Print

Mál nr. 190/2003

Lykilorð
  • Börn
  • Forsjá
  • Gjafsókn

Fimmtudaginn 13

 

Fimmtudaginn 13. nóvember 2003.

Nr. 190/2003.

M

(sjálfur)

gegn

K

(Dögg Pálsdóttir hrl.)

 

Börn. Forsjá. Gjafsókn.

Staðfest var niðurstaða héraðsdóms um að K skyldi fara með forsjá tveggja barna málsaðila og var sú niðurstaða byggð á mati tveggja dómkvaddra matsmanna. Ekki þóttu efni til að fallast á ómerkingarkröfu M þótt héraðsdómari hefði ekki kallað sérfróða meðdómendur til setu í dóminum.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Garðar Gíslason, Hrafn Bragason, Markús Sigurbjörnsson og Pétur Kr. Hafstein.

Áfrýjandi skaut máli þessu til Hæstaréttar 21. maí 2003. Hann krefst þess aðallega, að héraðsdómur verði ómerktur og málinu vísað heim í hérað. Til vara krefst hann þess, að héraðsdómi verði breytt á þá leið, að sér verði veitt forsjá barna málsaðila, X [fædds] 1994, og Y, [fæddrar] 1997. Þá krefst hann málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Stefnda krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti, eins og mál þetta væri ekki gjafsóknarmál.

Við málflutning fyrir Hæstarétti kom fram, að stefnda hefur selt íbúð sína í [...] og er flutt með börnin til Danmerkur, þar sem hún stundar nám.

Ekki eru efni til að verða við ómerkingarkröfu áfrýjanda. Með skírskotun til forsendna héraðsdóms verður hann staðfestur.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

Allur gjafsóknarkostnaður stefndu greiðist úr ríkissjóði, svo sem nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

Allur gjafsóknarkostnaður stefndu, K, greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hennar 170.000 krónur.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 9. desember 2002.

         Mál þetta var höfðað 14. desember 2001 og var dómtekið 15. nóvember sl.        

         Stefnandi er K, [heimilisfang].

         Stefndi er M, [heimilisfang].

Dómkröfur

        Stefnandi gerir þá kröfu að fellt verði úr gildi samkomulag hennar og stefnda frá 19. mars 1999 um að málsaðilar fari sameiginlega með forsjá barnanna X, [fædds 1994], og Y [fæddrar 1997]og að henni verði þess í stað dæmd forsjá barnanna til 18 ára aldurs þeirra.

        Þá er að auki krafist málskostnaðar úr hendi stefnda, að viðbættum virðisaukaskatti 24,5%, eins og mál þetta væri ekki gjafsóknarmál.

         Við aðalmeðferð málsins setti stefnandi fram þá kröfu að verði kröfur hennar í málinu ekki teknar til greina fresti áfrýjun dómsins aðför samkvæmt honum.

         Stefndi gerir þær kröfur að fellt verði úr gildi samkomulag aðila frá 19. mars 1999 um sameiginlega forsjá barnanna X og Y og að stefnda verði dæmd forsjá barnanna til 18 ára aldurs.

       Þá krefst stefndi þess að stefnandi greiði honum málskostnað samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi, að viðbættum virðisaukaskatti.

Málavextir

         Málsaðilar hófu sambúð sína haustið 1989 og höfðu þá þekkst í um mánaðartíma. Upp úr sambúð þeirra slitnaði um sumarið 1990, en þau hófu sambúð að nýju í janúar 1991.  Í sambúðinni fæddust málsaðilum börnin X 1994, og Y 1997.  Sambúðin var skrykkjótt og gekk oft á tíðum illa.

         Um áramótin 1989/1990 lauk stefnandi námi sínu sem [...] og frá þeim tíma hefur hún starfað í þeirri grein.  Hugur stefnanda stendur til frekara náms og hefur hún gert áætlanir um þriggja og hálfs árs  nám í [...] í Danmörku.  Hún keypti íbúð fyrir þremur árum sem hún ætlar að halda þótt hún fari til Danmerkur

         Stefndi hefur unnið ýmis störf.  Frá 1992 til 2001 vann hann hjá [...] en starfar nú sem [...].  Hann átti íbúð í [...] sem hann hefur nú þurft að selja vegna tímabundinna fjárhagserfiðleika.

         Að loknu fæðingarorlofi eftir fæðingu drengsins X fór stefnandi að vinna hlutastarf og lauk þá vinnudegi hennar kl. 1400.  Stúlkan Y var fyrirburi og var stefnandi ekki við vinnu utan heimilis allt frá fæðingu hennar og þar til í mars 1999.  Stefndi vann alla sambúðina, fullan vinnudag.

         Sambúðarslit málsaðila urðu í febrúar 1999 og var gengið frá sambúðarslitum þeirra með formlegum hætti hjá sýslumanninum í [...] í mars 1999.  Við sambúðarslit málsaðila var tekin ákvörðun um að forsjá barna þeirra skyldi vera sameiginleg, að börnin skyldu hafa lögheimili hjá stefnanda og að stefndi skyldi greiða með þeim einfalt meðlag.

         Hefur umgengni við föður verið nokkuð regluleg.  Fyrst eftir samvistaslit málsaðila höfðu börnin reglulega umgengni við stefnda aðra hverja helgi og var slíkt fyrirkomulag á umgengninni allt þar til í lok júní 2001.  Á tímabilinu frá júnílokum og fram í byrjun september var umgengni einungis yfir dag, þar sem stefndi átti þá við atvinnuleysi og tilfinningalega erfiðleika að stríða og treysti sér ekki til að hafa börnin í lengri umgengni.  Frá september hefur umgengni að nýju verið aðra hverja helgi.  Auk reglulegrar umgengni hafa börnin dvalið hjá stefnda í sumarleyfi, ef frá er talið sl. sumar, og hitt hann á stórhátíðum.

         Aðilar eru samála um að forsendur fyrir sameiginlegri forsjá barnanna séu brostnar. Stefnandi leitaði af þeim sökum til sýslumanns og freistaði þess að ná samkomulagi um breytingu á forsjá barnanna.  Þáðu báðir aðilar boð sýslumanns um að fara í sálfræðiráðgjöf og fóru í þrjú viðtöl hjá sálfræðingi.  Gerð voru drög að samkomulagi um áframhaldandi sameiginlega forsjá og að börnin hefðu áfram búsetu hjá stefnanda en ekki náðist samkomulag um þau.

Málsástæður og lagarök

         Stefnandi byggir kröfu sína um forsjá á því að það sé börnum hennar fyrir bestu að henni verði falin forsjá þeirra, sbr. 2. mgr. 34. gr. barnalaga nr. 20/1992, nú þegar fyrir liggur að forsendur fyrir sameiginlegri forsjá barnanna eru brostnar, sbr. 2. mgr. 35. gr. sömu laga.

         Stefnandi telur grundvöll sameiginlegrar forsjár vera hruninn vegna samskipta­örðugleika sem ríkja í samskiptum málsaðila.  Stefnandi hafi freistað þess að ná samkomulagi við stefnda um breytta forsjá barnanna og hafi málsaðilar þegið að fara í sáttameðferð hjá sálfræðingi á vegum sýslumannsins í [...], en án árangurs. Stefnandi sjái því eigi annað fært en að höfða mál þetta og krefjast forsjár barnanna.

         Stefnandi hafi verið aðalumönnunaraðili barnanna allt frá fæðingu þeirra og hafi börnin búið hjá stefnanda frá samvistaslitum málsaðila.  Börnin hafi haft reglulega og eðlilega umgengni við stefnda, eftir því sem hann hafi treyst sér til heilsu sinnar vegna.

         Stefnandi búi ásamt börnum sínum í eigin íbúð.  Stefnandi starfi sem [...], hún hafi sveigjanlegan vinnutíma og geti hagað vinnu sinni þannig að hún komi heim um það leyti sem drengurinn sé búinn í skólanum, en stúlkan er í leikskóla.  Stefnandi hafi áhuga á að fara í frekara nám til Danmerkur en ákvörðun þar um hafi ekki verið tekin.  Stefnandi telur stefnda hafa átt við alvarlegt þunglyndi að stríða og hafi hann verið atvinnulaus um tíma.  Stefnandi telur það verða börnunum fyrir bestu að henni verði falin forsjá þeirra til 18 ára aldurs.

Málsástæður stefnda og lagarök

         Stefndi byggir kröfu sína á því að börnunum sé fyrir bestu verði honum falin forsjá þeirra.  Stefndi sé sammála mati stefnanda um að grundvöllur sameiginlegrar forsjár sé hruninn, en stefndi hafi einmitt verið tilbúinn til að fara þá leið á sínum tíma til þess hlífa mætti börnunum við illvígri forsjárdeilu.  Hafi stefndi einnig talið stefnanda hafa fullan skilning á þessu, en er á leið hafi stefnandi átt það til að hóta því að rifta forsjársamningi aðila vegna atriða sem hafi verið alls ótengd börnunum.

         Hafi stefndi reynt allt til að halda óbreyttu fyrirkomulagi og hafi verið tilbúinn að laga umgengni barnanna að fyrirhuguðum brottflutningi stefnanda til Danmerkur, en þvergirðingsháttur stefnanda hafi komið í veg fyrir það, þar sem stefnanda virðist algjörlega skorta skilning á því hversu börnin séu tilfinningalega tengd stefnda og á nauðsyn þess að þau hitti og umgangist föður sinn.

         Þrátt fyrir að börnin hafi verið hjá stefnanda eftir samvistaslit hafi börnin haft rúma umgengni við stefnda og séu þau tengd honum og hafi stefndi komið mikið að uppeldi þeirra.  Stefndi telur sig betur í stakk búinn að veita börnunum þá hlýju og þann skilning og nærgætni sem börnunum sé þörf.  Samskipti stefnanda við börn sín séu mun átakameiri og hafi einkennst af neikvæðni og þröngsýni, þegar þau hafi þurft á stuðningi og skilningi að halda.

         Við mat á forsjárhæfni foreldra komi fyrst og fremst til skoðunar eiginleikar foreldranna sjálfra og hæfi þeirra til að geta sinnt uppeldishlutverki sínu og þeirri ábyrgð sem því fylgi, þannig að barni sé fyrir bestu.  Telur stefndi án nokkurs vafa að hagsmunum barnanna sé best borgið fái hann forsjá þeirra.

         Aðstæður hjá stefnda séu mjög góðar, fjárhagur traustur og hafi stefndi notið mikils félagslegs stuðnings fjölskyldu sinnar, sem börnin þekki jafnframt vel, auk þess sem börnin séu nátengd móður stefnda.

Niðurstaða

         Samkvæmt sameiginlegri beiðni málsaðila voru dómkvaddir sálfræðingarnir Álfheiður Steinþórsdóttir og Oddi Erlingsson til þess að meta forsjárhæfni málsaðila, tengsl þeirra við börnin, félagslegar aðstæður þeirra ofl.  Er sálfræðiskýrsla þeirra dags. 13. ágúst 2002.  Er í skýrslunni rakin saga málsaðila, könnun sálfræðingana á aðstæðum og viðhorfum málsaðila og raktar niðurstöður sálfræðiprófa sem lögð voru fyrir þau og börn þeirra.

        Í síðasta kafla skýrslunnar er að finna samantekt á viðtölum og sálfræðilegum prófum en þar segir um forsjárhæfni foreldra:

         “Báðir foreldrar eru hæfir til að fara með forsjá barnanna.  Greind beggja er eðlileg og engin geðræn vandamál eru fyrir hendi samkvæmt persónuleikaprófum.  Á forsjárhæfniprófi er móðirin hærri og kemur þar einkum til meiri geta til að sjá um tilfinningalegar þarfir barnanna og hún er sú sem hefur fyrst og fremst sinnt daglegri umönnun og atlæti barnanna.  Reynsla af samskiptum foreldra við börnin undanfarin þrjú ár sýnir að móðir getur lifað sig inn í þarfir barnanna, aðlagað sig að þeim og látið þau ganga fyrir í meira mæli en faðir hefur gert.”

         Varðandi tilfinningaleg tengsl foreldra og barna segir m.a. að börnin séu tengd báðum foreldrum sínum en tengsl við móður séu meiri og nánari samkvæmt forsjárhæfniprófi, fjölskyldutengslaprófi drengsins og viðtölum. X sé yfirvegaður drengur en talsvert kvíðinn og hann reyni að vera réttlátur og eins jafn og hann getur í lýsingu á tengslum við foreldra sína.

           Það sé þó ljóst að hann vilji ekki gera breytingar á því fyrirkomulagi sem sem hann hafi alltaf búið við.  Hann treysti móður sinni mjög vel.  Y sé greinilega mjög náin móður sinni enda hafi hún aðeins verið eins og hálfs árs þegar foreldrar skildu.

           Varðandi andlega og líkamlega heilsu og persónulega hagi foreldra segir svo:  “Báðir foreldrar eru líkamlega heilbrigðir, hafa hvorki átt við fötlun eða langvarandi veikindi að stríða. Persónulegir hagir eru ólíkir þar sem móðir hefur skýrari ramma utan um líf sitt en faðir hefur.  Hún hefur fagmenntun að grunni og hefur getað starfað við iðn sína.  Hún hefur verið nokkur ár á hverjum vinnustað og sýnt talsvert úthald þegar álag var mikið á fyrsta ári Y sem var fyrirburi.  Sálfræðipróf lýsa vel greindri og virkri konu sem hefur metnað og viljastyrk þegar hún keppir að markmiði.  Hún er samvisku­söm og tekur nærri sér ef hún getur ekki uppfyllt það sem hún ætlar eða lendir í mótlæti.  Hún getur orðið mjög kvíðin við slíkar aðstæður og fram kemur að tilfinningastjórnun er þá stundum takmörkuð.  K er gædd góðum innlifunar­hæfileikum og hlýju og á þétt stuðningsnet fjölskyldu.

           Persónulegir hagir föður eru óræðari, hann hefur starfað við margvísleg störf, oft stuttan tíma í einu.  Lítil reynsla er komin á vinnu hans nú en hún lofar góðu.  Óljóst er hvernig aðstæður föður verða á næstu misserum.  Hann hefur stuðning með uppeldi barnanna frá móður sinni og ömmu.  Samkvæmt sálfræðiprófum er faðir ágætlega greindur og persónuleikapróf mælast innan eðlilegra marka.  Sálfræðipróf sýna ekki kvíða eða þunglyndi, en persónuleikamynd sýnir gerð sem kennd er við passive-aggressive persónuleika þar sem viðbrögð einkennast af óvirkni annars vegar og innri reiði hins vegar.  Hann sveiflast nokkuð þar á milli sem getur gert honum lífið erfitt í samskiptum, en einkum þegar álag og kröfur aukast.  Í samskiptum út á við getur hann oft notið sín vel en náin tengslamyndun, innlifun og innsæi í eigin þátt reynast honum ekki auðveld.”

         Fram kemur í athugun að aðstoð fjölskyldu K sé mikil og aðgengileg þó svo að foreldrar og þrjú systkini búi í um klst. fjarlægð frá [...].  Þau komi gjarnan til [...] og börnin séu iðulega hjá þeim í sveitinni þar sem foreldrar séu með búskap.  Yngsta systir K sé 12 ára og sé mjög tengd börnunum.  Eldri systir K búi í [...] og þéttur samgangur sé milli systranna og samhjálp.  M segist fá mikinn stuðning frá fjölskyldu sinni varðandi börnin ef á þurfi að halda og segir börnin vera mjög hrifin af ömmu sinni og langömmu.

           Um umgengni barna og forsjárlauss foreldris segir svo:  “Móðir segist hafa frá skilnaði lagt áherslu á það við föður að hann umgengist börnin reglulega því það sé hennar afstaða að börnin þurfi mikil og góð tengsl við báða foreldra sína.  Hún segist hafa lagt sig fram og gjarnan boðið honum til þeirra á hátíðisdögum.  Henni hafi þó reynst erfitt að vekja áhuga hans og stundum hafi hún þurft að hálfneyða hann til að taka þau.  Hún segir afdráttarlaust að hann hafi alltaf getað umgengist börnin þegar hann vildi.  Á síðustu mánuðum hefur hann þó snúið við blaðinu og tekið þau reglulega eins og áður var samið um en samskipti foreldranna innbyrðis eru stirð.  Faðir telur að samband hans við börnin hafi gengið vel utan tímabils í fyrrasumar þegar hann treysti sér ekki til að hafa þau í um­gengni eins og áður, vegna eigin vanlíðanar, en hann var þá atvinnulaus.  Mat foreldra á hvernig umgengni hefur gengið er því mjög ólíkt.  Ef M fengi forsjá barnanna segir hann að umgegni við móður yrði ríkuleg.”

         Fram kemur í skýrslunni að tengsl barnanna hvort við annað eru góð.  X sé dæmigerður stóri bróðir sem hafi talsvert umburðarlyndi gagnvart systur sinni en láti hana þó ekki ráða.  Hún reiði sig á hann og vilji gjarnan fá að vera með honum í leik.  Í fjölskyldutengslaprófi geri X sér grein fyrir mikilvægi sínu fyrir systur sína og finnur að henni þyki vænt um hann.  Hann finni fyrir ábyrgðarkennd og ástúð í hennar garð.  Systkinin hafi alist upp og verið saman frá fæðingu Y og séu eðlilega tengd systkini.

         Eins og rakið er hér að framan eru báðir foreldrar hæfir til þess að fara með forsjá barnanna.  Móðir er þó hærri á forsjárprófi og kemur þar til að hún hefur að mati dómkvaddra matsmanna meiri getu til þess að sjá um tilfinningalegar þarfir barnanna. 

         Samkvæmt niðurstöðu úr persónuleikaprófum hefur móðir tilhneigingu til þess að hafa miklar áhyggjur einkum þegar álag eykst, en eins og kom fram í framburði Álfheiðar Steinþórsdóttur sálfræðings fyrir dómi, er hér um að ræða kvíða sem getur einkennt fólk sem hefur metnað og er sjálfsgagnrýnið.  Kvað Álfheiður þessa tegund kvíða oft lagast með árunum, með auknu sjálfsöryggi, en ekki væri um geðræn einkenni að ræða.  Taldi Álfheiður móður ráða mjög vel við samskipti við börn sín og gott skipulag væri í kringum móðurhlutverkið. 

         Í persónuleikaprófi mannsins kemur fram hjá honum hækkun á harðlyndiskvarða.  Fyrir dómi skýrði Álfheiður þetta sem geðræn einkenni sem mælist harkalegri og ósveigjanlegri viðbrögð en þau sem eru á kvíðakvarðanum.  Þetta séu erfiðari einkenni sem komi þar fram, honum sé ekki tamt að setja sig í spor annarra eða sjá fyrir viðbrögð fólks, hann geti verið tortrygginn og geti brugðist mjög hart við ef honum finnist að aðrir séu ágengir eða tilætlunarsamir og þá fari hann í mikla varnarstöðu.

         Fyrir liggur að stefnandi hyggur á rúmlega þriggja ára nám í [...] í Danmörku.  Fái hún forsjá barnanna mun hún því taka þau með sér til Danmerkur.  Samkvæmt framburði Álfheiðar fyrir dómi telur hún ekki ástæðu til þess að ætla að flutningur til Danmerkur hafi áhrif á börnin.  Það séu alltaf viðbrigði fyrir börn að flytja úr landi og aðlagast nýjum aðstæðum en þessi börn séu á tiltölulega góðum aldri.  Ekki sé ástæða til þess að ætla að þetta hafi áhrif á þau. 

         Samkvæmt framburði Odda er ekkert sem bendir til að þessi flutningur geti verið slæmur fyrir börnin.  Engir veikleikar séu hjá móður.  Börnunum virðist líða vel við núverandi aðstæður og ekkert bendi til þess að börnin muni ekki þola þennan flutning.  Báðir matsmenn leggja áherslu á að samneyti við föður verði gott og umgengni við hann tryggð.

         Stefndi átti íbúð í [...] sem hann seldi til þess að leysa úr ákveðnum fjárhagserfiðleikum og býr hann tímabundið hjá foreldrum sínum.  Bar hann fyrir dómi að ekkert stæði í veginum fyrir því að hann keypti íbúð.  Stefnandi býr í eigin íbúð í [...] sem hún hyggst eiga áfram þótt hún fari til Danmerkur til náms.  Eins og fram kemur í sálfræðiskýrslunni er því fremur erfitt að sjá fyrir aðstæður barnanna hjá föður á næstunni.

         Þegar virt er það sem kemur fram í sálfræðiskýrslu hinna dómkvöddu matsmanna og virtur framburður þeirra fyrir dómi þykir sýnt fram á að forsjárhæfni móður sé meiri en föður.  Eins og kom fram í framburði Álfheiðar Steinþórsdóttur fyrir dómi hefur móðir meira lagað líf sitt að þörfum barnanna og alltaf verið í meiri beinum tengslum við þau.  Hún þekkir börnin betur og hefur meiri reynslu af þeim en faðir og börnin þekkja hana betur.  Hún á auðveldara með en faðir að setja sig í spor barnanna.  Þess vegna kemur hún sterkar út við mat á forsjárhæfni.  Þá liggur fyrir samkvæmt sálfræðiskýrslunni að börnin treysta móður sinni vel og eru tengd henni.

         Að öllu virtu er það niðurstaða dómsins að hag barnanna, X og

Y, verði best borgið fari móðirin, stefnandi máls þessa, með forsjá þeirra.  Þykir ekki annað fram komið í málinu en að móðirin muni virða umgengnisrétt föður við börn sín. 

         Ber því samkvæmt framansögðu að taka kröfur stefnanda til greina.

         Eftir atvikum þykir rétt að hvor aðila beri sinn kostnað af máli þessu.

         Gjafsóknarkostnaður stefnanda, þ.e. þóknun lögmanns hennar, Daggar Pálsdóttur hrl., 300.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði

         Gjafsóknarkostnaður stefnda, 301.050 krónur, þ.e. útlagður kostnaður 1.050 krónur og þóknun lögmanns hans, Hilmars Magnússonar hdl., 300.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.

         Við ákvörðun málflutningsþóknunar er ekki tekið tillit til virðisaukaskatts.

         Kristjana Jónsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan.

D Ó M S O R Ð

         Stefnandi, K, skal fara með forsjá barnanna X, [Kt.], og Y, [kt.].

         Málskostnaður fellur niður.

         Gjafsóknarkostnaður stefnanda, þ.e. þóknun lögmanns hennar, Daggar Pálsdóttur hrl., 300.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði

         Gjafsóknarkostnaður stefnda, 301.050 krónur, þ.e. útlagður kostnaður 1.050 krónur og þóknun lögmanns hans, Hilmars Magnússonar hdl., 300.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.