Print

Mál nr. 630/2014

Lykilorð
  • Kærumál
  • Frávísun frá héraðsdómi að hluta

                                     

Miðvikudaginn 1. október 2014.

Nr. 630/2014.

 

Ákæruvaldið

(Sigríður J. Friðjónsdóttir ríkissaksóknari)

gegn

X

(Trausti Ágúst Hermannsson hdl.)

 

Kærumál. Frávísun héraðsdóms að hluta felld úr gildi. 

Kært var ákvæði í dómi héraðsdóms um að vísa frá dómi hluta ákæru á hendur X á þeim grundvelli að ekki væri fullnægt skilyrðum c. liðar 1. mgr. 152. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Í hinum umdeilda hluta ákærunnar var X gefið að sök kynferðisbrot og brot gegn barnaverndarlögum með því að hafa ítrekað á nánar tilgreindu tímabili viðhaft kynferðislegt tal með smáskilaboðum í samskiptum við brotaþola. Í dómi Hæstaréttar kom fram að uppfylltar væru þær kröfur sem gerðar yrðu til efnis ákæru og var því lagt fyrir héraðsdóm að taka sakarefnið til efnisúrlausnar.

 

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson og Benedikt Bogason og Guðrún Erlendsdóttir settur hæstaréttardómari.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 18. september 2014 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 25. sama mánaðar. Kært er ákvæði dóms Héraðsdóms Suðurlands 15. september 2014 um að vísa frá dómi að hluta ákæru ríkissaksóknara 6. janúar 2013 á hendur varnaraðila. Kæruheimild er í a. lið 2. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Sóknaraðili krefst þess að frávísun nánar tilgreindra sakargifta í ákærunni verði felld úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka þær til efnismeðferðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar á framangreindri niðurstöðu héraðsdóms um frávísun máls þessa að hluta.

Mál þetta var höfðað á hendur varnaraðila með ákæru ríkissaksóknara 6. janúar 2013. Þar er varnaraðila gefið að sök kynferðisbrot og brot gegn barnaverndarlögum með því að hafa ítrekað á tímabilinu 24. til 26. nóvember 2011 viðhaft kynferðislegt tal í samskiptum við A, fædda [...], smáskilaboðum úr símanúmerinu [...] í símanúmer A og í eitt skipti á tímabilinu falast eftir því að hafa samræði við hana.  Er þessi háttsemi aðallega talin varða við 199. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og 2. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002, en til vara við 209. gr. almennra hegningarlaga og 3. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga.

Með dómi Héraðsdóms Suðurlands 15. september 2014 var varnaraðili sakfelldur samkvæmt ákæru fyrir að hafa falast eftir að hafa samræði við brotaþola og sú háttsemi heimfærð undir 209. gr. almennra hegningarlaga og 3. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga, en að öðru leyti var ákærunni vísað sjálfkrafa frá dómi.

         Samkvæmt c. lið 152. gr. laga nr. 88/2008 skal meðal annars greina í ákæru hver sú háttsemi er sem ákært er út af. Af þessu leiðir að verknaðarlýsing í ákæru verður að vera það greinargóð og skýr að ákærði geti ráðið af henni hvaða refsiverð háttsemi honum er gefin að sök og hvaða lagaákvæði hann er talinn hafa brotið svo að honum sé fært að taka afstöðu til sakargifta og halda uppi vörnum gegn þeim. Verður ákæra að leggja fullnægjandi grundvöll að máli þannig að fella megi dóm á það samkvæmt því, sem í henni segir, enda verður ákærði ekki dæmdur fyrir aðra hegðun en þá sem í ákæru greinir, sbr. 1. mgr. 180. gr. laga nr. 88/2008.

          Varnaraðili hefur játað að hafa sent þau smáskilaboð sem hér um ræðir. Að því gættu og með hliðsjón af dómi Hæstaréttar 27. október 2005 í máli nr. 152/2005 verður að telja ákæruna nægilega skýra til að varnaraðili geti ráðið af henni hvaða refsiverð háttsemi honum er þar gefin að sök og hvaða lagaákvæði hann er talinn hafa brotið þannig að honum sé fært að taka afstöðu til sakargifta og halda uppi vörnum gegn þeim. Samkvæmt því er frávísun héraðsdóms á framangreindum sakargiftum felld úr gildi og lagt fyrir hann að taka þær til efnismeðferðar.

         Það athugast að rétt hefði verið að láta niðurstöðu héraðsdóms um frávísun málsins að hluta koma fram í dómsorði, sbr. 3. mgr. 183. gr. laga nr. 88/2008.

Dómsorð:

Frávísun Héraðsdóms Suðurlands 15. september 2014 á sakargiftum í ákæru ríkissaksóknara 6. janúar 2013 á hendur varnaraðila er felld úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka þær til efnismeðferðar.

 

Dómur Héraðsdóms Suðurlands 15. september 2014.

                Mál þetta er höfðað með ákæru ríkissaksóknara dagsettri 6. janúar 2013 (svo) á hendur ákærða, X, kt. [...], til heimilis að [...], [...].

„fyrir kynferðisbrot, og brot gegn barnaverndarlögum, með því að hafa ítrekað á tímabilinu 24. til 26. nóvember 2011 viðhaft kynferðislegt tal í samskiptum við A fædda [...], smáskilaboðum úr símanúmerinu [...] í símanúmer A og í eitt skipti á tímabilinu falast eftir því að hafa samræði við A.

Telst þetta aðallega varða við 199. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og 3. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002, en til vara við 209. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og 3. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.

Einkaréttarkrafa:

Af hálfu B, kt. [...], sem gerir kröfu fyrir hönd ólögráða dóttur sína, (svo) A, kt. [...], er þess krafist að ákærði verði dæmdur til að greiða brotaþola kr. 900.000 í miskabætur með vöxtum samkvæmt 8. gr., sbr. 4. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 frá 25. nóvember 2011 til þess dags er mánuður er liðinn frá því að bótakrafa þessi er kynnt sakborningi, en með dráttarvöxtum frá þeim degi skv. 9. gr., sbr. 6. gr. sömu laga til greiðsludags. Auk þess er gerð krafa um þóknun vegna réttargæslu úr hendi sakbornings samkvæmt mati réttarins eða samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi að viðbættum virðisaukaskatti á réttargæsluþóknun.“

        Við upphaf aðalmeðferðar leiðrétti sækjandi ákæru þannig að útgáfuár hennar á að vera árið 2014 en ekki 2013 eins og misritast hefði.

        Ákærði krefst sýknu af öllum kröfum ákæruvaldsins og þá krefst hann þess aðallega að bótakröfu verði vísað frá dómi en til vara að hún verði lækkuð. Þá er krafist málsvarnarlauna sem greiðist úr ríkissjóði.

        Mál þetta var upphaflega dómtekið þann 7. maí sl. en endurupptekið og endurflutt þann 11. september sl..

Málavextir.

                Í bréfi fjölskyldu- og fræðslusviðs [...] til lögreglu dagsettu þann 27. janúar 2012 kemur fram að barnaverndarnefnd hafi borist tilkynning þann 23. janúar sama ár um ætluð kynferðisbrot/blygðunarsemisbrot af hálfu ákærða gagnvart A, kt. [...]. Segir í bréfinu að tilkynnandi tengist barninu í gegnum tómstundastarf en stúlkan hafi greint viðkomandi frá málinu. Nefndin hafi þann 26. janúar sama ár átt viðtal við foreldra brotaþola og hafi þar komið fram að brotið hafi falist í samskiptum ákærða við brotaþola með smáskilaboðun í gegnum farsíma. Hafi foreldrar brotaþola afhent lögreglu gögnin og segir í bréfinu að brotið hafi haft mikil áhrif á brotaþola, m.a. þori hún ekki lengur ein út úr húsi.

                Lögreglan lagði hald á síma- og tölvugögn og í útskrift af smáskilaboðum sem óumdeilt að fóru milli ákærða og brotaþola kemur fram að dagana 25. og 26. nóvember 2011 virðist ákærði lýsa því hversu hrifinn hann er af brotaþola. Þá virðist ákærði bjóðast til þess að kenna brotaþola að fá fullnægingu og í skilaboðum sem send voru þann 25. nóvember 2011 kl. 01:35:32 er eftirfarandi texti: „Hehe, ok. Langar tig ad rida mer? Tarft ekki ad svara frekar en tu vilt.“

                Brotaþoli var yfirheyrð hjá lögreglu þann 31. janúar 2012. Þar lýsti hún ákærða sem fjölskylduvini sem alltaf hafi verið góður við hana og talað fallega til hennar. Síðan hafi hann sumarið 2010 farið að tala um að hann bæri tilfinningar til hennar. Hafi hann talað um að honum þætti geðveikt vænt um hana og hafi henni þá strax farið að líða mjög illa. Ákærði hafi reglulega haft samband við brotaþola, hann hafi boðið henni heim til sín ásamt vinkonu hennar til þess að horfa á kvikmynd og hefði hann alltaf verið að horfa á hana. Hann hafi einnig hringt í hana og rætt við hana um framtíðina og hafi henni liðið mjög illa eftir það samtal.

Framburður ákærða og vitna fyrir dómi.

                Ákærði skýrði svo frá fyrir dómi að hann hafi kynnst móður brotaþola þegar brotaþoli var fimm eða sex ára gömul. Hann kvað sms skilaboðin frá 2011 vera einu samskiptin af því tagi sem farið hefði milli hans og brotaþola, en þau hefðu staðið í tvo til þrjá daga. Hann kvað þau hafa spjallað um lífið og tilveruna og hvernig henni hafi liðið. Hann kvað þau ekki mikið hafa rætt um kynferðislega hluti. Ákærði kannaðist við að haft þau samskipti við brotaþola sem greinir í gögnum málsins og þá kannaðist hann við að hluti af samskiptunum hafi verið á kynferðislegum nótum. Ákærði kvaðst á þeim tíma hafa vitað um aldur brotaþola. Ákærða minnti að brotaþoli hafi byrjað á samskiptunum en hann kvaðst fyrst hafa haldið að móðir hennar væri að grínast í honum. Ákærði kvaðst hafa vitað af því að brotaþoli hafi átt í kynferðissambandi við einhvern strák og fannst honum að hann þyrfti að leiðbeina henni í þeim efnum, aðallega í orðum en ekki í verki. Hann taldi að hann hefði ekki veitt henni ráðleggingar óumbeðinn. Ákærði kannaðist ekki við að hafa falast eftir samræði við brotaþola. Borin voru undir ákærða þau samskipti sem fóru þeim á milli og kvað hann upphafið það að brotaþoli hafi einhvern tíma í samtölum milli þeirra sagt að hún hafi viljað giftast honum þegar  hún yrði stór. Hann kvaðst ekkert mark hafa tekið á því og engan vilja haft til að vera með brotaþola. Borin voru undir ákærða skilaboð þar sem hann virðist spyrja brotaþola hvort hana langi til þess að ríða honum og kvað hann það af og frá að tilgangur hans hafi verið að hafa samræði við barn en hann kannaðist við að hafa sent brotaþola þessi skilaboð. Hafi aðallega verið um hugsunarleysi eða forvitni af hans hálfu að ræða. Hann skýrði önnur skilaboð til brotaþola einnig þannig að um mikið hugsunarleysi af hans hálfu hafi verið að ræða og hann neitaði því ekki að skilaboðin væru að hluta til af kynferðislegum toga og hefði frumkvæðið komið frá honum.

                Vitnið A, brotaþoli í máli þessu, skýrði svo frá fyrir dómi að ákærði hafi verið vinur móður hennar og hafi hún þekkt hann lengi. Hún kvaðst ekki hafa haft frumkvæði að því að senda ákærða smáskilaboð. Fyrst hafi þau talað vinalega en allt í einu hafi ákærði farið að tala öðruvísi, um kynlíf og svoleiðis. Hann hafi spurt margra spurninga á þeim nótum að fyrra bragði. Hún kvaðst ekki hafa leitað ráða hjá honum varðandi kynlíf. Hann hafi spurt hana hvort hún vildi ríða honum og einnig hvort hún vildi koma í heimsókn til hans. Hafi hann ætlað að kenna henni að fá fullnægingu. Hún kvað ákærða stundum hafa hringt í hana og í eitt skipti hafi hann rætt við hana á kynferðislegum nótum. Hún kvað sér hafa fundist þetta frekar óþægilegt en ekki vitað hvað væri í gangi og hvernig hún ætti að taka því. Ákærði hafi alltaf verið góður við hana og verið góður vinur hennar og móður hennar og þá kvaðst hún hafa treyst honum. Hún kvaðst ekki hafa haft samskipti við ákærða eftir að mál þetta kom upp. Vitnið kannaðist ekki við að hafa sagt ákærða að hún vildi giftast honum, þvert á móti hefði ákærði sagt móður hennar að hann vildi giftast henni ef hann væri yngri. Hún kvaðst hafa haldið að ákærði væri að grínast en þegar ákærði hafi farið að tala mikið um þetta hafi henni farið að finnast þetta svolítið skrýtið og ekki grín. Hún kvaðst forðast ákærða og vera hrædd um að hann gerði henni eitthvað. Hún kvað að sér hefði brugðið þegar hún fékk þá spurningu frá ákærða hvort hún vildi ríða honum og þá hafi hún byrjað að vera svolítið hrædd. Hún kvaðst hafa skilið þetta þannig að ákærði hafi viljað hafa samfarir við hana. Hún tók fram að engin af þeim skilaboðum sem hún hafi fengið frá ákærða hafi hún litið á sem grín. Borin voru undir brotaþola þau skilaboð sem ákærði sendi henni og tók hún fram að henni liði illa að hlusta á þau. Hún kvaðst ekki hafa átt von á slíkum spurningum frá ákærða og taldi hún augljóst að ákærði hafi verið að reyna að fá hana heim til sín. Brotaþoli kannaðist við að hafa rætt aðeins við ákærða vandræði hennar í sambandi hennar við annan pilt. Brotaþoli kvaðst hafa leitað sér sálfræðiaðstoðar eftir þetta hjá sálfræðingi í Barnahúsi og kvað hún hana hafa hjálpað sér mjög mikið. Þá kvaðst hún nú vera í viðtölum hjá C í barnaverndarnefnd.

                Vitnið B, móðir brotaþola, skýrði svo frá fyrir dómi að brotaþoli hafi sýnt henni skilaboð frá ákærða og kvaðst hún ekki hafa getað lesið allt þar sem henni hafi ekki fundist þetta fallegt og hafi hún fyllst ógeði. Hún kvað ákærða hafa verið góðan vin fjölskyldunnar lengi og kvað hún að henni hafi liðið mjög illa þegar hún sá skilaboðin. Hafi verið ákveðið að leggja fram kæru hjá lögreglunni og í framhaldi af því hafi rannsóknin farið í gang. Hún kvað að brotaþoli hafi orðið mjög hrædd við ákærða og óttaðist að hitta hann og hefði hún farið lítið út úr húsi. Hún kvaðst sjá mun á henni í dag en hún væri enn mjög hrædd.

                Vitnið D skýrði svo frá fyrir dómi að brotaþoli hafi sýnt henni skilaboðin, sem hún hafi sagt stafa frá ákærða, þar sem henni hafi fundist þetta rangt og hafi hún viljað að bestu vinir hennar vissu af þessu. Vitnið kvað skilaboðin hafa verið kynferðisleg og óviðeigandi og ekki gaman að sjá þau. Hún kvað brotaþola hafa sagt sér að ákærði hafi talað um að hann vildi giftast henni. Vitnið vissi ekki um frekari samskipti ákærða við brotaþola á þessum nótum. Hún kvað brotaþola hafa talað um að henni liði illa yfir þessu og væri hrædd.

                Vitnið E skýrði svo frá fyrir dómi að fyrir um tveimur árum hafi hún verið stödd á veitingastað ásamt brotaþola og hafi ákærði og vinur hans komið inn og hafi hann horft á þær í fimm mínútur. Hafi brotaþoli orðið hrædd og sagt henni að ákærði hafi verið að senda henni ógeðsleg perraskilaboð. Hún kvað brotaþola hafa sýnt henni eitthvað af skilaboðunum sem hafi snúist um að hún ætti að koma heim til hans.

                Vitnið F skýrði svo frá fyrir dómi að brotaþoli hafi sýnt honum smáskilaboð frá ákærða sem í fyrstu hafi verið vinaleg en síðan farið að snúast um að fá hana í heimsókn. Þá hafi skilaboðin farið að vera kynferðisleg. Hann kvað brotaþola hafa liðið illa yfir þessum skilaboðum. Hann taldi skilaboðin ekki viðeigandi.

                Vitnið G félagsfræðingur skýrði svo frá fyrir dómi að hún hafi tekið viðtal við foreldra brotaþola þegar mál þetta kom upp og hafi þeim verið mikið brugðið og haft áhyggjur af brotaþola. Hafi þau óskað eftir aðstoð við að leggja fram kæru en búið hafi verið að afhenda lögreglu símagögn. Hún kvaðst hitta brotaþola reglulega þar sem þær ræddu mál þetta, en brotaþoli væri með lágt sjálfsmat og hefði lent í einelti í skóla. Hún kvað mál þetta að hluta skýra stöðu hennar í dag, en hún væri nú einstæð móðir.

                Vitnið H, sérfræðingur í Barnahúsi, skýrði svo frá í símaskýrslu fyrir dómi að brotaþoli hefði sótt sex viðtöl til hennar á árinu 2012, síðast 30. ágúst það ár, samkvæmt beiðni barnaverndar [...]. Brotaþoli hafi tekið virkan þátt í samtalsmeðferð og hafi hún verið dugleg að tjá sig. Félagsleg staða hennar hafi verið bágborin, hún vinafá, sjálfstraustið brotið og þá hefði hún sætt einelti. Hún hafi tjáð sig um samskipti sín við ákærða og lýst honum sem fjölskylduvini sem vildi tala við hana. Samskiptin hafi síðan þróast út í eitthvað sem henni hafi liðið illa með og ekki ráðið við og hafi þetta alltaf gengið lengra og lengra. Hún hafi náð að vinna vel út úr þessu og fengið meðferð við hæfi, eða áfallamiðaða hugræna atferlismeðferð. Henni hafi fundist mjög óþægilegt að sjá ákærða á förnum vegi. Hún kvað ekki hafa verið óskað eftir frekari viðtölum fyrir hana í Barnahúsi.

                Vitnið I lögreglufulltrúi skýrði frá afskiptum sínum af máli þessu fyrir dómi. Ekki er ástæða til að lýsa framburði hans hér.

Niðurstaða.

                Ákærða er í máli þessu gefið að sök kynferðisbrot og brot gegn barnaverndarlögum, með því að hafa ítrekað á tveggja til þriggja daga tímabili í nóvember 2011 viðhaft kynferðislegt tal í samskiptum við brotaþola sem þá var 15 ára gömul. Samskiptin fólust í smáskilaboðum úr símanúmeri ákærða í símanúmer brotaþola og í eitt skipti á tímabilinu er honum gefið að sök af hafa falast eftir því að hafa samræði við brotaþola. Brot ákærða er aðallega talið varða við 199. gr. almennra hegningarlaga og 3. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga, en til vara við 209. gr. almennra  hegningarlaga og 3. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga. Lögð hafa verið fram í máli þessu útskriftir af þeim samskiptum sem fóru á milli ákærða og brotaþola og hefur ákærði kannast við þau en borið að um hugsunarleysi af hans hálfu hafi verið að ræða. Hann neitaði því ekki að skilaboðin væru að hluta til af kynferðislegum toga og hefði frumkvæðið komið frá honum. Þegar borin voru undir ákærða skilaboð þar sem hann virtist spyrja brotaþola hvort hana langi til þess að ríða honum kvað hann það af og frá að tilgangur hans hafi verið að hafa samræði við barn en hann kannaðist við að hafa sent brotaþola þessi skilaboð.

                Í ákæru er ekki tíundað í hverju hið kynferðislega tal sem ákærði á að hafa viðhaft gagnvart brotaþola var fólgið að öðru leyti en því að honum er gefið að sök að hafa í eitt skipti falast eftir samræði við brotaþola. Samkvæmt c-lið 1. mgr. 152. gr. laga nr. 88/2008 skal í ákæru greina svo glöggt sem verða má hver sú háttsemi er sem ákært er út af, hvar og hvenær brotið sé talið framið, heiti þess að lögum og aðra skilgreiningu og loks heimfærslu þess til laga og stjórnvaldsfyrirmæla ef því er að skipta.  Að mati dómsins er ákæran nægilega glögg að því er varðar þá hugmynd ákærða að hafa samræði við brotaþola en hins vegar skortir verulega á að gerð sé nægileg grein fyrir því hvaða ummæli ákærða að öðru leyti voru af kynferðislegum toga. Verður að telja að ákæran sé að þessu leyti ekki í samræmi við framangreind fyrirmæli c-liðar 1. mgr. 152. gr. laganna og verður því ekki hjá því komist að vísa þessum hluta ákærunnar frá dómi. Hins vegar er nægilega sannað með gögnum málsins og framburði ákærða að hann hafi falast eftir því að hafa samræði við brotaþola eins og honum er gefið að sök í ákæru. Ekki verður talið að þessi háttsemi ákærða hafi verið þess eðlis að hún verði talin áreitni í skilningi 199. gr. almennra hegningarlaga en brot ákærða að þessu leyti varðar við 209. gr. laganna og 3. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga. 

                Samkvæmt framlögðu sakavottorði var ákærði dæmdur í 60 daga skilorðsbundið fangelsi og sætti fjögurra mánaða ökuréttarsviptingu árið 2003 fyrir eignaspjöll og ölvun við akstur og árið 2006 var hann sektaður og sviptur ökurétti í tvö ár fyrir ölvunarakstur.

                Brot ákærða var framið í nóvember 2011 og hófst rannsókn málsins í byrjun ársins 2012. Ákæra var hins vegar ekki gefin út fyrr en 6. janúar 2014, eða rúmum tveimur árum eftir að ákærði framdi brot sitt. Þessi dráttur málsins hefur ekki verið skýrður en ákærða verður ekki um hann kennt.

Með hliðsjón af öllu framansögðu, sérstaklega þeim drætti sem orðið hefur á málinu, þykir rétt að fresta ákvörðun um refsingu ákærða og skal hún falla niður að liðnum tveimur árum frá birtingu dómsins haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Brotaþoli rökstyður bótakröfu sína með þeim hætti að um sé að ræða brot sem sakborningur beri ábyrgð á samkvæmt ákvæðum 26. gr. laga nr. 50/1993. Við mat á fjárhæð bótanna beri að líta til þess hversu alvarlegt brotið sé, hvert sakarstig brotamanns sé, hver sé huglæg upplifun brotaþola og hvert sé umfang tjónsins. Brotaþoli hafi verið sérstaklega viðkvæm fyrir kynferðislegu áreiti og hafi brotin valdið henni kvíða, svefntruflunum og miklum áhyggjum. Ákærði hefur með þeirri háttsemi sem hann hefur verið sakfelldur fyrir í máli þessu valdið brotaþola miska sem honum ber að bæta í samræmi við dómaframkvæmd og 26. gr. ofangreindra laga. Þykja bætur til brotaþola, sem nú er orðin lögráða, hæfilega ákveðnar 200.000 krónur og bera þær vexti eins og í dómsorði greinir.

Þá ber með vísan til 218. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála að dæma ákærða til greiðslu helmings alls sakarkostnaðar, þar með talinn útlagðan kostnað samkvæmt yfirliti, 39.225 krónur, málsvarnarlaun skipaðs verjanda hans, Trausta Ágústs Hermannssonar hdl, 500.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti, útlagðan ferðakostnað lögmannsins, 60.500 krónur, þóknun verjanda ákærða á rannsóknarstigi, Helga Bragasonar hdl, 150.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti og þóknun réttargæslumanns brotaþola, Páleyjar Borgþórsdóttur hdl, 700.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti, en helmingur ofangreindra fjárhæða greiðist úr ríkissjóði.

 Hjörtur O. Aðalsteinsson dómstjóri kveður upp dóm þennan.

Dómsorð:

Ákvörðun um refsingu ákærða, X, er frestað og skal hún falla niður að liðnum tveimur árum frá birtingu dómsins haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Ákærði greiði brotaþola, A, kt. [...], 200.000 krónur í miskabætur með vöxtum samkvæmt 8. gr., sbr. 4. gr. laga nr. 38/2001 frá 25. nóvember 2011 til 21. febrúar 2014, en með dráttarvöxtum frá þeim degi skv. 9. gr., sbr. 6. gr. sömu laga til greiðsludags.

Ákærði greiði helming alls sakarkostnaðar, þar með talinn útlagðan kostnað samkvæmt yfirliti, 39.225 krónur, málsvarnarlaun skipaðs verjanda hans, Trausta Ágústs Hermannssonar hdl, 500.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti, útlagðan ferðakostnað lögmannsins, 60.500 krónur, þóknun verjanda ákærða á rannsóknarstigi, Helga Bragasonar hdl, 150.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti og þóknun réttargæslumanns brotaþola, Páleyjar Borgþórsdóttur hdl, 700.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti, en helmingur ofangreindra fjárhæða greiðist úr ríkissjóði.