Sýkna í fjárdráttarmáli
23.11.2017
Hæstiréttur kvað í dag upp dóm í sakamáli þar sem fyrirsvarsmanni og eiganda einkahlutafélags var gefinn að sök fjárdráttur með því að hafa dregið sér rúmar 79 milljónir úr félaginu. Í dómi sínum vísaði Hæstiréttur til þess að rannsókn málsins og framlagning gagna um bókhald félagsins hefði verið áfátt. Væri ekki við annað að styðjast í þeim efnum en úrskurði ríkisskattstjóra, þar sem gjöld mannsins og félagsins hefðu verið tekin til endurskoðunar og gengið út frá að greiðslurnar skyldu skoðast sem laun mannsins og að þær hefðu verið færðar í bókhaldi félagsins. Hefðu færslurnar valdið lækkun á eignarlið á bankareikningi félagsins en jafnframt myndað aðra bókfærða eign sömu fjárhæðar og þannig leitt af sér tilfærslu verðmæta milli einstakra eignaflokka í bókhaldinu. Hefði maðurinn því ekki getað, einvörðungu með framkvæmd umræddra ráðstafana, tileinkað sér fjármuni félagsins og um leið svipt það varanlega umráðum þeirra í andstöðu við fjárdráttarákvæði almennra hegningarlaga. Var maðurinn því sýknaður af kröfum ákæruvaldsins.
Dóminn í heild sinni má lesa hér.