Norræna málflutningskeppnin
19.06.2018Daganna 8. til 10. júní sl. fór fram í Osló Norræna málflutningskeppnin. Af hálfu Íslands tók þátt lið lagadeildar Háskóla Íslands en það var skipað laganemunum Emmu Adolfsdóttur, Ester Petru Gunnarsdóttur, Evu Huld Ívarsdóttur, Olgu Margréti Ivonsdóttur Cilia, Rán Þórisdóttur og Þorbjörgu Helgu Þorgilsdóttur. Í dómarasætum voru dómarar við Mannréttindadómstól Evrópu og hæstaréttardómarar á Norðurlöndum. Af hálfu Íslands dæmdu í keppninni Róbert Spanó, dómari við Mannréttindadómstólinn, og hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson og Benedikt Bogason.
Þótt íslenska liðið hafi ekki komist áfram í keppninni stóðu íslensku laganemarnir sig með mikilli prýði. Hafa verður í huga að þeir eins og Finnar tjá sig ekki á sínu móðurmáli ólíkt keppendum frá Danmörku, Noregi og Svíþjóð. Þá var Eva Huld Ívarsdóttir valin ræðumaður keppninnar í sínum riðli.