Doktorsvörn Valgerðar Sólnes í lögfræði

04.12.2018

Í gær fór fram í Hátíðasal Háskóla Íslands doktorsvörn Valgerðar Sólnes, fyrrum aðstoðarmanns dómara við Hæstarétt Íslands, vegna sameiginlegs doktorsnáms við Lagadeildir Háskóla Íslands og Kaupmannahafnarháskóla. Doktorsritgerð Valgerðar ber heitið Eignarhald á landi: Dómar Hæstaréttar í þjóðlendumálum (e. Clarifying land title: Land reform to eliminate terra nullius in Iceland). Andmælendur við vörnina voru dr. Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor við Lagadeild Háskóla Íslands, dr. Mads Bryde Andersen prófessor við Lagadeild Kaupmannahafnarháskóla og dr. Arnfinn Bårdsen dómari við Hæstarétt Noregs. Leiðbeinendur voru dr. Davíð Þór Björgvinsson rannsóknarprófessor við Lagadeild Háskóla Íslands og dr. Peter Pagh prófessor við Lagadeild Kaupmannahafnarháskóla. Doktorsvörninni stýrði dr. Eiríkur Jónsson deildarforseti Lagadeildar Háskóla Íslands.

Alþingi samþykkti lög nr. 58/1998 um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta til að skýra og skilgreina eignarhald á landinu öllu, í því skyni að útkljá ágreining um eignarhald einkum á hálendum landsvæðum utan byggðar. Miðuðu lögin að því að unnt væri að bera kennsl á eigendalaust land og koma því í ríkiseigu. Ráðgert var að þeir, sem tilkall gerðu til eignarréttar yfir landi, gætu haldið til streitu eignarréttartilkalli sínu fyrir stjórnvöldum og dómstólum á grundvelli sérstakrar málsmeðferðar sem mælt var fyrir um í lögunum. Rannsóknin leiðir í ljós hvernig færðar eru sönnur á eignarrétt á landi í íslenskum rétti á grundvelli laga nr. 58/1998, eins og fyrirmælum þeirra hefur verið beitt í dómaframkvæmd Hæstaréttar Íslands, og í því skyni er dogmatískri aðferð beitt til að komast að niðurstöðu um gildandi rétt. Í rannsókninni er íslenska kerfið, sem byggir samkvæmt áðurgreindu á fyrirmælum laga nr. 58/1998 og dómaframkvæmd Hæstaréttar, meðal annars borið saman við um margt hliðstætt kerfi í Noregi sem varðar úrlausn eignarhalds á nánar tilgreindu landsvæði þar. Loks gefur rannsóknin til kynna hvernig íslenska kerfið hefur að geyma aðferð til að skýra og skilgreina eignarhald á landi, þar sem stuðst er við málsmeðferðarreglur sem tryggja lágmarkskröfur um réttindavernd, ekki aðeins samkvæmt íslenskum rétti heldur og í samevrópsku tilliti.

Í rannsókn Valgerðar var meðal annars undir dómaframkvæmd Hæstaréttar Íslands í svonefndum þjóðlendumálum, nánar tiltekið 68 dómar réttarins sem gengið hafa á grundvelli málsmeðferðar sem kveðið er á um í lögum nr. 58/1998 um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta.

Valgerður Sólnes lauk BA í lögfræði frá Lagadeild Háskóla Íslands 2007, mag.jur. frá sömu deild 2009 og LL.M. gráðu frá Fordham Law School 2010. Hún starfaði sem aðstoðarmaður dómara við Hæstarétt Íslands á árunum 2010 til 2015. Valgerður hefur verið stundakennari við Lagadeild Háskóla Íslands frá 2012 og aðjunkt við sömu deild frá 2015.

Meðfylgjandi myndir voru teknar við doktorsvörnina af Kristni Ingvarssyni.