Endurupptöku hafnað
21.05.2019Hæstiréttur kvað í dag upp dóm þar sem reyndi á heimildir til endurupptöku dæmds sakamáls en dómfelldu voru með dómi réttarins 7. febrúar 2013 sakfelldir fyrir nánar tilgreind skattalagabrot. Í apríl 2018 féllst endurupptökunefnd á beiðnir þeirra um endurupptöku málsins á þeim grundvelli að skilyrði d. liðar 1. mgr. 228. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála væru uppfyllt. Vísaði nefndin til þess að Mannréttindadómstóll Evrópu hafi komist að þeirri niðurstöðu að með framangreindum dómi Hæstaréttar hafi verið brotið gegn rétti dómfelldu samkvæmt 4. gr. 7. samningsviðauka mannréttindasáttmála Evrópu þar sem þeir hafi verið saksóttir og refsað tvívegis vegna sömu eða efnislega sömu háttseminnar í tveimur aðskildum málum sem ekki hafi tengst með fullnægjandi hætti.
Í dómi réttarins kom fram dómstóllinn hafi úrskurðarvald um ákvarðanir endurupptökunefndar. Til þess var meðal annars vísað að með aðild að mannréttindasáttmála Evrópu hafi samningsríkin ekki undirgengist þjóðréttarlega skuldbindingu um að tryggja þeim, sem Mannréttindadómstóll Evrópu telur að brotið hafi verið gegn við meðferð máls fyrir innlendum dómstóli, rétt til að fá málið endurupptekið. Hvergi væri í íslenskum lögum mælt berum orðum fyrir um heimild til endurupptöku máls að gengnum dómi mannréttindadómstólsins. Endurupptaka yrði því ekki reist á beinni lagaheimild. Þá yrði ákvæði d. liðar 1. mgr. 228. gr. laga nr. 88/2008 hvorki með rýmkandi lögskýringu né lögjöfnun talið veita heimild til endurupptöku máls við fyrrgreindar aðstæður. Ekki yrði séð að tilgangur löggjafans með setningu ákvæðisins hafi verið að veita úrlausnum Mannréttindadómstóls Evrópu meira vægi en þær höfðu áður í kjölfar niðurstöðu þess dómstóls um að brotið hafi verið gegn mannréttindasáttmála Evrópu við meðferð máls fyrir íslenskum dómstólum. Slík grundvallarbreyting á íslenskri löggjöf hefði þurft að koma fram með ótvíræðum hætti við lagasetninguna. Þá væri einnig til þess að líta að með fyrrgreindum dómi Hæstaréttar hafi óhlutdrægur og óháður dómstóll komist að niðurstöðu í máli dómfelldu. Þar hafi sérstaklega verið fjallað um 4. gr. 7. viðauka mannréttindasáttmálans og talið að meðferð málsins væri ekki í andstöðu við ákvæðið. Samkvæmt lögum um mannréttindasáttmála Evrópu væru úrlausnir mannréttindadómstólsins ekki bindandi að íslenskum landsrétti. Leggja yrði til grundvallar að með þessu hafi löggjafinn áréttað að þrátt fyrir lögfestingu mannréttindasáttmálans væri hér á landi byggt á grunnreglunni um tvíeðli landsréttar og þjóðaréttar. Fælist í niðurstöðu dómstóla að þeir hefðu með lögskýringu í reynd mælt fyrir um lagabreytingar í framagreindum tilgangi færu þeir út fyrir þau mörk sem stjórnlög setja valdheimildum þeirra, sbr. 2. gr. og 1. málslið 61. gr. stjórnarskrárinnar. Komst rétturinn að þeirri niðurstöðu að ekki væru skilyrði til endurupptöku dómsins og málinu var vísað frá Hæstarétti.
Dóminn í heild sinni má lesa hér.