Dómur um vernd heimildarmanna og lögmæti fréttaumfjöllunar
22.03.2019
Í dag var kveðinn upp dómur í máli þar sem annars vegar var deilt um vernd heimildamanna og hins vegar hvort nánar tilgreind fréttaumfjöllun tveggja fjölmiðla á grundvelli gagna sem háð voru bankaleynd hefði verið heimil. Í dómi Hæstaréttar kom fram að í heimildavernd blaðamanna fælist ekki einungis að þeim sé óheimilt að upplýsa um það hver sé heimildarmaður heldur einnig að þeim yrði ekki gert skylt að veita upplýsingar um gögn sem gæti leitt til þess að kennsl yrði borin á heimildarmanninn. Talið var að ætla yrði blaðamönnum verulegt svigrúm til þess að meta hvort að svör við spurningum tengdum tilvist slíkra gagna kynni hugsanlega að veita vísbendingar um hver heimildarmaðurinn væri. Hvað varðaði fréttaumfjöllunina vísaði Hæstiréttur til þess að í málinu vægjust á frelsi fjölmiðla til að gera almenningi grein fyrir þeim upplýsingum sem fram komu í hinum umþrættu gögnum og réttur viðskiptamanna banka til bankaleyndar og friðhelgi einkalífs. Með hliðsjón af því að umfjöllunin hefði átt sér stað í aðdraganda alþingiskosninga og að meginþungi hennar hefði lotið að viðskiptum þáverandi forsætisráðherra og aðilum honum tengdum, var talið að fréttaumfjöllunin hefði verið heimil.
Dóminn í heild sinni má lesa hér.