Páll Hreinsson kjörinn forseti EFTA-dómstólsins
05.01.2018Hinn 1. janúar 2018 tók Páll Hreinsson, fyrrverandi hæstaréttardómari, við stöðu forseta EFTA-dómstólsins, en til starfans var hann kjörinn á fundi dómara dómstólsins 14. nóvember 2017. Mun hann gegna embættinu í þrjú ár, fram til 31. desember 2020 að því er fram kemur í fréttatilkynningu á heimasíðu EFTA-dómstólsins.
Páll var skipaður hæstaréttardómari 1. september 2007. Hann fékk leyfi frá störfum í september 2011 er hann var skipaður sem dómari við EFTA-dómstólinn fyrir Íslands hönd. Fékk hann lausn frá embætti hæstaréttardómara 15. september 2017 er leyfi hans á grundvelli laga nr. 15/1998 um dómstóla lauk.
Hæstiréttur óskar Páli til hamingju með nýju stöðuna og velfarnaðar í starfi.