Dómar um fyrningu skaðabótakrafna ómerktir
04.06.2019
Í dag voru kveðnir upp dómar í tveimur málum sem V hf. annars vegar og VF hf. hins vegar höfðuðu á hendur B. Kröfðust félögin skaðabóta vegna tjóns sem þau töldu sig hafa orðið fyrir vegna kaupa á hlutabréfum í Landsbanka Íslands í febrúar 2006 og desember 2007 annars vegar fyrir samtals 368.805.018 krónur og hins vegar samtals 237.709.297 krónur. Félögin reistu kröfur sínar á því að B hefði valdið sér tjóni með því að hafa með saknæmum hætti leynt upplýsingum um að félag í hans eigu færi í reynd með yfirráð í Landsbanka Íslands hf. Byggðu félögin á því að þau hefðu ekki átt hlutabréf í bankanum á því tímamarki er þau urðu verðlaus 7. október 2008 hefði hið ólögmæta og saknæma athæfi B ekki komið til. Með ákvörðun héraðsdómara í þinghaldi 30. nóvember 2017 var sakarefni málsins skipt þannig að fyrst yrði leyst úr því hvort ætlaðar kröfur félaganna væru fyrndar. Landsréttur staðfesti niðurstöðu héraðsdóms um að svo væri og sýknaði B. Í dómi Hæstaréttar kom fram að eins og málið lægi fyrir réttinum væri ekki unnt að taka afstöðu til fyrningar ætlaðra skaðabótakrafna félaganna nema fyrst væri leyst úr því hvort hún hefði orðið til, á hvaða grunni það hafi gerst og hvenær. Að öðrum kosti fæli niðurstaða málsins í sér getsakir, eftir atvikum valkvæðar, um hvort kröfuréttindi, sem ekki hafi verið staðreynt hvort orðið hafi til, hafi fallið niður fyrir fyrningu. Talið var ljóst að skilyrði hefði brostið með öllu til að skipta sakarefni í málinu á grundvelli 31. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Væri því óhjákvæmilegt að ómerkja hina áfrýjuðu dóma sem og héraðsdóma í málunum og vísa þeim heim í hérað til löglegrar meðferðar.