Print

Mál nr. 111/2013

Lykilorð
  • Kynferðisbrot
  • Börn
  • Skaðabætur

                                     

Fimmtudaginn 23. maí 2013

Nr. 111/2013.

Ákæruvaldið

(Stefanía G. Sæmundsdóttir settur saksóknari)

gegn

Nael H. A. Rajabi

(Sigríður Rut Júlíusdóttir hrl.)

(Guðmundur Ágústsson hrl. réttargæslumaður)

Kynferðisbrot. Börn. Skaðabætur.

N var sakfelldur fyrir tvö kynferðisbrot gegn A, sem þá var 14 ára, annars vegar með því að hafa áreitt hana kynferðislega og kysst hana á muninn og hins vegar að hafa áreitt hana kynferðislega og haft við hana kynferðismök með því að klæða hana úr peysu og strjúka henni með hendi á brjóstum og kynfærum innan klæða og láta hana fróa sér uns hann hafði sáðlát og síðan með því að biðja stúlkuna um að hafa við sig samræði. Var háttsemin talin varða við 1. og 2. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Hins vegar var ekki fallist á með ákæruvaldinu að tengsl N við stúlkuna hefðu verið með þeim hætti sem greindi í 1. mgr. 201. gr. laganna, sbr. 5. mgr. 202. gr. þeirra. Þá var N einnig sakfelldur fyrir kynferðisbrot gegn B, sem þá var 13 ára, með því að hafa í færri en átta skipti áreitt hana kynferðislega með því að kyssa hana tungukossa, strjúka henni með hendi á brjóstum innan og utan klæða, strjúka henni með hendi á kynfærum utan klæða og biðja hana um að hafa við sig samræði eða önnur kynferðismök. Var háttsemin talin varða við 2. mgr. 202. gr. Við ákvörðun refsingar var litið til þess að N hefði nýtt sér yfirburði sína gagnvart stúlkunum í skjóli aldurs og reynslu. Hann hefði á hinn bóginn ekki áður sætt refsingu og þá hefðu orðið tafir á rekstri málsins sem honum yrði ekki um kennt. Með vísan til þessa og 1., 6. og 7. töluliðar 1. mgr. 70. gr. og 77. gr. almennra hegningarlaga var refsing N ákveðin fangelsi í 18 mánuði og honum gert að greiða skaðabætur til A að fjárhæð 1.000.000 krónur og til B að fjárhæð 800.000 krónur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson, Gunnlaugur Claessen, Ingibjörg Benediktsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 18. janúar 2013 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að refsing hans verði þyngd.

Ákærði krefst aðallega sýknu, en til vara að refsing verði milduð. Þá krefst hann aðallega að einkaréttarkröfum verði vísað frá héraðsdómi, til vara að hann verði sýknaður af þeim, en að því frágengnu að þær verði lækkaðar.

A krefst þess aðallega að ákærða verði gert að greiða sér 2.000.000 krónur með vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 3. júlí 2011 til 5. janúar 2012, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Til vara krefst hún að héraðsdómur verði staðfestur um kröfuna.

B krefst þess aðallega að ákærða verði gert að greiða sér 2.000.000 krónur með vöxtum eins og dæmdir voru í héraði, en til vara að héraðsdómur verði staðfestur um kröfuna.

I

Ákærða eru gefin að sök kynferðisbrot gegn tveimur stúlkum á árinu 2011, annars vegar tvö brot 2. og 3. júlí gegn A, sem þá var 14 ára, og hins vegar í allt að átta skipti á tímabilinu 17. júní til 16. ágúst gegn B, sem þá var 13 ára. Með dómi Héraðsdóms Vesturlands 23. mars 2012 var ákærði sakfelldur fyrir þau brot sem honum voru gefin að sök og hann dæmdur til að sæta fangelsi í tvö ár. Með dómi Hæstaréttar 8. nóvember 2012 í máli nr. 309/2012 var sá dómur ómerktur og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til löglegrar meðferðar að nýju frá þingfestingu þess. Þessi niðurstaða var á því reist að hvorki yrði séð að ákæra hafi verið þýdd úr íslensku yfir á arabísku né að dómtúlkur hafi þýtt hana orðrétt fyrir ákærða við meðferð málsins. Þá hafi skýrslur brotaþola og annarra vitna sem teknar voru fyrir dómi í samræmi við a. lið 1. mgr. 59. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, heldur ekki verið þýddar, en það hafi verið nauðsynlegt til að ákærði fengi haldið uppi vörnum í málinu. Í þinghaldi í héraði 13. desember 2012 lagði ákæruvaldið fram þýðingu á ákæru og skýrslum níu vitna. Við aðalmeðferð málsins 21. desember 2012 gerði ákærði athugasemd við að ónákvæmni gætti í þýðingu skjalanna og að svo virtist sem hluti þeirra væri ranglega þýddur. Túlkur sá er mætti við aðalmeðferðina þýddi ákæru fyrir ákærða auk þess sem hann fór ásamt ákærða yfir hluta skýrslu annars brotaþolans. Þá var bókað að ákærði samþykkti að leggja þýðingarnar til grundvallar við meðferð málsins enda þótt hann teldi þær „ekki að fullu nákvæmar.“ Eftir þetta gaf ákærði skýrslu auk þrettán vitna og var málið svo munnlega flutt. Hinn áfrýjaði dómur gekk síðan 14. janúar 2013 en með honum var ákærði sakfelldur og honum gerð refsing fyrir kynferðisbrot gegn báðum stúlkunum. Er ætlaðri háttsemi hans nánar lýst í hinum áfrýjaða dómi. Brot hans gegn stúlkunum voru talin varða við 2. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og brot hans gegn A að auki við 1. mgr. og 2. mgr. 201. gr. og 1. mgr. 202. gr. sömu laga.

Við munnlegan málflutning fyrir Hæstarétti lýsti ákæruvaldið því yfir að miða bæri við að háttsemi sú sem ákærða er gefin að sök í II. kafla ákæru hafi átt sér stað á tímabilinu frá 17. júní 2011 til 5. ágúst sama ár, en óumdeilt er að ákærði yfirgaf landið þann dag og kom ekki til baka til fyrr en 10. september sama ár.

II

Ákærði hefur meðal annars reist sýknukröfu sína á því að hann hafi ekki notið réttlátrar málsmeðferðar þar sem hinn áfrýjaði dómur sé „nánast fullkomin eftirmynd“ fyrri héraðsdóms. Einungis hafi verið gerðar lágmarksbreytingar á texta dómsins og megi sjá þess glögg merki meðal annars þar sem bætt hafi verið inn í texta fyrri dómsins tiltekinni setningu en niðurlag hennar hafi vantað. Þá hafi við samningu dómsins ekki verið tekið mið af nýjum vitnaleiðslum heldur byggt á þeim fyrri, sem ekki séu hluti þessa máls. Þessi vinnubrögð brjóti gegn rétti ákærða til rökstudds dóms. Ekki hafi verið fjallað um atriði sem séu ákærða í hag. Þá hafi rannsókn málsins og forsendur dómsins verið hæpnar eða rangar og hlutdrægar gagnvart ákærða. Þannig hafi tiltekinn lögreglumaður haldið því fram í skýrslu sinni fyrir dómi að ekki hafi verið unnt að hafa uppi á manni sem annar brotaþolinn, B, hafi samkvæmt framburði vitna átt að hafa haft kynferðislegt samneyti við. Skýring lögreglumannsins hafi verið sú að ekki hafi verið hægt að tengja gælunafn mannsins við nafn hans, C. Í ljós hafi þó komið að þetta hafi reynst mjög auðvelt. Ákærði hafi samkvæmt framansögðu ekki notið réttlátrar málsmeðferðar hvorki við rannsókn málsins né meðferð þess fyrir dómi.

Er málið kom á ný fyrir héraðsdóm, sem var skipaður sömu dómurum og við fyrri meðferð málsins, var ákærði yfirheyrður á ný svo og öll sömu vitni sem gáfu skýrslu við fyrri aðalmeðferð, þar á meðal áðurnefndur C. Framburður ákærða og þessara vitna er réttilega rakinn í hinum áfrýjaða dómi en hann var í meginatriðum efnislega á sama veg og áður. Þótt vinnubrögðum við samningu hins áfrýjaða dóms hafi verið áfátt verður ekki fallist á með ákærða að með þeim hafi verið brotið gegn rétti hans til réttlátrar málsmeðferðar, hvorki við rannsókn málsins né meðferð þess fyrir dómi, enda hafa þau atriði sem ákærði hefur sérstaklega bent á máli sínu til stuðnings ekki verið til þess fallin að skerða réttaröryggi hans.

III

Ákærði hefur neitað sök vegna sakargifta í báðum köflum ákæru. Í héraðsdómi er rakinn framburður þeirra vitna sem gáfu skýrslu fyrir dómi um ákæruefnið í I. kafla ákæru. Auk þeirra gáfu skýrslu tveir jafnaldrar og vinir brotaþolans A. Báðir sögðu þeir að A hafi skýrt þeim frá að hún hafi farið „í sleik“ við ákærða á svokölluðum [...] og daginn eftir hafi hún runkað honum. Annar þeirra kvað stúlkuna hafa sagt sér þetta daginn eftir atburðinn en hinn „mjög stuttu“ síðar. Í niðurstöðu héraðsdóms er meðal annars vísað til yfirlits af samskiptaforritinu Facebook. Ákærði hefur lagt áherslu á að svo kunni að vera að samskipti milli sín og brotaþola komi þar ekki öll fram, þar sem hún gæti hafa eytt hluta þeirra skilaboða sem hún sendi ákærða. Ekki verði því byggt á þessu yfirliti. Á þetta er ekki fallist. Þó svo kunni að vera að stúlkan hafi getað eytt út hluta skilaboða breytir það ekki því að ákærði bað hana ítrekað að hitta sig í einrúmi á heimili hans og sendi henni fjölda skilaboða, stundum að næturlagi, meðal annars um kossa frá honum. Er tekið undir með héraðsdómi að þessi samskipti hafi verið einkar óeðlileg í ljósi aldursmunar og stöðu ákærða og brotaþola. Fyrir Hæstarétt var lagt vottorð Þorbjargar Sveinsdóttur sálfræðings 8. maí 2013. Í því og fyrra vottorði hennar, sem rakið er í héraðsdómi, kemur fram að stúlkan hafi átt við mjög alvarlegan og fjölþættan vanda að stríða sem meðal annars megi rekja til ætlaðra brota ákærða. Að öllu framansögðu gættu og að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður staðfest sú niðurstaða hans að ákærði hafi gerst sekur um þau brot sem honum eru að sök gefin í 1. og 2. tölulið I. kafla ákæru. Sú háttsemi ákærða að láta stúlkuna fróa sér varðar við 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga, en að öðru leyti fellur háttsemin undir 2. mgr. 202. gr. sömu laga. Á hinn bóginn er ekki fallist á með ákæruvaldinu að tengsl ákærða við stúlkuna hafi verið með þeim hætti sem greinir í 1. mgr. 201. gr. laganna, sbr. nú 5. mgr. 202. gr. þeirra. Þótt ákærði hafi gert ráðningarsamning við þann skóla sem brotaþoli stundaði nám við er óumdeilt að starf hans fólst eingöngu í að styðja við börn af [...] uppruna og er ekkert fram komið í málinu um að hann hafi átt að hafa eða hafi haft samskipti við brotaþola á vegum skólans.

Um II. kafla ákæru hefur fjölskipaður héraðsdómur metið framburð brotaþolans B trúverðugan en ákærða ótrúverðugan einkum í ljósi hinna fjölmörgu smáskilaboða um síma sem gengu milli hans og brotaþola og frásagnar hans um að þau hafi snúist um skil stúlkunnar á jakka hans sem hún fékk lánaðan er þau hittust fyrst á [...] af tilviljun. Ákærði hefur einnig sagt að brotaþolinn hafi notað jakkann sem átyllu til að hafa við hann samband og beðið sig um að kaupa áfengi. Hann hefur ekki gefið aðrar skýringar á þessum tíðu samskiptum. Þó vera megi að ákærði hafi í upphafi hitt stúlkuna á [...] af tilviljun er tekið undir með héraðsdómi að þessi miklu samskipti hans við 13 ára stúlku hafi verið óeðlileg í ljósi aldursmunar þeirra og stöðu. Þá er ljóst af vottorðum Þorbjargar Sveinsdóttur sálfræðings sem lögð hafa verið fyrir héraðsdóm og Hæstarétt og vætti hennar fyrir dómi að ætluð brot hans hafi haft áhrif á stúlkuna, þar sem hún hafi haft verulega sektarkennd og upplifað mikla skömm, en fram kemur í vottorðunum að þessi einkenni séu algeng meðal unglinga sem sætt hafa kynferðislegri misnotkun. Skiptir ekki máli í þessu sambandi þótt fram hafi komið að stúlkan hafi sóst eftir félagsskap annarra karlmanna á aldur við ákærða. Að öllu framangreindu virtu og að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður staðfest sú niðurstaða hans að ákærði hafi gerst sekur um þau brot sem honum eru að sök gefin í II. kafla ákæru, eins og hún hefur verið leiðrétt, að öðru leyti en því að ósannað er að þau hafi verið framin í allt að átta skipti, enda hefur stúlkan borið að þetta hafi verið „átta sinnum eða minna“ og verður því miðað við að brotin hafi verið færri en í ákæru greinir. Varða þau við 2. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga með áorðnum breytingum.

IV

Ákærði hefur verið sakfelldur fyrir kynferðisbrot gegn tveimur ungum stúlkum á aldrinum 13 og 14 ára. Hann var 25 ára gamall þegar hann framdi brotin og nýtti sér yfirburði sína gagnvart stúlkunum í skjóli aldurs og reynslu. Ákærði hefur á hinn bóginn ekki áður hlotið refsingu svo að kunnugt sé. Ekki eru efni til að virða ákærða til refsilækkunar út af fyrir sig að hann hafi sætt farbanni vegna rannsóknar og meðferðar málsins, en á hinn bóginn verður að líta til þess að á rekstri málsins hafa orðið tafir sem honum verður ekki um kennt. Með vísan til þessa og 1., 6., og 7. töluliðar 1. mgr. 70. gr. og 77. gr. almennra hegningarlaga er refsing hans ákveðin fangelsi í 18 mánuði.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað og bætur til beggja brotaþola verða staðfest að öðru leyti en því að bætur til A bera vexti eins og í dómsorði greinir.

Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns og þóknun réttargæslumanns beggja brotaþola, sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Ákærði, Nael H. A. Rajabi, sæti fangelsi í 18 mánuði.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað og einkaréttarkröfur skulu vera óröskuð að öðru leyti en því að af kröfu A greiðist vextir samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 3. júlí 2011 til 5. janúar 2012, en dráttarvextir samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, 824.508 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Sigríðar Rutar Júlíusdóttur hæstaréttarlögmanns, 502.000 krónur, og þóknun réttargæslumanns beggja brotaþola, Guðmundar Ágústssonar hæstaréttarlögmanns, 251.000 krónur.

Dómur Héraðsdóms Vesturlands 14. janúar 2013.

Mál þetta höfðaði ríkissaksóknari með ákæru 5. janúar 2012 á hendur ákærða, Nael H. A. Rajabi, kt. [...], án ríkisfangs, [...], [...]. Málið var dómtekið 27. febrúar 2012.

Í ákæru segir að málið sé höfðað gegn ákærða „fyrir kynferðisbrot framin gagnvart tveimur unglingsstúlkum á árinu 2011 á [...], sem ákærða var treyst fyrir til kennslu og uppeldis sem stuðningsfulltrúi við [...] á [...] og sem leiðbeinandi í [...], er hér greinir:

I.

Gegn stúlkunni A, fæddri [...], að [...], sem var 14 ára að aldri:

1.                       Með því að hafa að kvöldi laugardagsins 2. júlí áreitt stúlkuna kynferðislega með því að leita eftir kynferðislegu samneyti við hana og kyssa hana á munninn.

2.                       Með því að hafa að kvöldi sunnudagsins 3. júlí áreitt stúlkuna kynferðislega og haft við hana kynferðismök með því að klæða stúlkuna úr peysu og strjúka henni með hendi á brjóstum og kynfærum innan klæða og láta stúlkuna fróa sér uns hann hafði sáðlát og síðan með því að biðja stúlkuna um að hafa við sig samræði.

II.

Gegn stúlkunni B fæddri [...], sem var 13 ára að aldri, með því að hafa í allt að átta aðgreind skipti, á tímabili frá 17. júní til 16. ágúst, á [...], áreitt stúlkuna kynferðislega með því að kyssa hana tungukossa á munninn, strjúka henni með hendi á brjóstum innan og utan klæða, strjúka henni með hendi á kynfærum utan klæða og biðja hana um að hafa við sig samræði eða önnur kynferðismök.

Eru ákæruliðir I/1 og II taldir varða við 2. mgr. 201. gr. og 2. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 9. og 10. gr. laga nr. 40/1992, 4. gr. laga nr. 40/2003 og 10. og 11. gr. laga nr. 61/2007.  Telst ákæruliður I/2 varða við 1. mgr. 201. gr. og 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.

Í þinghaldi 21. desember 2012 féll ákæruvaldið frá heimfærslu til 2. mgr. 201. gr. varðandi ákærulið II.

Af hálfu D, kt. [...], vegna ólögráða dóttur hennar, A, kt. [...], er krafist miskabóta að fjárhæð 2.000.000 krónur auk vaxta samkvæmt 8. gr., sbr. 4. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 3. júlí 2011 til þess dags þegar mánuður var liðinn frá því bótakrafa var kynnt sakborningi, og dráttarvaxta eftir þann dag samkvæmt 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga til greiðsludags.

Af hálfu E, kt. [...], og F, kt. [...], vegna ólögráða dóttur þeirra, B, kt. [...], er krafist miskabóta að fjárhæð 2.000.000 krónur auk vaxta samkvæmt 8. gr., sbr. 4. gr. laga um vexti og verðtryggingu frá 15. ágúst 2011 til þess dags þegar mánuður er liðinn frá því bótakrafa var kynnt sakborningi, og dráttarvaxta eftir þann dag samkvæmt 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga til greiðsludags.“

Ákærði neitar sök. Verjandi ákærða krefst þess að ákærði verði sýknaður af kröfum ákæruvalds, að skaðabótakröfum verði vísað frá dómi og að sakarkostnaður, þ.m.t. málsvarnarlaun, verði greiddur úr ríkissjóði.

Mál ákæruvaldsins á hendur ákærða var þingfest 31. janúar sl., aðalmeðferð þess fór fram 27. janúar sl. og dómur var kveðinn upp 23. mars sl. Var ákærði sakfelldur og dæmdur til að sæta fangelsi í tvö ár.

Með dómi Hæstaréttar Íslands frá  8. nóvember sl. var héraðsdómur ómerktur og lagt fyrir héraðsdóm að  taka málið til löglegrar meðferðar að nýju. Vísaði Hæstiréttur til þess að hvorki yrði séð að ákæra hefði verið þýdd úr íslensku yfir á arabísku né að túlkurinn hefði við meðferð málsins þýtt hana orðrétt fyrir ákærða. Þá hefðu skýrslur brotaþola og annarra vitna fyrir dómi heldur ekki verið þýddar.

Dómsformaður beindi því til ákæruvalds að umrædd gögn yrðu þýdd á arabísku af löggiltum skjalaþýðandi og var þýðing ákæru og skýrslna 9 vitna lögð fram í þinghaldi 13. desember sl. og hinn 21. desember sl. fór fram aðalmeðferð málsins á nýjan leik og var málið dómtekið þann dag að svo búnu.

Eftir að ákærði hafði farið yfir þýðingu á ákæru og skýrslum vitnanna 9 ítrekaði hann þá afstöðu sína að hann neitaði sök og héldi upp vörnum. Krefst hann sýknu af kröfum ákæruvaldsins og kröfu um miskabætur en til vara að ákærða verði gerð vægasta refsing sem lög leyfa og að hún verði skilorðsbundin. Þá er þess krafist að miskabótakrafa verði lækkuð.

I. kafli ákæru.

Með bréfi 15. september 2011 óskaði barnaverndarnefnd [...] eftir því að fram færi lögreglurannsókn á hugsanlegum kynferðisbrotum ákærða gegn A, brotaþola í þessum kafla ákæru. Í bréfinu er rakið að nefndinni hafi 15. september 2011 borist tilkynning frá [...] um ætluð brot. Fram kemur að skólayfirvöld í [...] hafi 14. september 2011 fengið upplýsingar frá foreldri um að ákærði hafi hugsanlega átt í kynferðislegu sambandi við stúlku í skólanum. Skólahjúkrunarfræðingur og námsráðgjafi við skólann hafi rætt við stúlkur í skólanum um málið 15. september 2011. Í þeim samræðum hafi brotaþoli viðurkennt að hún hafi átt í kynferðislegu sambandi við ákærða sumarið 2011. Í bréfinu er nánar greint frá því hvað brotaþoli upplýsti í viðtölum sínum við skólahjúkrunarfræðinginn og námsráðgjafann.

Samkvæmt rannsóknargögnum málsins fór lögregla 16. september 2011 að heimili ákærða að [...] á [...]. Fram kemur að ákærði hafi veitt samþykki sitt fyrir leit í húsnæðinu. Hafi lögregla lagt hald á tölvu ákærða, auk þess sem vettvangur hafi verið ljósmyndaður. Samkvæmt lögregluskýrslu um rannsókn á tölvu ákærða fundust engar upplýsingar í tölvunni um fésbókarsamskipti ákærða við brotaþola.

Tekin var skýrsla af móður brotaþola hjá lögreglu 16. september 2011. Gerði  móðir brotaþola þá grein fyrir upphafi málsins. Kom fram að hún hafi verið boðuð á fund félagsráðgjafa í skólanum, þar sem henni hafi verið tjáð að dóttir hennar hafi farið á heimili ákærða. Hafi það verið á svonefndum [...] á [...]. Gerði hún nánari grein fyrir þeim upplýsingum er hún hefði yfir að ráða varðandi samskipti ákærða og dóttur hennar. Fram kom í skýrslunni að skólayfirvöld á [...] hafi upplýst móður brotaþola um að ákærða hafi verið vikið tímabundið úr skólanum á meðan málið væri í rannsókn. Hafi dóttir hennar gleymt dóti í skólanum eftir fundinn við félagsráðgjafann og farið þangað 15. september 2011 til að nálgast hlutina. Þar hafi henni verið tjáð að ákærði væri farinn úr skólanum. Dóttir hennar hafi hins vegar séð ákærða í skólanum þennan dag og brugðið mjög við það. Hafi dóttir hennar brotnað niður eftir að heim var komið.

Á meðal rannsóknargagna málsins er yfirlit lögreglu yfir fésbókarsamskipti á milli ákærða og brotaþola. Fram kemur að við skoðun á samskiptahólfi síðu brotaþola hafi komið í ljós töluverð samskipti í gegnum skilaboð og spjallborð fésbókarinnar á milli brotaþolans og ákærða. Þegar samskiptin séu lesin í heild sé ljóst að ákærði sé að reyna að stofna til kynna við brotaþolann og takist honum það. Bjóði hann henni ítrekað í heimsókn. Þá megi lesa út úr samskiptunum að þau hafi átt einhver samskipti í gegnum farsíma. Í yfirlitinu sé rakið úr samskiptum ákærða og brotaþola frá 17. júní 2011, er fyrstu samskipti eigi sér stað, til 12. júní 2011. Samkvæmt þessu yfirliti hefur ákærði ítrekað boðið brotaþola að koma heim til sín 17. júní. Brotaþoli svarar ákærða ekki er hann sendir henni skilaboð 18. júní. Ákærði býður brotaþola aftur ítrekað að koma heim til sín 23. og 24. júní 2011. Næst eru samskipti á milli þeirra 25. júní. Þann 27. júní biður ákærði brotaþola enn um að koma yfir til sín. Kveðst ákærði þurfa að fara til Reykjavíkur í nokkra daga þar sem hann þurfi að vinna þar. Samskipti eru næst 28. júní. Þann 30. júní eiga þau enn í samskiptum og kveðst ákærði þá tilbúinn að reykja með henni. Kveður hann hana með því að segja „koss fyrir þig“. Ákærði og brotaþoli eiga næst samskipti 1. júlí 2011. Af samskiptum má ráða að brotaþoli sé að gæta barna í íbúð, en þaðan megi sjá á svalir í íbúð ákærða. Ákærði kveðst munu kyssa brotaþola þegar hann muni hitta hana. Ræða þau saman um kossa og fjölda þeirra í skilaboðunum. Ákærði kveðst munu hringja í brotaþola verði hann einn komandi laugardag. Ákærði og brotaþoli eiga næst í samskiptum 2. júlí 2011. Kveðst ákærði þá aftur vera kominn [...]. Spyr ákærði brotaþola hvar hún sé og svarar hún því til að hún sé hjá G. Sé áfengi þar. Ákærði sendir brotaþola næst nokkur skilaboð 11. júlí án þess að fá svar. Sama gerist dagana 11., 13., 15., 20. og 25. júlí. Brotaþoli svarar ákærða fyrst 12. ágúst 2011. Segist ákærði sakna brotaþola og spyr af hverju brotaþoli hafi ekki svarað honum þegar hann hafi verið á Íslandi.

Þá er á meðal rannsóknargagna málsins yfirlit lögreglu um símasamskipti á milli ákærða og brotaþola. Fram kemur að á tímabilinu 1. apríl til 31. ágúst 2011 hafi komið í ljós töluverð samskipti á milli þeirra. Komi skilaboðin heim og saman við fésbókarsamskipti þeirra, þar sem allt bendi til að ákærði hafi verið að reyna að stofna til og viðhalda sambandi við brotaþola. 

Á meðal rannsóknargagna málsins er ráðningarsamningur [...] sem vinnuveitanda og ákærða sem launþega. Samningurinn er dagsettur 30. mars 2011 og er ráðningartími ákærða til 31. nóvember 2011. Samkvæmt ráðningarsamningi er vinnustaður [...] og starfsheiti ákærða stuðningsfulltrúi.

Tekin var skýrsla af brotaþola í Barnahúsi 19. september 2011. Sama dag var tekin skýrsla þar í húsi af H og I. Viðtölin gáfu tilefni til þess að 23. september 2011 var einnig tekin skýrsla í Barnahúsi af J, K, L og M.

Þorbjörg Sveinsdóttir, sálfræðingur í Barnahúsi, hefur 13. desember 2011 ritað bréf í framhaldi af stöðumati á brotaþola. Fram kemur að brotaþoli sé fremur stór og þroskuð stúlka eftir aldri. „Holning“ stúlkunnar gefi til kynna mikla vanlíðan. Sé stúlkan þungbúin að sjá. Á þeirri stundu er stöðumatið fari fram hafi stúlkan sótt þrjú viðtöl til Þorbjargar. Af viðtölum sé ljóst að vandi brotaþola sé fjölþættur. Glími hún við fjölmörg einkenni sem þekkt séu meðal barna og unglinga sem sætt hafi kynferðislegu ofbeldi. Beri þar helst að nefna þunglyndi, sjálfsásökun, skömm og sektarkennd. Erfitt sé að leggja mat á líðan hennar og horfur til lengri tíma með tilliti til þess máls sem sé til rannsóknar. Um óákveðinn tíma muni hún þurfa mikla sálfræðilega aðstoð. Sýni stúlkan mikinn styrk og vilja til að bæta líðan sína, en greina megi hjá henni vonleysi og jafnvel sjálfsvígshugsanir. Sé vanlíðan stúlkunnar á alvarlegu stigi. 

Ákærði lýsti atvikum svo að hann hafi starfað sem stuðningsfulltrúi fyrir nemendur við [...] á [...] á árinu 2011. Við skólann hafi hann verið að vinna með nemendur sem komið hafi frá [...]. Með þessa krakka hafi ákærði unnið í skólanum sjálfum. Þó svo að starf hans hafi beinst að þessum nemendum skólans sérstaklega hafi hann þó rætt við fleiri nemendur skólans en þessa einu. Hafi hann starfað fyrir [...] í heimalandi sínu og á vegum samtakanna komið til Íslands og farið að starfa fyrir [...]. Í tengslum við það hafi hann tekið að sér starf leiðbeinanda í unglingastarfi. Ákærði kvaðst hafa kynnst brotaþola sumarið 2011. Það sumar hafi ákærði síðla dags verið að reykja vatnspípu úti á svölum heima hjá sér. Vinur ákærða, N, hafi verið í heimsókn hjá ákærða. Nokkur ungmenni hafi verið á svölum beint á móti ákærða og verið að reykja sígarettur. Hafi þau kallað til ákærða og N. Hafi ákærði sagt unga fólkinu að þau mættu koma yfir. Brotaþoli hafi verið í þessum hópi, en um hafi verið að ræða þrjár ungar stúlkur. Vinur ákærða hafi farið er stúlkurnar hafi komið. Stúlkurnar hafi allar verið undir áhrifum áfengis og verið að reykja sígarettur. Hafi ákærði spurt þær af hverju þær væru að reykja svo ungar að árum. Hafi ákærði boðið stúlkunum kaffi að drekka. Einhver þeirra hafi kastað upp inni á klósetti í íbúð ákærða. Stúlkurnar hafi spurt ákærða hvort hann ætti kannabis fyrir þær til að reykja. Ákærði hafi sagt svo ekki vera. Þá hafi hann tjáð þeim að hann drykki ekki áfengi. Brotaþoli og vinkonur hennar hafi prófað vatnspípu ákærða. Stúlkurnar hafi verið í íbúðinni í um 20 mínútur. Hafi hann ekki kysst brotaþola í íbúðinni. Ákærði kvaðst hafa verið í sambandi við brotaþola á fésbókinni eftir þessa heimsókn. Hafi hún spurt ákærða hvort hún mætti koma aftur heim til hans. Hafi ákærði svarað því játandi og hann spurt hana hvort hún vildi borða. Það hafi meira í gríni verið gert. Hafi hún komið og verið ein á ferð. Hafi hún stoppað í um 8 mínútur. Síðari heimsóknin hafi verið í ágúst 2011. Ákærði kvaðst hafa farið til [...] 5. ágúst 2011 og komið til baka 10. september sama ár. Ákærði kvaðst aldrei hafa rætt við brotaþola í [...]. Hafi þau fyrst hist er þau hafi kallast á á svölum fjöleignarhússins sumarið 2011. Ákærði kvaðst hafa verið við vinnu á [...] í Reykjavík í um tvær vikur sumarið 2011. Hafi hann þá átt í talsverðum samskiptum við brotaþola á fésbókinni. Öll ummælin þar í samskiptum við stúlkuna hafi meira í gríni verið sögð. Ákærði kvaðst ekki vita ástæðu þess að brotaþoli hafi ekki svarað skilaboðum ákærða á tímabilinu 11. til 25. júlí 2011. Aðspurður kvaðst ákærði hafa spurt brotaþola á fésbókinni 12. ágúst 2011 af hverju hún væri reið. Hafi hann spurt hana þar sem hann hafi ekki viljað nein vandamál í samskiptum þeirra. Ákærði staðfesti að 18 sms-símaskilaboð hafi farið á milli hans og brotaþola 2. og 3. júlí 2011. Hafi verið um almennt spjall að ræða á milli þeirra. Ákærði kvaðst ekki hafa brotið kynferðislega gegn brotaþola með þeim hætti er í 1. og 2. tl. I. kafla ákæru væri lýst. Ákærði kvað vanta færslur úr fésbók brotaþola sem honum hefðu borist frá henni þar sem hún hefði verið að fara fram á að

Brotaþoli kvaðst, ásamt tveim vinkonum sínum þeim J og G, hafa verið að gæta barna hjá frænku sinni að [...] á [...]. Frænkan hafi átt heima á þriðju hæð í fjöleignarhúsi. Ákærði hafi átt heima á neðstu hæð í húsinu að [...]. Ákærði hafi verið stuðningsfulltrúi fyrir börn í [...] af [...] uppruna. Hafi vinkonurnar verið úti á svölum er ákærði hafi vinkað þeim. Vinur ákærða hafi verið hjá honum. Stúlkurnar hafi vinkað á móti. Hafi ákærði sagt þeim að fara inn á fésbókina. Inni á síðunni hafi stúlkurnar átt samskipti við ákærða. Hafi hann spurt þær hvort þær vildu koma til að reykja með honum. Hafi þær ekki þorað að fara yfir. Ákærði hafi haldið áfram að spyrja hvort þær vildu ekki koma yfir og þær ávallt svarað því neitandi. Einu sinni er ákærði hafi beðið þær um að koma yfir hafi stúlkurnar látið frænda brotaþola koma til að gæta barnsins á meðan stúlkurnar hafi farið yfir til ákærða. Með brotaþola í för hafi verið J og K. Hafi þær farið inn til ákærða og reykt þar vatnspípu. Hafi þau rætt saman. Í það skipti hafi ákærði fengið símanúmer brotaþola. Síðar hafi ákærði rætt meira við brotaþola á fésbókinni og hafi hann alltaf verið að biðja hana um að koma yfir til sín. Hafi brotaþoli farið einu sinni aftur yfir til ákærða. Ákærði hafi í framhaldi af því beðið brotaþola um að koma eina til sín. Á laugardegi á svonefndum [...], eða 2. júlí, hafi vinkonurnar verið að drekka áfengi. Hafi ákærði þá spurt brotaþola hvort hún vildi koma til hans ein. Hafi ákærði vitað að brotaþoli væri að drekka áfengi það sinnið. Hafi vinkonur brotaþola, J og K, farið með henni heim til ákærða. Heima hjá ákærða hafi þær reykt. Kvaðst brotaþoli hafa verið undir áhrifum áfengis þetta sinn. Á meðan vinkonur hennar hafi farið á salernið hafi ákærði og brotaþoli kysst talsvert mikið á munninn. Er stúlkurnar hafi komið út af salerninu hafi þau enn verið að kyssast og þær séð það. Hafi ákærði spurt hvort brotaþoli vildi gista. Hafi brotaþoli ekki viljað það. Hafi þær yfirgefið staðinn. Næsta dag, eða 3. júlí, hafi ákærði á ný spurt brotaþola hvort hún vildi koma yfir. Hafi brotaþoli vart þorað ein yfir til ákærða og sagt við vinkonur sínar að hún myndi senda þeim sms-símaskilaboð ef eitthvað kæmi fyrir. Hafi brotaþoli farið heim til ákærða og þau reykt. Í sófa í stofu hafi þau kysst og ákærði látið brotaþola sitja ofan á sér. Ákærði hafi spurt hana hvort hún vildi koma með honum inn í herbergi. Á þeirri stundu hafi þau verið búin að drekka eitthvað af áfengi. Hafi þau farið inn í herbergið og ákærði klætt hana úr peysunni. Í framhaldi hafi ákærði „farið inn á buxurnar hjá mér“. Hafi hann farið „inn á buxurnar, klofið á mér og brjóstin á mér“. Hafi ákærði farið undir nærbuxur hennar, en hún hafi verið í g-streng. Þá hafi hún fróað honum. Hafi ákærði spurt brotaþola hvort hún væri „hrein“. Hafi ákærði síðan spurt hvort brotaþoli vildi „gera það“. Hafi brotaþoli ekki viljað það. Ákærði hafi fengið fullnægingu. Hafi þau verið í rúminu í svefnherberginu í um hálfa klukkustund. Eftir að brotaþoli hafi yfirgefið íbúðina hafi hún tjáð vinkonum sínum hvað hafi átt sér stað. Hafi þeim verið mjög brugðið. Brotaþoli kvaðst hafa rætt við móðurbróður sinn, O, um málið einhverju sinni og spurt hann hvort hún ætti að fara heim til ákærða. Hafi O sagt að það skyldi hún ekki gera. Brotaþoli kvað ákærða hafa vitað um aldur hennar er þetta hafi gerst. Þá hafi hún verið 14 ára. Ákærði hafi sagst vita aldur hennar. 

J kvað ákærða búa í nágrenni við sig á [...]. Hafi hún, ásamt vinkonum sínum brotaþola og K, farið heim til ákærða á [...], en þann dag hafi vinkonurnar verið búnar að drekka eitthvað af áfengi. J kvaðst hafa séð er ákærði hafi kysst brotaþola heima hjá ákærða en það hafi verið er þær vinkonurnar hafi verið að yfirgefa íbúð ákærða. Um hafi verið að ræða „mömmukoss“. Á meðan á dvölinni stóð hafi J og K farið á salernið. Ákærði og brotaþoli hafi á meðan setið í sófa í stofu og verið að tala saman. Brotaþoli hafi síðar sagt henni að hún hafi næsta dag farið heim til ákærða þar sem ákærði hafi farið inn á hana og hún meðal annars fróað honum. 

K kvaðst, ásamt brotaþola og J, hafa verið úti á svölum hjá frænku brotaþola, sem búi á ská út frá ákærða, er þær hafi veitt ákærða athygli úti á svölum hjá sér. Hafi stúlkurnar verið úti á svölum að reykja. Hafi þau kastað kveðju hvort á annað. Ákærði hafi síðan sagt stúlkunum að fara inn á fésbókina og hafi brotaþoli farið inn á síðuna sína. Hafi þær rætt við ákærða og hann spurt þær hvort þær vildu koma yfir til sín. Það hafi þær ekki þorað. Næst er þær vinkonurnar hafi verið að gæta barna í sama húsi hafi bróðir J verið með þeim. Hafi þær sagt bróðurnum að þær vinkonurnar ætluðu út að hitta vinkonu sína, en það hafi þær ekki gert heldur farið niður í íbúð til ákærða. Þar hafi þær reykt úr vatnspípu. Þetta hafi verið á laugardeginum á [...] á [...]. K og J hafi farið á snyrtinguna og ákærði og brotaþoli setið í sófa í stofu á meðan. Hafi brotaþoli síðar sagt K að þau hafi verið að kyssast á meðan. Ekki hafi K séð það sjálf. Brotaþoli hafi einnig sagt henni síðar að hún hafi fróað ákærða heima hjá honum. Ekki væri K viss um hvort það hafi verið í þetta skipti eða síðar. Vinkonurnar þrjár hafi í allt farið tvisvar á heimili ákærða saman og síðan hafi brotaþoli farið einu sinni til viðbótar og þá verið ein.   

D, móðir brotaþola, kvaðst fyrst hafa frétt af samskiptum dóttur hennar og ákærða 11. september 2011. Skólastjóri [...] hafi hringt í hana og sagt henni að tiltekið mál væri komið upp. Hafi D farið í skólann og hitt félagsráðgjafa. Félagsráðgjafinn hafi upplýst að móðir stúlku í skólanum hafi hringt í skólann og greint frá því að eitthvað kynferðislegt hafi hugsanlega gerst gagnvart dóttur hennar. D kvaðst hafa hitt dóttur sína í skólanum þennan dag og dóttirin verið grátandi. Í framhaldi þessa hafi dóttir hennar farið í Barnahús þar sem hún hafi gefið skýrslu vegna málsins. Dóttir hennar hafi aldrei greint henni frá því sem gerst hafi. Sú vitneskja er D hefði yfir að ráða um málið væri komin frá félagsráðgjafanum. D kvaðst hafa veitt því athygli að í ágúst 2011 hafi dóttir hennar verið í óvenjulega mikilli uppreisn. Hafi hún t. a. m. alltaf verið reið. Er mál þetta kom upp hafi D í raun ekki verið hissa þar sem henni hafi þá fundist hún finna skýringu á breyttu hátterni dóttur sinnar. Haustið 2011 hafi D fundist dóttir hennar verða þunglynd og byrja að glíma við átröskun. Ástand hennar hafi í raun verið slæmt og hafi dóttirin þurft að leita til BUGL. Væri hún hjá námsráðgjafa alla daga og forðaðist að fara í sinn skólabekk þar sem hún vildi ekki hitta aðra krakka. Eftir að málið kom upp hafi D frétt að dóttir hennar væri ekki sú eina sem lent hafi í viðkomandi einstaklingi. Hafi önnur stúlka, í öðrum skóla á [...], einnig lent í ákærða. Hafi D ýtt á eftir þeirri stúlku að koma fram og greina frá því sem fyrir hana hafi komið. Hafi hún hringt í lögreglu og látið vita af grunsemdum sínum. D kvað dóttur sína hafa lent í kynferðislegri áreitni fyrir mörgum árum. Ekki væri vitað hvaða áhrif það tilvik hefði haft á stúlkuna.  

O, móðurbróðir brotaþola, kvað brotaþola hafa hringt í sig sumarið 2011 og viljað fá að hitta hann. Hafi þetta verið skömmu fyrir svonefnda [...] á [...]. Hafi hún greint honum frá því að ákærði væri að senda henni skilaboð á fésbókinni og með sms-símaskilaboðum og væri hann að biðja hana um að koma heim til sín. Kvaðst hún ekki vita hvað hún ætti að gera. Kvaðst O hafa ráðlagt stúlkunni að hitta ekki ákærða. Stúlkan hafi verið í talsverðu uppnámi vegna málsins, verið grátandi og ekki liðið vel.   

N kvaðst þekkja ákærða frá fornu fari. Hafi þeir báðir starfað sem sjálfboðaliðar fyrir [...] og komið saman til landsins. N kvaðst hafa starfað sem stuðningsfulltrúi við [...] á [...] og um tíma [...]. N kvaðst hafa séð samskipti er átt hafi sér stað á milli ákærða og beggja brotaþolanna í málinu. Að öðru leyti hefði hann enga vitneskju um samband þeirra. Á svonefndum [...] á [...] sumarið 2011 hafi N og ákærði verið að reykja vatnspípu. Hafi stúlkur farið að hrópa á þá og þau kallast á. Þetta kvöld hafi N verið boðið í kvöldmat á öðrum stað. Engin stúlka hafi komið inn á heimilið á meðan hafi [...].

P, yfirfélagsráðgjafi hjá barnaverndarnefnd [...], kvað mál brotaþola hafa komið upp í kjölfar tilkynningar frá [...]. Hafi móðir stúlku fengið upplýsingar frá dóttur sinni um að eitthvað hafi gerst á milli brotaþola og ákærða sem aftur hafi fengið upplýsingar um það frá vinkonu sinni. Í bréfi, er sent hafi verið lögreglu í kjölfarið, hafi, að því er lýsingu atvika varði, verið vitnað til þess er fram hafi komið í máli stúlknanna í viðtölum við námsráðgjafa í skólanum. Málið hafi síðan farið sína venjulegu leið.

Þorbjörg Sveinsdóttir, sálfræðingur í Barnahúsi, staðfesti vottorð sín í málinu og gerði nánari grein fyrir þeim. Kvaðst Þorbjörg hafa tekið alls 12 viðtöl við brotaþola. Vandi stúlkunnar væri mikill og fjölþættur, en undirliggjandi væri meðal annars eldra brot. Það mál sem hér væri til meðferðar hafi orðið til þess að stúlkan hafi sokkið dýpra en nokkru sinni fyrr. Væri líðan hennar mjög alvarleg. Hafi hún þurft að taka lyf vegna þunglyndis. Vegna þunglyndisins hafi hún þurft að leita til sálfræðinga hjá heilsugæslunni á [...]. Væri hlé á viðtölum Þorbjargar við hana á meðan verið væri að vinna með þunglyndið en í nóvember mánuði hafi meðferð hafist að nýju og sé brotaþoli í svokallaðri áfallamiðaðri hugrænni atferlismeðferð vegna kynferðisofbeldis sem hún hafi orðið fyrir. Bæði sem barn og svo endurtekið og svo aftur því sem hér er fjallað um. Hún hafi verið mjög mikið andlega veik, átt í miklum erfiðleikum og hafi þurft mikil inngrip. Hún hafi verið inn á Bugl og verið hjá sálfræðingi á Heilsugæslunni líka út af þunglyndi.

Viðtöl Þorbjargar við stúlkuna hafi gengið vel. Hún hafi náð að vinna sig nokkuð vel út úr þessum tilteknu atburðum. Hún lendi ekki oft í því að hugsanir sæki á hana um akkúrat þetta. Það hafi gengið ágætlega varðandi þennan hlut. Hins vegar hafi þetta truflað hana mikið og væri líðan stúlkunnar einkum tengd við skömm og sektarkennd gagnvart brotunum.

Q lögregluvarðstjóri og R lögreglufulltrúi staðfestu þátt sinn í rannsókn málsins. Kvaðst Q hafa útbúið yfirlit yfir samskipti ákærða og brotaþola á fésbókinni. Væru þau á meðal rannsóknargagna málsins. Gögn þessi hafi Q fengið í gegnum samskiptasíðu brotaþola. R kvaðst hafa rannsakað tölvu ákærða. Þar hafi ekki verið að finna nein gögn er vörðuðu samskipti hans við brotaþola.

Niðurstaða:

Ákærða er í I. kafla ákæru gefið að sök kynferðisbrot gegn brotaþola í tvö aðgreind skipti. Er annars vegar um að ræða brot að kvöldi laugardagsins 2. júlí 2011 er ákærða er gefið að sök að hafa áreitt stúlkuna kynferðislega með því að leita eftir kynferðislegu samneyti við hana og kyssa hana á munninn. Hins vegar með því að hafa að kvöldi sunnudagsins 3. júlí áreitt stúlkuna kynferðislega og haft við hana kynferðismök með því að klæða stúlkuna úr peysu og strjúka henni með hendi á brjóstum og kynfærum innan klæða og láta stúlkuna fróa sér uns hann hafði sáðlát og síðan með því að biðja stúlkuna um að hafa við sig samræði. Ákærði neitar sök. Hefur hann viðurkennt að brotaþoli, ásamt tveim öðrum stúlkum, hafi komið á heimili sitt þar sem hann hafi boðið þeim að reykja vatnspípu. Brotaþoli hafi síðar komið ein og þá staldrað stutt við. Ákærði kvaðst ekki hafa kysst brotaþola eða áreitt hana kynferðislega með neinu móti.  

Yfirlit lögreglu um samskipti ákærða og brotaþola á fésbókinni leiðir í ljós ákafar tilraunir ákærða til að fá brotaþola til að koma á heimili sitt. Eru beiðnir þessar ítrekað settar fram, auk þess sem ákærði lýsir yfir tilteknum tilburðum varðandi kossa gagnvart henni. Þá vísar ákærði ítrekað til þess að hann vilji fá að hitta hana þegar hann sé einn og hún sömuleiðis ein á ferð. Í ljósi starfa ákærða og upplýsinga af fésbók brotaþola liggur að mati dómsins fyrir að ákærða var aldur brotaþola ljós. Bera öll samskipti ákærða og brotaþola þess merki að fyrir ákærða hafi vakað annað og meira en að vera vinur brotaþola, svo sem hann hefur haldið fram. Eru samskiptin einkar óeðlileg í ljósi aldursmunar og stöðu ákærða og brotaþola. Í þessu ljósi er allur framburður ákærða ótrúverðugur um samskiptin við brotaþola. 

Brotaþoli er á hinn bóginn trúverðug að mati dómsins. Fær framburður hennar stoð í framburði J og K, sem samferða voru brotaþola á heimili ákærða að kvöldi laugardagsins 2. júlí. Brotaþoli hefur staðhæft að ákærði hafi kysst hana í það sinnið. Það hefur J staðfest, þó að hún hafi metið það svo að um hafi verið að ræða eins konar „mömmukoss“. Fyrir þennan koss hefur ákærði synjað. Þá er fram komið að J og K voru um hríð inni á salerni íbúðarinnar á meðan ákærði og brotaþoli voru saman tvö ein. Það hafa bæði J og K staðfest. Fellur framburður þeirra að framburði brotaþola um þetta atriði. Loks liggur fyrir vætti móður brotaþola sem lýsti því að dóttir hennar hefði brotnað saman eftir að hún kom heim 15. september 2011 eftir að hafa rekist óvænt á ákærða í skólanum. Þykir það eindregin vísbending um að eitthvað hafi gerst á milli ákærða og brotaþola sem brotaþoli hafi tekið nærri sér. Þegar öll framangreind atriði eru virt í heild sinni er það niðurstaða dómsins að leggja framburð brotaþola til grundvallar niðurstöðu. Er að mati dómsins hafið yfir skynsamlegan vafa að ákærði hafi brotið gegn brotaþola með þeim hætti er í 1. og 2. tl. I. kafla ákæru er lýst.  

Samkvæmt ráðningarsamningi starfaði ákærði sem stuðningsfulltrúi við [...] þar sem brotaþoli var nemandi. Með því var honum trúað fyrir nemendum við skólann til kennslu og uppeldis er brotin áttu sér stað. Verður ákærði því sakfelldur samkvæmt þessum kafla ákæru og er háttsemin rétt heimfærð til refsiákvæða í ákæru að því er I. kafla ákæru varðar. 

II. kafli ákæru.

Með bréfi 24. október 2011 óskaði barnaverndarnefnd [...] eftir því að fram færi lögreglurannsókn á hugsanlegum kynferðisbrotum ákærða gegn B, brotaþola í þessum kafla ákæru. Í bréfinu er rakið að upplýsingar um hugsanleg brot ákærða gagnvart brotaþola hafi borist frá D, móður brotaþolans A, samkvæmt I. kafla ákæru. Starfsmaður barnaverndarnefndar [...] hafi fengið þær upplýsingar frá D að drengur við [...] hafi nýverið sagt við dóttur D að önnur stúlka hafi einnig „verið með“ ákærða. Hafi drengurinn gefið brotaþolanum A upp nafn brotaþola. A hafi því næst sett sig í samband við brotaþola í gegnum fésbókina. A hafi greint móður sinni frá því að brotaþoli hafi einnig „verið með“ ákærða. Hafi A hvatt brotaþola til að greina móður brotaþola frá atvikinu. Starfsmaður barnaverndarnefndar [...] hafi í framhaldi átt viðtal við móður brotaþola 24. október 2011. Í því viðtali hafi móðir brotaþola greint frá því að brotaþoli hafi hitt ákærða í nokkur skipti. Hafi móðirin ekki haft vitneskju um hvort eitthvað hafi komið fyrir þeirra á milli. Þá kom fram í viðtalinu að brotaþoli hafi skráð sig sem sjálfboðaliði hjá [...] á [...]. Hafi hún ekki treyst sér til að mæta á fundi hjá samtökunum af ótta við að hitta ákærða þar.

Með bréfi 7. nóvember 2011 til lögreglu gerði barnaverndarnefnd [...] grein fyrir því að brotaþoli hafi farið í könnunarviðtal í Barnahúsi 3. nóvember 2011. Í því viðtali hafi komið fram að brotaþoli og ákærði hafi hist í nokkur skipti sumarið 2011 á [...] á [...]. Þar hafi þau kysst og ákærði káfað á kynfærum brotaþola utanklæða, auk þess að hafa ítrekað reynt að fá stúlkuna til að hafa við sig samræði.

Margrét Magnúsdóttir, sálfræðingur í Barnahúsi, hefur ritað minnispunkta vegna rannsóknarviðtals við brotaþola 3. nóvember 2011. Fram kemur að í viðtalinu hafi komið fram að brotaþoli hafi fyrst hitt ákærða 17. júní 2011 þar sem ákærði hafi leikið trúð á skemmtun. Hafi hún í framhaldi sett ákærða inn á fésbókina hjá sér þar sem þau hafi rætt um ýmislegt. Hafi ákærði viljað að brotaþoli kæmi heim til ákærða en það hafi hún ekki viljað. Hafi þau þá ákveðið að hittast á [...]. Í fyrsta skipti er þau hafi hist hafi ákærði einungis kysst brotaþola. Þau hafi haldið áfram að hittast og í þeim tilvikum verið á stað þar sem þau hafi getað legið í grasinu ofan við sandinn. Hafi ákærði í nokkur skipti káfað á kynfærum brotaþola utanklæða. Hafi ákærði ítrekað spurt brotaþola hvort hún vildi koma með honum heim til ákærða. Hafi hún ávallt synjað fyrir það. Þá hafi ákærði spurt hana hvort hún vildi hafa við hann samfarir og hún einnig synjað fyrir það. Ákærði hafi farið í sumarfrí til [...]. Er hann hafi komið til baka hafi hann séð brotaþola með dreng og ekki viljað tala við hana eftir það.

Á meðal rannsóknargagna málsins er yfirlit lögreglu um símasamskipti ákærða og brotaþola á tímabilinu 15. júlí 2011 til 4. ágúst 2011. Í yfirlitinu kemur fram að upphaf samskiptanna hafi verið að kvöldi 15. júlí er ákærði hafi í tvígang hringt í tiltekinn síma. Strax að loknu síðara símtalinu hafi ákærði hringt í síma brotaþola. Á tímabilinu 15. júlí til 4. ágúst 2011 hafi ákærði sent brotaþola 286 sms-símaskilaboð. Brotaþoli hafi sent ákærða 380 skilaboð.

Á meðal rannsóknargagna málsins er ráðningarsamningur [...] sem vinnuveitanda og ákærða sem launþega. Samningurinn er dagsettur 30. mars 2011 og er ráðningartími ákærða til 31. nóvember 2011. Samkvæmt ráðningarsamningi er vinnustaður [...] og starfsheiti ákærða stuðningsfulltrúi.

Þorbjörg Sveinsdóttir, sálfræðingur í Barnahúsi, hefur 19. janúar 2012 ritað stöðumat vegna brotaþola. Í skýrslu hennar kemur fram að brotaþoli hafi sótt þrjú viðtöl er matið hafi farið fram. Í ljósi fjölda viðtala sé erfitt að leggja mat á afleiðingar hins ætlaða brots fyrir brotaþola til lengri tíma litið. Fram hafi komið ýmis einkenni sem þekkt séu meðal barna sem sætt hafi kynferðislegri áreitni eða ofbeldi, eins og skömm, sektarkennd og sjálfsásakanir. Þá forðist stúlkan að vera ein og þurfi ávallt að hafa eitthvað fyrir stafni. Finni hún fyrir talsverðri streitu vegna þessa og sé oft þreytt og orkulítil, jafnvel þó að hún fái nægan svefn. Áhyggjur séu af félagslegri stöðu hennar innan skólans og því hvort hún sé að sækja í óæskilegan félagsskap, auk þess sem námsárangur hennar virðist á niðurleið.

Að beiðni lögreglu var tekin skýrsla af brotaþola í Barnahúsi 8. nóvember 2011. Sama dag var tekin þar skýrsla af vinkonu hennar, S.       

Ákærði kvaðst á árinu 2011 um tíma hafa unnið fyrir sér sem trúður á [...]. Í því starfi hafi hann hitt margt fólk. Þeir sem hann hafi rætt við hafi verið áhugasamir um ákærða og uppruna hans. Í þessu hlutverki sínu hafi hann málað í andlit á krökkum. Við eitt slíkt tækifæri hafi ákærði fyrst hitt brotaþola. Nokkrum dögum síðar hafi ákærði verið á [...] á [...] er brotaþoli hafi komið til hans. Hafi þau kastað kveðju hvort á annað. Hafi ákærði boðið brotaþola að setjast hjá sér. Hafi hann spurt hana hvort henni væri kalt og hún sagt svo vera. Hafi ákærði lánað henni jakka sem hún hafi farið í heim til sín. Hafi hann sagt henni að hún gæti skilið jakkann eftir í húsnæði [...] á [...] þar sem ákærði væri að vinna. Síðar hafi brotaþoli sent ákærða sms-skilaboð og beðið ákærða um að hitta sig. Hafi hún sagt að hún vildi skila jakkanum. Þetta hafi hún ítrekað í mörgum sms-skilaboðum síðar. Í fyrstu hafi ákærði neitað því að hitta hana vegna jakkans, en um síðir ákveðið að hitta hana. Hafi ákærði vegna þessa aftur hitt brotaþola á ströndinni við [...]. Ákærði hafi einungis hitt stúlkuna í þessi tvö skipti á [...]. Ákærði kvaðst hvorki hafa kysst stúlkuna né snert hana í þessi skipti. Stúlkan hafi margsinnis sent ákærða sms-símaskilaboð eftir þetta og beðið hann um að hitta sig. Ákærði hafi loks sagt að það yrði „vesen“ í skólanum ef hann fengi ekki jakkann. Hún hafi hins vegar gert mikið úr því þegar hún hafi skilað jakkanum. Hafi hún látið vin ákærða fá jakkann í skólanum. Í framhaldi hafi mál þetta farið af stað. Ákærði kvaðst staðfesta að hafa sent stúlkunni 286 sms-símaskilaboð á tímabilinu 15. júlí til 4. ágúst 2011. Stúlkan hafi á móti sent ákærða um 380 skilaboð. Í flestum tilvikum hafi stúlkan verið að inna ákærða eftir því hvort hann vildi hitta hana. Þá hafi hún sent honum sms-símaskilaboð í hvert sinn sem hún hafi séð hann í bænum. Hún hafi því haft frumkvæðið í þessum sms-skilaboðum og ákærði svarað henni. Skilaboðin hafi gengið á milli þeirra á ýmsum tímum sólarhrings. 

Ákærði kvað starf sitt fyrir [...] vera ungliðastarf. Hafi hann ekki hitt brotaþola í því starfi sínu. Ákærði kvaðst hafa bætt brotaþola við á fésbókina sína sem vini. Það hafi margir aðrir gert á svipuðum tíma. Ekki hafi mikil samskipti verið við stúlkuna á síðunni. Í þeim samskiptum hafi hún oft sagt ákærða að hún vildi hitta hann. Hafi hún sagt að hún væri 16 ára. Ákærði kvað sér síðar hafa orðið ljóst að stúlkan væri einungis 13 ára að aldri. Það hafi komið fram í upplýsingum um stúlkuna á fésbókarsíðu hennar. Ákærði kvaðst hafa vitneskju um að brotaþoli hafi sent fjórum karlmönnum skilaboð á svipuðum tíma og hún hafi verið í samskiptum við ákærða, þar sem hún hafi lýst því að hún vildi hitta þessa menn þar sem henni litist vel á þá. Ákærði kvað lýsingar brotaþola á samskiptum við ákærða um kynferðisleg samskipti vera úr lausu lofti gripnar. Enginn fótur væri fyrir þeim. Ákærði kvaðst ekki hafa verið í samskiptum við brotaþola í [...] og hafi hann ekki átt að leiðbeina henni í starfi sínu. Hafi brotaþoli ekki verið við nám í [...]. Ákærði kvað sér hafa verið vikið úr starfi sem stuðningsfulltrúi er mál það sem hér sé til meðferðar hafi komið upp.     

Brotaþoli kvaðst fyrst hafa hitt ákærða á skemmtun á [...] þar sem ákærði hafi leikið trúð. Ákærði hafi verið að lita framan í andlit barna og ritað nafn sitt á hönd brotaþola. Hafi hann spurt hvort brotaþoli væri til í að bæta sér við á fésbók brotaþola. Brotaþoli kvaðst hafa bætt ákærða við á síðuna og í framhaldi af því hafi þau farið að ræða saman. Á síðunni hafi ákærði spurt brotaþola hve gömul hún væri. Hafi brotaþoli svarað því til að hún væri 13 ára. Hafi hann spurt brotaþola hvort hún væri til í að hitta sig. Hafi brotaþoli ákveðið að hitta ákærða og þau hist á [...] á [...]. Þar hafi ákærði tekið af henni myndir. Einnig hafi ákærði kysst hana tungukossum. Hafi þau legið saman í grasi við sandinn. Þar hafi ákærði strokið brotaþola um kynfæri utan klæða. Einnig hafi hann snert brjóst hennar utan klæða og innan. Ákærði hafi spurt brotaþola að því hvort hún væri til í að koma heim til ákærða, en hann hafi beðið brotaþola um að hafa við sig samræði. Það hafi hún ekki verið til í. Hafi þau hist nokkrum sinnum á [...] sumarið 2011. Hafi tilvikin ekki verið fleiri en 8 í allt. Brotaþoli kvaðst hafa fengið peysu ákærða að láni í eitt skipti á [...]. Ákærði hafi síðla sumars farið til [...]. Er hann hafi komið til baka hafi hann ekki viljað ræða við brotaþola. Hafi brotaþoli spurt hann hvernig hún gæti skilað peysunni. Hafi niðurstaðan orðið sú að brotaþoli hafi látið vin ákærða, N, fá peysuna í skólanum. Síðar um sumarið hafi stúlka, sem brotaþoli hafi ekki þekkt, sent brotaþola skilaboð í gegnum fésbókina og spurt hvort brotaþoli þekkti ákærða. Stúlkan hafi sagt hvað komið hefði fyrir á milli hennar og ákærða. Hafi brotaþoli sömuleiðis sagt stúlkunni frá því sem átt hafi sér stað á milli hennar og ákærða þetta sumar. Brotaþoli kvaðst eiga heima í nágrenni húsnæðis [...] á [...]. Síðla kvölds, eftir að málið kom upp, hafi brotaþoli verið á heimleið er hún hafi séð ákærða og vini hans. Hafi brotaþoli ákveðið að fara yfir götuna og ganga hinum megin til að þurfa ekki að hitta ákærða og vini hans.

S kvaðst vera vinkona brotaþola. Brotaþoli hafi greint S frá því í ágúst 2011 að hún hafi kynnst 25 ára manni. Hafi brotaþoli sagt að þau gerðu alls konar hluti saman. Hafi hún leyft manninum að snerta brjóst sín og kynfæri utan klæða. Er hann hafi reynt að strjúka kynfæri hennar innanklæða hafi hún ávallt stöðvað hann. Einnig hafi hann reynt að fá brotaþola til að hafa við sig samræði. 

E, móðir brotaþola, kvaðst fyrst hafa frétt af hugsanlegum brotum ákærða gegn dóttur hennar um mánaðamótin september október 2011. Hafi hún spurt dóttur sína um hvað hafi gerst og dóttirin sagt að hún hafi einungis kysst ákærða. Sumarið 2011 hafi dóttir hennar farið út að nóttu til um tvisvar til þrisvar sinnum í viku. Hafi hún sagt að hún væri að fara til vinkvenna sinna. Hafi E ekki grunað að neitt sérstakt væri í gangi. Dóttir hennar hafi átt marga vini á fésbókinni og verið í miklum samskiptum við þá. Síma hafi dóttir hennar minna notað. Dóttirin hafi opnað sig hægt gagnvart því sem átt hafi sér stað. Hún hafi greint frá því að ákærði hafi kysst hana og snert hana en ekki gengið lengra. Dóttir hennar hafi sótt tíma hjá sálfræðingi í kjölfar þessara atburða og liði henni almennt betur nú en áður. Þætti dótturinni verst þegar hún hitti ákærða á götu úti á [...]. Dóttirin hafi verið skráð sem sjálfboðaliði hjá [...] á [...] fyrir þennan atburð. Eftir að málið kom upp hafi hún hætt að mæta þar.

F, faðir brotaþola, kvaðst hafa frétt af málinu í gegnum eiginkonu sína. Eftir að málið kom upp hafi dóttir hans verið taugaspenntari en áður. Ekki hafi hann haft vitneskju um að dóttir hans hafi verið að hitta ákærða. Hafi hann staðið í þeirri trú að stúlkan væri að hitta einhvern dreng en er hann hafi fært í tal við hana að hún myndi bjóða drengnum heim hafi dóttirin alltaf færst undan. Það hafi honum þótt skrýtið.

Fyrir dóminn komu C, T og V. Báru þeir allir á svipaðan veg um að þeir væru vinir ákærða. Hafi þeir haft vitneskju um að ákærði og brotaþoli væru vinir á fésbókinni og að hún hafi sent honum skilaboð í gegnum síðuna. Er þeir félagar hafi hist hafi komið í ljós að brotaþoli hafi sent þeim öllum samsvarandi skilaboð í gegnum fésbókina sumarið 2011. Hafi hún tjáð þeim öllum að hún elskaði þá.    

N bar að dag einn, er hann hafi verið að störfum í [...], hafi hann tekið eftir því að stúlka hafi elt hann um skólann. Hafi honum fundist þetta skrýtið og spurt kennara í skólanum hvað væri í gangi. Stundum hafi stúlkan gengið rétt fram hjá honum og þá talað við sjálfa sig [...]. Ungur drengur og stúlka hafi verið með henni. Á einhverjum tímapunkti hafi litli strákurinn gengið að honum og sparkað í hann. Hafi drengurinn viðhaft ljótt orðbragð. Í framhaldi hafi brotaþoli og stúlkan komið til N og sagt að ákærði ætti jakka er þær hafi verið með í fórum sínum. Sú stúlka, er hafi verið með brotaþola í för, hafi haft orð fyrir þeim. Hafi stúlkurnar verið hlæjandi er þær hafi gengið á brott. Einhver í skólanum hafi sagt að funda þyrfti strax um málið. Það hafi verið gert í framhaldinu og N þá frétt um hvað málið snérist.   

Margrét K. Magnúsdóttir sálfræðingur kvaðst hafa tekið skýrslur af báðum brotaþolum í málinu í Barnahúsi. Að beiðni barnaverndaryfirvalda á [...] hafi hún tekið könnunarviðtal við brotaþola. Þar hafi komið fram að A hafi sett sig í samband við brotaþola á fésbókinni. Í kjölfar þessa könnunarviðtals hafi málið fengið framgang með frekari rannsókn og viðtali.

P, yfirfélagsráðgjafi hjá barnaverndarnefnd [...], bar að móðir A hafi haft samband vegna grunsemda um að eitthvað hafi komið fyrir í samskiptum stúlkunnar og ákærða. A hafi fregnað í skólanum að önnur stúlka hafi einnig verið í samskiptum við ákærða. Þessi atriði hafi leitt til þess að könnunarviðtal hafi verið tekið í Barnahúsi. Það viðtal hafi leitt til þess að fram hafi farið skýrslutaka í Barnahúsi sem hluti af rannsókn sakamáls. P kvaðst hafa haft upplýsingar um að brotaþoli hafi starfað fyrir [...] á [...] áður en málið hafi komið upp. Sökum þess hafi hún ekki treyst sér til að starfa þar lengur. 

Þorbjörg Sveinsdóttir, sálfræðingur í Barnahúsi, kvaðst hafa tekið 16 viðtöl við brotaþola. Stúlkunni liði ágætlega og bæri hún sig vel. Brotaþoli væri ekki að glíma við þunglyndi eða kvíða. Hún væri samt að glíma við mikla skömm og sektarkennd. Það sem truflaði bata hennar væri að stúlkan væri öðru hvoru að rekast á ákærða á [...] en við það kæmist hún í uppnám. Þyrfti hún í kjölfarið að ræða við einhvern um líðan sína. Þætti henni mjög óþægilegt að rekast á ákærða. Þá væri vanlíðanin oft sterkari á kvöldin þegar um hægðist. Hefði það þau áhrif að stúlkan væri alltaf á ferðinni til að sitja ekki auðum höndum. Þyrfti hún alltaf að hafa eitthvað fyrir stafni. Skólastjórnendur á [...] hafi haft áhyggjur af því að stúlkan sækti um of í óæskilegan félagsskap.   

Q lögregluvarðstjóri og R lögreglufulltrúi staðfestu þátt sinn í rannsókn málsins. Q kvað rannsókn lögreglu í upphafi hafa bent til þess að ákærði hafi sent brotaþola mikið af sms-skilaboðum án þess að brotaþoli svaraði. Rannsókn málsins hafi síðar leitt í ljós mjög mörg skilaboð frá brotaþola til ákærða.

Niðurstaða:   

Ákærða er í II. kafla ákæru gefið að sök kynferðisbrot gegn brotaþola með því að hafa í allt að átta aðgreind skipti á tímabilinu 17. júní til 16. ágúst 2011, á [...] á [...], áreitt brotaþola kynferðislega með því að kyssa hana tungukossi á munninn, strjúka henni með hendi á brjóstum innan og utan klæða, strjúka henni með hendi á kynfærum utan klæða og biðja hana um að hafa við sig samræði eða önnur kynferðismök. Ákærði neitar sök samkvæmt II. kafla ákæru. Hefur hann viðurkennt að hafa sent brotaþola 286 sms-skeyti þetta sumar og að brotaþoli hafi sent ákærða 380 skeyti. Hefur hann jafnframt viðurkennt að hafa bætt brotaþola á fésbókarsíðu sína og hafa verið í samskiptum við hana á síðunni. Loks hefur ákærði viðurkennt að hafa hitt brotaþola í tvö skipti á [...] og að hafa lánað henni þar jakka. Hafi hann ekki að neinu leyti áreitt stúlkuna kynferðislega. Ekki hafi hann heldur kysst hana.

Framburður ákærða er ótrúverðugur um tiltekin atriði málsins. Þannig miðar hann við að hafa einungis verið í litlu sambandi við brotaþola þetta sumar. Það fær ekki staðist miðað við þann fjölda sms-skilaboða er farið hefur á milli þeirra á stuttum tíma þetta sumar. Þá þykir sá framburður ákærða afar ósennilegur að samskiptin hafi að mestu varðað skil á jakka er ákærði hafi lánað brotaþola. Í ljósi tíðra samskipta ákærða og brotaþola þykir einnig einkar ósennilegur sá framburður ákærða að hann hafi fyrir tilviljun hitt brotaþola á [...] þetta sumar. Fyrir utan símasamskipti hefur ákærði viðurkennt að hafa sett brotaþola inn á fésbókarsíðu sína. Öll þessi samskipti ákærða, sem þá var 25 ára að aldri, við 13 ára stúlku voru óeðlileg í ljósi aldursmunar og stöðu þeirra beggja. 

Framburður brotaþola hefur hins vegar verið stöðugur og trúverðugur að mati dómsins. Þannig hefur fullt innra samræmi verið í framburði brotaþola um öll meginatriði málsins, bæði í könnunarviðtali í Barnahúsi, skýrslu hennar á sama stað og varðandi þau atriði er hún greindi vinkonu sinni S frá. Styðst hann að auki við tiltekin rannsóknargögn málsins, svo sem fjölda sms-skeyta frá ákærða, en það styður þann framburð brotaþola að ákærði hafi ítrekað verið í sms-sambandi við hana þar sem hann hafi leitað eftir að fá að hitta brotaþola. Þegar öll framangreind atriði eru virt leggur dómurinn trúverðugan framburð brotaþola til grundvallar niðurstöðu og telur hafið yfir skynsamlegan vafa að ákærði hafi framið þau brot er í ákæru greinir. Verður hann því sakfelldur samkvæmt II. kafla ákæru. 

Ákærði er fæddur í [...] 1986. Hefur hann ekki áður gerst sekur um refsiverða háttsemi svo kunnugt sé. Brot ákærða voru alvarleg og beindust gegn mikilsverðum hagsmunum. Voru brotaþolar ungir að árum og á viðkvæmum aldri í kynþroska er brotin voru framin. Nýtti ákærði sér yfirburðastöðu sína gagnvart þeim. Með hliðsjón af öllu þessu, sbr. og 1., 6. og 7. tl. 1. mgr. 70. gr. laga nr. 19/1940, er refsing ákærða ákveðin fangelsi í tvö ár.  

Réttargæslumaður hefur f.h. D, vegna ólögráða dóttur hennar, krafist skaðabóta úr hendi ákærða. Er krafist miskabóta að fjárhæð 2.000.000 króna, auk vaxta. Er vísað til þess að brotaþoli hafi orðið fyrir ítrekuðu og alvarlegu kynferðisofbeldi á heimili ákærða. Hafi verknaðurinn leitt til verulegs tjóns fyrir brotaþola. Um lagarök er vísað til 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Með vísan til niðurstöðu um sakfellingu fyrir kynferðisbrot er það niðurstaða dómsins að framferði ákærða í greint sinn hafi valdið brotaþola miska. Á hún rétt á skaðabótum vegna háttsemi hans á grundvelli 26. gr. laga nr. 50/1993. Í ljósi atvika málsins og dómvenju á réttarsviðinu eru bætur þessar hæfilega ákveðnar 1.000.000 króna. Fjárhæð dæmdra skaðabóta ber vexti eins og í dómsorði greinir.

Þá hefur réttargæslumaður f.h. E og F, vegna ólögráða dóttur þeirra, krafist skaðabóta úr hendi ákærða. Er krafist miskabóta að fjárhæð 2.000.000 króna, auk vaxta. Er vísað til þess að brotaþoli hafi orðið fyrir ítrekuðu kynferðisofbeldi af hálfu ákærða. Hafi verknaðurinn leitt til verulegs tjóns fyrir brotaþola. Um lagarök er vísað til 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Með vísan til niðurstöðu um sakfellingu fyrir kynferðisbrot er það niðurstaða dómsins að framferði ákærða í greint sinn hafi valdið brotaþola miska. Á hún rétt á skaðabótum vegna háttsemi hans á grundvelli 26. gr. laga nr. 50/1993. Í ljósi atvika málsins og dómvenju á réttarsviðinu eru bætur þessar hæfilega ákveðnar 800.000 krónur. Fjárhæð dæmdra skaðabóta ber vexti eins og í dómsorði greinir.

Ákærði greiði tildæmd málsvarnarlaun og þóknun réttargæslumanns brotaþola, hvorutveggja að viðbættum virðisaukaskatti, svo sem í dómsorði greinir. Þá greiði ákærði sem sakarkostnað 15.540 krónur sem er útlagður kostnaður vegna vitna við fyrri meðferð málsins.

Kostnaður vegna varnar ákærða í þessum þætti málsins og þóknun réttargæslumanns brotaþola hvorutveggja að viðbættum virðisaukaskatti greiðist úr ríkissjóði svo og sakarkostnaður vegna vitna við meðferð málsins nú og vottorðs Dagbjartar Sigurðardóttur geðlæknis greiðist úr ríkissjóði.

Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Margrét Unnur Rögnvaldsdóttir aðstoðarsaksóknari.

Allan Vagn Magnússon dómstjóri, Hjörtur O. Aðalsteinsson héraðsdómari og Símon Sigvaldason héraðsdómari kváðu upp þennan dóm.

D ó m s o r ð:

Ákærði, Nael H. A. Rajabi, sæti fangelsi í tvö ár.

Ákærði greiði D, vegna A, 1.000.000 króna í skaðabætur, ásamt vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, frá 3. júlí 2011 til 29. febrúar 2012, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

Ákærði greiði E og F, vegna B, 800.000 krónur í skaðabætur, ásamt vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 16. ágúst 2011 til 29. febrúar 2012, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

Ákærði greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Gríms Sigurðarsonar héraðsdómslögmanns, 313.750 krónur og þóknun til réttargæslumanns beggja brotaþola, Helgu Leifsdóttur, héraðsdómslögmanns, 251.000 krónur. Þá greiði ákærði 15.540 krónur í sakarkostnað til ríkissjóðs.

Málsvarnarlaun Sigríðar Rutar Júlíusdóttur hæstaréttarlögmanns 376.500 krónur, og þóknun til réttargæslumanns beggja brotaþola, Helgu Leifsdóttur héraðsdóms­lögmanns, 218.250 krónur greiðist úr ríkissjóði og annar sakarkostnaður að fjárhæð 69.315 krónur greiðist úr ríkissjóði.