Mál nr. 813/2016
- Kærumál
- Farbann
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem X var gert að sæta farbanni á grundvelli 1. mgr. 100. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, sbr. b. lið 1. mgr. 95. gr. sömu laga.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Greta Baldursdóttir og Benedikt Bogason og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 7. desember 2016, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 8. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 6. desember 2016 þar sem varnaraðila var gert að sæta farbanni þar til dómur gengur í máli hans, en þó eigi lengur en til þriðjudagsins 3. janúar 2017 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að farbanninu verði markaður skemmri tími.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 6. desember 2016.
Héraðssaksóknari hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að X, [...] ríkisborgara, fd, [...], verði gert að sæta farbanni á meðan mál hans er til meðferðar fyrir dómstólum, þó eigi lengur en til þriðjudagsins 3 janúar 2017, kl. 16:00.
Í greinargerð héraðssaksóknara kemur fram að héraðssaksóknari hafi þann 2. desember sl. gefið út ákæru á hendur ákærða X fyrir nauðgun, með því að hafa, að kvöldi föstudagsins 11. mars 2016, í herbergi á gistiheimili að [...] í [...], beitt A, fæddri [...], ólögmætri nauðung til þess að hafa við hana samræði og önnur kynferðismök en ákærði hafi nuddað kynfæri hennar og síðan lagst ofan á hana og haft við hana samræði, þrátt fyrir að hún hefði sagt honum að hún vildi það ekki og beðið hann um að hætta. Brot ákærða sé talið varða við 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og geri ákæruvaldið kröfu um að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.
Barnaverndarnefnd [...] hafi óskað eftir lögreglurannsókn málsins með bréfi dags. 21. mars sl. í kjölfar þess að brotaþoli hefði greint frá því á neyðarmóttöku Landspítala að henni hefði verið nauðgað af ákærða að kvöldi hins 11. mars sl. Brotaþoli hafi farið á neyðarmóttöku í fylgd lögreglu þann 13. mars sl. eftir að lögregla hefði haft afskipti af henni í miðbæ Reykjavíkur vegna slæms ástands og uppnáms hennar. Við rannsókn málsins hafi ákærði verið yfirheyrður þrisvar sinnum og hafi hann neitað sök og sagt að hann hefði ekki haft kynferðislegt samneyti við brotaþola. Meðal rannsóknargagna málsins séu niðurstöður DNA-rannsóknar þar sem fram komi að DNA-snið úr sýni af nærbuxum brotaþola sé hið sama og DNA-snið ákærða. Þá liggi fyrir samskipti brotaþola og ákærða af facebook fyrir og eftir umræddan dag, sem og framburðir vitna.
Að mati héraðsaksóknara sé fyrir hendi rökstuddur grunur um að ákæði hafi framið brot gegn 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga, en brot gegn ákvæðinu geti varðað fangelsi frá einu ári og allt að sextán árum. Ákærði sé erlendur ríkisborgari og hafi engin varanleg tengsl við landið. Hann sé hælisleitandi hér á landi og dvelji nú á vegum Barnaverndarnefndar Reykjavíkur. Útlendingastofnun hafi synjað honum um hæli og sé hælismál hans nú til meðferðar hjá kærunefnd í útlendingamálum. Það sé mat héraðssaksóknara að kærði kunni að reyna að komast úr landi og telji héraðssaksóknari nauðsynlegt að tryggja nærveru hans á meðan sakamálið á hendur honum sé til meðferðar fyrir dómstólum.
Með vísan til framangreinds, framlagðra gagna og b. liðar 1. mgr. 95. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. laga 88/2008 um meðferð sakamála sé þess krafist að krafan nái fram að ganga.
Niðurstaða:
Héraðsaksóknari telur að fyrir hendi sé rökstuddur grunur um að ákærði hafi framið brot gegn 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga, en brot gegn ákvæðinu geta varðað fangelsi frá einu ári og allt að sextán árum. Ákæra, á hendur honum vegna ætlaðs brots, var gefin út þann 2. desember sl. Ákærði er erlendur ríkisborgari og hefur engin varanleg tengsl við landið. Hann er hælisleitandi hér á landi og dvelur nú á vegum Barnaverndarnefndar Reykjavíkur. Útlendingastofnun hefur synjað honum um hæli og hælismál hans er nú til meðferðar hjá kærunefnd í útlendingamálum. Fram kom hjá saksóknara að fyrir skömmu hafi embættinu borist upplýsingar um að ákærði hyggðist fara af landi brott vegna aðstæðna í heimalandi. Því er fallist á það mat héraðssaksóknara að kærði kunni að reyna að komast úr landi og að nauðsynlegt sé að tryggja nærveru hans á meðan sakamálið á hendur honum er til meðferðar fyrir dómstólum.
Með vísan til framangreinds, framlagðra gagna og b- liðar 1. mgr. 95. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. laga 88/2008, um meðferð sakamála, er fallist á kröfu héraðssaksóknara eins og hún er fram sett og tekur aðeins til fjögurra vikna og eru því ekki efni til að verða við kröfu verjanda um að farbanni verði markaður skemmri tími.
Þórður Clausen Þórðarson kveður upp þennan úrskurð.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð :
Ákærða X, [...] ríkisborgara, fd, [...], er gert að sæta farbanni á meðan mál hans er til meðferðar fyrir dómstólum, þó eigi lengur en til þriðjudagsins 3. janúar 2017, kl. 16:00.