image
image

Að setjast í helgan stein er ekki inni í myndinni

27.12.2017

Dr. Carl Baudenbacher hefur verið forseti EFTA-dómstólsins í Luxemborg frá 2003 eða í fjórtán ár og þar með lengur en forverar hans í því starfi samanlagt. Carl lætur af starfi forseta dómstólsins um næstu áramót og af því tilefni var rætt við hann um störf hans við EFTA-dómstólinn og það sem er að hans mati eftirminnilegast frá starfstímanum þar.

Hvernig myndir þú lýsa stöðu EFTA-dómstólsins í dag þegar þú lítur yfir farinn veg?

Þegar ég var skipaður dómari við EFTA-dómstólinn í september 1995 hafði dómurum þar nýlega verið fækkað úr fimm í þrjá, fá mál voru til meðferðar hjá dómstólnum og segja má að andrúmsloftið þar hafi af þeim sökum verið nokkuð drungalegt. Nú er hins vegar staðan sú að málum hefur farið fjölgandi og ég tel mig óhikað geta sagt að EFTA-dómstóllinn hafi áunnið sér virðingu hjá dómstólum Evrópusambandsins sem og dómstólum aðildarríkja sinna. Dómstóllinn starfar fullur sjálfstrausts og metnaðar og er algerlega sjálfstæður í störfum sínum. Ef þessu væri á annan veg farið mætti setja spurningarmerki við rökin fyrir því að hafa sérstakt dómsvald í málefnum EFTA-ríkjanna. Að mínu mati er það fyrst og fremst þetta sjálfstæði sem hefur gert EFTA-dómstólinn að raunhæfum valkosti fyrir Bretland eftir útgöngu landsins úr Evrópusambandinu.

Þú hefur flutt ræður og veitt viðtöl í Bretlandi þar sem þú hefur talað fyrir aðild Breta að EES samstarfinu á einn eða annan hátt. Þetta hefur ekki öllum líkað.

Sumir gagnrýnendur og þeirra á meðal fulltrúar ákveðinna stjórnvalda telja að tjáningarfrelsi dómara sem starfa á hinum evrópska vettvangi sé takmarkað og halda því jafnvel fram að viðkomandi dómari eigi að samræma ræður sínar og viðtöl um Brexit og EES við stefnu ríkisstjórnar viðkomandi ríkis. Því er ég ósammála. Vissulega á dómari að forðast allt sem stofnar í hættu sjálfstæði hans eða hæfi til þess að taka sæti í málum til framtíðar litið en sjónarmið mín um mögulegar Brexit lausnir eru ekki með þeim hætti að þau geri það. Ég tel það vera skyldu mína sem dómari og forseti EFTA-dómstólsins og einnig sem fræðimaður á sviði Evrópuréttar til langs tíma að eyða misskilningi, svara fyrirspurnum og veita upplýsingar sem einungis þeir búa yfir sem hafa langa reynslu á þessu sviði. Almenningur í öllum EES-ríkjum og þar á meðal í Bretlandi á rétt á því að fá nákvæma mynd af EES-samningnum og lagaumhverfi hans - hvað það umhverfi felur í sér, hvernig það virkar og hvernig það þróast.

Hverju finnst þér þú helst hafa áorkað á starfstímanum við EFTA-dómstólinn?

Reglur EES-réttar um einsleitni ganga einungis í aðra áttina á pappírnum og byggja á því að Evrópudómstóllinn svari spurningum um lagaleg álitaefni fyrst og EFTA-dómstólinn komi svo í kjölfarið. En þannig gengur þetta ekki fyrir sig því reyndin er sú að EFTA-dómstóllinn hefur staðið og stendur að mestu frammi fyrir nýjum lagalegum álitaefnum í úrlausnum sínum. En jafnvel þótt fyrir liggi fordæmi frá Evrópudómstólnum hefur EFTA-dómstóllinn oft þurft að fara sínar eigin leiðir. Það hefur verið markmið mitt að sannfæra dómstóla Evrópusambandsins um að virða EFTA-dómstólinn og úrlausnir hans á jafningjagrundvelli og ég hef alltaf sagt að samband þessara stofnana eigi að vera án allrar þvingunar, eða eins og stundum er sagt á þýsku fela í sér „herrschaftsfreier Diskurs“. Þessu hefur Jürgen Habermas lýst svo að það sé sú úrlausn sem sé mest sannfærandi sem ráði og ég tel að þessu markmiði hafi í raun verið náð. Önnur atriði hafa einnig stuðlað að því að þessi árangur hefur náðst, því til þess að koma á fót því sem fyrrum lögsögumaður Slóveníu, Verica Trstenjak, kallaði á ensku „a unique judicial dialogue“ eða einstakri samvinnu, höfum við lagt okkur fram um að efla tengsl við eins marga innan Evrópudómstólsins og mögulegt er. Ég er mjög þakklátur konu minni, Dr. Doris Baudenbacher-Tandler, sem hefur einstaka hæfileika til slíkrar tengslamyndunar. Annað atriði  sem ég vil einnig nefna í þessu sambandi eru þau góðu tengsl sem EFTA dómstóllinn hefur við æðstu dómstóla aðildarríkja okkar.  

Hverjar hafa verið helstu áskoranirnar í starfi þínu við EFTA-dómstólinn ?

EFTA-dómstóllinn hefur ekki alltaf notið vinsælda í aðildarríkjum sínum en mér finnst það hafa breyst í seinni tíð. Stærsta áskorunin sem ég hef staðið frammi fyrir hefur líklega verið sú að finna hæfilegt jafnvægi milli markmiðs EES-samningsins um einsleitni og minnar eigin sannfæringar. Evrópudómstóllinn og EFTA-dómstóllinn eru eins og ég sagði áðan tveir dómstólar sem starfa á jafningjagrundvelli og því duga ekki þau vinnubrögð að ýta á „afrita“ og „líma“ takkana á tölvunni við úrlausn mála. Þá hefur sambandið við aðildarríkin í ljósi tvíeðliskenningarinnar einnig verið að þróast. EFTA-dómstóllinn hefur áunnið sér virðingu með því að halda á lofti sérstökum EFTA-gildum líkt og frjálsum viðskiptum, samkeppni, ábyrgð, skilvirkni og gagnsæi, og í því sambandi hefur ESA, Eftirlitsstofnun EFTA, stundum skírskotað til þess sem kalla mætti EFTA-stíl eða „EFTA flavour“ á ensku. Það hefur ekki alltaf verið auðvelt fyrir lítinn dómstól sem einungis er skipaður þremur dómurum að ná yfir hið breiða svið EES-samningsins. EFTA-dómstóllinn hefur á síðustu árum þurft að takast á við mörg erfið mál sem varða innri markaðinn og það mun halda áfram. Þá var tilraun ríkisstjórna aðildarríkjanna til að stytta skipunartíma dómara fremur óþægileg að mínu mati en þau áform gengu ekki eftir. Norskir fræðimenn kvörtuðu yfir þeim áformum til ESA sem hóf málarekstur gegn EES/EFTA-ríkjunum þremur, áfrýjunardómstóllinn í Liechtenstein beindi þeirri spurningu til EFTA-dómstólsins hvort slíkt væri löglegt og dómarafélögin í Noregi og á Íslandi mótmæltu. Á endanum gáfu ríkisstjórnirnar eftir.

Hvernig nálgast Íslendingar EES-rétt?

Skiljanlega var fyrsta kynslóð Íslendinga treg til að gangast undir eitthvað sem þeim fannst vera ógn við fullveldi sitt. En Íslendingar hafa alltaf verið raunsæir og sýnt sanngirni. Þeir fluttu mál sitt og ef þeir höfðu ekki árangur sem erfiði þá táknaði það ekki heimsendi í þeirra augum. Það er áhugavert að flestum málum sem snerta stjórnskipuleg álitaefni hefur verið vísað til okkar af íslenskum dómstólum. Það segir margt um gæði íslenskra lögmanna og hugrekki dómaranna. Nú er komin ný kynslóð Íslendinga sem nálgast EES-rétt á mjög jákvæðan hátt. Samband EFTA-dómstólsins og Hæstaréttar Íslands hefur þróast á mjög jákvæðan hátt og er í dag mjög gott. Það er skemmtileg tilviljun að síðasta málið sem ég sat í sem forseti var Merck Sharp & Dohme Corp. gegn Einkaleyfastofunni en því var vísað til okkar af Hæstarétti Íslands. Á persónulegum nótum þá langar mig til að segja að það hefur verið mér mikilvægt að eiga þess kost að bindast vinaböndum við marga í aðildarríkjum dómstólsins og ég er ánægður með að geta sagt að Íslendingar eiga sérstakan stað í hjarta mínu.

Hver voru mikilvægustu málin á skipunartíma þínum?

Að því er varðar meginreglurnar þá stendur mál Erlu Maríu Sveinbjörnsdóttur upp úr en í því viðurkenndi EFTA-dómstóllinn skaðabótaábyrgð ríkja að EES-rétti. Eins og ég skrifaði í minningargrein um Þór Vilhjálmsson þá skildi hann mætavel að Erlu Maríu málið skipti sköpum fyrir framtíð dómstólsins. Að því er varðar efnisreglurnar – eða „kjötið“ eins og ég kalla það – þá myndi ég nefna til dæmis Icesave I, Norway Post um umfang endurskoðunarvalds dómstóla að því er varðar sektarákvarðanir á grundvelli samkeppnislaga, DB Schenker I um aðgang að gögnum, Inconsult um eðli vefsíðna, og Vigeland þar sem komist var að þeirri niðurstöðu að vernd höfundaréttar fæli í sér hvata til að stuðla að eflingu hagkerfisins og samfélagsins í heild en varanlegur einkaréttur á listaverkum væri á hinn bóginn ekki tækur. Að lokum vil ég nefna Fosen-linjen málið þar sem EFTA-dómstóllinn taldi að einfalt brot á reglum um opinber innkaup gæti nægt til þess samningsyfirvald verði skaðabótaskylt. Að veita ríki aukinn rétt þegar það starfar á viðskiptasviðinu á þeim grundvelli einum að það er ríkið myndi vera merki um ógagnsæja kaupskaparstefnu.

Hvernig sérðu fyrir þér framtíð EFTA-dómstólsins?

Fyrir sex árum lagði EFTA-dómstóllinn til við aðildarríkin þær breytingar á reglum um dómstólinn að honum væri mögulegt að sitja í fimm manna deild í mikilvægum málum en það gekk ekki eftir. Í ljósi þess að málin eru mun flóknari nú en áður ætti að huga að þessu atriði aftur því ef Bretland og/eða Sviss koma til með að gangast undir lögsögu dómstólsins myndum við augljóslega standa frammi fyrir nýjum áskorunum. Annars er ég sannfærður um að EFTA-dómstóllinn muni halda áfram að blómstra og dafna. EFTA-stoðin þarf að mínu mati einnig að hafa yfirþjóðlega dómnefnd sem hefði það verkefni að fara yfir tilnefningar að því er varðar umsækjendur um dómarastöðu. Hæstiréttur Íslands og Hæstiréttur Liechtenstein hafa báðir stutt slíka tillögu.

Hvað með þína eigin framtíð?

Ég mun á þessum tímamótum taka mér smá hlé en byrja svo ferskur að vinna aftur af fullum krafti. Að setjast í helgan stein er ekki inni í myndinni fyrir mig. Ég er með mörg járn í eldinum, þar á meðal ætla ég að skrifa um hvað felst í því að vera evrópskur dómari á okkar tímum. Ég tek undir með William Safire, dálkahöfundi við New York Times, sem komst þannig að orði í síðasta dálki sínum að „með því að leggja grunninn að framtíðar viðfangsefnum á meðan á núverandi starfsferli stendur, höfnum við eyðileggjandi starfslokum og grípum tækifærið fyrir hressandi seinni umferð [...] Þegar þú hefur lokið við að breytast, læra, halda þér upplýstum – aðeins þá ertu búinn. „Aldrei hætta störfum.““