Dómur um frestveitingu vegna matsgerðar
18.10.2017Í dag kvað Hæstiréttur upp dóma í þremur málum þar sem til umfjöllunar voru úrskurðir héraðsdóms þar sem málunum hafði verið frestað til þess að hluti varnaraðila málanna gætu lagt fram beiðni um afhendingu gagna vegna matsgerðar sem þeir höfðu óskað eftir undir rekstri þeirra.
Í dómi sínum fór Hæstiréttur yfir atvik málanna, þann tíma sem liðið hafði frá því að þau voru þingfest í héraði og hvernig vinnan við matsgerðina hafði gengið. Hafði eitt málanna verið þingfest í mars 2012 og hin tvö í september 2011 en beiðni um dómkvaðningu matsmanna hafði verið lögð fram í nóvember 2013 og dómkvaðning farið fram ári síðar. Hæstiréttur vísaði til 102. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar og taldi ljóst af atvikum málanna að varnaraðilunum hefði frá upphafi mátt vera ljóst að líkur stæðu til þess að þeir myndu þurfa að afla matsgerðar dómkvadds manns. Þrátt fyrir það hefði slík beiðni ekki verið lögð fram fyrr en gert var. Þá yrði ekki betur séð en að matsmennirnir hefðu á nærri þriggja ára tímabili ekki hafið vinnu við samningu matsgerðarinnar fyrr en á síðustu tveimur mánuðum tímabilsins. Taldi Hæstiréttur að gegn andmælum sóknaraðila málanna og að gættum rétti þeirra samkvæmt 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar, yrði að hafna kröfum varnaraðilanna um frekari frestun málanna til öflunar matsgerðarinnar. Í ljósi reglu 2. mgr. 102. gr. laga nr. 91/1991 að aðilum beri jöfnum höndum að nota sama frest til gagnaöflunar yrði varnaraðilunum þó ekki meinað að leggja fram matsgerð svo lengi sem fresta þyrfti málinu af öðrum sökum.