Launakrafa fallin niður fyrir tómlæti
27.03.2019Í dag var kveðinn upp dómur í máli þar sem maður krafði fyrrum vinnuveitanda sinn um greiðslu fyrir frítökurétt vegna skerts hvíldartíma og fyrir skert réttindi til vikulegs frídags. Deildu aðilar um hvort skráning vinnustunda mannsins hefði endurspeglað unnar stundir á tilteknu tímabili eða hvort inn í þeim stundafjölda hefðu verið tímar sem áttu að bæta fyrir skerðingu umræddra réttinda. Taldi Hæstiréttur að atvinnurekandanum hefði ekki tekist sönnun um að skráningin hefði ekki tekið mið af unnum vinnustundum mannsins og yrði því að leggja til grundvallar að honum hefðu verið greidd laun í samræmi við það. Við mat á því hvort maðurinn gæti krafist frekari greiðslna yrði að líta til þess að hann hefði aldrei á starfstíma sínum gert athugasemdir við launayfirlit sín og launaseðla. Hefði hann jafnframt endurnýjað ráðningarsambandið með því að undirrita nýjan ráðningarsamning án þess að gera athugasemdir við það fyrirkomulag sem tíðkaðist við skráningu vinnustunda og greiðslu launa. Þá vísaði Hæstiréttur til þess að stéttarfélag mannsins hefði fyrst haft samband við atvinnurekandann vegna ætlaðra vangoldinna launa eftir starfslok hans og um 15 mánuðum eftir að því tímabili lauk sem krafa mannsins sneri að. Málið hefði svo verið höfðað þegar liðnir voru um sex mánuðir frá starfslokum hans. Loks var talið að líta yrði til þess að maðurinn hefði verið trúnaðarmaður á vinnustað sínum og borið nánar tilgreindar skyldur sem slíkur. Að gættum kröfum til gagnkvæms trúnaðar og tillits af hálfu beggja aðila ráðningarsambands var því talið að hann hefði fyrir sakir tómlætis fyrirgert rétti til að hafa uppi kröfu sína. Var atvinnurekandinn því sýknaður af kröfu mannsins.
Dóminn má lesa í heild sinni hér.