Fyrsti dómur Hæstaréttar í áfrýjuðu máli eftir breyttri dómstólaskipan

24.05.2018

Hæstiréttur kvað í dag upp dóm í fyrsta áfrýjaða málinu sem komið hefur til meðferðar fyrir Hæstarétti samkvæmt breyttri skipan dómstóla, er  tók gildi 1. janúar síðastliðinn með stofnun Landsréttar. Áður hafði Hæstiréttur kveðið upp tvo dóma í kærumálum sem skotið hafði verið til réttarins eftir breyttri skipan.

Í málinu komu meðal annars til úrlausnar kröfur ákærða um ómerkingu hins áfrýjaða dóms Landsréttar eða sýknu hans af kröfum ákæruvaldsins á þeim grundvelli að skipun eins dómara sem sat í dómi í málinu fyrir Landsrétti hefði ekki verið í samræmi við lög, svo sem áskilið væri í 59. gr. stjórnarskrárinnar og 2. málslið 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Hæstiréttur hafnaði framangreindum kröfum. Taldi rétturinn að ekki væri næg ástæða til að draga á réttmætan hátt í efa að ákærði hefði, þrátt fyrir annmarka á málsmeðferð dómsmálaráðherra við skipun dómara við Landsrétt, fengið notið í Landsrétti réttlátrar meðferðar máls síns fyrir óháðum og óhlutdrægum dómendum.

Dóminn í heild sinni má lesa hér.