Málstofa um EES-samninginn

06.06.2019

Mánudaginn 3. júní 2019 efndi Hæstiréttur í samvinnu við ESA, Eftirlitsstofnun EFTA, til málstofu í húsakynnum Hæstaréttar um EES-samninginn og framkvæmd hans. Málstofan hófst með erindi dr. Gunnars Þórs Péturssonar framkvæmdastjóra deildar innri markaðar hjá ESA um „Túlkun til samræmis“. Í erindinu gerði Gunnar Þór grein fyrir helstu niðurstöðum samanburðarrannsóknar, sem fram fór um þetta efni hjá EES/EFTA-ríkjunum, með sérstaka áherslu á túlkun til samræmis í dómaframkvæmd Hæstaréttar Íslands. Því næst fjallaði Högni S. Kristjánsson stjórnarmaður í ESA um tveggja stoða framkvæmdina og þróun hennar á 25 ára gildistíma EES-samningsins. Loks flutti dr. Xavier Groussot, prófessor við lagadeild Háskólans í Lundi erindi sem hann nefndi „Human rights in the  EU, EEA and Strasbourg, three sides to the same coin.“

Meðfylgjandi myndir voru teknar í lok málstofunnar. Á þeirri efri eru talið frá vinstri stjórnarmenn í ESA, þau Bente Angell-Hansen frá Noregi og forseti ESA, Högni S. Kristjánsson frá Íslandi og Frank Buchel frá Liechtenstein. Á þeirri neðri eru talið frá vinstri Xavier Groussot, Gunnar Þór Pétursson, Högni S. Kristjánsson, Bente Angel-Hansen og Catharine Howdle aðstoðarframkvæmdastjóri hjá ESA.