Dómur um gildi veðsetningar í fasteign

09.05.2018

Í dag kvað Hæstiréttur upp dóm í máli þar sem felld var úr gildi veðsetning sem hjón veittu í fasteign sinni til tryggingar láni sem dóttir þeirra tók í ágúst hjá Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis. Hafði sparisjóðurinn framselt skuldabréfið til Íbúðalánasjóðs. Í dómi Hæstaréttar kom meðal annars fram að lagt væri til grundvallar að við lánveitinguna hefði ekki verið gætt að þeirri fortakslausu skyldu samkvæmt samkomulagi um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga frá 1. nóvember 2001 að meta greiðslugetu lántaka og að Íbúðalánasjóður yrði að bera hallan af því að lánið hefði verið veitt án þess að viðhöfð hefðu verið þau vönduðu vinnubrögð af lánveitanda sem samkomulagið gerði ráð fyrir. Taldi dómurinn að atvik við samningsgerðina og staða samningsaðila hefði valdið því að ósanngjarnt hefði verið fyrir Íbúðalánasjóð að bera veðsetninguna fyrir sig, sbr. 1. mgr. 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, sbr. 2. mgr. sömu greinar. Var hún því felld úr gildi og sjóðnum gert að aflýsa veðskuldabréfinu.

Dóminn í heild sinni má lesa hér.