image

Farsælast að dómarar komi sér saman um dómsniðurstöðu ef mögulegt er

13.11.2017

    Eiríkur Tómasson lét af störfum sem hæstaréttardómari í byrjun september á þessu ári. Hann sat í réttinum í sex ár, en áður var hann fulltrúi í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu, aðstoðarmaður ráðherra, lögmaður og prófessor við lagadeild Háskóla Íslands.
    Í tilefni af þessum tímamótum var rætt við Eirík um störf hans í réttinum, og fyrst var hann inntur eftir því hvernig fyrri starfsreynsla hans hefði nýst honum í Hæstarétti.
    -Ég hafði ekki starfað áður sem dómari þegar ég tók til starfa við réttinn og þurfti því að tileinka mér nýtt verklag. Á hinn bóginn kom sú reynsla, sem ég hafði öðlast á ólíkum réttarsviðum í fyrri störfum mínum þar sem ég hafði komið víða við, að góðum notum í dómarastarfinu. Þannig er fjölbreyttur bakgrunnur að mínu áliti gott veganesti fyrir dómara við þennan æðsta dómstól þjóðarinnar.

Fleiri en ein hlið á hverju máli
    Það einkennir flest mál sem koma til kasta dómstóla, ekki síst Hæstaréttar, að ekki liggur í augum uppi hvernig á að leysa þann ágreining sem fyrir hendi er milli málsaðilanna. Oftast nær eru það reyndir lögmenn sem flytja málin og færa góð og gild rök fyrir málsstað umbjóðenda sinna eða skjólstæðinga. Hlutverk dómenda í fjölskipuðum dómi, hvort sem þeir eru þrír, fimm eða jafnvel sjö talsins, er að komast að niðurstöðu um hvor aðilanna eða hverjir þeirra, ef því er að skipta, hafi rétt fyrir sér. Fyrir utan að vera vel að sér í lögum tel ég að aðalsmerki góðs dómara sé að bera virðingu fyrir mismunandi sjónarmiðum málsaðila og ekki síður samdómenda sinna og vera ávallt reiðubúinn til að skipta um skoðun ef hann álítur, eftir að hafa heyrt röksemdir annarra, að önnur niðurstaða en sú, sem hann aðhylltist áður, sé réttari í lagalegum skilningi.
    Þarna er kannski komið að muninum á hlutverki dómara og lögmanna.

Sératkvæði tíðkast ekki alls staðar
    Samkvæmt réttarfarslögum, segir Eiríkur, skulu dómarar Hæstaréttar ræða með sér fyrir luktum dyrum, strax eftir að mál hefur verið munnlega flutt, röksemdir og niðurstöðu dóms. Fyrir málflutning skal einum af dómurunum falið að vera frummælandi á þessum fundi og ber forseta eða þeim öðrum, sem situr í forsæti í málinu, að stuðla að því að álit hvers dómara komi þar sem skýrast fram. Samkvæmt lögunum ræður afl atkvæða úrslitum, sem þýðir að meirihluti dómenda ræður því hvernig dómur Hæstaréttar hljóðar. Að lokinni umræðu skal fela frummælandanum að semja atkvæði að dómi, nema hann hafi lent í minnihluta. Í því tilviki ákveða þeir, sem skipa meirihlutann, hver þeirra skuli semja dómsatkvæðið, en frummælandinn gengur þá frá sératkvæði, annaðhvort einn eða með öðrum. Hér á landi tíðkast það sem sagt, að þeir dómarar, sem lenda í minnihluta, skili sératkvæði sem eru birt ásamt dómi meirihlutans. Þetta er víða gert, en ekki alls staðar, t.d. skila dómarar í Evrópudómstólnum og EFTA-dómstólnum í Lúxemborg ekki sératkvæðum, heldur eru dómar kveðnir upp í nafni dómenda í heild.

Nýtt verklag vegna mikils fjölda mála
    Og Eiríkur heldur áfram og minnist m.a. á hinn mikla fjölda mála sem berast réttinum
    -Innan þess ramma sem dreginn er upp í lögunum geta dómarar Hæstaréttar ráðið því hvernig þeir standa að því að afgreiða málin, sem skotið er til réttarins. Vegna þess mikla fjölda mála, sem leysa hefur þurft úr á ári hverju, hefur það færst í aukana frá því að ég kom til starfa sem hæstaréttardómari, að dómendur í stærri og flóknari málum hittist á fundi nokkru fyrir málflutning þar sem frummælandi í málinu fer yfir helstu atvik þess og greinir samdómendum sínum frá þýðingarmestu gögnunum og helstu álitaefnunum í málinu að hans áliti. Þetta verklag hefur óneitanlega flýtt fyrir vegna þess að það auðveldar öðrum dómurum en frummælandanum að setja sig inn í málið. Hins vegar leysir það þá ekki undan þeirri skyldu að kynna sér málsgögnin að eigin raun og mynda sér síðan skoðun á því hvernig leysa beri úr málinu þegar að því kemur.

Málamiðlun farsælli
    Ég er þeirrar skoðunar, segir Eiríkur, að það sé farsælla fyrir Hæstarétt að dómarar í sérhverju máli, sem þar er dæmt, komi sér saman um niðurstöðuna ef það er mögulegt. Slíkt styrkir fordæmin, sem rétturinn skapar með dómum sínum, auk þess sem mér finnst að dómurinn verði almennt betri eftir því sem fleiri dómarar með mismunandi bakgrunn koma að endanlegri gerð hans. Þetta kallar að sjálfsögðu á umburðarlyndi gagnvart sjónarmiðum annarra dómenda og vilja til að koma til móts við þau. Samt eru því auðvitað takmörk sett hve langt verður gengið í þessa átt því að virða ber skoðanir þeirra dómara sem eru á öðru máli og rétt þeirra til að skila sératkvæði. Þegar öllu er á botninn hvolft tel ég að málamiðlun sem allir dómarar geta sætt sig við sé farsælli lausn en sú að dómurinn klofni í tvo hluta þar sem tveir eða þrír dómarar standa að meirihlutanum og einn eða tveir skila sératkvæði. Ég er alls ekki einn um þessa skoðun því í samtölum mínum við dómara frá Norðurlöndum hef ég komist að raun um að þeir eru margir sama sinnis. Engin launung er á því að stöku sinnum á þessum sex árum hef ég staðið frammi fyrir tveimur kostum, annaðhvort að fylgja meirihluta dómenda að málum eða skila sératkvæði. Yfirleitt valdi ég fyrri kostinn, að því tilskildu að hann uppfyllti að mínum dómi það frumskilyrði að vera réttur í lagalegum skilningi. Með því móti átti ég þess kost að taka þátt í að ganga frá atkvæði meirihlutans og þar með endanlegum dómi réttarins.

Allir, meira að segja dómarar, hafa sínar tilfinningar
    -Sumir virðast halda að hæstaréttardómar séu að mestu steyptir í sama mót og fylgi bókstaf laganna í einhverri blindni, segir hæstaréttardómarinn fyrrverandi. Þetta á sem betur fer ekki við rök að styðjast, segir hann. Þeir dómarar sem ég hef unnið með eru allir mannlegir og hafa sínar tilfinningar eins og aðrir borgarar þessa lands þótt eðli máls samkvæmt beri þeir þær ekki á torg. Stundum er það svo að maður finnur til með þeim sem leita réttar síns fyrir dómstólum án þess að geta fallist á kröfur þeirra þar sem lögin, sem dómurum er samkvæmt stjórnarskránni skylt að dæma eftir, koma í veg fyrir það. Dæmi um slíkt er að löggjafinn hafi falið stjórnvöldum ríkis eða sveitarfélaga að ráða máli til lykta og stjórnvöldin hafi með ákvörðun sinni, sem um er deilt, haldið sig innan þess ramma sem þeim er markaður í stjórnarskrá, almennum lögum, gildum stjórnvaldsfyrirmælum og óskráðum réttarreglum.

Gagnrýni á að vera málefnaleg
    Að lokum fjallar hann í viðtalinu um gagnrýni á dóma og umfjöllun um þá.
  -Dómendur í lýðræðisríki fara með einn af þremur valdþáttum ríkisvaldsins, dómsvaldið, og því er sjálfsagt að úrlausnir þeirra séu gagnrýndar, enda hljóta þær eðli máls samkvæmt oft að vera umdeildar. Þá kröfu verður hins vegar að gera, sér í lagi þegar í hlut eiga lögfræðingar, að gagnrýnin sé málefnaleg, þ. á m. í ljósi þess að ekki er við hæfi að dómarar tjái sig opinberlega um einstök mál sem þeir hafa dæmt. Hér á landi hefur umfjöllun um dómsmál verið of tilviljunarkennd auk þess sem hún hefur stundum verið afar einhliða, eins og þegar aðilar sem tapað hafa málinu, lögmenn þeirra eða sérlegir talsmenn hafa farið mikinn í fjölmiðlum. Ástæðan fyrir þessu er sumpart sú að óháðir sérfræðingar á afmörkuðum sviðum íslensks réttar eru fáir og svo virðist sem sumir þeirra veigri sér við að taka þátt í hinni opinberu umræðu um dómsmál, sem oft minnir meira á kappræðu en rökræðu. Á þessu þyrfti að verða breyting þar sem vönduð umfjöllun um dóma, er birtist sem betur fer af og til í fjölmiðum, er æskileg og veitir dómstólunum nauðsynlegt aðhald með sama hætti og fræðirit og greinar sem birtar eru á hinum fræðilega vettvangi.