Kröfu um greiðslu happdrættisvinnings hafnað
22.02.2018Í dag var kveðinn upp dómur í máli sem einstaklingur höfðaði til heimtu vinnings í happdrætti. Hafði maðurinn samið um að iðgjald vegna endurnýjunar miða í hans eigu skyldi skuldfært mánaðarlega á kreditkort hans. Þegar happdrættið reyndi skuldfærslu vegna iðgjalds í umrætt skipti var henni hafnað. Miði hans var því ekki með í útdrætti sem fram fór tæpum mánuði síðar en þá kom 10.000.000 króna vinningur á miðann. Talið var að skýrt hefði komið fram í skilmálum samnings aðila að miði væri ekki gildur nema greiðsla hefði borist tímanlega fyrir útdrátt. Hefði það því verið á ábyrgð mannsins að sjá til þess að unnt væri að skuldfæra kort hans fyrir endurnýjun miðans. Upplýst var í málinu að í 1703 tilvikum í starfsemi happdrættisins frá árinu 2009 og fram á árið 2017 hefði komið vinningur á miða sem ekki hefði verið greitt endurnýjunariðgjald af. Í öllum þeim tilvikum hefðu mál verið afgreidd með sama hætti og mál mannsins að einu frátöldu þar sem eigandi miða fékk greiddan vinning. Talið var að þótt happdrættið hefði með því eina tilviki mismunað þátttakendum í happdrættinu lægi samt fyrir að mál mannsins hefði verið afgreitt í samræmi við önnur tilvik. Gæti hann því ekki reist kröfu sína um skaðabætur á því að við úrlausn hans máls yrði öðru sinni vikið frá jafnræðissjónarmiðum. Var happdrættið því sýknað af kröfum mannsins. Þá var við úrlausn málsins talið, meðal annars með vísan til 70. gr. stjórnarskrárinnar, að úrskurðarvald nefndar sem starfaði samkvæmt lögum nr. 13/1973 um Happdrætti Háskóla Íslands tæki ekki til þess ágreinings sem uppi væri í málinu.
Dóminn í heild sinni má lesa hér.