Stjórnlagadómstóll Þýskalands heimsækir Hæstarétt

16.05.2019

Mánudaginn 13. maí 2019 kom 40 manna sendinefnd frá æðsta stjórnlagadómstól Þýskalands í Karlsruhe (þ: Bundesverfassungsgericht, e: The Federal Constitutional Court) í heimsókn til Hæstaréttar í þeim tilgangi að kynna sér íslenska dómskerfið og starfshætti þess. Í sendinefndinni voru dómarar, saksóknarar og löglærðir aðstoðarmenn dómara. Á málþingi sem haldið var í Hæstarétti í tengslum við heimsóknina flutti Þorgeir Örlygsson forseti Hæstaréttar erindi um íslenska dómskerfið, Benedikt Bogason hæstaréttardómari um hlutverk dómstólasýslunnar og Sigríður Friðjónsdóttir ríkissaksóknari um handhöfn og meðferð ákæruvalds á Íslandi. Í framhaldi af erindunum var skipst á skoðunum um það sem er sameiginlegt og ólíkt með dómskerfum Þýskalands og Íslands. Meðan á heimsókninni stendur mun þýska sendinefndin auk Hæstaréttar meðal annars sækja heim Alþingi, dómsmálaráðuneytið, utanríkisráðuneytið og umhverfis- og auðlindaráðuneytið.  Meðfylgjandi myndir voru teknar á málþinginu.