Heimsókn til ESA og Mannréttindadómstólsins
19.09.2018Dagana 3. til 7. september sl. þáði Hæstiréttur boð Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) og Mannréttindadómstóls Evrópu (MDE) um að sækja þessar alþjóðastofnanir heim til að fræðast um starfsemi þeirra og skiptast á skoðunum.
Í fyrirsvari af hálfu ESA var forseti stofnunarinnar, Benta Angell-Hansen. Gerði hún í upphafi málstofu, sem haldin var í tengslum við heimsóknina, grein fyrir starfsemi stofnunarinnar og stöðu EES-samningsins. Í framhaldinu voru rædd ýmis álitaefni sem tengjast starfsemi stofnunarinnar og þá sérstaklega staða samkeppnismála og aðkoma ESA að rekstri þeirra í dómsmálum í EES/EFTA ríkjunum. Auk Bentu Angell-Hansen tóku þátt í málstofunni af hálfu ESA Gunnar Þór Pétursson framkvæmdastjóri á sviði innri markaðar, Gjermund Mathiesen framkvæmdastjóri á sviði samkeppni og ríkisstyrkja, Carsten Zatschler, framkvæmdastjóri á lögfræði- og framkvæmdasviði stofnunarinnar, Ingibjörg Ólöf Vilhjálmsdóttir lögfræðingur á sama sviði og Ásta Sigrún Magnúsdóttir upplýsingafulltrúi ESA.
Hjá MDE var Guido Raimondi forseti dómstólsins í fyrirsvari. Auk hans tóku af hálfu MDE þátt í málstofu í tengslum við heimsóknina íslenski dómarinn við MDE Róbert Spanó, danski dómarinn Jon Fridrik Kjølbro, þýski dómarinn Angelika Nußberger, albanski dómarinn Ledi Bianku, belgíski dómarinn Paul Lemmens, eistneski dómarinn Julia Laffranque, moldóvski dómarinn Valeriu Griţco, Stephanie Mourou-Vikström dómari frá Mónakó, Ivana Jelić dómari frá Svartfjallalandi, og Roderick Liddell skrifstofustjóri réttarins auk sex annarra starfsmanna á skrifstofu dómstólsins. Af hálfu Hæstaréttar var gerð grein fyrir breytingum á dómstólaskipan Íslands og nýlegum dómum Hæstaréttar þar sem reynt hefur á mannréttindasáttmála Evrópu. Auk almennrar umfjöllunar um starfsemi MDE, stöðu íslenskra mála þar og nýlega dómaframkvæmd, voru til umfjöllunar á málstofunni reglur um ráðgefandi álit MDE samkvæmt viðauka 16 við mannréttindasáttmála Evrópu, dómaframkvæmd MDE varðandi umfang og efni réttar til áfrýjunar í einkamálum og sakamálum og samstarfsverkefnið „The Superior Court Network“.
Meðfylgjandi myndir voru teknar í heimsóknunum, sú efri hjá ESA og sú neðri hjá MDE.