Aðalfundur Dómarafélags Íslands 24. nóvember sl.

Föstudaginn 24. nóvember sl. var haldinn aðalfundur Dómarafélags Íslands í Þjóðmenningarhúsinu. Skúli Magnússon héraðsdómari, sem verið hefur formaður félagsins um árabil, gaf ekki kost á sér til endurkjörs og var í stað hans kjörin Ingibjörg Þorsteinsdóttir héraðsdómari. Aðrir í stjórn voru kosnir Karl Axelsson hæstaréttardómari og héraðsdómararnir Hildur Briem, Kjartan Bjarni Björgvinsson og Sandra Baldvinsdóttir. Á fundinum bar það helst til tíðinda að samþykktar voru siðareglur félagsins en þær eru svohljóðandi með aðfararorðum:

 

Siðareglur Dómarafélags Íslands

Aðfararorð

Tilgangurinn með skráningu siðareglna dómara er að minna á og upplýsa um þau gildi sem liggja til grundvallar starfi dómara auk þess að leggja áherslu á mikilvægi þess að þeir sem veljast til dómarastarfa tileinki sér þessi gildi. Skráning siðareglna dómara á þó ekki aðeins að vera dómurum til leiðbeiningar heldur einnig að efla trúverðugleika dómskerfisins og traust samfélagsins til þess.

Dómarar komu saman á fundi 30. september 2016 í Reykjavík til að ræða um álitamál sem tengjast siðferðilega réttri breytni dómara og þau siðferðilegu viðmið sem þeir telja að gildi um störf sín. Við þessa umræðu og mótun nánari reglna var meðal annars litið til alþjóðasamþykkta sem fjalla um tilgang og inntak siðareglna dómara og fela jafnframt í sér hvatningu til þess að dómarar setji sér slíkar reglur. Helstu alþjóðleg viðmið á þessu sviði sem vísað var til eru svonefndar „Bangalore-reglur“ sem samdar voru að frumkvæði Sameinuðu þjóðanna árið 2002 („The Bangalore Principles of Judicial Conduct“), álit ráðgjafaþings evrópskra dómara á vegum Evrópuráðsins (CCJE) 19. nóvember 2002 og grundvallarreglur fyrir dómara („Magna Carta of Judges“) sem samþykktar voru á sama vettvangi 17. nóvember 2010.

Í samræmi við þetta þykir rétt að í siðareglum dómara sé slegið föstum þeim grundvallargildum sem liggja að baki störfum dómara en fjalla því næst nánar um siðferðilegar skyldur dómara sem af þeim leiða. Þau gildi sem hér er um að ræða eru í fyrsta lagi, sjálfstæði sérhvers dómara og dómsvaldsins í heild, í öðru lagi óhlutdrægni dómara, í þriðja lagi heilindi, í fjórða lagi velsæmi, í fimmta lagi jafnrétti og loks, í sjötta lagi, kostgæfni. Þá þykir eðlilegt að í siðareglum sé vikið að störfum þeirra sem fara með dómsvald að einhverju marki án þess að hafa hlotið skipun í embætti dómara og ábyrgð þeirra dómara sem látið hafa af störfum. Að síðustu þykir rétt að samfara siðareglum setji dómarar á fót siðaráð sem hafi það hlutverk að kynna dómurum siðareglur dómara og hafa forgöngu um samræður um siðferðileg álitaefni í tengslum við dómstörf, bæði almennt og vegna einstakra tilvika, án þess þó að siðaráði sé ætlað að fjalla um kærur vegna ætlaðra brota dómara á reglunum.

Á þessum grundvelli hafa dómarar í Dómarafélagi Íslands samþykkt eftirfarandi siðareglur:

1. gr.

Sjálfstæði

Sjálfstætt dómsvald og sjálfstæði sérhvers dómara í starfi er forsenda réttlátrar málsmeðferðar og réttarríkis. Dómarar skulu standa vörð um sjálfstæði dómsvaldsins.

Dómarar skulu standa vörð um sjálfstæði sitt og jafnframt stuðla að því að störf þeirra endurspegli sjálfstæði dómsvaldsins, bæði í ásýnd og reynd. Dómurum ber að fara einungis eftir lögunum og skýra þau samkvæmt bestu vitund og samvisku og gæta þess að virða að vettugi hvers konar utanaðkomandi áhrif eða óeðlileg afskipti.

Þótt samstarf dómara og samræður þeirra í milli um flókin eða erfið úrlausnarefni séu mikilvægur liður í faglegu starfi skulu dómarar vera minnugir þess að sérhver dómari er sjálfstæður í störfum sínum og ber einn ábyrgð á eigin úrlausn.

2. gr.

Óhlutdrægni

Óhlutdrægni og sjálfstæði dómara er grundvöllur réttlátrar málsmeðferðar.

Dómarar skulu gera það sem í þeirra valdi stendur, bæði innan og utan starfsvettvangs síns, til að viðhalda og efla traust almennings, lögmanna og aðila máls gagnvart því að dómarar og dómskerfið í heild sé óhlutdrægt.

Dómarar skulu gæta óhlutdrægni í störfum sínum gagnvart öllum sem eiga hagsmuna að gæta og koma að dómsmáli á einhvern hátt. Í því felst meðal annars að sinna starfi sínu án fordóma og virða jafnræði aðila í hvívetna við meðferð máls og endanlega úrlausn þess.

Dómurum ber að hegða sér þannig að sem minnstar líkur séu á að þeir verði að víkja sæti í dómsmáli vegna vanhæfis og jafnframt forðast orð og athafnir sem geta orðið til þess að dómari virðist ekki óhlutdrægur.

3. gr.

Heilindi

Dómarar skulu temja sér ráðvendni, heiðarleika og réttsýni.

Dómarar þiggja ekki gjafir eða annan viðurgjörning sem tengjast eða gætu virst tengjast störfum þeirra.

Í heilindum felst jafnframt að þegar dómarar taka þátt í stjórn eða vali á stjórnendum innan dómskerfisins, mati á nýjum dómurum eða sinna öðrum verkefnum sem þeir eru valdir til eða er falið með lögum, þá leitast þeir við að vinna þau störf af fagmennsku og heilindum með hagsmuni dómskerfisins í heild að leiðarljósi.

4. gr.

Velsæmi

Dómarar skulu gæta þess að framkoma þeirra í starfi og utan þess samrýmist þeirri ábyrgð sem dómurum er falin svo og skyldu þeirra til að viðhalda og styrkja tiltrú á dómskerfið.

Dómarar skulu ekki tjá sig um atriði sem þeir fá vitneskju um í starfi og leynt skulu fara.

Dómarar skulu forðast ummæli eða framkomu sem skilja má þannig að þeir hafi fyrir fram komist að niðurstöðu í dómsmáli sem þeir hafa til meðferðar.

Dómarar skulu aldrei nýta stöðu sína eða starfstitil, eða upplýsingar sem þeir fá í starfi, sér sjálfum eða öðrum til framdráttar.

Sú ábyrgð sem fylgir starfi dómara takmarkar að einhverju marki frelsi þeirra til samfélagslegrar þátttöku og tjáningar og gerir ríkari kröfur til háttsemi en almennt eru gerðar til annarra. Dómarar skulu því ávallt gæta varkárni í opinberri umfjöllun, þar á meðal á samfélagsmiðlum, um umdeild eða viðkvæm málefni. Þá skulu dómarar gæta að því að virk þátttaka í stjórnmálabaráttu á opinberum vettvangi er ósamrýmanleg starfi dómara. Það sama kann að eiga við um þátttöku í ýmsum félögum sem hafa yfirlýst pólitísk markmið eða í félögum þar sem leynd hvílir yfir siðareglum, félagatali eða starfsemi félags.

5. gr.

Jafnrétti

Jafnræði fyrir lögum er hornsteinn réttarríkisins.

Það er hlutverk dómara að standa vörð um þetta grunngildi gagnvart öllum sem eiga erindi til dómstóla. Í þessu skyni er dómurum nauðsynlegt að hafa skilning á ólíkum þáttum samfélagsins og leggja sig eftir því að fylgjast með þróun þess og aðstæðum borgaranna á hverjum tíma.

Dómurum ber að hafa í huga mikilvægi þess að almenningur geti treyst því að dómstólar starfi í þágu réttlætis. Til þess að það megi verða þarf réttlætið að vera sýnilegt.

Dómari skal sýna öðrum dómurum virðingu og tillitssemi og stuðla að því að innri starfsemi dómstólanna einkennist af virðingu fyrir ólíkum sjónarmiðum, trausti og heiðarleika.

6. gr.

Kostgæfni og vandvirkni

Vönduð og skilvirk vinnubrögð dómara eru grundvöllur þess að traust sé borið til dómsvaldsins.

Í ljósi þess að dómarar eru æviráðnir og sjálfstæðir í störfum er sérlega brýnt að þeir viðhaldi faglegri þekkingu sinni og stuðli þannig að gæðum dómstarfa. Af sömu ástæðum ber þeim jafnframt, eftir því sem unnt er, að miðla þekkingu sinni og reynslu til annarra dómara.

Í störfum dómara skal meðferð og úrlausn dómsmála ætíð hafa forgang. Dómurum ber að sinna þeim dómsmálum sem þeim eru falin innan eðlilegra tímamarka og vanda til verka við meðferð þeirra og úrlausn.

Dómarar skulu ekki taka að sér aukastarf ef hætta er á að umfang þess hafi áhrif á starfsskyldur þeirra, eða ef það samrýmist ekki hlutverki dómstólanna. Þá skulu dómarar forðast að taka að sér aukastarf sem gæti leitt til vanhæfis þeirra til að taka þátt í úrlausn máls fyrir dómi.

7. gr.

Samskipti við fjölmiðla og gagnsæi

Mikilvægt er að almenningur eigi greiðan aðgang að upplýsingum um starfsemi dómstóla og úrlausnum dómstóla sem ekki skulu fara leynt samkvæmt lögum eða eðli máls.

Í því skyni að efla traust til dómstólanna skulu dómarar leitast við að eiga góð samskipti við fjölmiðla og veita þeim haldgóðar upplýsingar innan þeirra marka sem samrýmist hlutverki dómara og skyldum.

Dómarar skulu stuðla að því að gagnsæi dómskerfisins sé tryggt, meðal annars með því að leitast við að rökstuðningur dómsúrlausna sé skýr og skiljanlegur.

8. gr.

Dómarar sem látið hafa af störfum

Dómarar sem látið hafa af störfum skulu varast ummæli eða athafnir sem skaðað geta traust til dómsvaldsins eða einstakra dómara. Þeir skulu í hvívetna gæta þess að gagnrýni þeirra á dómskerfið, dómsúrlausnir eða einstaka dómara sé yfirveguð, rökstudd og málefnaleg.

9. gr.

Settir dómarar, sérfróðir meðdómsmenn og löglærðir aðstoðarmenn dómara

Reglur þessar gilda um setta dómara. Að svo miklu leyti sem við á, og með sanngirni má ætlast til, gilda sömu siðferðilegu viðmið einnig um þá sem taka sæti í dómi sem sérfróðir meðdómsmenn, svo og um aðstoðarmenn dómara sem fara með dómsvald í ákveðnum tegundum mála.

10. gr.

Siðaráð dómara

Í siðaráð Dómarafélags Íslands skal kjósa þrjá fulltrúa á aðalfundi félagsins til þriggja ára í senn.

Hlutverk siðaráðs er að kynna siðareglur dómara og standa fyrir umræðu meðal dómara um siðferðileg viðfangsefni.

Siðaráð getur, annaðhvort að eigin frumkvæði eða eftir ábendingu, gefið álit eða umsögn um hvaða viðmið beri að leggja til grundvallar með hliðsjón af ákveðnum aðstæðum eða tilviki.

Siðaráð getur lagt til við aðalfund viðbætur eða breytingar á siðareglum ef tilefni er til.

Siðaráð kveður ekki upp úrskurði um ætluð brot einstakra dómara á siðareglum.

11. gr.

Birting

Siðareglur þessar skulu birtar á heimasíðu Dómarafélags Íslands og/eða á öðrum viðeigandi vettvangi. Þá skulu álit siðaráðs Dómarafélags Íslands einnig birt sem og viðbætur eða breytingar á þessum reglum.

 

Samþykkt á aðalfundi Dómarafélags Íslands 24. nóvember 2017.