- Kærumál
- Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
Þriðjudaginn 5. nóvember 2013. |
|
Nr. 701/2013. |
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu (Jón H.B. Snorrason saksóknari) gegn Ö (Eggert Páll Ólason hdl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008. Úrskurður héraðsdóms felldur úr gildi.
Úrskurður héraðsdóms um að Ö skyldi gert að sæta gæsluvarðhaldi, á grundvelli a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, var felldur úr gildi.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómasson og Greta Baldursdóttir og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 1. nóvember 2013 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 4. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 1. nóvember 2013 þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 8. nóvember 2013 klukkan 16 og einangrun meðan á því stendur. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími og „verði án takmarkana“.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Varnaraðili hefur setið í gæsluvarðhaldi frá 29. október 2013. Af gögnum málsins verður ráðið að rannsókn á ætlaðri refsiverðri háttsemi hans sé langt á veg komin. Þá verður ekki séð af gögnunum að fram hafi komið nýjar upplýsingar sem renni stoðum undir að áframhaldandi gæsluvarðhald sé nauðsynlegt til að koma í veg fyrir að varnaraðili geti torveldað rannsókn málsins, eins og áskilið er í a. lið 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008. Að þessu virtu verður hinn kærði úrskurður felldur úr gildi.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 1. nóvember 2013.
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að Ö, kt. [...], [...], [...], verði áfram gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 8. nóvember 2013, kl. 16:00. Þá er þess krafist að honum verði gert að sæta einangrun á meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.
Í greinargerð lögreglu kemur fram að lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hafi nú til rannsóknar mál er varði milligöngu um vændi og peningaþvætti.
Rannsókn lögreglu beinist að ætlaðri sölu og milligöngu vændis forsvarsmanna og starfsmanna veitingastaðar í [...] í Reykjavík sem er rekinn undir heitinu [...], en X sé skráður eigandi staðarins. Lögreglan hafi fengið og aflað ótvíræðra upplýsinga og staðfestinga um að konur á staðnum og á vegum staðarins selji kynlíf gegn greiðslu. Sannreynt hafi verið að greiðsla fari fram hjá starfsfólki veitingahússins á bar, með því að greitt sé með greiðslukorti inn á greiðslukortareikning staðarins. Veitingastaðurinn og viðkomandi kona skipti síðan greiðslu á milli sín að jöfnu. Grunsemdir hafi verið staðfestar um að kynlífsþjónustan sem starfsmenn veitingahússins hafi milligöngu um fari fram í húsnæði veitingastaðarins. Lögreglan hafi ástæðu til að ætla að allt að 10 konur stundi vændi á vegum staðarins. Grunsemdir séu um að vændisstarfsemi hafi verið stunduð á vegum staðarins undanfarin 4-6 misseri a.m.k.
Aðfararnótt laugardagsins síðasta hafi sjö óeinkennisklæddir lögreglumenn farið á staðinn í tveimur aðskildum hópum. Þeim hafi öllum verið boðin kynlífsþjónusta gegn 100.000 kr. greiðslu, auk ýmissar annarrar þjónustu eins og einkadans, en í því felist að starfsstúlka staðarins dansi nakin fyrir viðskiptavininn. Hafi þeim verið boðið að vera í klukkustund með einni af starfsstúlkum staðarins í sérstöku herbergi á þriðju hæð hússins. Í því herbergi og gegn 100.000 kr. greiðslu væri allt leyfilegt, þar væri hægt að fá “sex” og “go all the way”.
Í kjölfarið hafi lögreglan framkvæmt húsleit á veitingastaðnum. Alls hafi níu aðilar handteknir og voru stúlkurnar á staðnum færðar til skýrslutöku hjá lögreglu sem vitni. Sex aðilum hafi í kjölfarið verið gert að sæta gæsluvarðhaldi vegna málsins, þ.á.m. kærða.
Kærði hafi neitað sök við skýrslutöku hjá lögreglu. Hann kveðst starfa á veitingastaðnum einu sinni í viku. Að sögn kærða hafi hann átt [...] á undan X, á árunum 2007-2009. Kærði kveðst starfa sem barþjónn á staðnum, hann kveðst gera reikninga, búa þá til bókara og ganga frá þeim. Ö hafi ekki viljað tjá sig um starfsstúlkur staðarins. Hann hafi neitað því að vændi væri gert út af staðnum.
Lögreglan hafi nú til rannsóknar milligöngu um vændi starfsstúlkna á veitingastaðnum [...] sem kærði starfi á. Ljóst sé að við aðgerðir lögreglu hafi komið upp rökstuddur grunur um það að vændi væri stundað á veitingastaðnum, en óeinkennisklæddum lögreglumönnum hafi verið boðin kynlífsþjónusta með stúlkum sem voru á staðnum. Kærði starfi þar sem barþjónn á staðnum og taki við greiðslum fyrir vændisþjónustuna. Hann sjái einnig um að búa til reikninga og ganga frá þeim.
Stúlkurnar neiti því allar að starfa á veitingastaðnum. Það liggi fyrir í málinu að framburðum kærða og þeirra vitna sem lögreglan hafi tekið skýrslu af beri ekki saman um hvað stúlkurnar geri þarna á veitingastaðnum og hvaða starfsemi sé þar nákvæmlega stunduð. Lögreglan hafi nú undir höndum gögn sem sýni ótvírætt fram á það að stúlkurnar starfi á staðnum, sbr. meðfylgjandi gögn.
Rannsókn málsins sé nú í fullum gangi, lögreglan vinni í því að afla frekari gagna, fara í gegnum þau gögn sem þegar hafi verið lagt á og taka frekari skýrslur af kærðu og öðrum aðilum sem tengist málinu. Þá sé unnið að rannsókn sönnunargagna m.a. m.t.t. framburðar kærða og vitna. Það þyki afar nauðsynlegt á þessu stigi máls að kærða verði áfram gert að sæta gæsluvarðhaldi m.t.t. rannsóknarhagsmuna málsins, enda brýnt að lögreglan geti borið þessi gögn sjálfstætt undir kærða. Gangi kærði frjáls ferða sinna þá kunni hann að spilla rannsókninni, s.s. með því að afmá merki eftir brot, koma undan gögnum eða munum sem sönnunargildi hafi eða haft áhrif á aðra samverkamenn og/eða vitni. Brot kærða sé talið varða við ákvæði 3. og 6. mgr. 206. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Með vísan til framangreinds, framlagðra gagna og a. liðar 1. mgr. 95. gr. og b. liðar 1. mgr. 99. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamálamála sé þess krafist að krafan nái fram að ganga.
Kærði hefur neitað sök. Samkvæmt því sem rakið er í greinargerð lögreglustjóra og ráða má af öðrum gögnum málsins er kærði undir rökstuddum grun um að hafa, í félagi við aðra, framið brot gegn 206. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, með því að hafa milligöngu um vændi og þiggja fyrir það greiðslu. Brot það sem kærði er grunaður um getur varðað fangelsisrefsingu. Rannsókn málsins er í fullum gangi. Er fallist á það með lögreglustjóranum að kærði geti, gangi hann laus, torveldað rannsókn málsins, svo sem með því að afmá merki eftir brot, komið undan gögnum eða munum sem sönnunargildi hafi eða haft áhrif á aðra samverkamenn og/eða vitni. Með vísan til þess eru uppfyllt skilyrði a.-liðar 1. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008. Verður krafan því tekin til greina eins og hún er fram sett. Ekki eru efni til þess að marka gæsluvarðhaldinu skemmri tíma. Með sömu rökum er fallist á að kærði sæti einangrun í gæsluvarðhaldinu, eins og krafist er, samkvæmt b-lið 1. mgr. 99. gr. laga nr. 88/2008.
Sigrún Guðmundsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Kærði, Ö, kt. [...], skal sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 8. nóvember 2013, kl. 16:00. Kærði skal sæta einangrun á meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.