Dómur um fyrningarfrest námslána

02.11.2017

Hæstiréttur kvað í dag upp dóm í máli er varðaði einkum ágreining um fyrningarfrest námslána samkvæmt lögum nr. 14/1905 um fyrning skulda og annarra kröfuréttinda og við hvaða tímamark bæri að miða í því sambandi. Í málinu krafðist Lánasjóður íslenskra námsmanna (LÍN) þess að felldur yrði úr gildi úrskurður málskotsnefndar LÍN þar sem ákvörðun stjórnar sjóðsins var felld úr gildi og tiltekin skuld vegna námslána var felld niður.

Staðfesti Hæstiréttur þá niðurstöðu héraðsdóms að bæði skuldabréfin sem um ræddi í málinu hefðu orðið gjaldkræf tveimur árum eftir ákvörðuð námslok, sem var sama tímamark í báðum tilvikum. Hins vegar hefði LÍN verið rétt að ráðstafa greiðslum samkvæmt 8. gr. laga nr. 21/1992 um Lánasjóð íslenskra námsmanna fyrst inn á eldra lánið. Það væri meginregla kröfuréttar að þegar kröfuhafi ætti margar kröfur á hendur sama skuldara ætti skuldarinn val um inn á hvaða skuld hann ráðstafaði greiðslu hverju sinni. Léti skuldari engin fyrirmæli fylgja greiðslu sinni bæri að miða við að hann eftirléti kröfuhafa frjálst val um inn á hvaða skuld greiðslunni skyldi ráðstafað. Með því að greiða athugasemdalaust greiðsluseðla sem LÍN sendi hefði fyrirkomulag innheimtunnar verið samþykkt í verki af hálfu skuldarans og á meðan greitt var inn á námslánið í samræmi við fyrirmæli 8. gr. laga nr. 21/1992 hefði hvorugt skuldabréfanna verið í vanskilum. Þá var vísað til þess að krafa LÍN væri samkvæmt skuldabréfi sem samkvæmt 1. tölulið 4. gr. laga nr. 14/1905 fyrndist á 10 árum, en ekki var fallist á að 4 ára fyrningarfrestur 3. töluliðar 3. gr. laganna yrði talinn gilda um kröfuna. Þótti ljóst að kröfur samkvæmt báðum skuldabréfunum væru ófyrndar. Í því ljósi hefðu ekki verið efni til þess að víkja til hliðar greiðsluloforði samkvæmt sérstöku vanskilaskuldabréfi á grundvelli 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga svo sem gert hafði verið í úrskurði málskotsnefndar LÍN. Með vísan til alls framangreinds var úrskurður málskotsnefndarinnar því felldur úr gildi.

Dóminn í heild sinni má lesa hér.