Framlag hennar til íslensks samfélags nýtur virðingar og viðurkenningar

12.06.2018

„Lagadeild Háskóla Íslands lagði fram tillögu fyrir háskólaráð þess efnis að Guðrúnu Erlendsdóttur, fyrrverandi dósent og hæstaréttardómari, yrði gerð að heiðursdoktor við deildina í tilefni af því að 110 ár eru liðin frá því að Lagaskólinn, forveri Lagadeildar tók til starfa“ segir Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og deildarforseti Lagadeildar. „Aðalástæðan er sú að Guðrún Erlendsdóttir er frumkvöðull meðal íslenskra lögfræðinga“ segir hún ennfremur. „Hún er fyrsta konan til að gegna kennslu við Lagadeild Háskóla Íslands og varð fyrst kvenna til að taka sæti í Hæstarétti Íslands. Framlag hennar til íslensks samfélags nýtur virðingar og viðurkenningar. Hún var fyrst aðjúnkt við deildina árið 1970, síðan lektor 1976 og að lokum skipuð dósent í ársbyrjun 1979. Kennslu- og rannsóknarsvið Guðrúnar tengdust fjölskyldu- og erfðarétti og jafnréttismálum, þ.m.t. álitamálum sem varða sérstöðu sambúðarfólks og réttindi barna“ segir Aðalheiður. „Síðar lá leið hennar í Hæstarétt, sem kunnugt er og þar gegndi hún bæði störfum forseta og varaforseta og hefur eftir að hún lét af stöfum við réttinn margsinnis verið settur dómari þar um lengri eða skemmri tíma“ segir hún. „Guðrún á einstakan starfsferil að baki og er brautryðjandi í íslensku samfélagi og ruddi mikilvægar brautir fyrir íslenska kvenlögfræðinga, bæði innan Lagadeildar og íslensks réttarkerfis. Ekki leikur vafi á að framlag Guðrúnar til íslensks samfélags er umtalsvert og er einkar vel við hæfi að hún verði fyrsti heiðursdoktor Lagadeildar úr hópi kvenna. Vegna framlags Guðrúnar er það til sæmdarauka fyrir Háskóla Íslands og Lagadeild að heiðra hana með þessum hætti. Guðrúnu hefur réttilega verið lýst sem fremstri meðal jafningja“ sagði Aðalheiður Jóhannsdóttir deildarforseti að lokum.


 Þá má geta þess að tveir þeir síðustu sem urðu þess heiðurs aðnjótandi að vera gerðir að heiðursdoktorum Lagadeildar voru prófessorarnir Jónatan Þórmundsson og Sigurður Líndal.