Reglur um kærumálsgögn í einkamálum

09.02.2018

Í gær voru birtar í Stjórnartíðindum nýjar reglur Hæstaréttar um kærumálsgögn í einkamálum. Reglurnar leysa af hólmi reglur nr. 677/2015 um sama efni en í nýju reglunum er tekið mið af þeirri breytingu sem varð á skipan dómstóla 1. janúar síðastliðinn er Landsréttur tók til starfa.

Samkvæmt 1. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála sæta úrskurðir Landsréttar um nánar tilgreind atriði sem talin eru í fimm stafliðum kæru til Hæstaréttar. Að auki er í 2. mgr. sömu greinar kveðið á um að unnt sé að sækja um leyfi Hæstaréttar til að kæra úrskurði Landsréttar þegar svo er fyrir mælt í öðrum lögum. Hvort sem úrskurður Landsréttar er kærður á grundvelli 1. mgr. 167. gr. eða sótt er um kæruleyfi á grundvelli 2. mgr. sömu greinar ber þeim sem kærir eða sækir um kæruleyfi að senda Hæstarétti kærumálsgögn innan viku frá því Landsréttur sendi Hæstarétti kæru eða umsókn um kæruleyfi. Skulu kærumálsgögn vera í þeim búningi sem mælt er fyrir um í reglunum sem eru bindandi frá og með deginum í dag, sbr. 2. mgr. 8. gr. laga nr. 15/2005 um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað.

Reglurnar má finna hér.

Þess skal einnig getið að Hæstiréttur vinnur nú að gerð nýrra reglna um málsgögn í einkamálum og sakamálum.