Skipan dóms í forsjársviptingarmáli andstæð lögum
27.02.2019Í dag kvað Hæstiréttur upp dóm í forsjársviptingarmáli þar sem bæði héraðsdómur og Landsréttur höfðu fallist á kröfu barnaverndaryfirvalda um að foreldrar stúlku yrðu sviptir forsjá hennar. Fyrir Hæstarétti var aftur á móti einungis deilt um hvort héraðsdómur og Landsréttur hefðu verið réttilega skipaðir, en í héraði höfðu tveir sálfræðingar skipað dóm ásamt einum embættisdómara, á meðan tveir embættisdómarar höfðu skipað dóm ásamt einum sálfræðingi í Landsrétti. Landsréttur vísaði hvað þetta varðaði til fyrri dómaframkvæmdar sinnar þar sem því hafði verið slegið föstu að við meðferð mála um forsjársviptingu fyrir héraðsdómi skyldu sitja tveir sérfróðir meðdómendur. Hæstiréttur komst hins vegar að þeirri niðurstöðu að eftir þær breytingar sem gerðar höfðu verið á ákvæði 2. mgr. 2. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála með 1. gr. laga nr. 49/2016, væri ekki lengur gert ráð fyrir því að tveir sérfróðir meðdómsmenn tækju sæti í dómi við rekstur máls um sviptingu forsjár barns. Hefði sú ákvörðun héraðsdómara að kveðja til tvo sálfræðinga til að skipa dóm í málinu í héraði því verið í andstöðu við nefnt ákvæði laga um meðferð einkamála. Var héraðsdómur samkvæmt því ómerktur og málinu vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar á nýjan leik.
Dóm Hæstaréttar í heild sinni má lesa hér.