- Kynferðisbrot
- Sératkvæði
|
Fimmtudaginn 29. janúar 2009. |
Nr. 558/2008. |
Ákæruvaldið(Hulda Elsa Björgvinsdóttir settur saksóknari) gegn X(Eva Bryndís Helgadóttir hrl.) |
Kynferðisbrot. Sératkvæði.
X var ákærður fyrir kynferðislega áreitni samkvæmt 199. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því að hafa í rennistiga í Smáralind gripið um og kreist hægri rasskinn A. X kvaðst einungis hafa klappað á eða rétt við mjóbak A. Ekki var talið unnt að byggja á því sem lögreglumenn báru fyrir dómi um að hann hafi sagt þeim á vettvangi, sbr. 1. mgr. 111. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Talið var að leggja yrði til grundvallar að X hafi klappað eða slegið til A og að snertingin hafi verið við neðanvert mjóbak hennar. 199. gr. hegningarlaga telji ekki tæmandi þá hegðan sem sé refsiverð samkvæmt henni. Talið var að þegar um snertingu utan þeirra líkamshluta, sem þar eru tilgreindir, væri að ræða væri regla ákvæðisins matskennd. Við það mat þyrfti m.a. að líta til þess hvar snertingin væri, hvort hún væri innan klæða eða utan og hvers eðlis hún væri. Var ekki talið að háttsemi X félli undir ákvæðið og var hann því sýknaður.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Gunnlaugur Claessen og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 29. september 2008 af hálfu ákæruvaldsins og krefst þess að ákærði verði sakfelldur samkvæmt ákæru og honum ákvörðuð refsing.
Ákærði krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms, en að öðrum kosti krefst hann vægustu refsingar sem lög leyfa.
I
Ákærða er í málinu gefið að sök að hafa 22. desember 2007 „í rennistiga í verslunarmiðstöðinni Smáralind í Kópavogi, gripið um og kreist hægri rasskinn A...“. Háttsemi ákærða er talin varða við 199. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 8. gr. laga nr. 61/2007. Atvik málsins eru nánar rakin í hinum áfrýjaða dómi. Óumdeilt er að ákærði og kunningi hans, B, stóðu í rennistiganum í fyrrnefndri verslunarmiðstöð umrætt sinn á leið upp, tveimur til þremur þrepum fyrir aftan A, og að ákærði hafi snert bakhluta hennar með hendinni. Þeim ber hins vegar ekki saman um hvar á líkamanum það nákvæmlega var og hvernig snertingin var. A kveður ákærða hafa gripið um hægri rasskinn hennar og kreist þrisvar, en hann kveðst hafa klappað á eða rétt við mjóbakið. Auk þeirra varð áðurnefndur kunningi ákærða vitni að atvikinu í rennistiganum, en einnig hafa gefið skýrslu fyrir dómi tveir lögreglumenn, sem voru í Smáralind á sama tíma.
II
Um sönnun þess hvernig atvikið í rennistiganum gerðist nákvæmlega verður fyrst litið til þess að lögreglumennirnir tveir sáu það ekki. Þeir ræddu hins vegar við ákærða og vitnin tvö í Smáralind litlu síðar og gáfu um það frumskýrslu samdægurs. Fyrir dómi greindu þeir frá því, sem þeir töldu þau hafa sagt, meðal annars um það hvar og hvernig snerting ákærða við bakhluta A hafi verið. Framburður ákærða fyrir dómi um þetta stangast í verulegum atriðum á við það, sem eftir honum er haft í lögregluskýrslunni, og það sem lögreglumennirnir báru fyrir dómi um hverju hann hafi skýrt þeim frá. Með hliðsjón af 1. mgr. 111. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, sbr. 1. mgr. 48. gr. þágildandi laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, verður sakfelling ákærða ekki reist á því, sem skráð var eftir honum í lögregluskýrslu nema önnur atriði styðji þann framburð í verulegum atriðum. Breytir þar engu um þótt lögreglumennirnir hafi fyrir dómi skýrt frá samtali við ákærða. Verður því ekki lagt til grundvallar að hann hafi á frumstigi málsins sjálfur borið að hafa tvisvar sinnum gripið í rasskinn konunnar, sbr. til hliðsjónar dóma Hæstaréttar í málum nr. 404/2000 í dómasafni réttarins 2001, bls. 598 og 156/2005 í dómasafni 2006, bls.138.
Í héraðsdómi er greint frá framburði ákærða og A, þar sem verulega ber á milli. Þar er einnig lýst framburði vitnisins B og annmörkum, sem hann var talinn vera haldinn. Í lögregluskýrslu, sem tekin var af B 27. febrúar 2008, var skráð eftir honum að hann hafi séð útundan sér að ákærði hafi klappað eða slegið á rasskinn konunnar. Hann hafi þó ekki séð nákvæmlega hvort það hafi verið á rassinn eða neðanvert bakið. Þá kvaðst hann ekki hafa upplifað atvikið þannig að ákærði hafi „kreist á henni rassinn, heldur meira sem klapp.“ Í upphafi skýrslugjafar fyrir dómi sagði vitnið ákærða hafa klipið konuna „ekki neðarlega í bossann heldur ofarlega, þar sem ég tel mig hafa séð.“ Hann sagði ítrekað að atvikið hafi gerst mjög hratt, nánast á sekúndubroti. Þá hafi hann ekki verið að horfa mjög nákvæmlega á þetta, en „ég sá alveg raunverulega þegar hann dregur höndina til baka.“ Síðar í skýrslugjöfinni staðfesti hann þá lýsingu sína í lögregluskýrslu að ákærði hafi klappað eða slegið á bakhluta konunnar og að snertingin hafi verið fyrir ofan rassinn eins og komist var að orði.
Ráða má af forsendum héraðsdóms að niðurstaða hans um sönnun á því hvar og hvernig ákærði hafi snert bakhluta A hafi verið reist á framburði fjögurra vitna, þar á meðal tveggja lögreglumanna. Hér að framan var því lýst að ekki yrði byggt á framburði þeirra að þessu leyti. Svo sem fyrr var getið stendur orð gegn orði hjá ákærða og vitninu A um það hvaða líkamshluta hinnar síðarnefndu ákærði hafi snert og hvernig. Um þetta hefur framburður vitnisins B verið reikull, en þó ekki um það að atvikið hafi gerst mjög hratt og að hann hafi ekki séð það vel. Að öllu virtu verður að leggja til grundvallar að ákærði hafi klappað eða slegið til A og að snertingin hafi verið við neðanvert mjóbak hennar.
III
Í ákæru er háttsemi ákærða talin varða við 199. gr. almennra hegningarlaga, en samkvæmt henni skal hver sem gerist sekur um kynferðislega áreitni sæta fangelsi allt að 2 árum. Kynferðisleg áreitni felst samkvæmt ákvæðinu meðal annars í því að strjúka, þukla eða káfa á kynfærum eða brjóstum annars manns innan klæða sem utan. Ákvæðið var lögfest með 8. gr. laga nr. 61/2007 um breyting á almennum hegningarlögum. Í athugasemdum, sem fylgdu þessari grein í frumvarpi til laganna, var nánar skýrt hugtakið kynferðisleg áreitni en það sé háttsemi, kynferðislegs eðlis, sem hvorki teljist til samræðis né svokallaðra annarra kynferðismaka og felist í hvers konar snertingu á líkama annarrar manneskju sem sé andstæð góðum siðum og samskiptaháttum. Það sé kynferðisleg áreitni að strjúka, þukla eða káfa á kynfærum eða brjóstum þolanda innan klæða sem utan, en slíkt geti þó verið á því stigi, ákaft eða langvarandi, að um önnur kynferðismök sé að ræða. Þá segir í athugasemdunum að þukl og káf annars staðar en á kynfærum og brjóstum gæti verið kynferðisleg áreitni. Í frumvarpinu sé gert ráð fyrir að neðri mörk hugtaksins kynferðisleg áreitni verði rýmkað og að það verði ekki afmarkað við líkamlega snertingu, heldur geti einnig fallið undir það orðbragð og táknræn hegðun, sem sé mjög meiðandi, ítrekuð eða til þess fallin að valda ótta. Sé þá miðað við stöðugt áreiti, sem nálgist einelti.
Í 199. gr almennra hegningarlaga er lýst refsiverð sú háttsemi að strjúka, þukla eða káfa á kynfærum eða brjóstum annars manns innan klæða sem utan. Slíkar athafnir eru nefndar í dæmaskyni og er þar með ekki tæmandi talin sú hegðan, sem telst refsiverð, heldur getur fleira fallið þar undir. Regla þessa ákvæðis er matskennd þegar snerting er utan þeirra líkamshluta, sem sérstaklega eru tilgreindir. Við það mat er margt, sem líta verður til, svo sem hversu nærri snerting er kynfærum eða brjóstum, hvort hún er innan klæða eða utan og hvers eðlis hún er.
Í II. kafla að framan var komist að niðurstöðu um hvað sannað er um háttsemi ákærða umrætt sinn. Ákæruvaldinu hefur ekki tekist að sanna að hún hafi verið með þeim hætti, sem ákærða er gefið að sök, og liggur ekki annað fyrir en að hann hafi með hegðan sinni gengið mun skemmra en byggt er á í ákæru. Að öllu virtu verður ekki talið að ákærði hafi unnið sér til refsingar samkvæmt áðurnefndu ákvæði almennra hegningarlaga. Verður niðurstaða hins áfrýjaða dóms því staðfest.
Allur áfrýjunarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.
Allur áfrýjunarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun Evu B. Helgadóttur hæstaréttarlögmanns, skipaðs verjanda ákærða, X, 311.250 krónur.
Sératkvæði
Ingibjargar Benediktsdóttur
Ég er sammála meiri hluta dómara um I. kafla svo og um 1. mgr. II. kafla hennar. Í lögregluskýrslu 11. febrúar 2008 er haft eftir ákærða að hann hafi klappað tvisvar laust rétt fyrir neðan mjóbak konunnar, þetta hafi verið létt klapp ekki stroka. Fyrir dómi neitaði hann að hafa gripið og kreist hægri rasskinn hennar eins og honum er gefið að sök í ákæru heldur kvaðst hann hafa hann klappað henni við mjóbakið. Aðspurður um hvernig konan hafi brugðist við sagði hann að henni hafi brugðið „rétt aðeins“. Í símaskýrslu sem tekin var af vitninu B við rannsókn málsins er eftir honum haft að hann hafi séð útundan sér að ákærði hafi klappað eða slegið á rass eða neðanvert bak konunnar. Eins og fram kemur í héraðsdómi var framburður hans fyrir dóminum á reiki um hvar ákærði hafi snert konuna og hvernig. Er hann var beðinn um að lýsa atvikum sjálfstætt sagði hann að ákærði hafi klipið konuna „ekki neðarlega í bossann heldur ofarlega þar sem ég tel mig hafa séð“. Nánar aðspurður um hvað hann hafi séð sagði hann: „Ja ... við það svæði skilurðu, en fyrir ofan rassinn. Já mér sýndist það.“ Viðbrögð konunnar hafi verið þau að hún hafi orðið „sjokkeruð“ og reið. Hann hafi merkt það á því að konan hafi ætlað að slá ákærða. Aðspurður um það hvort honum hafi fundist þessi framkoma ákærða eðlileg sagði vitnið: „Maður klípur ekki ókunnuga manneskju í stiga.“ Ákærði hafi síðar sagt sér að hann hafi farið mannavillt. Aðspurður í lok yfirheyrslunnar fyrir dómi kvaðst hann ekki hafa séð snertinguna vel en dregið þá ályktun af því hvar hönd ákærða var, „þá var hann það ofarlega, eins og hann væri við mjóbakið.“ Framburði konunnar er lýst í hinum áfrýjaða dómi. Er ljóst að ákærða og henni ber hvorki saman um hvar hann hafi snert hana eða hvernig. Konan hefur staðfastlega haldið því fram að ákærði hafi gripið í rasskinn hennar, en framburður ákærða við rannsókn málsins og dómi hefur ekki að öllu leyti verið staðfastur um það hvar hann kom við konuna. Það hafi ýmist verið rétt fyrir neðan eða á mjóbakið. Viðbrögð hennar benda eindregið til þess að ákærði hafi gert annað og meira en að snerta mjóbak hennar. Þegar framangreint er virt tel ég að staðfesta beri þá niðurstöðu héraðsdóms að sannað sé að ákærði hafi gripið ofarlega í rass konunnar. Sú viðbára ákærða að hann hafi farið mannavillt haggar ekki refsiábyrgð hans.
Í 199. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 8. gr. laga nr. 61/2007, kemur fram að kynferðisleg áreitni felist m.a. í því að strjúka, þukla eða káfa á kynfærum eða brjóstum annars manns innan klæða sem utan. Í atkvæði meirihluta dómara er lýst athugasemdum við 8. gr. laga nr. 61/2007 sem fylgdu frumvarpi til laganna og vísast til þess sem þar segir.
Þær athafnir sem lýstar eru refsiverðar í ákvæðinu verða ekki tæmandi taldar heldur eru þær nefndar í dæmaskyni. Er þar beinlínis gert ráð fyrir að um önnur tilvik geti verið að ræða og falla þau tilvik undir ákvæðið með rýmkandi lögskýringu. Verður þannig að meta í hvert sinn hvort athöfn sé þess eðlis að hún geti fallið undir kynferðislega áreitni og sé hliðstæð þeirri sem getið er um í ákvæðinu. Sú háttsemi ákærða að grípa ofarlega í rass bláókunnugrar konu sem stóð fyrir framan hann í rúllustiga felur að mínu mati án nokkurs vafa í sér kynferðislega áreitni sem fellur undir núgildandi 199. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Tel ég því að sakfella eigi ákærði fyrir þessa háttsemi og gera honum refsingu, en þar sem meiri hluti dómenda er á annarri skoðun tek ég ekki afstöðu til hver hún eigi að vera.
Dómur Héraðsdóms Reykjaness 22. september 2008.
Mál þetta, sem dómtekið var 12. september 2008, er höfðað með ákæru ríkissaksóknara útgefinni 26. júní 2008 á hendur X, kt. [...],[...], Reykjavík, „fyrir kynferðisbrot, með því að hafa, laugardaginn 22. desember 2007, í rennistiga í verslunarmiðstöðinni Smáralind í Kópavogi, gripið um og kreist hægri rasskinn A, kt. [...].
Telst þetta varða við 199. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 8. gr. laga nr. 61/2007.
Þá er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.
Einkaréttarkröfur:
Af hálfu A er krafist skaðabóta að fjárhæð 350.000 krónur auk vaxta skv. 8. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 frá 22. desember 2007 þar til mánuður er liðinn frá birtingu bótakröfu en með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. vaxtalaga frá þeim degi til greiðsludags“.
I.
Samkvæmt frumskýrslu lögreglu dagsettri 22. desember 2007, leituðu öryggisverðir Smáralindar aðstoðar lögreglu vegna A, kæranda í máli þessu, sem sagðist hafa orðið fyrir kynferðislegri áreitni í rennistiga á leið upp á aðra hæð verslunarmiðstöðvarinnar. Öryggisverðirnir hefðu fylgt lögreglunni til kæranda og hafi lögregla rætt við hana.
Kemur fram að kærandi hafi lýst málavöxtum á þann veg að hún hefði verið ásamt manni sínum og börnum í verslunarleiðangri en verið ein á ferð í rennistiga á leið upp á efri hæð verslunarmiðstöðvarinnar þegar annar tveggja manna, sem stóðu fyrir aftan hana í stiganum, greip þrisvar sinnum í hægri rasskinn hennar. Kvaðst kærandi hafa reiðst mjög og snúið sér við og gert sig líklega til að slá manninn en náð að halda aftur af sér. Maðurinn hefði horft á hana með bros á vör og hefði hún talið ásetning hans hafa verið af kynferðislegum toga. Þá hefði kærandi tekið fram að hún hefði orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi í barnæsku og því hefði þetta atvik verið henni sérstaklega erfitt.
Enn fremur segir í skýrslunni að kærandi hafi gefið greinargóða lýsingu á manninum, sagt hann hafa verið snöggklipptan og íklæddan leðurjakka og gallabuxum. Hefði hún óskað eftir því við lögreglu að umrætt atvik yrði skráð, óháð því hvort hún legði fram kæru á hendur manninum.
Lögreglan hafði uppi á mönnunum þar sem þeir sátu á veitingastað og kemur fram að lögregla hafi rætt við ákærða eftir að hafa kynnt honum að hann væri grunaður um að hafa gripið í rasskinn á konu í rennistiga verslunarmiðstöðvarinnar. Ákærði hefði sjáanlega verið undir áhrifum áfengis og þá hefði hann verið mjög ókurteis í garð lögreglunnar. Hefði ákærði lýst atvikum þannig að hann hefði verið ásamt vini sínum, B, í rennistiga á leið upp á aðra hæð verslunarmiðstöðvarinnar og hefði kona staðið fyrir framan þá í stiganum. Ákærði hefði ætlað að reyna að vera fyndinn fyrir framan vin sinn og því klipið tvisvar sinnum í hægri rasskinn konunnar. Segir síðan í skýrslunni að ákærði hafi sagt „fyrirgefðu ég hélt að þú værir frænka mín” en það hafi bara verið uppspuni. Hefði ákærði bætt við að konan hefði mátt vera ánægð með að hafa fengið klapp á rassinn en þó tekið fram að hann gerði ekki svona þegar hann væri allsgáður. Ákærði hefði sagst hafa gert mistök og sjá eftir atvikinu.
Að lokum kemur fram að lögreglumaður hafi rætt við vitnið B, sem hafi staðfest að ákærði hafi klipið í rasskinn konunnar.
Í málinu liggur frammi vottorð Rögnu Ólafsdóttur sálfræðings, dagsett 10. september 2008, þess efnis að kærandi hafi verið til meðferðar hjá henni. Kemur fram að kærandi hafi leitað eftir sálfræðilegri meðferð í kjölfar kynferðislegrar áreitni sem hún hafi orðið fyrir þann 22. desember 2007. Í kjölfar þess hafi hún upplifað mikla vanlíðan sem hafi lýst sér í kvíða og öryggisleysi þannig að hún hafi illa treyst sér til að fara út úr húsi og að sinna daglegum verkum í þó nokkurn tíma eftir að umrætt atvik átti sér stað. Þá er einnig greint frá því að kærandi hafi um tíma átt við svefnleysi að stríða. Meðferð kæranda stóð yfir frá 21. janúar til loka apríl 2008, alls 8 skipti, en þá hafi hún einnig komið í eftirfylgni þann 5. september sl. og sé ljóst að hún hafi að mestu náð þokkalegu jafnvægi en enn eimi eftir af vægum kvíðaeinkennum.
Þann 24. janúar 2008 lagði kærandi fram kæru á hendur ákærða í máli þessu. Er í kæruskýrslu haft eftir henni, að hún hafi umræddan dag verið ásamt fjölskyldu sinni við jólagjafainnkaup í Smáralind en hún hafi þó verið ein á ferð er atvikið átti sér stað. Hún hafi staðið vinstra megin í rennistiga á leið upp en þegar hún hefði verið komin um það bil hálfa leið upp, hefði hún allt í einu fundið að klipið var þrisvar sinnum um hægri rasskinn hennar. Takinu hefði ekki verið sleppt heldur hefði rasskinnin verið kreist þrisvar sinnum og hefði kærandi upplifað atvikið sem kynferðislega áreitni. Henni hefði brugðið verulega, snúið sér við og þá séð tvo menn standa tveimur til þremur þrepum fyrir neðan sig. Sá, sem kleip hana, hefði staðið vinstra megin í stiganum, beint fyrir aftan hana og annar maður hægra megin við hann. Kærandi hefði lyft handtösku sinni upp og sagt sem svo að hún ætti að slá hann og þá hefði félagi þess, sem kleip, sagt „sláðu hann bara fast”. Hún hefði fundið til mikillar reiði og skammað manninn, sem hefði glott og sagt „fyrirgefðu, ég hélt þú værir kærastan mín”. Síðan hefði leiðir þeirra skilið en kærandi hefði í kjölfarið leitað aðstoðar öryggisvarða verslunarmiðstöðvarinnar sem tilkynntu lögreglu um atvikið.
Lögregluskýrsla var tekin af ákærða þann 11. febrúar sl. og lýsti ákærði atvikum á þann veg að einni tröppu fyrir framan hann í rennistiganum í Smáralind hefði staðið kona sem sneri í hann baki. Ákærði kvaðst hafa klappað laust á mjóbakið á konunni. Í sömu skýrslu lýsti ákærði háttseminni nánar með því að segjast hafa klappað tvisvar sinnum mjög laust rétt fyrir neðan mjóbakið. Konan hefði snúið sér við og kvaðst ákærði hafa séð að henni var brugðið. Ákærði kvað sér einnig hafa brugðið þar sem hann hefði haldið að þetta væri frænka sín. Konan hefði snúið sér við án þess að segja nokkuð við ákærða og kunningja hans en ákærði kvaðst hafa sagt „fyrirgefðu, hélt þú værir frænka mín”.
Aðspurður um það sem haft er eftir honum í frumskýrslu lögreglunnar þar sem hann kvaðst hafa ætlað að vera fyndinn í návist kunningja síns og því gripið um rasskinn konunar, kvað ákærði það ekki vera rétt eftir sér haft. Hann hefði ekki gripið um rasskinn konunnar, heldur klappað henni tvisvar sinnum á mjóbakið.
Aðspurður um skýrslu kæranda þar sem hún greinir svo frá að ákærði hafi gripið um hægri rasskinn hennar og kreist þrisvar sinnum, henni hafi brugðið mikið og upplifað atvikið sem kynferðislega áreitni, kvaðst ákærði ekki hafa kreist heldur klappað. Þá er haft eftir honum að þetta hafi verið gert í saklausu gríni, um snertingu hefði verið að ræða en ekki kynferðislega áreitni. Snertingin hefði verið sams konar því þegar fólk rekst hvort á annað og biðst fyrirgefningar.
Í símaskýrslu lögreglu af vitninu B, vini ákærða, sem lögregla tók af honum 27. febrúar sl., segir vitnið m.a. að ákærði hafi verið ölvaður umrætt sinn. Þeir hafi staðið samhliða í rennistiga á leið upp á aðra hæð verslunarmiðstöðvarinnar og fyrir framan vitnið hafi staðið kona. Hefði vitnið séð útundan sér að ákærði klappaði eða sló á rasskinn konunnar. Hann hefði ekki séð nákvæmlega hvar ákærði klappaði konunni, hvort það var á rassinn eða neðanvert bakið. Hann hefði heldur ekki séð hvernig ákærði klappaði eða sló á rasskinn konunnar. Ákærði hefði hins vegar beðið konuna afsökunar og sagst hafa farið mannavillt.
Aðspurður um skýrslu kæranda þar sem hún greinir svo frá að hún hafi allt í einu fundið að gripið hafi verið um hægri rasskinn hennar sem og að takinu hafi ekki verið sleppt heldur hafi rasskinnin verið kreist þrisvar sinnum, kvaðst vitnið ekki hafa upplifað atburðinn á þann hátt að ákærði hafi kreist rassinn, heldur hafi frekar verið um klapp að ræða.
Tekin var símaskýrsla af eiginmanni kæranda, C, þann 11. júní sl. Kom m.a. fram í máli hans að kærandi hefði hringt í farsíma hans umrætt sinn og þau mælt sér mót. Kærandi hefði verið í miklu uppnámi og tjáð honum að ókunnugur maður, sem staðið hefði fyrir aftan hana í rennistiganum, hefði þuklað á henni rassinn. Hefði kærandi sagst í kjölfarið hafa sagt eitthvað við manninn sem hefði svarað því til að hún mætti vera fegin að einhver vildi káfa á henni.
II.
Ákærði hefur neitað sök. Fyrir dómi skýrði hann svo frá að hann hefði klappað kæranda rétt ofan við mjóbakið með flötum lófa en neitaði að hafa kreist. Þá neitaði ákærði því að hafa komið við rass kæranda og kvað ekki hafa verið um kynferðislega áreitni að ræða. Hann hefði haldið að konan væri frænka sín og vísaði til þess að hann þyrfti alla jafna að nota gleraugu sem hann hefði ekki verið með á sér umrætt sinn. Ákærði kvaðst hafa komið við konuna í gríni og í þeim tilgangi að láta frænku hans bregða við það að sjá hann þarna. Kvaðst ákærði hafa drukkið einn til tvo bjóra þegar þetta var en hann hefði þó ekki verið ölvaður.
Aðspurður kvað ákærði ekki rétt eftir sér haft í frumskýrslu lögreglu þar sem segir að hann hafi sagst hafa ætlað sér að reyna að vera fyndinn fyrir framan vin sinn og því hafi hann gripið tvisvar sinnum í hægri rasskinn kæranda. Hins vegar sé rétt að hann hafi beðið konuna afsökunar og sagt við hana að hann héldi að hún væri frænka sín. Þá væri einnig rétt það sem fram kemur í frumskýrslunni þar sem segir að hann hafi sagst hafa gert mistök og að hann sæi eftir þessu.
Ákærði kvað það rangt sem haft væri eftir sér í frumskýrslunni að hann hafi sagt þetta vera uppspuna. Þá kannaðist ákærði ekki við það sem haft er eftir honum um að hann hafi sagt að konan mætti vera ánægð með að hafa fengið klapp á rassinn.
Vitnið A, kærandi í máli þessu, kvaðst hafa verið ein á ferð í rennistiga á leið upp á aðra hæð verslunarmiðstöðvarinnar Smáralindar þegar gripið hefði verið í hægri rasskinn hennar og þrýst þrisvar sinnum. Hún hefði staðið til hægri í stiganum en tveir menn staðið fyrir aftan hana og hefði ákærði staðið tveimur til þremur tröppum neðar en hún. Sérstaklega aðspurð kvaðst kærandi ekki hafa séð hvor mannanna tveggja kleip hana en ákærði hefði staðið tröppu ofar en félagi hans og þá hefði ákærði glott.
Kærandi kvað snertingu mannsins hafa verið af kynferðislegum toga og lýsti hún því að hún hefði orðið fyrir kynferðislegri misnotkun í barnæsku og að umrædd snerting hefði orðið til þess að ýfa upp þá reynslu. Hefði henni fundist sem hún hyrfi aftur til þess tíma er misnotkunin í æsku átti sér stað. Í kjölfa umrædds atburðar hefði henni liðið illa og skömmu síðar hefði hún fengið snert af taugaáfalli, þunglyndi og kvíða og þurft að leita sér sálfræðimeðferðar. Kvaðst kærandi ekki áður hafa átt við andlega erfiðleika að stríða. Aðspurð taldi hún að viðbrögð hennar hefðu ekki orðið jafn mikil og raun bar vitni ef hún hefði ekki orðið fyrir kynferðislegri misnotkun í æsku. Treysti kærandi sér ekki til að bera um það hvort ákærði var ölvaður umrætt sinn.
Vitnið C, eiginmaður kæranda, kvað kæranda hafa verið í miklu uppnámi er hún hringdi í vitnið eftir umrætt atvik. Hún hefði sagt honum frá því að karlmaður hefði gripið eða káfað á rassi hennar þegar hún var á leið upp rennistigann. Kvað vitnið kæranda hafa orðið fyrir kynferðislegri misnotkun í æsku og að umrætt atvik hefði orðið til þess að vekja upp slæmar minningar hjá henni og valda henni vanlíðan.
Vitnið Pétur Haukur Jóhannesson lögreglumaður kvað öryggisverði verslunarmiðstöðvarinnar Smáralindar hafa leitað aðstoðar lögreglu þar sem kona hafði sagt mann hafa káfað á sér eða snert rassinn á sér. Lögreglumennirnir hefðu rætt við ákærða sem hefði játað að hafa komið við rass konunnar. Áfengislykt hefði verið af ákærða en ölvunaráhrifin hefðu ekki verið mikil. Þá kvaðst vitnið hafa rætt við kæranda sem hefði sagt karlmann hafa komið við rassinn á sér í rennistiganum. Kærandi hefði verið róleg en þó í uppnámi og hefði hún sagt vitninu frá því að hún hefði orðið fyrir kynferðislegri misnotkun í æsku.
Vitnið B, vinur ákærða, kvaðst hafa farið með ákærða upp rennistigann í Smáralind og hefði kona staðið í stiganum um það bil tveimur þrepum fyrir framan þá. Ákærði hefði talið konuna vera frænku sína og því klipið konuna ofarlega í bossann í þeim tilgangi að stríða henni. Síðar í skýrslutökunni kvað vitnið frekar hafa verið um að ræða klapp fyrir ofan rassinn heldur en að ákærði hefði klipið konuna í rassinn. Sérstaklega aðspurður um hvort hann hefði séð þegar ákærði snerti kæranda, kvaðst vitnið ekki hafa séð það vel enda hefði þetta gerst mjög hratt. Hins vegar hefði hann ráðið af því hvar hönd ákærða var þegar hann dró hana til baka, að snertingin hefði verið fyrir ofan rassinn eða á mjóbakinu. Síðan hefði komið í ljós að konan var ekki frænka ákærða og hefði henni verið brugðið og orðið reið og hefði vitninu virst sem hún ætlaði að slá ákærða. Aðspurður um ástand ákærða umrætt sinn, kvað vitnið hann hafa verið ölvaðan.
Vitnið Ragna Ólafsdóttir sálfræðingur staðfesti framlagt vottorð sitt dagsett 10. september sl. Hún kvað kæranda hafa leitað til sín snemma í janúar vegna mikillar vanlíðunar vegna kvíða og ójafnvægis. Kærandi hefði verið í meðferð hjá vitninu fram í aprílmánuð sl. og hefði svarað meðferð og ráðgjöf vel þótt enn eimdi eftir af kvíða. Kvað vitnið líklegt að kærandi upplifði afleiðingar ætlaðrar áreitni sterkar vegna misnotkunar í bernsku.
Vitnið Andri Fannar Helgason lögreglumaður kvaðst hafa verið í göngueftirliti í Smáralind umrætt sinn ásamt öðrum lögreglumanni þegar öryggisverðir tjáðu þeim að kona hefði orðið fyrir áreitni í rennistiga. Þeir hefðu rætt við konuna og síðan við ákærða. Konan hefði verið í töluverðu uppnámi og lýst því að karlmaður hefði gripið í rasskinn sína. Hún sagði einnig frá því að hún hefði lent í einhverju atviki í barnæsku og því hefði umrætt atvik verið henni mjög erfitt. Ákærði hefði lýst atvikum þannig að hann hefði verið í rennistiganum og haldið að konan væri frænka sín. Hann hefði verið að grínast og gripið í rass hennar. Vitnið kvað hafa verið áfengisþefur af ákærða sem sýnilega hefði verið undir áhrifum áfengis.
Sérstaklega aðspurður um það, sem haft er eftir ákærða í frumskýrslu að hann hefði sagt „fyrirgefðu, hélt þú værir frænka mín“ en það hafi bara verið uppspuni, kvað vitnið ákærða hafa sagt við vitnið að hann hefði haldið að konan væri frænka hans en síðari hluti tilvitnunarinnar væri lýsing vitnisins á því mati sínu á því að þessi framburður ákærða væri ótrúverðugur. Hins vegar mundi vitnið ekki til þess að ákærði hefði sagt að þetta væri uppspuni. Þá mundi vitnið eftir því að ákærði hefði sagt að konan mætti vera fegin að fá klapp á rassinn en að hann sæi eftir því og gerði ekki svona þegar hann væri allsgáður.
III.
Óumdeilt er og sannað með framburði ákærða sjálfs og vætti vitna að ákærði snerti kæranda málsins þar sem þau voru stödd í rennistiga í verslunarmiðstöð umrætt sinn og baðst síðan afsökunar. Hins vegar er ágreiningur um það hvar ákærði kom við kæranda og hvers eðlis snertingin var.
Eins og áður er rakið heldur kærandi því fram að ákærði hafi gripið í hægri rasskinn hennar og kreist þrisvar sinnum og er sú lýsing bæði í samræmi við skýrslu hennar hjá lögreglu og það sem eftir henni er haft í frumskýrslu málsins. Þá fær lýsing hennar stoð í vætti lögreglumannanna Péturs Hauks og Andra Fannars sem báru báðir um það fyrir dóminum að ákærði hefði lýst því í samtali við þá á vettvangi að hann hefði komið við rass konunnar sem stóð fyrir framan hann í rennistiganum.
Ákærði hefur neitað því að hafa snert rass kæranda. Við skýrslutöku fyrir dóminum lýsti hann snertingunni sem klappi rétt ofan við mjóbakið en hafði hjá lögreglu sagst hafa klappað á mjóbak eða rétt fyrir neðan mjóbak konunnar. Lýsti ákærði viðbrögðum konunnar þannig hjá lögreglu að henni hefði brugðið. Ákveðins óskýrleika gætir í vætti vitnisins B, vinar ákærða, varðandi snertinguna en í upphafi skýrslu sinnar hér fyrir dóminum kvað hann ákærða hafa klipið konuna ofarlega í bossann, sem er í samræmi við lýsingu hans í lögregluskýrslu, en sagði síðar í skýrslutökunni fyrir dóminum að frekar hefði verið um að ræða klapp fyrir ofan rassinn. Hins vegar kvaðst vitnið sérstaklega aðspurður fyrir dóminum ekki hafa séð umrædda snertingu vel en hefði dregið þá ályktun af því hvar hönd ákærða var, þegar hann dró hana til baka frá kæranda, að snertingin hefði verið fyrir ofan rassinn eða á mjóbakinu.
Í ljósi framanritaðs þykir leitt í ljós að ákærði hafi snert rass kæranda með þeim hætti sem hún hefur lýst og byggt er á í ákæru. Hins vegar þykir, í ljósi framburðar ákærða og vættis vitnisins B, verða að miða við að snertingin hafi verið ofarlega á rassi kæranda.
Ákærða er í máli þessu gefið að sök að hafa með framangreindri háttsemi sinni gerst sekur um brot gegn ákvæðum 199. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, eins og henni var breytt með lögum nr. 61/2007 sem tóku gildi 4. apríl sama ár. Þar kemur fram að hver sem gerist sekur um kynferðislega áreitni skuli sæta fangelsi allt að 2 árum. Síðan segir: „Kynferðisleg áreitni felst m.a. í því að strjúka, þukla eða káfa á kynfærum eða brjóstum annars manns innan klæða sem utan, enn fremur í táknrænni hegðun eða orðbragði sem er mjög meiðandi, ítrekað eða til þess fallið að valda ótta“.
Ljóst er að sú háttsemi ákærða, sem eftir framangreindu telst sönnuð, var móðgandi og í óþökk kæranda. Hins vegar verður ekki fram hjá því litið að háttsemin fellur ekki með beinum hætti undir þá verknaðarlýsingu, sem fram kemur í tilgreindu lagaákvæði. Að þessu virtu og einnig þegar litið er til þess sem óumdeilt er að ákærði lét af háttseminni um leið og hann áttaði sig á viðbrögðum kæranda og baðst afsökunar, verður, með vísan til ákvæða 45. og 46. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991, ekki talið sannað svo hafið sé yfir skynsamlegan vafa, að ákærði hafi með háttsemi sinni gerst sekur um brot gegn 199. gr. almennra hegningarlaga. Ber því að sýkna ákærða af refsikröfu ákæruvaldsins í máli þessu.
Með hliðsjón af málsúrslitum og með vísan til 3. mgr. 172. gr. laga nr. 19/1991 er bótakröfu A vísað frá dómi.
Að fenginni þessari niðurstöðu ber að leggja allan sakarkostnað á ríkissjóð en hann nemur málsvarnarlaunum skipaðs verjanda ákærða, Evu Bryndísar Helgadóttur hdl., sem þykja hæfilega ákveðin 289.338 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti, og þóknun réttargæslumanns kæranda, Gunnhildar Pétursdóttur hdl., sem þykir hæfilega ákveðin 139.440 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.
Arnfríður Einarsdóttir héraðsdómari kveður upp dóm þennan.
DÓMSORÐ:
Ákærði, X, er sýkn af kröfum ákæruvaldsins í máli þessu.
Allur sakarkostnaður, 428.778 krónur, þar með talin 289.338 króna málsvarnalaun Evu Bryndísar Helgadóttur hdl. og 139.440 króna þóknun réttargæslumanns kæranda, Gunnhildar Pétursdóttur hdl., greiðist úr ríkissjóði.
Bótakröfu A er vísað frá dómi.