Millidómstig felur í sér verulega réttarbót
19.01.2018Dómstólasýslan og Lögmannafélag Íslands efndu 12. janúar 2018 til hádegisverðarfundar með Róberti Spanó, dómara við Mannréttindadómstól Evrópu (MDE), sem fjallaði í erindi sínu um réttláta málsmeðferð við málskot til æðri dóms samkvæmt 6. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu (MSE). Benedikt Bogason, hæstaréttardómari og formaður stjórnar dómstólasýslunnar, var fundarstjóri.
Umfjöllunarefni fundarins tengist mjög þeirri nýju dómstólaskipan sem tók gildi 1. janúar síðastliðinn og af því tilefni var rætt við Róbert um nýja dómstólaskipan og kröfur sem Mannréttindadómstóllinn gerir til ríkja á grundvelli 6. gr. MSE.
Hvernig horfa þær breytingar sem nú hafa verið gerðar á dómstólaskipaninni við í ljósi ákvæða Mannréttindasáttmála Evrópu og þá einkum 6. gr. sáttmálans?
Það hefur lengi legið fyrir að hið tveggja þrepa íslenska dómskerfi, héraðsdóms og Hæstaréttar, hefur í framkvæmd haft ákveðna erfiðleika í för með sér við að tryggja fullt samræmi við ákvæði 6. gr. MSE, einkum í sakamálum. Hér má minna á dóm MDE í máli Sigurþórs Arnarssonar gegn íslenska ríkinu frá árinu 2003 þar sem talið var að Hæstiréttur hefði ekki gætt 6. gr. sáttmálans um milliliðalausa sönnunarfærslu. Tilkoma Landsréttar mun því vonandi hafa jákvæð áhrif hvað það varðar að slíkt geti eftir nýju fyrirkomulagi farið fram með fullnægjandi hætti. Einnig gat hið tveggja þrepa dómskerfi skapað tiltekin álitaefni í einkamálum, eins og leiðir af dómi MDE í máli Súsönnu Rósar Westlund gegn íslenska ríkinu frá 2007, þar sem var talið að brotið hefði verið í bága við 6. gr. MSE vegna skorts á að áfrýjanda í máli varðandi fasteignagalla gæfist kostur á munnlegri málsmeðferð fyrir Hæstarétti. Samandregið er því ljóst að hið nýja millidómstig felur í sér verulega réttarbót þegar hið nýja kerfi er metið með almennum hætti út frá 6. gr. sáttmálans. Það er þó ljóst að gæta verður að því í einstökum málum að laga hið nýja réttarfar sem leiðir af stofnun Landsréttar og breyttu hlutverki Hæstaréttar að þeim kröfum sem leiða af 6. gr. MSE.
Hvaða áhrif hefur það fyrir þær kröfur sem gerðar eru til Hæstaréttar á grundvelli 6. gr. MSE og eftir atvikum 2. gr. 7. samningsviðauka við sáttmálann, að fara úr því að vera æðsti dómstóll í tveggja þrepa dómskerfi yfir í það að verða æðsti dómstóll í þriggja þrepa kerfi?
Af dómaframkvæmd MDE leiðir að 6. gr. MSE tryggir ekki rétt til málskots innan dómskerfa aðildarríkjanna. Kjósi aðildarríki hins vegar að setja á laggirnar málskotsstig verður málsmeðferð fyrir æðri dómi, hvort sem er á millidómstigi eða fyrir æðsta dómstól, eins og Hæstarétti hér á landi, að fullnægja kröfum sáttmálans. Í sakamálum tryggir 2. gr. 7. viðauka aftur á móti sjálfstæðan rétt til áfrýjunar, en dómaframkvæmd MDE um það ákvæði er þó af skornum skammti, enn sem komið er.
MDE hefur lagt til grundvallar að meta verður kerfi hvers lands fyrir sig þegar skoðað er hvaða kröfur ber að gera til málskotskerfa samkvæmt 6. gr. sáttmálans. Verður þannig að horfa til eðlis þess síunarkerfis (e. filtering system), t.d. í formi réttar til málskots eða málskotsleyfa, sem landsréttur byggir á, og áhrif málskots í heildarmati á málsmeðferð á öllum dómsstigum í tilteknu máli. Þá skiptir verulegu máli að greina eðli og umfang þeirra valdheimilda sem æðri dómur hefur yfir að ráða að landslögum. MDE hefur lagt á það skýra áherslu að aðildarríkin hafa verulegt svigrúm til mats í þessum efnum og það sé ekki tilgangur 6. gr. sáttmálans að samræma réttarfarsreglur og dómskerfi aðildarríkjanna.
Af 6. gr. MSE leiðir jafnframt að ólíkar kröfur eru gerðar til millidómstigs, sem hefur að jafnaði fullar heimildir til endurskoðunar, bæði hvað varðar málsatvik og lagaatriði, eins og á við um Landsrétt í hinu nýja kerfi, og æðsta dómstól eins og Hæstaréttar, sem hefur fyrst og fremsta samræmingar- og fordæmishlutverk. Ríkara svigrúm er fyrir aðildarríki að takmarka aðgang að æðsta dómstól við mál sem hafa verulega almenna þýðingu.
Hvert er hlutverk dómara hér á landi þegar kemur að því að tryggja réttláta málsmeðferð fyrir héraðsdómum, Landsrétti og Hæstarétti og hvernig er háttað samspili dómstóla innanlands og MDE samkvæmt 6. gr. sáttmálans?
Það er mikilvægt fyrir íslenska dómara að gæta vel að því að meginregla 6. gr. MSE leiðir ekki bara af lögum nr. 62/1994 heldur er hún jafnframt grundvallarregla sem er að finna í 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar. Í sumum tilvikum dugar því einfaldlega ekki við úrlausn mála hér á landi að horfa einangrað á ákvæði einkamálalaga eða sakamálalaga og leggja til grundvallar að lausn réttarágreinings sé ávallt þar að finna. Þar sem stjórnarskrárákvæðið verður að túlka í ljósi 6. gr. MSE, eins og Hæstiréttur hefur sjálfur lagt til grundvallar í sinni dómaframkvæmd, liggur í hlutarins eðli að dómarar hér á landi verða að kunna góð skil á dómaframkvæmd MDE sem hefur leiðsagnargildi um inntak meginreglunnar um réttláta málsmeðferð. Það er enda hinum íslenska dómara sem er falið það hlutverk að tryggja að gætt sé þeirrar grundvallarreglu, en ekki MDE.
Eru einhverjir nýlegir (eða eldri) dómar MDE um þetta efni sem lögfræðingar ættu að kynna sér að því er varðar þær kröfur sem MDE gerir til réttlátrar málsmeðferðar við málskot til æðri dóms?
Dómaframkvæmd MDE um 6. gr. MSE er mjög umfangsmikil. Hafa verður í huga, sem fyrr segir, að kjósi aðildarríki að setja á laggirnar málskotsstig innan dómskerfa sinna, sem öll aðildarríki Evrópuráðsins hafa gert leyfi ég mér að fullyrða, þá gildir meginreglan um réttláta málsmeðferð á öllum dómsstigum. Það er því verulega mikilvægt fyrir íslenska dómara og lögfræðinga, sem fást við málafærslu fyrir dómstólum, að kunna góð skil á þeirri dómaframkvæmd. Þegar kemur að málskoti til æðri dóms leitaðist ég við í fyrirlestri mínum á hádegisverðarfundi Lögmannafélags Íslands og Dómstólasýslunnar að varpa ljósi á þá dóma MDE sem ástæða væri fyrir íslenska lögfræðinga að huga sérstaklega að. Allir íslenskir lögfræðingar eiga auðvitað að þekkja þá íslensku dóma sem hafa gengið í Strassborg sem varða þetta efni og ég rakti hér að framan. Hvað varðar málskot almennt, og þá í norrænu samhengi, er dómurinn í máli Hansen gegn Noregi frá 2014 athyglisverður fyrir margra hluta sakir. Einnig er ástæða til að vekja athygli á ákvörðuninni um meðferðarhæfi kæru í máli Valchev o.fl. gegn Búlgaríu frá sama ári hvað varðar heimildir aðildarríkja til að takmarka aðgang að æðsta dómsstigi. Þá er nýlegur dómur MDE í máli Miessen gegn Belgíu frá 2016 mikilvægur með tilliti til aðgangs að málskotsstigi og túlkun innlendra dómstóla á reglum landsréttar um slíkan aðgang. Loks má nefna dóminn í máli Kashlev gegn Eistlandi, sem einnig er frá 2016, sem snýr að meginreglunni um munnlega sönnunarfærslu á málskotsstigi í sakamáli.