af kærða, þar sem hann var farþegi í bifreiðinni [...], við Vatnagarða 20 í Reykjavík.  Við leit lögreglu fundust í fórum kærða þýfi sem rakið hefur verið til innbrots í íbúðarhúsnæði að [...] 7. nóvember 2009 (mál nr. 007-2009-69478) og innbrots í Ármúlaskóla aðfaranótt 9. nóvember sl. (mál nr. 007-2009-70088). 

Föstudaginn 30. október 2009 barst lögreglu tilkynning um þjófnað og innbrot í bílskúr við [...], þar sem búið var að taka mikið magn af munum og flytja þá inn í bifreiðina [...], þar sem hún stóð fyrir utan bílskúrinn.  Er lögreglan kom á vettvang var kærði inn í bifreiðinni í annarlegu ástandi, íklæddur veiðifatnaði og stígvélum sem voru úr bílskúrnum.  Við leit á kærða fundust, skotfæri, áfengispeli, lyf, lyklar og hnífar, allt munir sem voru teknir úr bílskúrnum og tilheyrðu tilkynnanda.   Við yfirheyrslu hjá lögreglu gaf kærði þá skýringu að hann hafi verið að leita skjóls í bifreiðinni  (mál nr. 007-2009-67818).

Þriðjudaginn 29. september 2009 barst lögreglu tilkynning um þjófnað á utanborðsmótor, að verðmæti um 450 þúsund króna, bensíntanki og fylgihlutum úr bát sem stóð við [...].  Þann 1. október sl. hafði lögregla afskipti af kærða þar sem hann ók bifreiðinni [...] við Hringbraut í Reykjavík.  Við leit lögreglu í bifreiðinni fannst ofangreindur utanborðsmótor.  Við yfirheyrslu hjá lögreglu gat kærði ekki útskýrt með hvaða hætti hann hafi fengið mótorinn. Er kærði hér sterklega grunaður um hylmingu (mál 007-2009-59954)

Miðvikudaginn 19. ágúst sl. barst lögreglunni tilkynning um aðila, sem framvísaði fölsuðum lyfseðli í verslun Lyf og heilsu að Háaleitisbraut 68 í Reykjavík.  Lögreglumenn þekktu kærða af myndbandsupptökum úr versluninni  (mál nr. 007-2009-50517).

Auk ofangreindra brota sæti kærði ákærumeðferð fyrir héraðsdómi Reykjaness þar sem honum er gefið að sök fjölmörg afbrot, s.s. þjófnaði, stórfellda líkamsárás, fíkniefnabrot og umferðarlagabrot.

Kærði á að baki nokkurn sakarferil.  Hann hafi frá árinu 1988 hlotið átta fangelsisdóma, einkum fyrir auðgunar og fíkniefnalagabrot.  Hann hlaut 2 mánaða dóm skilorðsbundinn til tveggja ára 17. apríl 2007 og 30 daga fangelsi, skilorðsbundið til tveggja ára, 4. janúar 2008.

Ljóst sé að verði kærði sakfelldur fyrir ofangreind brot hefur hann rofið almenn skilorð þessara dóma. Kærði sé atvinnulaus og í mikilli neyslu fíkniefna.  Ætla megi að hann fjármagni fíkn sína með afbrotum, sem virðast hafa færst mjög í aukanna á allra síðustu dögum. Það er mat lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu að skilyrðum c. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 séu uppfyllt, enda er kærði undir rökstuddum grun um að hafa framið afbrot sem fangelsisrefsing er lögð við og þá verður að ætla, í ljósi brotaferils hans undanfarið, að yfirgnæfandi líkur séu til þess að hann haldi áfram afbrotum gangi hann frjáls ferða sinna. Það sé því afar brýnt að lögregla fái nú svigrúm til þess að ljúka ofangreindum málum bæði hjá lögreglu og fyrir héraðsdómi.

Loks segir að með vísan til framangreinds, framlagðra gagna og c.-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála sé þess krafist að krafan nái fram að ganga.

Þegar gæsluvarðhaldskrafan var tekin fyrir í dóminum sagðist kærði aðspurður vera á götunni í Reykjavík. Hann kvaðst vera atvinnulaus og hafa stundað þjófnaðarbrot vegna fíkniefnaneyslu sinnar.

Niðurstaða:

     Með vísan til þess sem að framan er rakið úr greinargerð lögreglustjóra, og ennfremur með hliðsjón af málsgögnum og áður tilvitnuðum svörum kærða fyrir dómi þykir ljóst að fram sé kominn rökstuddur grunur um að ætla megi að hann muni halda áfram afbrotum meðan málum hans er ekki lokið. Auk þessa er sýnt að rökstuddur grunur leikur á að kærði hafi rofið skilorð sem honum voru sett í dómi frá 17. apríl 2007 og 4. janúar 2008. Þegar litið er til þess sem að framan er rakið telur dómari að uppfyllt séu skilyrði c-liðar 1. mgr. 95. gr. 88/2008 til þess að verða við kröfu lögreglustjóra um gæsluvarðhald. Er krafan því tekin til greina eins og hún er fram sett og nánar greinir í úrskurðarorði.

     Sveinn Sigurkarlsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

ÚRSKURÐARORÐ:

    Ákærði, X, kt. [...],[...] og nú án heimilis skal sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 18. desember 2009 kl. 16.00.