Mál flutt fyrir sjö dómurum
02.10.2017
Af og til gerist það að sjö dómarar dæma í máli fyrir Hæstarétti, en venjulega skipa þrír eða fimm dómarar dóminn eins og kunnugt er.
Þann 4. september sl. fór fram málflutningur fyrir sjö dómurum í sakamáli en það var í ellefta sinn frá árinu 2010 sem sjö dómarar sitja í dómi. Var í málinu meðal annars deilt um hvort það færi í bága við 4. gr. 7. samningsviðauka mannréttindasáttmála Evrópu, sem kveður á um bann við endurtekinni málsmeðferð í sakamálum, að íslensk löggjöf heimilaði að fjallað væri um brot á skattalögum í tveimur aðskildum málum, annars vegar á stjórnsýslustigi hjá skattyfirvöldum og hins vegar hjá lögreglu og fyrir dómstólum, þótt málin ættu rót að rekja til sömu eða samofinna atvika.
Hæstiréttur kvað upp dóm í málinu 21. september sl. Í niðurstöðu hans var vísað til þess að Mannréttindadómstóll Evrópu hefði í framkvæmd sinni lagt til grundvallar að ákvæði 4. gr. 7. samningsviðaukans stæði því ekki í vegi að rekin væru tvö aðskilin mál á hendur sama aðila vegna skattalagabrots að því gefnu að ákveðnum skilyrðum væri fullnægt. Að teknu tilliti til þeirra skilyrða taldi Hæstiréttur að ekki hefði verið brotið gegn 4. gr. 7. samningsviðauka mannréttindasáttmálans í því tiltekna máli sem til meðferðar var. Einn dómari skilaði sératkvæði í málinu.