image

Þeir voru fljótir að venjast mér

12.06.2018

Guðrún Erlendsdóttir á að baki langan og farsælan feril á sviði laga og dómstólakerfisins hér á landi. Hún útskrifaðist sem lögfræðingur frá Háskóla Íslands 1961 og síðan tóku við ýmis störf á sviði laga og réttar. Hún var settur hæstaréttardómari í 9 mánuði  á árunum 1982–1983 og skipaður hæstaréttardómari 1. júlí 1986 og var forseti réttarins tvívegis, fyrst árin 1991–1992 og síðar 2002–2003. Hún sat í Hæstarétti fram til vors 2006.

Í tilefni af því að hún verður útnefnd heiðursdoktor við Lagadeild Háskóla Íslands var hún spurð um hvernig það hafi verið að vera fyrsta konan til að taka sæti í Hæstarétti.

„Fyrstu 10 árin var rétturinn í gamla dómhúsinu við Lindargötu en flutti í nýja dómhúsið 1996“ segir Guðrún. „Gamla dómhúsið var barn síns tíma og var ekki gert ráð fyrir því að þar starfaði fólk af báðum kynjum. Allt var mjög formlegt og í settum skorðum. Ég hugsa að það hafi ekki síður verið erfitt fyrir dómarana að venjast mér heldur en fyrir mig að venjast þessu formlega andrúmslofti sem þar ríkti. Þess hefur oft verið minnst þegar ég á fyrsta vinnudegi mínum bað dómarana að gera hlé á göngu sinni inn í dómsalinn meðan ég  málaði á mér varirnar“ segir hún og brosir. „Ég gleymi aldrei svipnum á þeim þegar þeir litu allir við, en þeir létu sig hafa það. En þeir voru fljótir að venjast mér og gerðu sér grein fyrir því að konur sjá álitaefni oft frá öðrum hliðum en karlar og koma með önnur sjónarmið sem karlar hafa jafnvel ekki hugsað um. Fyrstu árin mín í Hæstarétti voru langflest mál flutt í fimm manna dómi og oftast var kveðinn upp dómur tveimur til fjórum vikum eftir dómtöku. Þetta hafði tekið breytingum þegar ég hætti 2006 og orðið algengt að mál væru dæmd af þremur dómurum. Flest mál síðustu ára hafa verið dæmd í þriggja manna dómi sem veldur því að fordæmisgildi dóma rýrnar og dómar kveðnir upp örfáum dögum eftir dómtöku. Með tilkomu Landsréttar breytist þetta sem betur fer“ segir Guðrún Erlendsdóttir.

- En hvað segir hún um þróun dómsmála á undanförnum árum.

„Málum hefur fjölgað mjög í Hæstarétti undanfarin ár og breytt um svip“ segir hún. „Eftir bankahrunið 2008 hafa hópast inn mál sem vart höfðu sést áður, svo sem um flókna afleiðusamninga. Ný löggjöf hefur verið sett vegna veru okkar í EES sem hefur áhrif á starfsemi réttarins. Þá hefur málflutningurinn tekið miklum breytingum. Málflutningstími lögmanna hefur nú verið takmarkaður í mun meira mæli en áður þekktist. Tíminn er fyrirfram ákveðinn og þeim tímamörkum fylgt mjög nákvæmlega eftir. Slíkt þekktist ekki áður. Samhliða þessari þróun hefur skriflegur málflutningur lengst úr öllu valdi og framlagning málsskjala er orðin umfangsmeiri en áður þekktist. Þá hafa dómarnir líka lengst sem má meðal annars rekja til þess að öll ritvinnsla hefur orðið auðveldari. Þegar ég kom fyrst í Hæstarétt, sem settur dómari 1982, þá notuðust lögmenn og dómarar enn við kalkipappír við afritun skjala. Minnstu breytingar á orðalagi gerðu það að verkum að skrifa þurfti heilu blaðsíðurnar aftur“ segir Guðrún.

- Á liðnum vetri settist Guðrún aftur í Hæstarétt, og hvernig tilfinning var það?

 „Ég hef verið settur dómari í Hæstarétti nokkrum sinnum á árunum 2014 til 2018, síðast í febrúar og mars á þessu ári. Það hefur mikið breyst frá því að ég kom þar fyrst“ segir Guðrún. „Aðbúnaðurinn er allur annar. Mikil umbreyting varð þegar starfsemin fluttist yfir Lindargötu í nýtt og sérhannað dómhús. Nú eru nokkrir löglærðir aðstoðarmenn, sem létta vinnu dómaranna til muna. Það sem kom mér kannski mest á óvart var mikil fjölgun kvenna í nær öllum störfum, sem snerta málflutning. Þar hefur orðið gjörbylting. Vinnuálagið á dómurum er gríðarlegt, en ánægjulegt var að sjá kærumálin fara nú í Landsrétt og það hefur létt mjög á dómurum, en kærumálin geta verið mjög erfið og tímafrek“ sagði Guðrún Erlendsdóttir að lokum.