Dómur varðandi óréttmæta auðgun
15.03.2018
Hæstiréttur kvað í dag upp dóm í máli er varðaði kröfu manns um greiðslu fjárhæðar úr hendi fyrrum sambýliskonu sinnar er nam þeim hluta svokallaðrar leiðréttingarfjárhæðar sem honum hafði verið ákvörðuð á grundvelli laga nr. 35/2014 um leiðréttingu verðtryggðra fasteignalána. Höfðu aðilarnir verið skráð í sambúð á leiðréttingartímabilinu. Þau deildu um það hvort konunni hefði verið heimilt að samþykkja útreikning leiðréttingafjárhæðarinnar fyrir beggja hönd, en maðurinn bar því við að sambúð þeirra hefði í raun verið slitið á því tímamarki. Í dómi Hæstaréttar kom m.a. fram að skilja yrði málatilbúnað mannsins þannig að dómkrafa hans væri reist á sjónarmiðum um óréttmæta auðgun fyrrum sambýliskonu hans á hans kostnað, þar sem hann hefði ekki notið hagræðis af leiðréttingunni svo sem hann hefði átt rétt á með því að allri leiðréttingarfjárhæðinni hefði verið ráðstafað til lækkunar veðlána sem hvíldu á fasteign konunnar. Var ekki talið að sannað hefði verið að sambúðinni hefði lokið fyrir það tímamark er tilkynnt var um sambúðarslit til Þjóðskrár Íslands. Hefði framkvæmd leiðréttingarinnar og ráðstöfun hennar verið í samræmi við ákvæði laga nr. 35/2014 og reglugerða sem settar hefðu verið á grundvelli þeirra. Var ekki talið að konan hefði með óréttmætum hætti auðgast á kostnað mannsins og staðfest niðurstaða héraðsdóms um sýknu hennar af kröfunni.
Dóminn í heild sinni má lesa hér.