Deilt um bótaábyrgð vegna starfa sýslumanns
22.03.2018Í dag féll dómur í máli þar sem deilt var um rétt lífeyrissjóðs til bóta úr hendi íslenska ríkisins. Taldi sjóðurinn sig hafa orðið fyrir tjóni sökum þess að sýslumaður tilkynnti honum ekki um framhald uppboðs á íbúð sem sjóðurinn átti veðrétt í á grundvelli skuldabréfs. Hafði bréfið áður verið í eigu annars aðila sem tilgreindur var sem eigandi á þinglýsingarvottorði. Í héraði var fallist á kröfu sjóðsins en hann látinn bera helming tjóns síns sjálfur. Hæstiréttur taldi hins vegar að veðhafar yrðu í meginatriðum að gæta sjálfir að því á grundvelli auglýsinga hvort nauðungarsala stæði yfir á eign sem þeir ættu veðréttindi í. Þá yrði ekki séð að í umræddu tilviki hefði sýslumaður getað náð til eiganda veðréttinda samkvæmt skuldabréfinu með því að líta til efnis þess eða annarra opinberra skráninga. Yrði sýslumanni því ekki metið til gáleysis að hafa ekki aðhafst frekar en hann gerði. Var íslenska ríkið því sýknað af kröfum sjóðsins.
Dóminn í heild sinni má lesa hér.